Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

Kirkjuþing

Starfsreglur um leikmannastefnu nr. 874/2004

1. gr.

Biskup Íslands boðar til leikmannastefnu í samráði við leikmannaráð.

2. gr.

Leikmannastefna er vettvangur almennra skoðanaskipta um málefni leikmanna og faglegur samráðsvettvangur aðila.

3. gr.

Leikmannastefna:

Fjallar um málefni leikmanna, hlutverk og störf sókna og sóknarnefnda, svo og um starf kristilegra félagasamtaka og aðra þjónustu kirkjunnar við söfnuði landsins.

Kemur sameiginlega fram fyrir hönd leikmanna, sókna og sóknarnefnda gagnvart stjórnvöldum, stofnunum kirkjunnar, starfsmönnum hennar og samtökum þeirra svo og öðrum aðilum eftir því, sem við á.

Eflir þátttöku leikmanna í starfi kirkjunnar og kynni þeirra sín á milli.

[4. gr.

Á leikmannastefnu eiga sæti með málfrelsi, tillögurétt og atkvæðisrétt fulltrúar leikmanna fyrir hvert prófastsdæmi, sem kjörnir eru á héraðsfundum til fjögurra ára í senn alls 36 fulltrúar.

Fjöldi fulltrúa hvers prófastsdæmis skal vera sem hér segir:

Suðurprófastsdæmi 4 fulltrúar.
Kjalarnessprófastsdæmi 5 fulltrúar.
Reykjavíkurprófastsdæmi vestra 5 fulltrúar.
Reykjavíkurprófastsdæmi eystra 5 fulltrúar.
Vesturlandsprófastsdæmi 4 fulltrúar.
Vestfjarðaprófastsdæmi 3 fulltrúar.
Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi 3 fulltrúar.
Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi 4 fulltrúar.
Austurlandsprófastsdæmi 3 fulltrúar. 2)

Kjósa skal varamann fyrir hvern fulltrúa.

Gæta skal ákvæða laga um jafnan rétt og jafna stöðu karla og kvenna.]1)

1) Starfsr. 953/2010
2) Starfsr. 917/2010 Austurlandsprófastsdæmi stofnast 1. nóvember 2011. Þangað til eiga Múlaprófastsdæmi og Austfjarðaprófastsdæmi tvo fulltrúa hvort prófastsdæmi á leikmannastefnu sbr. ákvæði til bráðabirgða.

5. gr.

Leikmannastefnu með málfrelsi og tillögurétt sitja:

  1. Biskup Íslands eða fulltrúi hans.
  2. Forseti kirkjuþings eða varaforseti.
  3. Leikmenn á kirkjuþingi.
  4. Leikmenn í kirkjuráði.
  5. Aðrir þeir sem biskup Íslands tilnefnir hverju sinni í samráði við leikmannaráð.
  6. Fulltrúi frá hverjum þeim samtökum og félögum sem starfa á landsvísu innan þjóðkirkjunnar.

6. gr.

Héraðsfundur getur ekki tilnefnt kjörinn kirkjuþingsmann eða kirkjuráðsmann sem fulltrúa leikmanna í prófastsdæmi. Tilnefna má þó varamann á kirkjuþingi eða í kirkjuráði, sem ekki á sæti á kirkjuþingi, sem fulltrúa prófastsdæmis.

Ef tilnefndur fulltrúi leikmanna í prófastsdæmi er kjörinn á kirkjuþing eða í kirkjuráð sem aðalmaður eða tekur sæti þar sem varamaður, eftir að hann hefur verið tilnefndur til setu á leikmannastefnu, skal varamaður taka sæti hans. Kjósa skal nýjan aðalmann á næsta héraðsfundi þar á eftir sem situr út kjörtímabilið.

7. gr.

Afl atkvæða ræður úrslitum mála á leikmannastefnu. Hver fulltrúi á leikmannastefnu sem nefndur er í 4. gr. fer með eitt atkvæði á leikmannastefnu.

8. gr.

Fulltrúar leikmannastefnu kjósa leikmannaráð úr hópi leikmanna skv. 4. gr. til fjögurra ára. Leikmannaráð er skipað þremur mönnum og jafnmörgum til vara og skulu þeir skipta með sér verkum. Leikmannastefna getur samþykkt að auka fjölda fulltrúa í leikmannaráði.

Enn fremur er heimilt að kveða á í samþykktum leikmannastefnu, sbr. 9. gr. að kjósa skuli hluta leikmannaráðs á tveggja ára fresti. Leikmannaráð sér um undirbúning og framkvæmd leikmannastefnu í samráði við biskup Íslands og er í fyrirsvari fyrir leikmannastefnu milli stefna. Þá annast leikmannaráð um framkvæmd þeirra mála sem leikmannastefna vísar til ráðsins. Kosning til leikmannaráðs, nefnda og annarra trúnaðarstarfa á vegum leikmannastefnu skal vera skrifleg og leynileg. Heimilt er leikmannastefnu að kjósa þriggja manna uppstillingarnefnd er gerir tillögu um þá sem kjósa skal. Skal kveðið nánar á um störf uppstillingarnefndar og val til hennar í samþykktum leikmannastefnu, sbr. 9. gr.

9. gr.

Leikmannastefna setur á grundvelli þessara starfsreglna, samþykktir um fjármál, kosningar, stjórn, skipulag og viðfangsefni leikmannastefnu og leikmannaráðs, svo og þingsköp stefnunnar. Þeir aðilar sem eiga fulltrúa á leikmannastefnu, bera ferðakostnað af þátttöku hans.

10. gr.

Starfsreglur þessar, sem settar eru skv. heimild í 58. og 59. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997, öðlast gildi 1. janúar árið 2005. Jafnframt falla brott frá sama tíma starfsreglur um leikmannastefnu nr. 822/1999.

Ákvæði til bráðabirgða.
Þrátt fyrir ákvæði 4. gr. skal kjósa fulltrúa prófastsdæma á leikmannastefnu til tveggja ára á héraðsfundum 2005 samkvæmt ákvæðum starfsreglna þessara og sitja þeir fyrst leikmannastefnu 2006. Héraðsnefndir tilnefna viðbótarfulltrúa til setu á leikmannastefnu árið 2005 í prófastsdæmum þar sem fleiri en einn fulltrúi situr leikmannastefnu. Þrátt fyrir ákvæði 8. gr. skal kosið til leikmannaráðs á leikmannastefnu árið 2005. Kosið skal aftur til leikmannaráðs árið 2007.