Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

Kirkjuþing

Starfsreglur um sóknarnefndir nr. 1111/2011

I. Almennt.

1. gr.

Frumskylda kirkjusóknar er helgihald, kærleiksþjónusta og fræðsla sem nærir og eflir trú sem starfar í kærleika. Til þess er haldið uppi:

 • reglubundnum guðsþjónustum og séð til þess að sóknarbörn eigi aðgang að sálgæslu í samtali, prédikun, sakramenti og fyrirbæn
 • reglubundnu fræðslustarfi um kristna trú og sið, og stuðningi við trúaruppeldi heimilanna með barnastarfi, fermingarfræðslu og æskulýðsstarfi
 • kærleiksþjónustu á vettvangi sóknarinnar og með aðild að hjálparstarfi og kristniboði kirkjunnar.

Þar sem ekki er unnt að halda uppi reglubundinni þjónustu, svo sem vegna fámennis, geta sóknir í sama prestakalli, eða á sama samstarfssvæði, sameinast um ofangreinda meginþætti safnaðarstarfs.

2. gr.

Í hverri kirkjusókn er sóknarnefnd sem starfar undir forystu sóknarnefndarformanns í nánu samstarfi við sóknarprest.

3. gr.

Sóknarnefnd skal skipuð leikmönnum sem kjörnir eru til fjögurra ára í senn. Leikmaður telst sá sem ekki hefur tekið vígslu til prests eða djákna.

Sóknarnefndarmenn skulu vera þrír í sóknum þar sem sóknarmenn eru færri en 300, en ella fimm. Þegar sóknarmenn eru 1.000 hið fæsta mega sóknarnefndarmenn vera sjö og níu ef sóknarmenn eru 4.000 eða fleiri, miðað skal við 1. desember næstliðinn.

Fjölga skal sóknarnefndarmönnum, ef því er að skipta, á næsta aðalsafnaðarfundi þegar kjör sóknarnefndarmanna á fram að fara, eftir að þeir verða 1.000 eða 4.000 hið fæsta. Nú fækkar sóknarmönnum niður fyrir greind mörk og ákveður aðalsafnaðarfundur þá hvort fækka skuli sóknarnefndarmönnum.

Kjósa skal a.m.k. jafnmarga varamenn og aðalmenn eru og taka þeir sæti í forföllum aðalmanna eftir þeirri röð sem þeir voru kosnir í. Heimilt skal sóknarnefnd að kveðja varamenn sér til liðsinnis þegar hún telur ástæðu til. Nú forfallast aðalmaður varanlega og skal þá kosinn nýr aðalmaður út kjörtímabil sóknarnefndar.

Á tveggja ára fresti skal nokkur hluti kjörinna aðalmanna og varamanna ganga úr nefndinni, sem hér segir:

Árið 2013 skulu einn af þremur, tveir af fimm, þrír af sjö og fjórir af níu kjörinna aðalmanna og varamanna ganga úr nefndinni og ræður hlutkesti, nema samkomulag sé innan nefndarinnar.

Árið 2015 skulu tveir af þremur, þrír af fimm, fjórir af sjö og fimm af níu ganga úr nefndinni og ræður hlutkesti, nema samkomulag sé innan nefndarinnar.

Skal síðan kosið um hluta sóknarnefndar á tveggja ára fresti eftirleiðis í samræmi við 6. og 7. mgr. ákvæðis þessa.

Kjósa skal safnaðarfulltrúa og varamann hans úr hópi sóknarnefndar til fjögurra ára, sbr. 56. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997.

II. Staða sóknarnefnda.

4. gr.

Sóknarnefnd starfar á grundvelli þjóðkirkjulaga, starfsreglna og samþykkta kirkjuþings.

Sóknarnefnd er kosin á aðalsafnaðarfundi til fjögurra ára, starfar í umboði safnaðarins og ber ábyrgð gagnvart honum.

Sóknarnefnd starfar við hlið sóknarprests og er í fyrirsvari fyrir sóknina gagnvart stjórn­völdum, og einstökum mönnum og stofnunum.

III. Störf og starfshættir sóknarnefnda.

Störf sóknarnefnda – almenn atriði.

5. gr.

Sóknarnefnd annast rekstur og framkvæmdir á vegum sóknarinnar og styður kirkjulega þjónustu í sókninni ásamt prestum og starfsmönnum hennar.

6. gr.

