Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

Kirkjuþing

Starfsreglur um kirkjur og safnaðarheimili nr. 822/2000

1. gr.

Í starfsreglum þessum merkir orðið kirkja vígt guðshús, ásamt innanstokksmunum og gripum. Eftirtaldir flokkar kirkna falla undir starfsreglur þessar:

 1. Sóknarkirkjur. Guðshús sem ákveðin kirkjusókn stendur að og nýtt er af söfnuði til reglulegs helgihalds.
 2. Kapellur og önnur guðshús sem nýtt eru til helgihalds eftir nánari ákvörðun umráðanda og hlutaðeigandi presta.
 3. Greftrunarkirkjur, sbr. 3. mgr. 20. gr. laga um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu nr. 36/1993. Guðshús sem eingöngu eru nýtt við greftranir.
 4. Útfararkirkjur, sbr. 1. ml. 2. mgr. 20. gr. laga um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu nr. 36/1993. Önnur guðshús en greftrunarkirkjur, sem nýtt eru við útfarir.
 5. Höfuðkirkjur, sbr. a lið 1. mgr. 6. gr. laga um sóknargjöld o. fl. nr. 91/1987, sbr. 2. gr. reglugerðar um Jöfnunarsjóð sókna nr. 206/1991. Þær sóknarkirkjur sem hafa sérstöðu umfram aðrar sóknarkirkjur.
 6. Bændakirkjur og lénskirkjur, sbr. lög um umsjón og fjárhald kirkna nr. 22/1907.
 7. Bænhús. Bænhús nefnast þær kirkjur, sem ekki eru sóknarkirkjur. Bænhúsi getur fylgt kirkjugarður, og er þá fjárhagur þeirra sameiginlegur, enda sé það einnig greftrunarkirkja.

2. gr.

Heimilt er einstaklingum og samtökum að stofna félag um bænhús. Stjórn þess skal skipuð þremur mönnum til fjögurra ára: Presti, umsjónarmanni kirkjunnar og fulltrúa kosnum af héraðsfundi. Héraðsnefnd kýs 2 skoðunarmenn ársreikninga.

3. gr.

Í starfsreglum þessum merkir orðið safnaðarheimili hús sem lýtur eignarráðum safnaðar og nýtt er til safnaðarstarfs. Reglur þessar taka einnig til húsnæðis sem er hluti af kirkjubyggingu og nýtt er í sama skyni. Enn fremur gilda reglurnar um húseignir sem söfnuður nýtir skv. 1. ml. í samstarfi við annan aðila, eins og við getur átt.

4. gr.

Umráð kirkju og safnaðarheimilis felast í ábyrgð á – og rétti til – rekstrar og stjórnar, svo og til hagnýtingar fjár og tekjustofna sem fylgja í því skyni.

Umráðandi kirkju og safnaðarheimilis er sóknarnefnd þar sem kirkja og safnaðarheimili stendur, nema lög mæli annan veg, sbr. og starfsreglur um sóknarnefndir.

Sóknarnefnd fer ekki með umráð ef um bændakirkju eða lénskirkju er að ræða sem ekki hefur verið afhent söfnuði, sbr. lög nr. 22/1907. Sama á við um kirkjur sem reistar hafa verið að tilstuðlan ríkis eða annarra aðila og á þeirra kostnað og ekki hafa verið afhentar söfnuði.

Ef um greftrunarkirkju er að ræða er hlutaðeigandi kirkjugarðsstjórn umráðandi hennar.

5. gr.

Ef umráðandi telur að kirkju sé ekki lengur þörf, sbr. 1. gr., en telja má æskilegt að varðveita hana, getur hann leitað aðstoðar kirkjuráðs um ráðstöfun hennar. Hafa skal samráð við hlutaðeigandi sóknarprest, prófast og vígslubiskup um þá ráðstöfun, svo og þjóðminjavörð og önnur stjórnvöld eða hagsmunaaðila eftir því sem við á.

Ef um er að ræða kirkju í mannlausri sókn eða kirkju sem hefur verið yfirgefin og engum er til að dreifa sem getur talist lögmætur umráðandi, er prófastur umráðandi kirkjunnar uns annað hefur verið ákveðið.

6. gr.

Ef umráðandi óskar að breyta kirkju eða afnotum hennar á þann veg sem ekki samrýmist helgi hennar og vígslu og telja má að kirkjulegu starfi sé ekki búin umtalsverð röskun af slíkri ráðstöfun, svo og ef fyrir liggur samþykki hlutaðeigandi yfirvalda og hagsmunaaðilja, annarra en kirkjulegra, eftir því sem við á í hverju tilviki og lög bjóða, skal sóknarprestur lýsa því í sérstakri athöfn, að hún gegni eigi framar hlutverki sem vígt guðshús sbr. 1. gr. Leita skal samþykkis kirkjuráðs, sem leitar umsagnar hlutaðeigandi sóknarprests, prófasts og vígslubiskups áður en úrlausn er veitt.

