Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

Kirkjuþing

Starfsreglur um úrskurðarnefnd og áfrýjunarnefnd þjóðkirkjunnar nr. 730/1998

I. kafli. Stjórnsýsluleg staða úrskurðarnefndar og áfrýjunarnefndar.

1. gr.

Úrskurðarnefnd og áfrýjunarnefnd eru stjórnsýslunefndir sem starfa samkvæmt 12. og 13. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997 og stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

2. gr.

Úrskurðarnefnd og áfrýjunarnefnd hafa starfsstöð og póstfang í Reykjavík.
Biskupsstofa veitir nefndunum upplýsingar og aðstoð ef þess er óskað af nefndanna hálfu.

II. kafli. Um úrskurðarnefnd.

1. Verksvið úrskurðarnefndar.

3. gr.

Með ágreiningi á kirkjulegum vettvangi er átt við ágreining milli þeirra aðila sem taldir eru upp í 4. gr. og sem varðar með einhverjum hætti kirkjulegt starf eða starfsemi á vegum kirkjunnar.

Úrskurðarnefndin fjallar ekki um málefni sem varðar lausn frá embætti eða starfslok á grundvelli laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996.

2. Upphaf máls hjá úrskurðarnefnd.

4. gr.

Allir sem hagsmuna eiga að gæta geta borið mál undir úrskurðarnefnd, svo sem kirkjustjórnin (biskup og kirkjuráð), sóknarnefnd, einstakir starfsmenn kirkjunnar og aðrir sem starfa innan kirkunnar, hvort sem greitt er fyrir starfann eða ekki.

Máli skal vísa til nefndarinnar skriflega, sbr. 8. gr.

3. Málsmeðferð fyrir úrskurðarnefnd.

5. gr.

Þegar beiðni um úrlausn hefur borist úrskurðarnefnd metur hún annars vegar hvort úrlausnarefnið heyri undir nefndina, sbr. 3. gr. og hins vegar hvort málshefjandi teljist eiga hagsmuna að gæta, sbr. 4. gr.

Telji nefndin að aðild máls og úrslausnarefnið uppfylli skilyrði reglna þessara, tekur hún málið til meðferðar, sbr. 6. gr.

Telji nefndin að aðild máls eða úrlausnarefnið uppfylli ekki skilyrði reglna þessara vísar hún málinu frá. Þeirri ákvörðun nefndarinnar má skjóta til áfrýjunarnefndar.

6. gr.

[Úrskurðarnefnd kannar, áður en málsmeðferð hefst, hvort viðhlítandi sáttaumleitanir hafi farið fram, skv. gildandi starfsreglum hverju sinni.]1)

Þegar fram hefur komið beiðni um úrlausn máls sem úrskurðarnefnd ákveður að taka til meðferðar, sbr. 5. gr., skal formaður hennar eða varamaður hans, ef hann fer með málið, tilkynna hlutaðeigandi aðila eða aðilum þegar í stað um beiðnina. Ef um einstakling er að ræða skal upplýsa hann um stöðu nefndarinnar og hlutverk.

Varði mál siðferðis- eða agabrot starfsmanna þjóðkirkjunnar eða embættisfærslu prests skal nefndin í upphafi meta hvort rétt sé að leggja til að hlutaðeigandi verði [veitt leyfi frá starfi]1) meðan um málið er fjallað hjá nefndinni.

Jafnframt skal nefndin kanna á þessu stigi hvort grundvöllur er til sátta. Telji nefndin sættir koma til greina eða að nauðsynlegt sé að reyna sættir, kveður hún málsaðila, saman eða hvorn í sínu lagi, á sinn fund. Færa skal í gerðabók, sbr. 26. gr., það sem aðilar eða umboðsmenn þeirra hafa um málið að segja við það tækifæri.

1) Starfsr. 827/2000, 1. gr.

7. gr.

Formaður stjórnar fundi úrskurðarnefndar. Að ósk aðila getur nefndin heimilað öðrum en aðilum að sitja fund.

Nefndin getur, að undangenginni áminningu, vikið þeim af fundi sem raskar fundarfriði og góðri reglu á fundinum.

8. gr.

Aðilar skulu að jafnaði bera fram kröfur sínar og rökstuðning fyrir þeim skriflega og með skýrum hætti.

9. gr.

Takist ekki að ná sáttum og úrskurðarnefnd telur gögn þau sem henni bárust með beiðni um úrlausn máls ekki fullnægjandi skal hún gefa málshefjanda kost á að senda frekari gögn og greinargerð um málið. Málshefjanda skal veittur frestur til að skila þessum gögnum og greinargerð, og skal sá frestur að jafnaði ekki vera lengri en tvær vikur. Veita má þó lengri frest, þegar sérstaklega stendur á. Gefa skal gagnaðila kost á að skila gögnum að liðnum sama fresti.