Helstu störf sóknarnefndar eru sem hér segir:

 1. Hafa ásamt prestum og í samráði við annað starfsfólk safnaðarins, eftir því sem við á, forgöngu um kirkjulegt starf á vegum sóknarinnar.
 2. Fjárstjórn sóknarinnar.
 3. Umsjón og gæsla eigna sóknarinnar.
 4. Sjá til þess að viðunandi húsnæði og búnaður sé til guðsþjónustuhalds og annars safnaðarstarfs í sókninni.
 5. Að sjá til þess að skráðir kirkjugripir og minningamörk séu verndaðir skv. ákvæðum þjóðminjalaga.
 6. Ráða starfsfólk sóknar í samráði við sóknarprest.
 7. [...]1)
 8. Önnur verkefni sem aðstæður í sókninni kunna að útheimta
  1) Starfsreglur 305/2016

Rekstur og fjármál.

7. gr.

Sóknarnefnd skal í samráði við sóknarprest gera fjárhagsáætlun fyrir hvert almanaksár og hafa þar m.a. hliðsjón af starfsáætlun sóknarprests, annarra presta og annarra starfs­manna sóknarinnar. Fjárhagsáætlunin skal lögð fram á aðalsafnaðarfundi til kynn­ingar og afgreiðslu.

Óski kirkjuráð þess skal sóknarnefnd leggja fram fjárhagsáætlun sína fyrir kirkjuráð a.m.k. viku fyrir aðalsafnaðarfund að jafnaði.

Sóknarnefnd, sóknarpresti og öðrum prestum ber síðan að sinna verkefnum sínum og halda uppi starfsemi á grundvelli samþykktrar fjárhagsáætlunar.

8. gr.

Við ráðstöfun fjármagns sóknarinnar til skamms eða langs tíma skal ávallt gæta þess að fjárskuldbindingar vegna framkvæmda komi sem minnst niður á almennu kirkjustarfi. Eigi að ráðast í miklar fjárfestingar eins og smíði nýrrar kirkju, safnaðarheimilis eða hljóðfærakaup skal sóknarnefnd greina kirkjuráði skriflega frá áformum sínum um framkvæmdir og fjármögnun.

Sóknarnefnd er hvorki heimilt að greiða laun vegna prestverka né styrkja það sem fellur undir embættiskostnað presta og prófasta, sbr. starfsreglur um rekstrarkostnað prests­embætta og prófastsdæma. Þó er sóknarnefnd heimilt að leggja prestum til skrifstofu­aðstöðu ef sóknin hefur bolmagn til þess án þess að það bitni á safnaðar­starfinu.

Ef fjárhag sókna er stefnt í tvísýnu með miklum hallarekstri eða skuldasöfnun þannig að það hamli eðlilegu safnaðarstarfi, eða ef sókn verður óstarfhæf, er kirkjuráði heimilt að grípa inn í rekstur­inn, t.d. með skipun fjárhaldsmanns eða eftirlitsnefndar.

9. gr.

Sóknarnefnd er óheimilt að efna til fjárskuldbindinga með persónulegum ábyrgðum ein­staklinga.

10. gr.

Sóknarnefnd getur ekki veðsett eignir sóknarinnar nema með samþykki safnaðarfundar.

11. gr.

Sóknarnefnd sér til þess að bókhald sé fært í samræmi við lög og noti samræmt reikningsform við uppsetningu ársreiknings, sem kirkjuráð leggur til.

12. gr.

Sóknarnefnd sér til þess að ársreikningur sóknar sé gerður fyrir hvert almanaksár. Ársreikningurinn skal áritaður af sóknarnefnd, endurskoðaður af kjörnum skoðunar­mönnum eða endurskoðanda og lagður fram á aðalsafnaðarfundi til kynningar og afgreiðslu og síðan sendur kirkjuráði. Heimilt er kirkjuráði að fela próföstum að kalla eftir ársreikningum sókna.

Kirkjuráð getur ákveðið lokafrest sem sóknir hafa til að skila ársreikningi. Sé ársreikningi ekki skilað innan tilskilins frests getur kirkjuráð óskað eftir að sóknargjald viðkomandi sóknar renni inn á sérgreindan biðreikning hjá Jöfnunarsjóði sókna. Sóknargjald greiðist sókninni þegar löglegum ársreikningi hefur verið skilað.

Guðsþjónusta, trúfræðsla og helgihald.

13. gr.

