Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

Kirkjuþing

Starfsreglur um presta nr. 1110/2011

Almennt.

1. gr.

Prestsembættið skiptist í starf sóknarprests, héraðsprests, sérþjónustuprests og prests. Sú skipting er byggð á lögum og starfsreglum kirkjunnar og varðar starfssvið og ábyrgð einungis.

2. gr.

Samkvæmt köllun, vígsluheiti og vígslubréfi skal sérhver prestur hennar:

 • boða Guðs orð í anda evangelisk lúterskrar kirkju
 • hafa sakramentin um hönd
 • veita sálgæslu og hlýða skriftum og veita leiðsögn í andlegum efnum og trúarlífi
 • vera málsvari fátækra, boðberi réttlætis og kærleika Guðs
 • fræða unga sem eldri í sannindum fagnaðarerindisins
 • ferma, gifta, vitja sjúkra og nauðstaddra, jarðsyngja látna, styðja syrgjendur til huggunar
 • leggja sitt af mörkum í lífi og starfi þjóðkirkjunnar
 • leitast við að breiða út Guðs ríki í samfélaginu, og með því að styðja kristniboð og hjálparstarf.

3. gr.

Presti er skylt að sinna embætti sínu samkvæmt þeirri köllun sem hann hefur hlotið og vígslubréfi, svo og samkvæmt þeim lögum, reglum, siðareglum og samþykktum sem um starf hans gilda á hverjum tíma. Enn fremur ber presti að fara að ákvæðum ráðningar­samnings, ef því er að skipta og erindisbréfs.

Prestur sér til þess, svo sem honum er fært, að allt starf þjóðkirkjunnar í prestakallinu eða á starfssviði hans að öðru leyti gangi vel og greiðlega fyrir sig. Presti ber að sýna nauðsynlegt frumkvæði til að svo megi verða.

Presti ber að gæta ýtrustu hagkvæmni við embættisrekstur sinn.

Presti ber að hlýða löglegu boði biskups og fyrir hans hönd prófasts.

Presti ber að vera viðlátinn í prestakalli sínu eða starfsstöð á þeim tíma sem fyrirmæli, samningar eða lög bjóða.

Presti ber við rækslu starfa sinna að hafa samráð og samstarf við kirkjustjórnina, aðra presta, sóknarnefndir, starfsmenn safnaða og aðra þá aðila sem tengjast starfi hans eftir eðli málsins og því sem við getur átt.

Presti er skylt að færa embættisbækur, skýrslur og skrár og sinna skjalagerð, skjala­vistun og skýrsluskilum vegna embættisins samkvæmt nánari fyrirmælum biskups. Biskup getur ákveðið að skil á gögnum skuli vera rafræn.

Presti ber að viðhalda þekkingu sinni og menntun eftir föngum til að geta ávallt sem best sinnt starfi sínu.

Presti ber að láta í té þá aukaþjónustu eða afleysingaþjónustu sem óskað er eftir enda sé hún á starfssviði hans skv. starfsreglum þessum eða erindisbréfi.

Um erindisbréf presta.

4. gr.

Biskup gefur út erindisbréf fyrir hvern prest þjóðkirkjunnar, er lýsir almennum og sér­stökum starfsskyldum prestsins. Erindisbréf skal vera í fullu samræmi við vígslubréf prests, ráðningarsamning og starfslýsingu, ef því er að skipta.

Biskup getur skilgreint að tilteknu prestsembætti fylgi sérstakar viðbótarskyldur.

5. gr.

Erindisbréf prests taki til eftirfarandi atriða:

 1. skyldu prests til viðveru og bakvakta
 2. fastra viðtalstíma prests að lágmarki
 3. messuskyldu í sóknarkirkjum og kapellum í prestakalli
 4. skyldu til að færa lögboðnar embættisbækur, skrár og til að sinna lögboðinni skjalagerð vegna embættisins
 5. skyldu til aukaþjónustu og afleysingaþjónustu
 6. skyldu til að sinna aukaverkum og undirbúningi þeirra
 7. ákvæði um helgistundir og vitjanir á sjúkrastofnanir og sambýli á vegum heilbrigðisþjónustunnar
 8. ákvæði um önnur verk ótalin sem nauðsynlegt eða eðlilegt þykir að sinna.

