Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

Kirkjuþing

Starfsreglur um prestssetur og aðrar fasteignir þjóðkirkjunnar nr. 950/2009

I. kafli. Markmið og gildissvið

1. gr.

Þjóðkirkjan varðveitir, á og leigir fasteignir sem styðja þjónustu hennar og markmið, í samræmi við samþykkta fjárfestingarstefnu kirkjuþings hverju sinni.

2. gr.

Fasteignir í eigu þjóðkirkjunnar skulu þinglýst eign þjóðkirkjunnar/kirkjumálasjóðs, að undanskyldum kirkjum, safnaðarheimilum, þjónustuhúsum og öðrum fasteignum í eigu sókna, sem skulu þinglýst eign þjóðkirkjunnar/viðkomandi sóknar.

II. Kafli. Stjórnkerfi

3. gr.

Kirkjuþing samþykkir stefnumótun um fasteignir þjóðkirkjunnar.

Kirkjuþing samþykkir árlegar fjárhagsáætlanir um rekstur og viðhald fasteigna kirkjumálasjóðs.

[...] 1)

1) Starfsreglur 1024/2014

4. gr.

Kirkjuráð fylgir eftir samþykktri stefnumótum kirkjuþings um fasteignir.

Kirkjuráð annast fasteignaumsýslu á grundvelli samþykktrar fjárhagsáætlunar kirkjuþings og samkvæmt starfsreglum þessum.

Kirkjuráð ber ábyrgð á framkvæmd stefnumótunar og fasteignaumsýslu, skv. 1. og 2. mgr. gagnvart kirkjuþingi.

Kirkjuráð annast kaup og sölu fasteigna þjóðkirkjunnar og nýbyggingar. Sala fasteigna kirkjumálasjóðs skal háð samþykki kirkjuþings. Ákvarðanir kirkjuráðs um kaup og nýbyggingar skulu vera innan þeirrar fjárhagsáætlunar sem kirkjuþing hefur samþykkt.

[...] 1)

1) Starfsreglur 1024/2014

Kirkjuráð samþykkir samninga um fasteignir sem gilda lengur en fimm ár.

Kirkjuráð skipar sviðsstjóra fasteignasviðs, sbr. 8. gr. starfsreglna þessara og ræður annað starfsfólk sviðsins.

Forseti kirkjuráðs skuldbindur kirkjumálasjóð með undirritun á skjöl er varða fasteignir svo sem kaupsamninga, afsöl, veðleyfi, skuldabréf og skiptasamninga. Heimilt er kirkjuráði að samþykkja að framkvæmdastjóri kirkjuráðs eða staðgengill hans megi undirrita skjöl með sama skuldbindandi hætti og forseti kirkjuráðs. [Einnig er kirkjuráði heimilt að samþykkja að sviðsstjóri fasteignasviðs eða staðgengill hans geti undirritað skjöl með sama skuldbindandi hætti. Kirkjuráð getur takmarkað undirritunarheimildir samkvæmt framanskráðu við tilteknar tegundir skjala.]1)

1) Starfsreglur 1024/2014

5. gr. [...] 1)

1) Starfsreglur 1024/2014

6. gr.

[Kirkjuráð skal annast um rekstur fasteigna kirkjumálasjóðs. Það felst í því að annast viðhald eignanna í samræmi við samþykkta fjárhagsáætlun, gæta réttinda og varðveita þau sem tengjast eignunum, sjá um tryggingar og halda uppi lögskilum.

Kirkjuráð sér um að deiliskipulag sé fyrir hendi þar sem nauðsyn krefur eða lög bjóða og ákveður útlit fasteigna og umbúnað í meginatriðum.

Kirkjuráð semur tillögur að árlegri fjárhagsáætlun vegna reksturs fasteigna, er skulu lagðar fyrir kirkjuráð, eigi síðar en í júnímánuði árið á undan.