Sóknarnefnd skal starfa undir forystu sóknarprests og með hliðsjón af erindisbréfi hans við mótun og skipulag kirkjulegs starfs safnaðarins og standa fyrir guðsþjónustuhaldi safnaðarins, trúfræðslu og kærleiksþjónustu.

Verkaskipti sóknarnefndarmanna.

14. gr.

Sóknarnefnd skiptir með sér verkum formanns, gjaldkera og ritara í röðum aðalmanna þegar eftir að kjör í sóknarnefnd hefur farið fram. Sóknarnefnd ákveður hver skuli vera fyrsti og annar varaformaður er komi úr röðum aðalmanna. Þriðji varaformaður er sá varamaður sem fyrst tekur sæti sem aðalmaður eftir þeirri röð sem varamenn voru kosnir í.

Sóknarnefnd ákveður að öðru leyti um verkaskipti og varamenn aðalmanna eftir því sem þurfa þykir.

Sóknarnefnd er heimilt að kjósa úr sínum hópi framkvæmdanefnd er starfi á milli funda sóknarnefndar. Sóknarnefnd getur ákveðið að kjósa einnig varamenn í framkvæmda­nefnd og í hvaða röð þeir taka sæti.

Sóknarnefnd kýs jafnframt safnaðarfulltrúa og varamann hans og ákveður verkefni er hann hafi með höndum. Víki öll sóknarnefnd aðalmanna sæti, skiptir sóknarnefnd, skipuð varamönnum, verkum eins og þurfa þykir. Fyrsti varamaður skal þó gegna stöðu for­manns.

Fundir.

15. gr.

Sóknarnefnd boðar til aðalsafnaðarfundar með minnst viku fyrirvara og skal greina frá dagskrá fundarins í fundarboði. Fundinn skal auglýsa með þeim hætti sem venja er til um messuboð.

Þar skal taka fyrir eftirfarandi:

 1. Gerð sé grein fyrir starfsemi og rekstri sóknarinnar á liðnu starfsári.
 2. Afgreiðslu reikninga sóknar og kirkjugarðs fyrir sl. ár, ásamt fjárhagsáætlun næsta árs.
 3. Greint frá starfsemi héraðsnefndar og héraðsfundi.
 4. Ákvörðun um meiriháttar framkvæmdir og framtíðarskuldbindingar.
 5. Kosning tveggja skoðunarmanna eða endurskoðanda sóknar og kirkjugarðs og varamanna þeirra til árs í senn.
 6. [Kosning sóknarnefndar.]1)
 7. [Kosning kjörnefndar.]1)
 8. [Kosning í aðrar nefndir og ráð.]1)
 9. [Önnur mál.]1)
  1) Starfsreglur 305/2016

[Um kosningu kjörnefndar er mælt fyrir í starfsreglum um val og veitingu prestsembætta nr. 144/2016.]1)
1) Starfsreglur 305/2016

16. gr.

Aðalsafnaðarfundur kýs sóknarnefndarmenn og varamenn.

17. gr.

Sóknarnefnd heldur formlega fundi með reglulegum hætti þar sem málefni sóknarinnar eru til umræðu og ákvörðunar.

Formaður boðar fundi í sóknarnefnd og stýrir þeim og er fundur ályktunarfær ef meiri hluti nefndarmanna sækja fundinn.

Sóknarprestur og aðrir prestar í prestakallinu skulu að jafnaði sitja sóknarnefndarfundi og sóknarprestur fundi framkvæmdanefndar ef hún starfar. Enn fremur aðrir starfsmenn sóknarinnar ef málefni þeirra eru sérstaklega til umræðu á fundinum. Sóknarnefnd skal fylgja vanhæfisreglum stjórnsýslulaga um meðferð einstakra mála.

18. gr.

Allir fundir sóknarnefndar sem og safnaðarfundir skulu bókaðir og staðfestir af fundar­mönnum. Þá skal sóknarnefnd gæta þess að varðveita og skrá bréf, bækur og skjöl er snerta kirkjuna og starfsemi hennar. Um vörslu þessara gagna skal fara í samræmi við gildandi lög hverju sinni.

19. gr.

Sóknarnefnd getur skipað nefndir úr sínum hópi eða utan hans til að fjalla um einstök mál­efni. Slíkar nefndir starfa á ábyrgð og í umboði sóknarnefndar sem setur þeim jafn­framt verklagsreglur eða erindisbréf.

20. gr.

Ef sóknarnefnd fer með stjórn kirkjugarðs sbr. 2. mgr. 8. gr. laga um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu nr. 36/1993, skal halda fjárhag kirkjugarðs algerlega aðgreindum frá fjárhag sóknar.

