Biskupsstofa
Laugavegi 31, 150 Rvk.
Sími 528 4000, fax 528 4098
kirkjan@kirkjan.is

Kirkjuþing
Safnaðarheimili Grensáskirkju
Háaleitisbraut 66, 108 Rvk.
Sími 856 1542
kirkjuthing@kirkjuthing.is

Leiðarstýring

Um störf þingnefnda Kirkjuþings

Störf þingnefnda eru afar mikilvæg í málsmeðferð á Kirkjuþingi. Hlutverk nefndanna er að fara vandlega yfir mál eftir fyrri umræðu, afla frekari upplýsinga ef þurfa þykir með gögnum og/eða viðtölum, ræða mál og gefa síðan Kirkjuþingi skriflegt álit á því hvernig réttast og best sé að afgreiða mál. Því er brýnt að vandað sé til verka.
Hér er yfirlit um ferli mála hjá þingnefndum og hagnýtar ábendingar um vinnubrögð.

Nefndarmenn eiga að hafa séð flest mál a.m.k. sex vikum fyrir Kirkjuþing og má því ætlast til að nefndarmenn séu kunnugir helstu efnisatriðum málsins. Skýrsla Kirkjuráðs og Fjármál Þjóðkirkjunnar koma þó oftast fram síðar. Eftir að fyrri umræða fer fram á Kirkjuþingi er atkvæðagreiðsla um það hvort málinu sé vísað til síðari umræðu og ef það er samþykkt eru greidd atkvæði um hvaða nefnd skuli fá málið. Tillaga flutningsmanns um þingnefnd er nánast alltaf samþykkt enda verkaskipti nefnda tiltölulega skýr og hefðir sem myndast hafa á þessu sviði. Vel er hugsanlegt að komið hafi fram breytingartillaga við fyrri umræðu og verður þá nefndin að taka afstöðu til hennar í afgreiðslu sinni. Til er í dæminu að mál sem eru náskyld séu sameinuð á þessu stigi eða í meðförum nefndarinnar. Formaður þingnefndarinnar, sem er kosinn árlega í upphafi hvers Kirkjuþings, boðar til nefndarfunda. Nefndin sest á lokaðan fund og tekur málið til umræðu. Formaður nefndarinnar stýrir umræðu á fundinum. Hver nefnd hefur einn ritara og tengilið úr röðum starfsmanna Biskupsstofu. Haldnar eru fundargerðir nefnda og er ýmist að einhver nefndarmanna geri það (sem er þá fundarritari) eða ritari.

Nefnd skal í öllum málum skila frá sér þingskjali sem nefnist nefndarálit. Í nefndaráliti getur komið fram hverjir voru kallaðir fyrir nefndina, röksemdafærsla fyrir niðurstöðu nefndarinnar, ábendingar og athugasemdir o.s.frv., en efni nefndarálits fer að öðru leyti eftir aðstæðum og mati nefndarinnar hverju sinni.

Nefnd getur afgreitt mál frá sér með eftirfarandi hætti:

1. að tillagan sem til umfjöllunar er sé samþykkt óbreytt.
Þá skilar nefndin nefndaráliti þar sem segir: “Nefndin hefur fjallað um málið og leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.” Þá er ekki þörf frekari skjala frá nefndinni í því máli.

2. að tillögunni sem til umfjöllunar er sé breytt eða að fallist sé á breytingartillögu úr fyrri umræðu.
Þá skilar nefndin nefndaráliti þar sem gerð er grein fyrir afstöðu nefndarinnar og rökum fyrir því að breyta tillögu. Jafnframt skilar nefndin breytingatillögu á sérstöku þingskjali, þar sem breytingatillögur eru settar nákvæmlega fram lið fyrir lið (ef fleiri en ein er). Hér þarf að hafa í huga að unnt þarf að vera að bera tillögurnar upp á fundi Kirkjuþings til atkvæðagreiðslu. Þær eiga því að vera skýrar og í tillöguformi. Ef um tillögur að starfsreglum er að ræða er rétt að texti starfsreglna eins og nefnd vill hafa hann sé nákvæmlega orðaður í breytingatillögunni og einungis það sett inn í breytingatillöguna sem breyta á. Vilji nefnd fella brott hluta tillögu að starfsreglum, skal það koma skýrt fram í breytingatillögu. Ef um tillögu að þingsályktun er að ræða verður að koma skýrt fram hvernig nefnd vill breyta orðalagi þingsályktunarinnar.
Það er mjög mikilvægt að gera sér grein fyrir því að ekki er heimilt að gerbreyta máli með breytingatillögum, þannig að í raun megi líta svo á að um nýjar tillögur sé að ræða. Þetta getur verið vandmeðfarið því vissulega verður nefnd að geta breytt tillögum eitthvað. Rétt er að haft sé samráð við forsætisnefnd Kirkjuþings um þetta ef vafi leikur á.

3. að tillögunni sem til umfjöllunar er sé vísað annað að hluta eða öllu leyti.
Nefnd getur lagt til að tillögu sé vísað til Biskups íslands, Kirkjuráðs, Prestastefnu, Leikmannastefnu eða annars kirkjustjórnaraðila, eftir atvikum eða lagt til að Kirkjuþing kjósi nefnd til að fjalla um mál að hluta eða öllu leyti. Í þessum málum er oftast látið við það sitja að tillaga komi fram í nefndaráliti en ekki á sérskjali sem breytingartillaga. Hugsanlega getur nefnd mælt með tiltekinni afgreiðslu á tillögu t.d. samþykki, en vísað að hluta efnisþátta hennar til einhvers ofangreindra kirkjustjórnaraðila. Ef nefnd telur rétt að breyta að hluta tillagna og samþykkja þær þannig, skal setja þær breytingartilögur á sérskjal.

4. að tillagan sem til umfjöllunar er sé felld.
Þá skilar nefndin nefndaráliti þar sem gerð er grein fyrir afstöðu nefndarinnar og rökum fyrir því að fella skuli tillöguna. Sjaldan hefur reynt á þetta.

Nefnd getur klofnað í afstöðu sinni til afgreiðslu máls. Þá eiga framangreind sjónarmið við og setur minnihluti nefndar og meirihluti fram sitt nefndarálitið hvort og breytingatillögur ef við á. Kjósi einhver nefndarmanna að sitja hjá er nægilegt að það komi fram í nefndaráliti og kemur þá nafn hans/þeirra ekki fram í undirritun.

Í öllum tilvikum fer forseti Kirkjuþings og framkvæmdastjóri Kirkjuráðs og/eða skrifstofustjóri Biskupsstofu yfir mál frá nefndum og frágang þeirra áður en þeim er útbýtt til þingfulltrúa fyrir seinni umræðu. Rétt er formanni eða fulltrúa nefndar að hafa samráð við forseta Kirkjuþings um frágang mála áður en þeim er skilað endanlega frá nefnd.

Forseti þingsins, framkvæmdastjóri Kirkjuráðs og skrifstofustjóri Biskupsstofu eru nefndum og einstökum kirkjuþingsfulltrúum til ráðuneytis um frágang mála.

Þegar um skýrslu er að ræða er hún afgreidd með nefndaráliti eingöngu þar sem tillaga að ályktun er að jafnaði sett fram í niðurstöðu nefndarinnar. Í nefndarálitinu geta komið fram ábendingar og athugasemdir sem fela í sér tilmæli til skýrslugjafa. Hér á þó það sama við og áður sagði að varast ber að koma með alveg nýtt mál fram í formi ábendingar eða tillögu.