Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

Kirkjuþing

Starfsreglur um þingsköp kirkjuþings nr. 949/2009

I. kafli. Þingskipun

1. gr.

Forseti kirkjuþings boðar kirkjuþing árlega saman til fundar á haustmánuðum með eigi skemmri fyrirvara en eins mánaðar.

Kirkjuþing starfar allt að tveimur vikum í senn. [Heimilt er að gera allt að sex vikna hlé á þingfundum milli umræðna eða áður en síðari umræðu um þingmál lýkur.]2) [Óski þriðjungur kjörinna kirkjuþingsmanna eftir er forseta skylt að kalla aukakirkjuþing saman án ástæðulausrar tafar. Þá er forseta heimilt að boða til aukakirkjuþings þegar brýna nauðsyn ber til.]1)

1) Starfsreglur 1112/2011, 1. gr.
2) Starfsreglur 1105/2013, 1. gr.

2. gr.

Forseti kirkjuþings setur kirkjuþing að loknu helgihaldi og stýrir því í samráði við forsætisnefnd.

3. gr.

Forseti kirkjuþings er kjörinn úr röðum leikmanna til fjögurra ára í senn á fyrsta kirkjuþingi að afloknum kirkjuþingskosningum. Fráfarandi forseti stýrir forsetakjöri og gegnir að öðru leyti forsetastörfum þar til nýr forseti hefur verið kjörinn. Njóti fráfarandi forseta ekki við kemur varaforseti í hans stað.

4. gr.

Forseti kirkjuþings stjórnar umræðum á þinginu og sér um að allt fari fram með góðri reglu.

Öllum kirkjuþingsmönnum, starfsmönnum þingsins og áheyrendum er skylt að hlýta agavaldi forseta. Ef brýna nauðsyn ber til getur forseti beitt kirkjuþingsmenn vítum. Hafi kirkjuþingsmaður verið víttur tvisvar á sama þingi getur forseti svipt hann málfrelsi tímabundið.

5. gr.

Forseti kirkjuþings ber ábyrgð á starfsemi og rekstri þingsins og hefur æðsta vald í stjórnsýslu þess. Forseti undirbýr þinghaldið í samráði við kirkjuráð. Hann hefur starfsaðstöðu á Biskupsstofu og nýtur þar þeirrar aðstoðar sem honum er þörf á.

Forseti tekur við erindum til kirkjuþings og skýrir frá þeim og framlögðum skjölum kirkjuþingsmanna á þingfundi.

6. gr.

Forseti kirkjuþings fylgir eftir samþykktum kirkjuþings eftir því sem við getur átt og birtir starfsreglur frá þinginu og aðrar réttarskapandi ákvarðanir þess í samræmi við lög.

7. gr.

Á fyrsta fundi eftir kirkjuþingskjör skal kjósa kjörbréfanefnd til næstu fjögurra ára. Nefndin kýs sér formann og gerir hann þinginu grein fyrir áliti og tillögum hennar um rannsókn og afgreiðslu kjörbréfa. Fresta skal þingfundi meðan á athugun kjörbréfa stendur en að henni lokinni koma þau til afgreiðslu þingsins.

8. gr.

[Að lokinni afgreiðslu kjörbréfa kýs kirkjuþing skriflega og í óbundinni kosningu forseta og fyrsta og annan varaforseta úr röðum leikmanna. Saman mynda þeir forsætisnefnd kirkjuþings. Varaforsetar eru kjörnir á hverju reglulegu kirkjuþingi.]1)

Forsætisnefnd gerir tillögur um fulltrúa til þeirra trúnaðarstarfa sem kosið skal til á kirkjuþingi. Nefndin skal leggja tillögur sínar fram með hæfilegum fyrirvara og gæta þess að tilnefndur fulltrúi sé tilbúinn til að taka starfann að sér. Breytingartillögur við tillögur forsætisnefndar skulu hafa borist nefndinni eigi síðar en sólarhring eftir framlagningu þeirra. Þetta á þó ekki við um kjör til fastanefnda þingsins, sbr. 1. mgr. 11. gr.

1) Starfsreglur 1112/2011, 2. gr.

9. gr.

Að loknu forsetakjöri fer fram kosning tveggja þingskrifara úr hópi kirkjuþingsmanna og að svo búnu kosning fastanefnda þingsins, sbr. 1. mgr. 11. gr.

II. kafli. Nefndir kirkjuþings

10. gr.