6. gr.

Rísi ágreiningur um túlkun á erindisbréfi, geti prestur ekki sætt sig við erindisbréf eða sé ekki fallist á beiðni um breytingar á erindisbréfi má vísa málinu til úrskurðar biskups.

7. gr.

Breyta má erindisbréfi prests ef nauðsynlegt þykir og nýjar forsendur koma til, nýjar aðstæður skapast eða sérstök tilvik ber að höndum.

Um sóknarpresta og presta í prestaköllum.

8. gr.

Starfsvettvangur sóknarprests er sókn eða sóknir prestakallsins. Í hverju prestakalli skal vera sóknarprestur. Heimilt er biskupi að skipa prest til starfa í fjölmennum prestaköllum eða þar sem aðstæður gefa tilefni til.

Sóknarprestur er hirðir og leiðtogi safnaðarins og starfar við hlið sóknarnefndar.

Sóknarprestur og prestur eru samstarfsmenn í sóknum prestakallsins og ber að haga þjónustu sinni og samstarfi í samræmi við það. Báðir lúta þeir tilsjón prófasts og biskups.

9. gr.

Sóknarprestur er í fyrirsvari um kirkjulegt starf í sóknum prestakallsins og hefur forystu um mótun þess og skipulag. Í fyrirsvari og forystu sóknarprests felst ekki stjórnunarvald eða boðvald yfir presti.

Sóknarprestur ber ábyrgð á færslu embættisbóka prestakallsins og skil á skýrslum um embættisverk til biskupsstofu og Þjóðskrár.

Sóknarprestur skal taka þátt í gerð starfs-, rekstrar- og fjárhagsætlana sóknar sam­kvæmt starfsreglum þar um.

Sóknarprestur skal í samráði við sóknarnefnd taka ákvörðun um hvernig afnotum af kirkju er háttað, sbr. starfsreglur um kirkjur og safnaðarheimili og samþykktir um innri mál kirkjunnar, enda ber hann ábyrgð á því sem þar fer fram.

10. gr.

Sóknarprestar og prestar sem sitja prestssetur skulu gæta hagsmuna þess í samstarfi við þá er stýra málefnum prestssetra.

Sóknarprestum og prestum ber að láta í té þá aukaþjónustu í prófastsdæminu sem ákveðin er og að leysa af á vikulegum frídegi grannprests.

Sóknarprestum og prestum ber að hafa samstarf um kirkjulega þjónustu innan hvers prófastsdæmis undir tilsjón prófasts. Samstarf presta skal skv. þessu m.a. lúta að afleysingaþjónustu í sumarleyfum og á frídögum presta svo og þjónustu sem er með einhverjum hætti sameiginleg fyrir samstarfssvæði og prófastsdæmið í heild.

Sóknarpresti og presti er skylt að taka að sér aukaþjónustu eða annast tiltekin verkefni og þjónustu utan prestakalls síns samkvæmt boði biskups.

Sóknarprestur og prestur skulu sitja sóknarnefndarfundi, starfsmannafundi, héraðsfundi og fundi er biskup og prófastur boða til, nema forföll hamli eða nauðsyn banni.

11. gr.

Þar sem prestar eru fleiri en einn í prestakalli skulu þeir, undir forystu prófasts skipta form­lega með sér verkum samkvæmt því sem nánar er getið í starfsreglum þessum.

Starfsskyldur og réttindi sóknarprests og prests skulu jöfn nema hvað þau atriði varðar, sem sérstaklega er kveðið á um í lögum, starfsreglum og öðrum viðeigandi ákvæðum.

