Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

Kirkjuþing

Starfsreglur um starfsþjálfun djáknaefna nr. 843/2003

1. gr.

Biskup Íslands ábyrgist starfsþjálfun djáknaefna og setur nánari fyrirmæli um innihald hennar. Starfsþjálfunarnefnd djáknaefna, skipuð af biskupi til fjögurra ára, annast um framkvæmd starfsþjálfunar. Biskup setur nefndinni erindisbréf.

2. gr.

Starfsþjálfunin skal tryggja að djáknaefni öðlist sem mesta færni til að starfa sem þjónandi djákni Þjóðkirkjunnar.

3. gr.

Heimilt er hverju djáknaefni, sem hyggur á kirkjulegt starf að loknu námi, að sækja um starfsþjálfun hjá Þjóðkirkjunni. Starfsþjálfunarnefnd setur nánari reglur um skilyrði og lágmarkskröfur sem gera skal um starfsþjálfun.

4. gr.

Djáknaefni skal skylt að taka þátt í starfsþjálfun með fullnægjandi hætti að mati starfsþjálfunarnefndar á hverjum tíma. Kirkjuráð kveður nánar á um greiðslur vegna starfsþjálfunar að fengnum tillögum starfsþjálfunarnefndar.

5. gr.

Starfsþjálfunarnefnd skal eftir nánari fyrirmælum biskups veita biskupi umsögn um djáknaefni. Þar skal nefndin m.a. láta í té álit sitt á því hvort hlutaðeigandi sé fær um að gegna starfi djákna. Að því loknu gefur biskup út staðfestingu á því að hann sé hæfur til að taka djáknavígslu.

6. gr.

Starfsreglur þessar, sem eru settar á grundvelli 47. gr. og 59. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997, öðlast gildi 1. janúar 2004. Frá sama tíma falla brott ákvæði 9. gr. og 10. gr. starfsreglna um djákna nr. 738/1998. 11. gr. þeirra starfsreglna verður 9. gr. og 12. gr. verður 10. gr.

Ákvæði til bráðabirgða.
Biskup skipar starfsþjálfunarnefnd djáknaefna frá 1. janúar 2004 til þriggja ára. Eftir það er nefndin skipuð til fjögurra ára, sbr. 1. gr. starfsreglna þessara. Þau djáknaefni sem hafa hafið starfsþjálfun við gildistöku starfsreglna þessara skulu eiga þess kost að ljúka henni samkvæmt eldra fyrirkomulagi. Starfsþjálfunarnefnd skipuleggur að öðru leyti innleiðingu starfsþjálfunar samkvæmt reglum þessum.