Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

Kirkjuþing

Starfsreglur um prófasta nr. 966/2006

1. gr.

Biskupsdæmi Íslands skiptist í [12] 1) prófastsdæmi: Kjalarness-, Reykjavíkur vestra-, Reykjavíkur eystra-, Borgarfjarðar-, Snæfellsness – og Dala-, Vestfjarða-, [Húnavatns- og Skagafjarðar-] 1), Eyjafjarðar – Þingeyjar-, Múla-, Austfjarða-, og [Suðurprófastsdæmi] 1), sbr. starfsreglur nr. 731/1998 2) um skipulag kirkjunnar í héraði.

1) Starfsreglur nr. 948/2009 um breytingu á starfsreglum um prófasta nr. 966/2006.
2) Nú starfsreglur um skipulag kirkjunnar í héraði nr. 1026/2007.

2. gr.

Biskup útnefnir prófast úr hópi þjónandi presta í hverju prófastsdæmi eftir að hafa leitað umsagnar þjónandi presta og djákna svo og formanna sóknarnefnda.

Auk þess er biskupi heimilt að útnefna prófast til að hafa umsjón með tilteknum þáttum kirkjulegrar þjónustu óháð mörkum prófastsdæma, svo sem sérþjónustu kirkjunnar.

Presti er skylt að takast á hendur prófastsembætti. Þegar biskup setur prófast tímabundið þarf ekki að afla umsagnar sbr. 1. mgr.

3. gr.

Útnefning gildir í fimm ár. Útnefning skal enn fremur gilda sjálfkrafa áfram ef prófastur tekur við öðru prestsembætti innan sama prófastsdæmis í beinu framhaldi af starfslokum í fyrra embætti.

4. gr.

Útnefning prófasts fellur sjálfkrafa niður við lok prestsþjónustu hans í prófastsdæminu. Gildir það einnig þótt hlutaðeigandi sé í beinu framhaldi af starfslokum settur til aðgegna áfram prestsembætti innan prófastsdæmis.

5. gr.

[Biskup setur annan sóknarprest í prófastsdæminu eða nágrannaprófast til að gegna prófastsembætti um stundarsakir ef sérstaklega stendur á svo sem vegna lengri fjarveru, leyfis eða veikinda prófasts, prófasts missir við, eða er veitt lausn um stundarsakir.
Annars leysir prestur kosinn í héraðsnefnd prófast í hefðbundnum fríum og til vara varamaður hans í héraðsnefnd.]1)

1)Starfsreglur nr. 1038/2012, 1. gr.

6. gr.

Reglur stjórnsýslulaga um sérstakt hæfi gilda um störf prófasta. Biskup sker úr um hvort um vanhæfi er að ræða. Víki prófastur sæti í tilteknu máli vegna vanhæfis setur biskup prófast til að fara með málefni það sem um er að tefla.

7. gr.

Prófastur hefur í umboði biskups tilsjón með kirkjulegu starfi í prófastsdæminu, embættisfærslum presta, þjónustu vígðra og starfi sóknarnefnda. Hann er tilsjónarmaður og ráðgjafi þessara aðila.

8. gr.

Prófastur er trúnaðarmaður biskups og ráðgjafi í kirkjulegum málum. Prófastur fylgist með því að réttur kirkjunnar sé virtur í hvívetna.

Prófastur er, sem fulltrúi biskups Íslands í prófastsdæminu, leiðtogi og verkstjóri vígðra þjóna prófastsdæmisins.

Prófastur fylgir eftir stefnumörkun og samþykktum Kirkjuþings er varðar kirkjulegt starf í prófastsdæminu.

Prófastur er í fyrirsvari fyrir prófastsdæmið að því er varðar sameiginleg málefni þess, gagnvart stjórnvöldum, stofnunum og einstaklingum.

Prófastur varðveitir embættisbækur og önnur gögn prófastsdæmisins tryggilega.

9. gr.

Biskup Íslands getur falið prófasti einstök mál sem varða kirkjulegt starf. Prófastur veitir biskupi Íslands og vígslubiskupi umdæmisins eftir því sem við getur átt, þá aðstoð, sem þeir óska eftir. Prófastur aðstoðar biskup Íslands við undirbúning og framkvæmd vísitasíu hans og fylgir honum um prófastsdæmið á vísitasíuferðum.

10. gr.

Prófastur kemur að vali á presti, sbr. starfsreglur um presta. Prófastur veitir jafnframt liðsinni sitt við almennar prestskosningar, sbr. starfsreglur um presta.