Fastanefndir kirkjuþings eru:

  1. Kjörbréfanefnd skipuð fimm kirkjuþingsmönnum. Nefndin rannsakar kjörbréf, kosningu þingmanna og kjörgengi.
  2. Löggjafarnefnd skipuð níu kirkjuþingsmönnum. Nefndin fjallar um öll þau mál sem fram eru borin á þinginu og varða löggjöf og starfsreglur.
  3. Fjárhagsnefnd skipuð níu kirkjuþingsmönnum. Nefndin fær til umsagnar fjárhagsáætlun þjóðkirkjunnar og yfirlit reikninga kirkjulegra embætta, stofnana og sjóða kirkjunnar sem sæta endurskoðun. Þá koma til kasta nefndarinnar önnur mál fjárhagslegs eðlis sem fram eru borin á þinginu.
  4. Allsherjarnefnd skipuð tíu kirkjuþingsmönnum. Nefndin fær skýrslur kirkjuráðs og þjóðmálanefndar til umfjöllunar og öll önnur þingmál sem falla utan verksviðs hinna nefndanna.

11. gr.

Fastanefndir kirkjuþings eru kjörnar í upphafi hvers reglulegs kirkjuþings, sbr. þó 7. gr., og gildir kosningin uns kosið hefur verið til nefndanna að nýju. Formenn og varaformenn nefndanna skulu kosnir sérstaklega á þingfundi.

Forseti kirkjuþings getur kallað saman fastanefnd kirkjuþings milli þinga ef nauðsyn ber til. Þá hefur hann formenn nefndanna sér til samráðs eftir því sem honum þykir þurfa.

12. gr.

[Nýkjörið kirkjuþing kýs fjóra menn í kirkjuráð til fjögurra ára og jafnmarga til vara. Kosið skal að lokinni síðari umræðu þingmála. Sé þingi frestað skal kjósa kirkjuráð undir lok fyrstu þinglotu. Skal þá lokið síðari umræðu um skýrslu kirkjuráðs og fyrri umræðu um skýrslu um fjármál þjóðkirkjunnar.]1) [...] 1) Nýkjörið kirkjuþing kýs til annarra þeirra nefnda og trúnaðarstarfa sem kveðið er á um í starfsreglum frá kirkjuþingi. Þá getur kirkjuþing jafnan kosið nefndir til að fjalla um sérstök mál. Nefndir samkvæmt þessari málsgrein skulu árlega gera kirkjuþingi grein fyrir störfum sínum.

1) Starfsreglur 934/2014

Við tilnefningar og kosningar til nefnda og annarra trúnaðarstarfa skal gæta ákvæða laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

III. kafli. Þingmál

13. gr.

[Þingmál skulu almennt hafa borist forseta kirkjuþings fjórum vikum fyrir upphaf þings.

Þó er nægilegt að skýrslur kirkjuráðs, þjóðmálanefndar og um fjármál þjóðkirkjunnar berist forseta þremur vikum fyrir upphaf þings.

Ef kirkjuþingi er frestað um meira en einn mánuð er einnig heimilt að leggja fram ný þingmál fjórum vikum fyrir þann tíma að kirkjuþing, sem frestað hefur verið samkvæmt heimild í 1. gr., kemur saman að nýju. Einungis verða lögð fram þingmál skv. þessari málgrein sem eiga rót að rekja til samþykkta á fundum kirkjuþings þess sem frestað var og telja má í rökréttu og eðlilegu samhengi við samþykktir þess þings. Að öðru leyti fer um framlagningu, kynningu og málsmeðferð samkvæmt því er greinir í starfsreglum þessum um þingmál kirkjuþings.

Forsætisnefnd getur veitt undanþágu frá greindum tímamörkum ef sérstök rök mæla með því.]1)

1) Starfsreglur 1105/2013, 2. gr.

14. gr.

[Kirkjuþingsmenn geta boðað til sérstaks þingmálafundar í kjördæmum sínum til kynningar á þingmálum sem þeir hyggjast flytja, áður en málið er sent forseta, sbr. 1. mgr. 13. gr. Aðrir sem hafa tillögurétt og málfrelsi á kirkjuþingi, skulu eiga þess kost að mæta á þá fundi og kynna mál ef þeir óska þess. Kirkjumálasjóður greiðir hóflegan kostnað við fundaraðstöðu.]1)

[...]2) Sérhvert þingmál, hvort heldur er frá einstökum kirkjuþingsmönnum, kirkjuráði eða fastanefndum kirkjuþings, skal vera til kynningar á vef kirkjunnar í að minnsta kosti tvær vikur eftir að það hefur borist forseta. Þar skal gefinn kostur til andsvara og umræðna. Að þeim loknum er flutningsmönnum heimilt að gera breytingar á þingmáli innan viku og senda forseta þá nýtt eintak.