Kirkjuráð semur tillögur að þriggja ára framkvæmdaáætlun vegna viðhalds og ný­bygg­inga fasteigna fyrir kirkjuráð er skulu lagðar fyrir ráðið eigi síðar en í júnímánuði árið á undan.]1)

1) Starfsreglur 1024/2014

7. gr.

[Kirkjuráð veitir sóknum almenna fræðslu, ráðgjöf og leiðbeiningar um verklegar fram­kvæmdir á þeirra vegum. Kirkjuráð skal liðsinna og veita þeim sóknum faglega ráðgjöf sem hyggjast ráðast í nýbyggingar kirkna, safnaðarheimila, þjónustuhúsa eða meiri háttar viðhaldsframkvæmdir.]1)

1) Starfsreglur 1024/2014

8. gr.

[Fasteignasvið þjóðkirkjunnar skal starfrækt af kirkjuráði. Fasteignasviðið sinnir daglegum rekstri þeirra verkefna sem kirkjuráði eru falin í starfsreglum þessum, eftir nánari fyrir­mælum nefndarinnar og ráðsins.

Kirkjuráð skipar sviðsstjóra fasteignasviðs og felur honum að annast daglegan rekstur fasteigna og eignaumsýslu samkvæmt samþykktri fjárhags- og framkvæmdaáætlun. Kirkju­ráð skipar staðgengil sviðsstjóra.]1)

1) Starfsreglur 1024/2014

9. gr.

Sviðsstjóri ákveður umbúnað fasteigna kirkjumálasjóðs og ásýnd þeirra í samráði við fasteignanefnd. Skal hann m.a. taka tillit til fornminja, náttúruminja, húsafriðunar, umhverfisstefnu og ferðaþjónustu eftir því sem við getur átt.

10. gr.

Óheimilt er að vinna að endurbótum á fasteignum kirkjumálasjóðs eða stofna til útgjalda þeirra vegna nema á grundvelli samþykktrar fjárhags- og framkvæmdaáætlunar og með skriflegu samþykki sviðsstjóra fasteignasviðs.

III. Kafli. Prestssetur

11. gr.

Prestssetur, þar sem þess er getið í starfsreglum um skipulag kirkjunnar í héraði, er prestsbústaður ásamt lóð, eða prestssetursjörð með íbúðarhúsi, mannvirkjum og hlunnindum, Prestssetur er aðsetur þjónandi prests og hluti embættis hans. Prestssetur er í umsjá kirkjumálasjóðs og viðkomandi prests. Prestur skal eiga lögheimili á prestssetrinu og sitja prestssetrið, nema biskup heimili annað um stundarsakir, sbr. ákvæði 2. mgr. 42. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti Þjóðkirkjunnar nr. 78/1997.

Hafi kirkjumálasjóður ekki yfir húsnæði að ráða fyrir prest í prestakalli þar sem prestssetur skal vera er heimilt að semja við prestinn um leigu á húsnæði í hans eigu eða umsjá sem prestssetur í prestakallinu. Heimilt er að leigja húsnæði til bráðabirgða utan prestakalls fáist ekki viðunandi húsnæði innan þess.

12. gr.

[Kirkjuráð ásamt viðkomandi presti fer með málefni prestsseturs og almennt fyrirsvar þess. Kirkjuráð fer með stjórn prestssetursjarða gagnvart prestum á prestssetursjörðum samkvæmt ábúðalögum eftir því sem við getur átt og gegnir hlutverki leigusala gagnvart presti í prestsbústað með þeim afbrigðum sem leiðir af sérstöðu prestssetra.

Kirkjuráð setur prestum haldsbréf vegna afnota þeirra af prestssetrum. Skal það liggja fyrir þegar prestsembætti er auglýst.

Kirkjuráð gerir leigusamninga vegna prestssetra, hluta prestssetra eða réttinda, sem þeim tilheyra, aðra en þá sem prestum er heimilt að gera skv. ákvæðum haldsbréfa.]1)

1) Starfsreglur 1024/2014

13. gr.

