Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

Kirkjuþing

Starfsreglur um sérþjónustupresta sem ráðnir eru á vegum stofnana og félagasamtaka nr. 824/1999

1. gr.

Starfsreglur þessar gilda um þá sérþjónustupresta þjóðkirkjunnar sem ráðnir eru á vegum stofnana og félagasamtaka (vinnuveitanda), með samþykki biskups.

2. gr.

Einungis þeir sem uppfylla skilyrði laga um embættisgengi til prestsembætta innan þjóðkirkjunnar geta gegnt starfi samkvæmt 1. gr.

Jafnframt er skilyrði að gerður sé skriflegur ráðningarsamningur milli vinnuveitanda og sérþjónustuprests og verður samningur að bera með sér þau atriði sem greinir í reglum þessum.

Starfssvið hlutaðeigandi starfsmanns verður ávallt að vera í eðlilegu og tilhlýðilegu samhengi við þau réttindi sem biskup veitir starfsmanninum samkvæmt reglum þessum með samþykki sínu.

Hugtakið erindisbréf er notað í starfsreglum þessum um ráðningarbréf þau sem um er rætt í 3. mgr. 44. gr. laga nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti þjókirkjunnar.

3. gr.

Nú óskar vinnuveitandi að ráða guðfræðing eða prest til starfa, sem prest þjóðkirkjunnarog biskup samþykkir þá málaleitan. Skulu þeir hafa samráð og samvinnu um undirbúning ráðningarinnar og önnur atriði sem nauðsynlegt og eðlilegt er að hafa samráð og samvinnu um vegna starfsins. Drög að ráðningarsamningi skulu kynnt biskupi.

Í ráðningarsamningi skal koma fram að auk þeirra skyldna sem prestur hefur gagnvart vinnuveitanda sínum, hafi hann jafnframt skyldum að gegna gagnvart þjóðkirkjunni sem nánar sé greint frá í erindisbréfi sem biskup setji honum sbr. og 5. gr. starfsreglna þessara. Jafnframt skal koma fram að vinnuveitanda sé skylt að tilkynna biskupi um starfslok starfsmannsins.

Drög að erindisbréfi biskups vegna starfans skulu kynnt vinnuveitanda. Í erindisbréfi skal greint frá kirkjuaga, tilsjón kirkjulegra stjórnvalda í kirkjulegum efnum og öðrum skyldum gagnvart kirkjunni sem starfsmaður undirgengst sem prestur þjóðkirkjunnar í starfi hjá hlutaðeigandi vinnuveitanda. Einnig skal koma fram að starfsmanni sé óheimilt að semja við vinnuveitanda um starfsskyldur, sem ekki eru í samræmi við 3. mgr. 2. gr., nema biskup heimili.

[4. gr.

Sérstaklega tilkvödd valnefnd veitir umsögn um þá sem sækja um starf sérþjónustuprests. Nefndin er skipuð þremur mönnum og þremur til vara. Vinnuveitandi skipar einn og er sá jafnframt formaður. Biskup skipar einn. Vinnuveitandi og biskup hafa samráð um skipun þriðja nefndarmannsins og skal þess gætt að hann komi úr röðum fagsamtaka á viðkomandi starfssviði.

Valnefndin metur hæfi allra umsækjenda til að gegna starfi sérþjónustuprests. Skal valnefnd m.a. líta til menntunar þeirra, starfsaldurs, starfsreynslu og starfsferils. Sé áskilin sérstök þekking eða reynsla eða starf er að öðru leyti mjög sérhæft, skal meta umsækjendur eftir því hvernig þeir uppfylla þau sérstöku skilyrði. Valnefnd aflar þeirra gagna og upplýsinga sem hún telur að öðru leyti þörf og gerir skriflega umsögn um hæfni allra umsækjenda, þ.m.t. hvort þeir teljist hæfir til starfans. Nefndin skal raða umsækjendum eftir hæfni þeirra. Telji nefndin einhverja umsækjendur jafnhæfa skal þeim umsækjendum skipað jafnfætis. Ef umsækjandi er einn skal nefndin eigi að síður gefa umsögn um hann samkvæmt framanskráðu. Valnefnd setur sér nánari vinnureglur.]1)

1) Starfsr. 945/2010 4. gr.

5. gr.

Vinnuveitandi ákveður hver ráðinn skuli til starfans, en getur óskað ráðgjafar biskups í því sambandi. Vinnuveitandi tilkynnir biskupi hver ráðinn hafi verið.

6. gr.

Óski vinnuveitandi að breyta ráðningarsamningi skal sú breyting háð samþykki biskups, ef hún getur varðað að einhverju leyti starfssvið starfsmanns sem prests þjóðkirkjunnar, sbr. 2. gr. Skal getið um þetta skilyrði í ráðningarsamningi.

Óski biskup að breyta erindisbréfi skal sú breyting háð samþykki vinnuveitanda ef hún hefur áhrif á starf prests með þeim hætti að hagsmunum vinnuveitanda sé raskað.

7. gr.

Brjóti starfsmaður gegn ákvæðum erindisbréfs biskups skal biskup beita lögmæltum úrræðum.

Biskup getur afturkallað erindisbréf með þeim áhrifum að hlutaðeigandi starfsmaður telst ekki lengur til presta þjóðkirkjunnar. Um slíka afturköllun gilda sömu skilyrði og reglur og þegar manni er veitt lausn frá prestsembætti, eins og við getur átt. Biskup skal jafnan kynna vinnuveitanda ætlaðar ávirðingar og hafa samráð við hann, áður en gripið er til aðgerða samkvæmt framanskráðu.

Telji vinnuveitandi nauðsyn krefja að segja starfsmanni upp vegna tiltekinna ávirðinga starfsmannsins skal kynna biskupi fyrirhugaða uppsögn og hafa samráð við hann.

8. gr.

Erindisbréf telst sjálfkrafa fallið niður við lok ráðningarsambands prests og vinnuveitanda og telst hlutaðeigandi starfsmaður eftir það ekki lengur þjónandi prestur þjóðkirkjunnar.

9. gr.

Starfsreglur þessar sem settar eru skv. heimild í 44. gr. og 59. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997, öðlast gildi 1. janúar 2000.

Ákvæði til bráðabirgða.
Biskup skal setja þeim sérþjónustuprestum þjóðkirkjunnar erindisbréf sem eru í starfi hjá stofnun eða félagasamtökum við gildistöku starfsreglna þessara fyrir árslok ársins 2000 í samráði við hlutaðeigandi vinnuveitanda. Skal farið að ákvæðum þessara reglna svo sem kostur er.