Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

Kirkjuþing

Starfsreglur um kirkjutónlist á vegum þjóðkirkjunnar nr. 768/2002

1. gr.

Á vegum Þjóðkirkjunnar skal staðið að kirkjutónlistarmálum á grundvelli [tónlistarstefnu]1) Þjóðkirkjunnar sem Kirkjuþing samþykkir. Meginviðfangsefni hennar eru söngur og tónlistarflutningur við helgiathafnir kirkjunnar, fræðsla um kirkjutónlist og menntun starfsmanna á því sviði.

1) Starfsr. 954/2010 7. gr.

2. gr.

Biskup ábyrgist framkvæmd kirkjutónlistarstefnu í samræmi við önnur ákvæði starfsreglna þessara og setur nánari fyrirmæli um útfærslu hennar.

3. gr.

Framkvæmd kirkjutónlistarstefnu skal einkum felast í því að

  1. veita prestum, organistum, kirkjukórum og öðrum sem að kirkjulegu starfi koma, stuðning, aðstoð og ráðgjöf
  2. halda uppi kennslu í kirkjutónlist og líturgískum fræðum
  3. mennta organista til starfa.

4. gr.

Starfrækja skal Tónskóla þjóðkirkjunnar sem annast um menntun organista og kirkjutónlistarfræðslu, sbr. b og c lið 3. gr. Skólinn starfar eftir námsskrá sem Kirkjuráð samþykkir.

Meginverkefni skólans er að sjá til þess að ávallt sé nægur fjöldi organista og annarra starfsmanna á sviði kirkjutónlistar er hafi viðhlítandi menntun og færni til að sinna málefninu.

5. gr.

Tónskólinn heyrir undir Kirkjuráð. Kirkjuráð getur samið við kirkjulega aðila, ríki, sveitarfélög eða aðra um þjónustu er skólanum er ætlað að veita skv. 2. gr.

6. gr.

[Kirkjuráð skipar þriggja manna fagráð um kirkjutónlist – kirkjutónlistarráð – sem hafi yfirumsjón með kirkjutónlistinni og sé jafnframt stjórn Tónskóla þjóðkirkjunnar. Biskup tilnefnir formann ráðsins og einn til vara, stjórn Félags organleikara tilnefnir einn fulltrúa og einn til vara og stjórn prestafélagsins einn fulltrúa og einn til vara.

Kirkjutónlistarráð ber ábyrgð á að skólinn sinni skyldum sínum og haldi sig innan fjárheimilda hverju sinni.]1)

1) Starfsreglur 1025/2014

7. gr.

[Skólastjóri Tónskólans í samráði við kirkjutónlistarráð gerir árlega starfs – og rekstraráætlun og leggur fyrir Kirkjuráð til samþykktar fyrir lok septembermánaðar. Starfs- og rekstrarár skólans er almanaksárið. Skólastjóri ber ábyrgð á að ársreikningur sé gerður á hverju reikningsári og að samin skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár. Kirkjutónlistarráð og skólastjóri skulu undirrita ársreikninginn. Endurskoðaðir reikningar skulu lagðir fyrir Kirkjuráð.]1)

1) Starfsreglur 1025/2014

8. gr.

Stjórnin, í samráði við Kirkjuráð, ræður skólastjóra og setur honum erindisbréf. Skólastjóri annast daglega yfirstjórn skólans og ræður annað starfsfólk hans í samráði við stjórn. Heimilt er að semja við annan aðila um rekstrarþjónustu við skólann svo sem um fjárhald og bókhald, rekstur húsnæðis, skrifstofu og upplýsingakerfis, annan almennan skrifstofurekstur og aðra sambærilega þætti.

9. gr.

[Færa skal til bókar meginatriði þess sem fram fer á fundum kirkjutónlistarráðs og ákvarðanir þess. Fundargerðir skulu sendar Kirkjuráði reglulega.]1)

1) Starfsreglur 1025/2014

10. gr.

Tónskólanum er heimilt að afla sértekna samkvæmt gjaldskrá er staðfest skal af Kirkjuráði.

11. gr.

Starfsreglur þessar sem settar eru með heimild í 59. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997, öðlast gildi 1. janúar árið 2003. Frá sama tíma falla brott starfsreglur um söngmál og tónlistarfræðslu á vegum Þjóðkirkjunnar nr. 825/2000.

Ákvæði til bráðabirgða.
Umboð núverandi stjórnar Tónskólans gildir til loka júnímánaðar 2003.