Þegar þingmál eru komin í endanlegt horf skulu þau svo skjótt sem auðið er send öllum kirkjuþingsmönnum og þeim sem seturétt eiga á þinginu samkvæmt 1. mgr. 25. gr.

1) Starfsreglur 1105/2013, 3. gr.
2) Starfsreglur 934/2014

15. gr.

Tillögur um nýjar starfsreglur eða breytingar á eldri starfsreglum skulu samdar með lagasniði. Sérhverri tillögu skal fylgja greinargerð um tilgang þess yfirleitt og skýringar á helstu ákvæðum.

16. gr.

Tillögur til þingsályktunar skulu vera í ályktunarformi. Þeim skal fylgja greinargerð með skýringu á efni þeirra og tilgangi.

17. gr.

Forsætisnefnd getur synjað framlagningu þingmáls ef hún metur það ekki tækt til þinglegrar meðferðar. Rétt er þó að gefa flutningsmönnum áður frest til úrbóta.

18. gr.

Þingmál skulu lögð fram í upphafi þings í nægilegum fjölda eintaka. Við sérstakar aðstæður getur forsætisnefnd heimilað framlagningu nýs þingmáls á þinginu. Málið verður þá ekki tekið fyrir fyrr en næsta dag.

Á hverju þingmáli skal auk flytjenda tilgreindur ákveðinn framsögumaður.

19. gr.

Ef samþykkt máls felur í sér kostnað skal áætlun um slík útgjöld og skýringar við einstaka liði fylgja greinargerð. Greina skal kostnað í stofnkostnað og árlegan rekstrarkostnað ef við á. Komi tekjur til greina skal einnig gerð grein fyrir þeim. Að jafnaði skal gerð tillaga um hvaðan fjármunir eigi að koma til greiðslu á kostnaði og hvert tekjur skuli renna. Umsögn fjármálastjóra biskupsstofu um áætlunina skal fylgja með málinu.

20. gr.

Tvær umræður skulu fara fram um hvert þingmál með að minnsta kosti einnar nætur millibili. Fastanefndir kirkjuþings fá þingmál til meðferðar milli umræðna, sbr. 10. gr.

21. gr.

Nefndaráliti og breytingartillögum nefnda skal útbýtt til kirkjuþingsmanna daginn áður en þingmál er tekið til síðari umræðu. Það skal undirritað af nefndarmönnum og framsögumaður tilgreindur. Nefndir geta skilað áliti meirihluta og minnihluta.

IV. kafli. Fundarsköp

22. gr.

[Skylt er kirkjuþingsmönnum að sækja alla þingfundi nema nauðsyn banni eða leyfi forseta komi til. Í forföllum kirkjuþingsmanns skal ávallt kalla til varamann hans, hafi tilkynning um forföll borist skriflega til forseta eigi síðar en einni viku fyrir boðaðan þingfund.]1)

1) Starfsreglur 1105/2013, 4. gr.

23. gr.

Forseti kirkjuþings stýrir umræðum og kosningum á þinginu. Kosningar skulu vera skriflegar.

Varaforseti gegnir störfum forseta í forföllum hans. Ef forseti tekur þátt í umræðum, öðrum en þingstjórn gefur tilefni til, víkur hann sæti á meðan og varaforseti stýrir fundi.

24. gr.

Forseti kirkjuþings ákveður fyrir lok hvers fundar dagskrá fyrir næsta fund og lætur dreifa henni til kirkjuþingsmanna eftir því sem við verður komið. Þar skal tilgreint hvenær næsti fundur verður.

Forseti getur ákveðið og tilkynnt þingheimi að til næsta fundar verði boðað með dagskrá sem þá verði komið til kirkjuþingsmanna.

Forseti getur breytt röð á þeim málum sem eru á dagskrá og einnig tekið mál út af dagskrá.

Forseti getur ákveðið ef enginn kirkjuþingsmaður andmælir því að umræður fari fram um tvö eða fleiri dagskrármál í einu eftir því sem hentugt þykir.

Dagskrár, umræður og úrslit mála má birta jafnóðum í fjölmiðlum.

25. gr.

Málfrelsi og tillögurétt á fundum kirkjuþings hafa auk kirkjuþingsmanna biskup Íslands, vígslubiskuparnir í Skálholti og á Hólum, kirkjuráðsmenn sem eigi eru þingfulltrúar, ráðherra sá er fer með málefni þjóðkirkjunnar eða fulltrúi hans, fulltrúi guðfræði- og trúarbragðafræðideildar Háskóla Íslands og fulltrúi kirkjuþings unga fólksins.