Ráðningar starfsmanna o.fl.

21. gr.

Sóknarnefnd, í samráði við sóknarprest, ræður starfsmenn sóknarinnar.

22. gr.

Auglýsa skal laus störf hjá sókninni með tveggja vikna umsóknarfresti hið minnsta. Auglýsing skal birtast í prentuðum fjölmiðli og á vef kirkjunnar.

Í auglýsingu skal m.a. tiltekið:

 1. hvernig ráðningarkjör eru
 2. hvenær umsóknarfrestur rennur út
 3. hvert umsóknin skuli send
 4. að veitt sé heimild til að afla sakarvottorðs.

23. gr.

Ráðningarsamningur starfsmanna skal vera skriflegur og með gagnkvæmum þriggja mánaða uppsagnarfresti, en mánaðar uppsagnarfresti á fyrstu þremur mánuðum í starfi. Sóknarnefnd í samráði við sóknarprest semur starfslýsingu fyrir þessa starfsmenn.

24. gr.

[Óheimilt er að ráða til starfa einstakling til að sinna börnum og ungmennum undir 18 ára aldri, sem hlotið hefur refsidóm vegna brota á eftirtöldum lagabálkum:

• barnaverndarlögum nr. 80/2002
• almennum hegningarlögum nr. 19/1940, þ.e.

 • kynferðisbrot skv. 22. kafla
 • önnur ofbeldisbrot skv. 23. kafla, þó einungis refsidóma síðustu fimm ár vegna brots skv. 217. gr. um minniháttar líkamsmeiðingar
 • brot gegn frjálsræði manna skv. 24. kafla
 • fíkniefnabrot skv. 173. gr. a.

• lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, þ.e. refsidóm síðustu fimm ár.]1)

1) Starfsreglur 1037/2012

Ofangreint ákvæði nær einnig til sjálfboðaliða sem starfa með börnum og ungmennum undir 18 ára aldri hjá sókn. Sóknarnefnd skal óska eftir samþykki allra, sem sækjast eftir starfi, launuðu, sjálfboðnu eða í verktöku, til þess að fá aðgang að upplýsingum úr sakaskrá viðkomandi hvað varðar ofangreindar tegundir brota. Synji umsækjandi um heimild er óheimilt að ráða hann til starfa.

Hafa ber hliðsjón af starfsreglum um djákna og organista við gerð ráðningarsamninga við þá og starfslýsinga, svo og samþykktum stefnumálum kirkjuþings sem varða starfssvið þeirra sérstaklega.

25. gr.

Ef upp kemur ágreiningur um störf starfsmanna innan sóknar, sem ekki tekst að leysa þar á vettvangi, skal vísa málinu til prófasts.

IV. Annað.

26. gr.

Komi fram skrifleg tillaga í söfnuði, um að embætti sóknarprests eða prests skuli auglýst laust til umsóknar, á grundvelli 40. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóð­kirkjunnar nr. 78/1997, skal hún berast prófasti. Prófastur kynnir presti tillöguna. Hann ræðir síðan við málsaðila og kannar möguleika á sáttum, ef því er að skipta. Náist ekki sættir gerir prófastur sóknarnefnd viðvart og boðar hún til almenns safnaðarfundar, þar sem tillagan er tekin til afgreiðslu. Boða skal safnaðarfundinn með sama hætti og aðal­safnaðar­fund sóknarinnar. Í fundarboði skal greina dagskrá og hvar nálgast megi tillöguna. Nægilegt er að tillagan sé aðgengileg hjá prófasti eða biskupsstofu a.m.k. viku fyrir fund.

Á safnaðarfundinum skal presti gefinn kostur á að tjá sig um tillöguna og leggja fram skriflega greinargerð. Presturinn víkur að því búnu af fundi, nema fundurinn ákveði annað. Að loknum umræðum eru greidd atkvæði um tillöguna og sendir sóknarnefnd niðurstöðuna til biskups Íslands með öðrum gögnum málsins, hafi tillagan verið samþykkt með meirihluta greiddra atkvæða en ella fellur málið niður.

V. Gildistaka.

27. gr.

Starfsreglur þessar, sem settar eru skv. heimild í 55. gr. og 57. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997, öðlast gildi 1. janúar 2012. Jafnframt falla brott starfsreglur um sóknarnefndir nr. 732/1998 frá sama tíma.