Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

Kirkjuþing

Starfsreglur um vígslubiskupa nr. 968/2006

1. gr.

Biskupsdæmi Íslands skiptist í tvö vígslubiskupsumdæmi, Skálholtsumdæmi og Hólaumdæmi.

[Umdæmi vígslubiskups í Skálholti nær yfir eftirtalin prófastsdæmi:
Suðurprófastsdæmi.
Kjalarnessprófastsdæmi.
Reykjavíkurprófastsdæmi eystra.
Reykjavíkurprófastsdæmi vestra.
Vesturlandsprófastsdæmi.
Vestfjarðaprófastsdæmi.

Umdæmi vígslubiskups á Hólum nær yfir eftirtalin prófastsdæmi:
Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi.
Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi.
Austurlandsprófastsdæmi.]1)

1) Starfsr. 954/2010, 10. gr.

2. gr.

Vígslubiskup starfar á grundvelli laga um stöðu, stjórn og starfshætti Þjóðkirkjunnar nr. 78/1997. Í umboði biskups Íslands og eftir þeirri kirkjulegu skipan sem segir í lögum, reglugerðum og starfsreglum veitir vígslubiskup andlega leiðsögn og tilsjón innan kirkjunnar í umdæmi sínu, eflir kirkjulíf, vísiterar og annast sáttaumleitanir.

3. gr.

Vígslubiskup sá, sem eldri er að biskupsvígslu, gegnir störfum biskups Íslands í forföllum samkvæmt 15. gr. laga nr. 78/1997.

4. gr.

Vígslubiskupi ber að starfrækja embætti sitt á grundvelli árlegrar fjárhagsáætlunar sem Kirkjuráð samþykkir.

5. gr.

Vígslubiskupar bera ábyrgð á uppbyggingu biskupsstólanna eftir því umboði sem Kirkjuráð veitir. Þeir eru Kirkjuráði til stuðnings og samráðs í málefnum biskupsstólanna svo og öðrum kirkjulegum stjórnvöldum og koma fram í nafni staðanna og umdæmanna eftir því sem við á. Þeir bera ábyrgð á helgihaldi dómkirkna sinna í samráði við viðkomandi sóknarprest.

6. gr.

Vígslubiskup á sæti í kenningarnefnd, sbr. 14. gr. laga nr. 78/1997 og starfsreglur um kenningarnefnd.

Vígslubiskup situr biskupafund sem biskup Íslands boðar til, sbr. 19. gr. laga 78/1997 og starfsreglur um biskupafund.

Vígslubiskup situr prestastefnu Íslands.

Vígslubiskup situr Kirkjuþing með málfrelsi og tillögurétt, sbr. 21. gr. laga nr. 78/1997 og starfsreglur um Kirkjuþing.

Vígslubiskup situr prófastafund, sbr. starfsreglur um prófasta.

Vígslubiskup situr að jafnaði einn fund Kirkjuráðs á ári til þess að ræða málefni biskupsstólsins, sbr. starfsreglur um Kirkjuráð.

Vígslubiskup sækir héraðsfundi í umdæminu eftir því sem við verður komið.

7. gr.

Vígslubiskup skal annast sáttaumleitanir í umdæmi sínu þegar embættismönnum, trúnaðarmönnum eða starfsmönnum kirkjunnar, launuðum jafnt og ólaunuðum, vígðum jafnt og leikum, hefur ekki tekist að jafna ágreining sín á milli og sættir hafa ekki tekist í meðförum prófasts eða hann sagt sig frá málinu.

Vígslubiskup skal ljúka sáttaumleitan sinni innan tveggja vikna að jafnaði, enda sé mál hvorki á hendi annarra kirkjulegra aðila á þeim tíma né til meðferðar fyrir dómsstólum. Vígslubiskupi er heimilt að kalla til aðstoðar fagfólk á sviði sem ágreiningsmál varðar. Vígslubiskup skilar biskupi Íslands skriflegu áliti ef sættir takast ekki.

8. gr.

Vígslubiskup veitir úrlausn í málum sem prófastar vísar til hans.

[9. gr.

... ] 1)

1) Starfsreglur nr. 1030/2007, 10. gr.

[10. gr.

... ] 1)

1) Starfsreglur nr. 1030/2007 10. gr.

11. gr.

Vígslubiskup er biskupi Íslands til aðstoðar um kirkjuleg málefni. Hann annast biskupsverk að ósk biskups Íslands og í umboði hans, svo sem að vígja presta, djákna, kirkjur og kapellur. Hann hefur í umboði biskups Íslands tilsjón með að stefnumörkun kirkjunnar sé framfylgt hvað varðar helgihald, boðun, fræðslu og kærleiksþjónustu kirkjunnar í umdæmi sínu. Vígslubiskup hefur tilsjón með starfsmannahaldi einkum hvað varðar handleiðslu, símenntun og sálgæslu presta og starfsmanna kirkjunnar í umdæminu og beitir sér í þeim efnum ef tilefni er til.

12. gr.

Vígslubiskup vísiterar prestaköll og söfnuði í umdæmi sínu eftir áætlun biskupafundar. Vísitasía vígslubiskups beinist einkum að innri þáttum kirkjulífs, hinni vígðu þjónustu, helgihaldi, boðun, sálgæslu og safnaðarstarfi.

13. gr.

Starfsreglur þessar, sem settar eru á grundvelli 15. gr.,16. gr., 18. gr. 19. gr. og 59. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997, öðlast gildi 1. janúar 2007. Jafnframt falla brott starfsreglur um vígslubiskupa nr. 820/2000 frá sama tíma.