11. gr.

Prófastur sér til þess, í umboði biskups Íslands, að sóknarbörn njóti þeirrar prestsþjónustu sem þeim ber. Hann skipuleggur afleysingaþjónustu vegna vikulegs frídags, skammvinnra veikinda og sumarleyfa presta í prófastsdæminu. Hann annast um viðveruskyldu og skipulag bakvakta, m.a. í ljósi viðbragðaáætlunar kirkjunnar við hópslysum. Prófastur sér til þess að vígðir þjónar kirkjunnar í prófastdæminu njóti tilskilinna réttinda s.s. til orlofs og námsleyfa.

12. gr.

Prófastur stýrir samstarfi presta um kirkjulega þjónustu í prófastsdæminu m.a. þjónustu á sjúkrastofnunum og dvalarheimilum aldraðra.

13. gr.

Prófastur annast um skipting starfa milli presta þar sem fleiri en einn prestur þjónar í prestakalli og sér til þess að samið sé um það skriflega.

14. gr.

Prófastur í samráði við biskup og héraðsnefnd, skipuleggur starf héraðsprests. Héraðsprestur starfar undir stjórn prófasts.

15. gr.

Prófastur setur nýja presta í embætti og afhendir þeim embættisbækur og gögn að boði biskups.

16. gr.

Prófastur er formaður héraðsnefndar og annast þá stjórnsýslu sem honum er falin í starfsreglum um héraðsfundi og héraðsnefndir. Hann tekur við erindum og fyrirspurnum og sér til þess að leyst sé úr þeim.

17. gr.

Prófastur er formaður stjórnar héraðssjóðs, sbr. starfsreglur um héraðsfundi og héraðsnefndir.

Prófastur hefur vörslur og annast gjafa- og líknarsjóði í prófastsdæmi ef því er að skipta og gerir árlega reikningsskil til Ríkisendurskoðunar.

18. gr.

Prófastur fer, ásamt biskupi, með yfirstjórn kirkjugarða í prófastsdæminu, sbr. lög um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu nr. 36/1993 og sinnir öðrum lögboðnum skyldum samkvæmt þeim lögum.

19. gr.

Prófastur annast um þær úttektir í prófastsdæminu sem hér greinir:

 1. úttekt á nýbyggðri kirkju og eignum hennar svo og þegar kirkja hefur verið endurbyggð
 2. úttekt á kirkju þegar hún hefur verið afhent söfnuði, sbr. lög um umsjón og fjárhald kirkna nr. 22 16. nóvember 1907
 3. úttekt á prestssetri við starfslok sóknarprests og við afhendingu prestsseturs til viðtakandi sóknarprests eða prestssetrasjóðs sbr. lög um prestssetur nr. 137/1993
 4. úttekt á prestssetri þegar gagngerðar endurbætur hafa farið fram eða þegar þess er óskað af lögbærum aðilum sbr. lög um prestssetur nr. 137/1993
 5. úttekt á bókasafni prestakalls, sbr. lög nr. 17/1931
 6. úttekt á kirkju, sem lögð er niður eða réttarstöðu hennar er breytt.

20. gr.

Prófastur hefur tilsjón með prestssetrum, kirkjum, kirkjueignum og kirkjugörðum og grafreitum. Í eftirlitsskyldu prófasts felst að hann gætir þess að réttindi gangi ekki undan, að umgengni sé góð og að rekstur og öll meðferð og afnot eigna séu við hæfi og samkvæmt lögum og reglum. Prófastur beitir sér fyrir því að hlutaðeigandi vörslumaður eða umráðandi bæti úr ef annmarkar þykja vera á meðferð réttinda og eigna samkvæmt framanskráðu. Ef tilmælum prófasts er ekki sinnt sendir prófastur hlutaðeigandi stjórnvöldum eða biskupi málið til úrlausnar.

21. gr.

Prófastur vísiterar prestaköll, söfnuði, kirkjur, kapellur, kirkjugarða og grafreiti reglubundið. Við skipulag vísitasía sinna gætir prófastur samræmis við ákvörðun biskupafundar um skipulag á vísitasíum biskups Íslands og vígslubiskupa. Prófastur vísiterar og þegar þess er óskað svo sem vegna meiri háttar framkvæmda á vegum safnaða eða vegna sérstakra viðburða svo sem kirkjuhátíða. Prófastur heldur vísitasíubók sem varðveitir kirkjulýsingar og munaskrá og sendir biskupi endurrit úr henni að lokinni vísitasíu sem og fundargerðir.

22. gr.