Sinni málshefjandi ekki tilmælum nefndarinnar samkvæmt 1. málsgr. innan tilgreinds frests skulu þau ítrekuð með nýjum fresti sem skal að jafnaði ekki vera lengri en ein vika. Ef málshefjandi sinnir enn ekki tilmælum nefndarinnar er henni heimilt að synja um úrlausn máls.

Synjun um úrlausn máls, sbr. 2. málsgr. skal vera skrifleg og afrit sent gagnaðila. Synjunin er kæranleg til áfrýjunarnefndar.

10. gr.

Í lok frest samkvæmt 9. gr. skal haldinn fundur í nefndinni með málshefjanda og gagnaðila þar sem málshefjandi leggur fram gögn og greinargerð sína ef við á og gagnaðili þau gögn, sem hann kýs þá að leggja fram.

Gagnaðila skal veittur frestur til þess að tjá sig skriflega um gögn þau sem málshefjandi hefur lagt fram og greinargerð hans. Frestur gagnaðila skal að jafnaði ekki vera lengri en tvær vikur, en veita má þó lengri frest, þegar sérstaklega stendur á.

Sinni gagnaðili ekki tilmælum nefndarinnar samkvæmt 2. málsgr. innan tilgreinds frests skulu þau ítrekuð með nýjum fresti sem skal að jafnaði ekki vera lengri en ein vika. Ef gagnaðili sinnir enn ekki tilmælum nefndarinnar byggir hún úrlausn máls á framlögðum gögnum og öðrum þeim upplýsingum er hún aflar sjálf um málið.

11. gr.

Í lok frests sem gagnaðila hefur verið veittur, sbr. 10. gr., skal halda fund í úrskurðarnefndinni með málshefjanda og gagnaðila þar sem greinargerð gagnaðila og önnur skjöl, sem hann kýs að leggja fram eru afhent.

Þegar öll gögn hafa verið lögð fram getur úrskurðarnefnd ákveðið að fjalla um mál munnlega. Að jafnaði skal framlagningu gagna lokið á þessu tímamarki.

Ef ákveðið verður að fjalla um málið munnlega, skal ákveðinn stuttur frestur til þess og að honum liðnum skal málshefjandi tjá sig fyrst um málið, en gagnaðili að því búnu.

Nú er ekki ákveðið að aðilar tjái sig munnlega um málið fyrir nefndinni og skal þá málshefjanda veittur frestur til að tjá sig skriflega um það en að því búnu skal gagnaðila gefinn kostur á að koma að skriflegum athugasemdum sínum. Miðað skal við að frestir, sem veittir eru til þess að málsaðilar megi koma að skriflegum sjónarmiðum sínum samkvæmt þessari málsgrein verði ekki lengri en tvær vikur samtals.

12. gr.

Nefndin skal í upphafi málsmeðferðarinnar og einnig síðar, ef ástæða þykir til, rita stjórnvöldum, einkaaðilum, rannsóknaraðilum eða öðrum bréf og óska eftir því að fá send tilgreind eða ótilgreind gögn, sem kunna að vera til upplýsingar um málsatvik. Strax og slík gögn berast nefndinni skulu afrit þeirra afhent málsaðilum. Nefndin getur einnig ákveðið, ef þörf krefur, að kveðja sér til fultingis, sérfróða aðila um úrlausnarefni það sem til meðferðar er, innan þjóðkirkjunnar eða utan.

13. gr.

Hafi aðili neytt réttar síns til þess að óska eftir að fram fari opinber rannsókn af sama tilefni og mál það sem til úrlausnar er, skal úrskurðarnefnd leitast við að fá öll þau gögn, sem aflað hefur verið við þá rannsókn, þ.m.t. skýrslur sem gefnar hafa verið fyrir rannsóknaraðilum.

14. gr.

Nefndin getur óskað eftir því að tilteknir menn komi til viðtals við hana til þess að tjá sig um málefni, sem tengjast úrlausnarefninu, en gefa skal málsaðilum kost á að vera viðstadda á slíkum fundum.

Slíkar skýrslur má bóka eða hljóðrita eftir því sem henta þykir og skal gera þeim sem skýrslu gefur grein fyrir því hvernig upplýsingar, sem hann gefur, eru skráðar.

15. gr.

Nú neitar maður að koma til viðtals hjá nefndinni eða neitar að afhenda eða láta uppi efni skjals og nefndin telur útilokað að útkljá málefni það, sem til meðferðar er, án þess að skýrsla þeirra eða upplýsingar um efni skjals liggi fyrir, er nefndinni heimilt, ef hún telur nauðsyn bera til, að afla sönnunargagna eftir því sem heimilt er samkvæmt 2. mgr. 77. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Sé grunur um refsiverða háttsemi getur nefndin hlutast til um að fram fari opinber rannsókn á þeirri háttsemi.