Prestur hefur varðveisluskyldu gagnvart prestssetri, sem hann situr, enda þótt hann njóti ekki allra hluta þess.

Prestur skal gera kirkjuráði og prófasti viðvart án tafar ef hann telur að hlunnindi, ítök, greiðslumark, gæði eða réttindi prestssetursjarðar séu illa nýtt, vanrækt eða hætta á að þau gangi undan.

Um eftirlitsskyldu prófasta fer eftir ákvæðum gildandi starfsreglna um prófasta hverju sinni.]1)

1) Starfsreglur 1024/2014

14. gr.

Prestssetur skal ávallt tekið út við viðtöku og skil prests á því.

Prestur á rétt á úttekt er hann tekur við prestssetri eða ef verulegar endurbætur hafa farið fram á prestsbústað eða ef hann tekur við hluta prestsseturs sem hann hefur ekki haft til umráða áður.

Við úttekt prestssetursjarða skal fylgja ákvæðum ábúðalaga eftir því sem við á.
Kostnaður, vegna úttektarmanna þ.e. ferðakostnaður og vinna, skal greiddur af kirkjumálasjóði og presti.

15. gr.

[Prestur hefur öll lögmæt og eðlileg afnot prestsseturs meðan hann gegnir embætti sam­kvæmt haldsbréfi og gildandi starfsreglum hverju sinni. Prestur hefur umsjón með prests­setri og nýtur arðs og hlunninda skv. ákvæðum í haldsbréfi.

Prestur getur eigi ráðstafað prestssetri eða réttindum sem því tengjast, þannig að það bindi kirkjumálasjóð og/eða þannig að ráðstöfun gildi lengur en hann gegnir embætti sínu, án samþykkis kirkjuráðs og annarra lögmæltra aðilja hverju sinni.

Prestur getur ekki, án samþykkis kirkjuráðs, ráðstafað prestssetri nema í samræmi við eðlileg og hefðbundin not þess.

Alla samninga, sem fela í sér varanlega skerðingu eða breytingu á prestssetri, ásýnd þess - eða viðbætur við prestssetrið - gerir kirkjuráð, svo og löggerninga vegna réttinda sem undanskilin kunna að vera afnotarétti prests.]1)

1) Starfsreglur 1024/2014

16. gr.

[Presti er heimilt, með samþykki kirkjuráðs, að leigja prestssetur að hluta eða í heild, þriðja aðila um skamma hríð, t.d. meðan prestur er í leyfi.

Prestur í leyfi ber hvorki ábyrgð á né ber hann kostnað af prestssetri að hluta eða í heild ef afleysingaprestur fær það til afnota og leigu samkvæmt samningi við kirkjuráð.]1)

1) Starfsreglur 1024/2014

17. gr.

Að fengnu skriflegu leyfi sviðsstjóra fasteignasviðs hefur prestur umsjón með og kostar minniháttar lagfæringar á prestssetri umfram það sem presti er skylt skv. gildandi lögum hverju sinni.

18. gr.

Kirkjuráð getur leitað eftir fjárstuðningi viðkomandi sókna eða annarra aðila vegna byggingar prestsseturs eða hluta þess eða verulegra umbóta en slíkur stuðningur skal vera óafturkræfur og án skuldbindinga af hálfu kirkjumálasjóðs.

19. gr.

Kirkjuráði er heimilt að undanskilja hluta prestsseturs, þegar laus embætti sem prestssetur fylgir er auglýst. Skal það koma fram í auglýsingu um hið lausa embætti.

IV. Kafli. Leiga fasteigna, hlunninda, ítaka og annarra réttinda

20. gr.

[Kirkjuráð felur sviðsstjóra eða tilteknum starfsmanni fasteignasviðs að semja skriflega við alla þá sem nýta eignir kirkjumálasjóðs, hlunnindi, ítök og hvers kyns réttindi og stuðla með öllum ráðum að öruggri vörslu þessara eigna.]1)

1) Starfsreglur 1024/2014

21. gr.