Á vísitasíum skal prófastur annast eftirlit með kirkjum og eignum hennar, kapellum, kirkjugörðum, grafreitum og prestssetrum, sbr. 19. gr. og geta um ástand þeirra. Prófastur skal kanna kirkjusókn, helgihald, sálgæslu, kærleiksþjónustu, barna- og æskulýðsstarf, fræðslumál og annað safnaðarstarf. Hann skal kanna samskipti presta, sóknarnefnda, starfsfólks og safnaðar. Hann skal hafa eftirlit með því að prestsþjónustubækur og gjörðabækur sóknanefnda séu samviskusamlega færðar.

Prófastur skal styðja sérstaklega þá aðila, sem getið er í 3. mgr., í þjónustu sinni og safnaðarstarfi. Hann skal veita þeim leiðsögn og hvatningu og leiðbeina um góða starfshætti. Prófastur annast um að misfellum í þeim efnum, sem getið er í 1. – 4. mgr., sé komið í rétt horf og gera biskupi viðvart ef tilefni er til.

23. gr.

Prófastur veitir kirkjustjórninni umsögn um tiltekin málefni ef óskað er eða vekur athygli kirkjustjórnar á málefni að eigin frumkvæði telji hann það nauðsynlegt, þ.m.t. mál er varða almennt framtíðarskipulag kirkjustarfs.

24. gr.

Prófastur hefur þá stjórnsýslu á hendi sem kveðið er á um í lögum um bókasöfn prestakalla nr. 17/1931.

25. gr.

Prófastur áritar þær bækur sem hér greinir:

 1. bók undir bókaskrá prestakalls sbr. lög um bókasöfn prestakalla nr. 17/1931
 2. gerðabók sóknarnefnda og safnaðarfunda, sbr. starfsreglur um sóknarnefndir.

26. gr.

Prófastur beitir sér fyrir námskeiðahaldi til fræðslu fyrir presta, starfsmenn safnaða og aðra sem taka þátt í starfi kirkjunnar. Hafa skal samráð við önnur prófastsdæmi um námskeiðahald ef henta þykir.

27. gr.

Prófasti er skylt að mæta á árlegan prófastafund er biskup boðar.

28. gr.

 1. Prófasti ber að annast um að biskupi Íslands berist árlega skýrslur úr öllum prestaköllum prófastsdæmisins
 2. prófastur hefur með höndum skýrslugerð og upplýsingamiðlun til kirkjustjórnarinnar
 3. prófasti ber að halda skrá um allar sóknarnefndir, og safnaðarfulltrúa, valnefndir og starfsmenn safnaða og gera biskupi viðvart um allar breytingar
 4. prófastur færir bréfabók
 5. prófastur heldur vísitasíubók sbr. 21. gr.

29. gr.

Prófastur skal annast sáttaumleitanir innan prófastdæmisins þegar embættismönnum, trúnaðarmönnum eða starfsmönnum, launuðum jafnt og ólaunuðum, vígðum jafnt og leikum, hefur ekki tekist að jafna ágreining sín á milli.

Prófastur skal ljúka sáttaumleitan sinni að jafnaði innan tveggja vikna enda sé mál hvorki á hendi annarra kirkjulegra aðila á þeim tíma né til meðferðar fyrir dómsstólum.

Prófastur skal skila vígslubiskupi skriflegu áliti ef sættir takast ekki.

30. gr.

Prófastur skal hafa eftirlit með því, að prestar skili embættisskýrslum til Þjóðskrár.

[31. gr.

Prófastur tekur við og varðveitir skrá frá Fornleifavernd ríkisins um friðlýsta gripi hverrar kirkju og minningarmörk í kirkjugörðum, skv. ákvæðum þjóðminjalaga.] 1)

1) Starfsreglur nr. 1030/2007 9. gr.

32. gr.

Prófastur hefur þá stjórnsýslu á hendi sem kveðið er á um í lögum um leysing sóknarbanda nr. 9/1882.

33. gr.

Ef starf prests getur fallið undir tvö eða fleiri prófastsdæmi, prestur starfar erlendis eða óljóst þykir að öðru leyti undir hvaða prófastsdæmi embætti fellur, ákveður biskup undir hvaða prófastsdæmi viðkomandi embætti heyrir.

34. gr.

Starfsreglur þessar sem settar eru skv. heimild í 29. gr. og 59. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78 26. maí 1997, öðlast gildi 1. janúar 2007. Jafnframt falla brott starfsreglur um prófasta nr. 734/1998 frá sama tíma.