16. gr.

Þegar aðilar hafa skilað þeim greinargerðum og gögnum, sem þeir eiga kost á, og tjáð sig munnlega um málið, hafi það verið ákveðið, skal nefndin fjalla um málið á fundum eins og þurfa þykir og komast að niðurstöðu.

Nefndin skal semja skriflegan og rökstuddan úrskurð um úrlausnarefnið.

Séu nefndarmenn ekki allir á einu máli um niðurstöðu úrlausnarefnisins, skal sá sem er í minnihluta skila séráliti um hana.

4. Úrræði nefndar.

[17. gr.

Í úrskurði vegna agabrota getur nefndin gripið til eftirfarandi úrræða:

 1. lagt til að starfsmanni verði veitt áminning, eftir atvikum með skilyrðum eða leiðbeiningum eða nánari fyrirmælum um rétta starfshegðun,
 2. mælt fyrir um að hann skuli fluttur til í starfi,
 3. mælt fyrir um að hann skuli ekki gegna núverandi starfi eða sambærilegu starfi eða köllun á kirkjulegum vettvangi um ákveðið tímabil eða til frambúðar eða
 4. lagt til endanlega brottvikningu hans úr hvaða starfi sem er á kirkjulegum vettvangi sem valdsvið nefndarinnar nær til. ]1)

1) Starfsr. 827/2000, 2. gr.

18. gr.

Í úrskurði skal eftirfarandi koma fram:

 1. Hverjir séu aðilar málsins.
 2. Hverjir séu helstu málavextir.
 3. Sjónarmið málsaðila og málsástæður sem skipta máli.
 4. Hver úrskurður nefndarinnar sé og hvernig hann er rökstuddur.
 5. Kæruheimild og kærufrestur.

Ef einhver nefndarmaður skilar sératkvæði, sbr. 16. gr., skal í því einungis fjallað um þau atriði, sem tilgreind eru í 4. tl. 1. málsgr.

[19. gr.

Málsaðilar bera sjálfir kostnað sinn vegna meðferðar máls fyrir úrskurðarnefnd. Kirkjumálasjóður greiðir að jafnaði kostnað við störf úrskurðarnefndar, sbr. 35. gr. Heimilt er þó nefndinni að ákveða að annar eða báðir málsaðilar greiði kostnaðinn.]1)

1) Starfsreglur nr. 1030/2007 1. gr.

20. gr.

Úrskurðarnefnd skal leitast við að skila áliti sínu eigi síðar en fjórum vikum eftir að málsaðilar hafa lagt fram nauðsynleg gögn, eða tjáð sig munnlega um málið, sbr. 11. gr.

21. gr.

Dragist málsmeðferð fyrir nefnd lengur en reglur þessar gera ráð fyrir, svo sem vegna þess að mál er til opinberrar rannsóknar, sem nauðsynlegt er að bíða eftir að ljúki, skal sá dráttur skýrður í áliti nefndarinnar. Tilkynna skal málsaðilum um dráttinn.

22. gr.

Þegar úrskurðarnefnd hefur lokið við að semja úrskurð sinn skal hún senda hann til málsaðila.

5. Skjöl og gerðabækur.

23. gr.

Úrskurðarnefnd skal árita eða stimpla öll bréf og erindi, sem þeim berast um móttöku þar sem fram kemur móttökudagur og einnig önnur atriði ef þurfa þykir.

Nefndin skráir innkomin bréf og erindi í sérstaka bréfabók og varðveitir í möppu. Útsend bréf skulu skráð og varðveitt með sama hætti.

24. gr.

Öll skjöl sem lögð eru fram í máli eða berast með öðrum hætti skulu árituð um móttökudag og þeim gefið númer í áframhaldandi töluröð. Heimilt er að leggja fram sem eitt málskjal, skjalamöppu með skjölum, eða skjöl sem fest eru saman, ef henta þykir. Á skjöl skal einnig rita hvenær þau eru lögð fram á fundum nefnda.

Málsaðilar skulu leggja öll skjöl fram í fjórriti (frumrit og þrjú ljósrit). Frumrit ásamt tveimur afritum fá nefndarmenn og fjórða afritið (ljósritið) fær gagnaðili.

25. gr.

Skjöl úrskurðarnefndar skulu varðveitt tryggilega og í samræmi við þau lög og þær reglur sem um það gilda á hverjum tíma.

26. gr.