Biskup Íslands getur falið fulltrúa sínum að gera grein fyrir þingmáli og taka þátt í umræðum fyrir sína hönd.

26. gr.

Forseti kirkjuþings heldur mælendaskrá og gefur mönnum orðið í þeirri röð sem þeir æskja þess. Forseti getur þó vikið frá þeirri reglu ef hann telur ástæðu til vegna umræðunnar.

27. gr.

Á hverju kirkjuþingi skal vera sérstakur þingfundur þar sem kirkjuþingsmönnum gefst kostur á að bera fram fyrirspurnir til ráðherra, biskups Íslands, vígslubiskupanna í Skálholti og á Hólum og kirkjuráðs. Fyrirspurnir skulu vera skriflegar og svarað skriflega. Fyrirspyrjandi gerir grein fyrir fyrirspurninni í umræðu og sá sem fyrirspurn er beint til gerir jafnframt nánari grein fyrir svari sínu í umræðunni. Fyrirspurnum skal skilað til forseta með að minnsta kosti sólarhrings fyrirvara.

Á hverju kirkjuþingi má hafa sérstakan þingfund þar sem kirkjuþingsmönnum gefst kostur á að ræða mál sem ekki eru á dagskrá þingsins. Óskum kirkjuþingsmanna um slíkar umræður skal komið til forseta með að minnsta kosti sólarhrings fyrirvara. Forsætisnefnd metur hvort við beiðninni skuli orðið.

Forseti getur ákveðið að einn þingfundur á hverju kirkjuþingi skuli helgaður tilteknu málefni án þess að sérstök ósk hafi komið fram um það frá kirkjuþingsmönnum.

28. gr.

Flutningsmaður máls en ekki nema einn þótt fleiri flytji og framsögumenn nefnda mega við hverja umræðu um mál tala þrisvar, í fyrsta sinn í allt að þrjátíu mínútur, í annað sinn í allt að tíu mínútur og í þriðja sinn í allt að fimm mínútur.

Aðrir en framsögumenn mega tala tvisvar, í tíu mínútur í fyrsta sinn og fimm mínútur í annað sinn. Fyrirspyrjandi samkvæmt 2. mgr. 27. gr. en ekki nema einn þótt fleiri standi að fyrirspurn og sá sem svarar fyrirspurn mega tala tvisvar, í fyrra skiptið í fimm mínútur og í síðara skiptið í þrjár mínútur. Málshefjandi samkvæmt 4. mgr. 27. gr. má tala tvisvar, í fyrsta skiptið í fimmtán mínútur og síðara skiptið í fimm mínútur. Aðrir mega tala tvisvar, í tíu mínútur í fyrsta sinn og fimm mínútur í annað sinn. Forseti getur heimilað lengri ræðutíma en að framan greinir ef hann telur þess þörf. Þá getur forseti takmarkað ræðutímann eða slitið umræðu með samþykki meirihluta kirkjuþingsmanna. Á þingfundi samkvæmt 5. mgr. 27. gr. ákveður forseti tilhögun umræðunnar, þar á meðal lengd ræðutíma. Fari umræður fram um tvö eða fleiri þingmál í einu, sbr. 4. mgr. 23. gr., gilda ofangreindar reglur um ræðutíma eftir því sem við á.

29. gr.

Ræðumenn á kirkjuþingi eiga ekki að ávarpa aðra en forseta þingsins. Forseta er þó rétt að ávarpa þingið í heild.

Ræðumenn skulu halda sér við málefni það sem til umræðu er hverju sinni.

Þegar flutningsmenn mæla fyrir málum eða framsögumenn fyrir ályktunum nefnda geta þeir vísað til prentaðrar greinargerðar eða nefndarálits en eiga ekki að lesa skjölin í heild.
Ræðumenn skulu æskja leyfis forseta ef þeir hyggjast lesa upp aðfengið prentað mál.

30. gr.

Við fyrri eða síðari umræðu er heimilt að bera fram tillögu um frávísun máls. Hún kemur til afgreiðslu við lok umræðunnar. Í umræðum má leggja fram rökstudda dagskrártillögu þess efnis að umræðu um fyrirliggjandi mál skuli lokið og fyrir tekið næsta mál á dagskrá. Skulu atkvæði þá greidd um hana án frekari umræðna. Flutningsmaður máls getur dregið mál til baka allt til þess að það er komið til endanlegrar atkvæðagreiðslu. Dragi flutningsmaður mál til baka getur annar kirkjuþingsmaður eða sá sem situr á þinginu samkvæmt 1. mgr. 25. gr. tekið það upp á því stigi og gerst flutningsmaður málsins.