Fjárhæð leigu allra fasteigna kirkjumálasjóðs svo og aðrir skilmálar skulu ákveðnir í skriflegum leigusamningi.

Leiga af prestssetrum, þ.e. jörðum og húsum, auk hlunninda, ítaka og annarra réttinda sem prestur nýtur vegna embættis síns, skal nema 3,3% af fasteignamati hins leigða á ári.
Leiga prestssetra í eigu kirkjunnar skal ekki vera lægri en kr. 36.000 á mánuði og ekki hærri en kr. 70.000 á mánuði og taka fjárhæðir þessar breytingum samkvæmt neysluvísitölu. Um leigu fyrir aðrar eignir er samið.

Ákvörðun um leigugjald af prestssetrum skal tekin fyrir ár í senn og skal því jafnað á gjaldaárið með mánaðarlegri greiðslu fyrirfram frá 1. mars til 28. febrúar. Tilkynna skal ákvörðun þessa eigi síðar en 1. febrúar ár hvert.

[Leiga af greiðslumarki sauðfjár og mjólkur skal nema 20% af beingreiðslum. Þó skal prestur ekki greiða leigu af þeim ærgildum sem áður fyrr fylgdu viðkomandi prestssetrum, enda sýni presturinn fram á þann rétt. [Kirkjuráð skal semja vinnureglur um úthlutun á greiðslumarki og meðferð þess.]1) ]2)

1) 1. gr. starfsreglna nr. 951/2010
2) Starfsreglur 1024/2014

22. gr.

[Kirkjuráði er heimilt að lækka eða fella niður tímabundið leigugjald frá því sem ákveðið er skv. 21. gr. vegna lögmætra leyfa prests eða veikinda. Kirkjuráði er einnig heimilt að lækka tímabundið leigugjald vegna kvaða eða sérstakra aðstæðna.

Ákvarðanir um lækkun leigu falla sjálfkrafa úr gildi ef forsendur lækkunar breytast eða þegar viðkomandi prestur lætur af embætti.]1)

1) Starfsreglur 1024/2014

23. gr.

[Prestur nýtur arðs af hreinum hlunnindatekjum prestsseturs, s.s. tekjum af veiði og leigu, sem ekki eru talin krefjast sérstaks vinnuframlags hans allt að kr. 600.000 á ári.]1) Ef slíkar hlunnindatekjur prestsseturs eru meiri skulu umframtekjur af þeim, allt að kr. 600.000 renna óskiptar í kirkjumálasjóð. Nemi slíkar heildar hlunnindatekjur af prestssetri hærri upphæð en kr. 1.200.000 á ári skal helmingur þeirra umframtekna renna til prestsins og helmingur til kirkjumálasjóðs. Þessi sérstöku hlunnindi skulu tilgreind nákvæmlega í haldsbréfi og skal getið um takmörkun arðgreiðslu í auglýsingu um embætti. Fjárhæð þessi tekur breytingum samkvæmt vísitölu neysluverðs frá gildistöku þessara starfsreglna.

[Við leigu annarra jarða en prestssetra er kirkjuráði heimilt að undanskilja tilgreind hlunnindi eða hluta jarðar samkvæmt nánari ákvörðun og leigja sérstaklega.]2)

1) 2. gr. starfsreglna nr. 951/2010
2) Starfsreglur 1024/2014

V. Kafli. Gildistaka

24. gr.

Starfsreglur þessar eru settar með heimild í 59. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997 og öðlast gildi 1. janúar 2010. Frá sama tíma falla brott starfsreglur um prestssetur nr. 1027/2007.

Ákvæði til bráðabirgða.
Ákvæði [21. og]1) 23. gr. hafa ekki áhrif á gildandi haldsbréf.

1) Starfsr. 951/2010