Nefnd skal halda gerðabók þar sem skráð skal meginefni þess sem fram kemur á fundum nefndarinnar. Gildir þetta bæði um fundi sem varða undirbúning að málsmeðferð, fundi sem eru þáttur í meðferð máls og aðra fundi. Formaður eða varamaður hans færir gerðabókina. Endurrit úr slíkri gerðarbók má afhenda þeim, sem hafa lögvarinna hagsmuna að gæta.

27. gr.

Í bókun í gerðabók skal jafnan greina eftirfarandi eftir því sem við á:

 1. Hvar og hvenær mál er tekið fyrir.
 2. Númer máls og nöfn málsaðila.
 3. Hverjir eru mættir.
 4. Hvaða skjöl lögð eru fram, hvers eðlis þau eru og hvaða númer þau fá.
 5. Frásögn og afstöðu aðila í skýru og stuttu máli.
 6. Í niðurlagi bókunar að hún hafi verið lesin í heyranda hljóði og staðfest rétt af aðilum eða umboðsmönnum þeirra með undirritun þeirra

III. kafli. Um áfrýjunarnefnd.

28. gr.

Niðurstöðu úrskurðarnefndar má skjóta til áfrýjunarnefndar. Málsaðilar og kirkjuráð hafa heimild til áfrýjunar. Áfrýjunarfrestur er þrjár vikur.

Ef úrlausn úrskurðarnefndar er skotið til áfrýjunarnefndar skal áfrýjunarnefnd tilkynna úrskurðarnefnd um það án tafar. Úrskurðarnefnd afhendir áfrýjunarnefnd strax þrjú eintök af málsskjölum og málsaðilum eitt eintak hverjum.

29. gr.

Ákvæði starfsreglna þessara um málsmeðferð fyrir úrskurðarnefnd skulu gilda við málsmeðferð fyrir áfrýjunarnefnd eftir því sem við á og að teknu tilliti til að úrskurður áfrýjunarnefndar skal að jafnaði kveðinn upp innan sex vikna frá því að mál barst nefndinni.

30. gr.

Úrskurðir áfrýjunarnefndarinnar skulu rökstuddir og eru endanlegir og bindandi innan valdsviðs þjóðkirkjunnar.

IV. kafli Ýmis ákvæði.

31. gr.

Kirkjulegir framkvæmdavaldshafar skulu framfylgja úrskurðum úrskurðarnefndar eða áfrýjunarnefndar undir yfirumsjón kirkjuráðs og fylgjast jafnframt með því að farið sé eftir úrskurðum er snerta starfsemi eða framferði einstakra starfsmanna.

[32. gr.

Úrskurðir úrskurðarnefndar og áfrýjunarnefndar skulu liggja fyrir á skrifstofu kirkjustjórnarinnar til afhendingar þar í ljósriti á kostnaðarverði ef óskað er, nema lög mæli annan veg.]1)

1) Starfsr. 827/2000, 4. gr.

33. gr.

Úrskurðarnefnd gefur biskupi og kirkjuráði árlega stutta skýrslu um störf sín.

[34. gr.

Málsaðilar greiða að jafnaði allan kostnað við störf áfrýjunarnefndar. Nefndin getur þó ákveðið að fella málskostnaðinn að hluta til eða öllu leyti á annan málsaðila.

Ef telja má sanngjarnt og eðlilegt, eða þyki hagsmunir þeir sem til úrlausnar eru svo mikilvægir eða hafa umtalsverða almenna þýðingu að mati áfrýjunarnefndar, getur nefndin ákveðið að kirkjumálasjóður greiði allan málskostnað.] 1)

1) Starfsreglur nr. 1030/2007 1. gr.

35. gr.

Þóknun til nefndarmanna í úrskurðarnefnd og áfrýjunarnefnd skal ákveðin af þóknananefnd þjóðkirkjunnar, sbr, starfsreglur um [...] 1) þingsköp kirkjuþings.

1) Starfsreglur nr. 1030/2007 1. gr.

[36. gr.

Berist úrskurðarnefnd erindi frá biskupi Íslands með afgreiðslu og samþykkt safnaðarfundar á tillögu um að prestsembætti skuli auglýst, sbr. 40. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997, skal nefndin, á grundvelli gagna frá framangreindum safnaðarfundi, veita álit sitt á því hvort auglýsa skuli embættið eða ekki. Úrskurðarnefnd skilar áliti sínu til biskups Íslands.

Ekki er unnt að skjóta áliti úrskurðarnefndar til áfrýjunarnefndar þjóðkirkjunnar.]1)

1) Starfsreglur nr. 1031/2007 2. gr.

[37. gr.]

1) Starfsreglur þessar sem settar eru skv. heimild í 12., 13. og 59. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997, öðlast þegar gildi.

1) Starfsreglur nr. 1031/2007 3. gr.

Starfsreglur þessar skal endurskoða innan tveggja ára frá gildistöku þeirra.