31. gr.

Kjörnir þingskrifarar halda gerðabók undir umsjón forseta. Þar skal geta framlagðra og fyrirtekinna mála ásamt meginatriða umræðna og úrslita mála. Heimilt er að ráða sérstakan ritara sem annast færslu fundargerða á ábyrgð hinna kjörnu þingskrifara. Fundargerð skal liggja frammi í upphafi fundar og geta kirkjuþingsmenn gert athugasemdir við þingskrifara til næsta fundar. Þá verður fundargerð undirrituð af forseta og skrifurum. Hljóðrita skal umræður á kirkjuþingi og varðveita upptökur.

32. gr.

Fundir kirkjuþings fara fram í heyranda hjóði nema þingið ákveði annað.

V. kafli. Atkvæðagreiðsla

33. gr.

Atkvæðisrétt á kirkjuþingi hafa kjörnir kirkjuþingsmenn einir. Afl atkvæða ræður úrslitum mála. Afgreiðsla mála er því aðeins gild að 2/3 hlutar kirkjuþingsmanna séu á fundi.

34. gr.

Samþykktir um kenningarleg málefni þurfa að hljóta 2/3 hluta greiddra atkvæða á kirkjuþingi til að þær fái gildi enda hafi kenningarnefnd og prestastefna áður fjallað um þær.

35. gr.

Við lok fyrri umræðu um þingmál skulu atkvæði greidd um það hvort málinu verði vísað til síðari umræðu. Hljóti það ekki samþykki telst málið fellt. Ef samþykkt er að vísa máli til síðari umræðu skulu atkvæði greidd um það hvaða fastanefnd kirkjuþings fái það til umfjöllunar. Framsögumaður máls flytur tillögu um vísun til nefndar en hljóti hún ekki brautargengi leitar forseti annarra tillagna. Við lok síðari umræðu eru atkvæði greidd um endanlega afgreiðslu máls. Allar tillögur um málsmeðferð og úrslit mála skulu vera skriflegar.

36. gr.

Atkvæðagreiðsla fer fram með handauppréttingu. Skylt er að viðhafa nafnakall eða skriflega atkvæðagreiðslu ef einhver kirkjuþingsmanna óskar þess. Forseti getur endurtekið atkvæðagreiðslu ef hún þykir óglögg. Að atkvæðagreiðslu lokinni lýsir forseti úrslitum.

VI. kafli. Afbrigði og breytingar á þingsköpum

37. gr.

Að tillögu forseta má bregða út af þingsköpum þessum ef 2/3 þeirra þingmanna er um það greiða atkvæði samþykkja.

38. gr.

Þingsköpum kirkjuþings verður ekki breytt nema 2/3 hlutar greiddra atkvæða komi til enda séu 2/3 kirkjuþingsmanna á fundi.

VII. kafli. Þingfararkaup, ferða- og dvalarkostnaður

39. gr.

Kirkjuþingsmenn og aðrir sem seturétt eiga á þinginu fá þingfararkaup fyrir hvern dag sem þingið situr. Ef varamaður er kvaddur til skal hann fá þingfararkaup fyrir hvern dag sem hann situr kirkjuþing en greiðsla til aðalmanns fellur brott sama tíma. Þóknananefnd ákveður laun kirkjuþingsmanna.

40. gr.

Kirkjuþingsmenn sem eiga lengri leið á kirkjuþing en 50 km frá heimili fá greiddan akstur fram og til baka eða flugfargjald eða leigubílakostnað eftir því hvor ferðamátinn er hagkvæmari. Þóknananefnd sker úr ágreiningi sem upp kann að koma um þetta efni.

41. gr.

Dagpeningar skulu greiddir starfsdaga kirkjuþings að viðbættum einum degi samkvæmt reglum ríkisins um dagpeningagreiðslur. Kirkjuþingsmenn sem ekki fá greidda dagpeninga fá greitt fyrir akstur umfram 100 km eftir framlögðum reikningi og fæði á þingstað starfsdaga þingsins.

VIII. kafli. Gildistaka

42. gr.

Starfsreglur þessar sem settar eru með heimild í 7. mgr. 21. gr. og 59. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar öðlast þegar gildi. Frá sama tíma falla brott starfsreglur nr. 235/2006 um þingsköp kirkjuþings með síðari breytingum.

[Ákvæði til bráðabirgða
Þrátt fyrir ákvæði 1. gr. er heimilt að gera allt að sex mánaða hlé á þingfundum kirkjuþings.] 1)

1) Starfsreglur nr. 955/2012, 1. gr.