Tilgangur skiptingar starfa milli sóknarprests og prests skal vera að:

 • tryggja sóknarfólki sem besta þjónustu kirkjunnar
 • nýta hæfileika og styrkleika prestanna sem best
 • viðhalda góðum samstarfsanda
 • varna óþarfa álagi og starfskulnun.

12. gr.

Við skiptingu starfa ber að hafa hliðsjón af heildarskipulagi prestsþjónustu í prestakallinu, prófastsdæminu og á samstarfssvæði. Aukaverkum skal skipta jafnt milli presta eftir því sem við verður komið. Við ákvörðun um skiptingu starfa ber enn fremur að hafa hliðsjón af eftirtöldu:

 1. ábyrgð sóknarprests á starfrækslu embættisins
 2. vinnutíma og álagi sem fylgir einstökum verkefnum
 3. hvernig starf var auglýst og kynnt, ef því er að skipta
 4. sérstakri hæfni eða reynslu presta á ákveðnum sviðum
 5. stoðþjónustu annarra presta eða sérhæfðri prestsþjónustu sem kann að vera veitt í prestakallinu eða á samstarfssvæði
 6. skyldu til að sinna aukaþjónustu
 7. sérstökum atvikum eða aðstæðum í prestakalli eða á samstarfssvæði ef því er að skipta sem gera nauðsynlegt að grípa til sérstakra eða óvenjulegra ráð­stafana.

13. gr.

Breyta má skiptingu starfa hafi forsendur breyst. Komi upp ágreiningur um skiptingu starfa skal málinu vísað til prófasts til úrlausnar. Ef ekki tekst að jafna ágreining skal málinu vísað til vígslubiskups. Ef samkomulag tekst ekki skal biskup Íslands úrskurða um verkaskiptingu.

Um héraðspresta.

14. gr.

Héraðsprestur þjónar með prófasti og prestum í prófastsdæmum undir stjórn prófasts. Héraðsnefnd leggur honum til starfsaðstöðu á kostnað héraðssjóðs.

Héraðsprestur annast meðal annars afleysingar og skipuleggur fræðslumál á þjónustusvæði sínu.

Um starfsskyldur héraðspresta gilda að öðru leyti ákvæði starfsreglna um starfsskyldur presta eins og við getur átt.

15. gr.

Ef héraðsprestur er skipaður til þjónustu í fleiri en einu prófastsdæmi skal kveðið á um þjónustu hans í erindisbréfi sem biskup gefur út. Þar skal sérstaklega kveðið á um hvaða prófastur fari með umsjón og hvernig hlutaðeigandi héraðsnefndum ber að uppfylla skyldur sínar gagnvart héraðspresti.

Um sérþjónustupresta.

16. gr.

Sérþjónustuprestur er prestur sem skipaður er eða ráðinn til prestsþjónustu þar sem almennri prestþjónustu verður ekki við komið svo sem á sjúkrastofnunum, við fangelsi og meðal heyrnarlausra eða til annarrar þjónustu í biskupsdæminu. Að jafnaði skal sérþjónustuprestur hafa sérmenntun til starfans.

Biskup Íslands setur sérþjónustuprestum erindisbréf.

Um starfsskyldur sérþjónustupresta gilda að öðru leyti ákvæði starfsreglna um starfs­skyldur presta eins og við getur átt.

Tímabundin leyfi.

17. gr.

Nú koma fram ásakanir á hendur presti um refsiverða háttsemi og skal honum þá veitt launað leyfi á meðan á rannsókn stendur. Biskup getur áskilið í slíkum tilvikum að prestur veiti ekki tiltekna prestsþjónustu á meðan.

Gildistaka.

18. gr.

Starfsreglur þessar, sem settar eru skv. heimild í 59. gr. laga um stöðu, stjórn og starfs­hætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997, öðlast gildi 1. janúar 2012. Jafnframt falla brott starfs­reglur um presta nr. 735/1998 frá sama tíma.