Að jafnaði skal umráðandi fjarlægja altari, predikunarstól, skírnarfont, gráður, kross af turni, altaristöflu og aðra gripi sem eru tákn kristinnar kirkju og nýttir til helgihalds og njóta helgi, áður en afhelguð kirkja er tekin til annarra nota. Frá þessu má víkja ef helgi þykir ekki raskað, eða umtalsverðum hagsmunum öðrum og prófastur og vígslubiskup samþykkja. Prófastur sér til þess að gripir þessir og gögn fái lögmæta og viðeigandi meðhöndlun.

Ef umráðandi óskar að taka kirkju ofan, skulu sömu reglur eiga við og greinir í 1. mgr. en leita skal álits þjóðminjavarðar um það hvort varðveita skuli kirkju annars staðar.

Kirkjusókn er ekki skylt að bera kostnað af slíkri varðveislu, hvorki þar sem kirkja var né þar sem hún verður, ef því er að skipta. Að jafnaði skal marka þann stað þar sem altari kirkjunnar var.

7. gr.

Ábyrgð á helgihaldi í kirkju og öðru því sem þar fer fram er á hendi hlutaðeigandi sóknarprests í samráði við sóknarnefnd. Ef um kirkju er að ræða sem einvörðungu eða að langmestu leyti er nýtt í tengslum við sérþjónustu er ábyrgð á hendi hlutaðeigandi sérþjónustuprests í samráði við umráðanda.

Ábyrgð á starfsemi í safnaðarheimilum og því sem þar fer fram er á hendi umráðanda í samráði við sóknarprest.

8. gr.

Kirkjur eru fráteknar til helgra athafna. Má ekkert fara þar fram sem ekki samrýmist helgi þeirra. Hlutaðeigandi prestur og umráðandi geta sett nánari fyrirmæli um afnot kirkju og umgengni á grundvelli 1. og 2. ml. ákvæðis þessa, en ekki má leyfa neina þá notkun sem ekki samrýmist vígslu hennar. Í slíkum fyrirmælum skal eftir því sem við á, kveðið á um almennan aðgang að kirkjunni utan helgihalds. Ennfremur skal þar tilgreint hvaða önnur starfsemi má fara þar fram en hin kirkjulega.

9. gr.

Hvorki má nota myndir af kirkjum eða munum þeirra sem vörumerki eða í auglýsingaskyni né gefa út myndir eða eftirlíkingar af kirkjum nema með samþykki umráðanda og hlutaðeigandi prests.

10. gr.

Safnaðarheimili eru ætluð til almenns safnaðarstarfs. Heimilt er umráðanda að ráðstafa húsnæði safnaðarheimilis með öðrum hætti. Þess skal þó jafnan gætt að ekkert fari þar fram sem samrýmist ekki starfi safnaðarins.

11. gr.

Kirkjur og safnaðarheimili skulu auðkennd með táknum kristinnar kirkju.

12. gr.

Öll umgengni um kirkjur og safnaðarheimili skal vera snyrtileg. Prýða skal umhverfi eins og kostur er og gæta vel umhirðu og viðhalds í hvívetna.

Eigi má geyma í kirkju annað en muni hennar og búnað og hluti er varða safnaðarstarfið. Forna muni kirkjunnar skal varðveita þar, sé geymsla þeirra þar talin tryggileg að mati prófasts og þjóðminjavarðar, sbr. gildandi þjóðminjalög á hverjum tíma.

13. gr.

Kirkjur og safnaðarheimili lúta tilsjón prófasts og biskups.

14. gr.

Biskup setur hverri kirkju máldaga, kirkjuskrá. Í máldaga skal greina eignir kirkju, tekjustofna og réttindi, kvaðir er á kirkju kunna að hvíla, sóknarmörk og þjónusturétt, sem sóknin á tilkall til. Máldagann og breytingar á honum skal skrá í sérstaka bók, máldagabók, er biskup löggildir. Afrit máldagans skal vera í vörslu biskups. Öðrum guðshúsum, sbr. stafliði b-g í 1. gr. skal einnig settur máldagi. Sóknarnefnd varðveitir máldagabók og ber ábyrgð á að máldagi greini jafnan frá eignum og réttindum kirkju. Í máldagabók skal einnig skrá eins haldgóðar upplýsingar og völ er á um kirkjuna, byggingarsögu hennar, endurbætur, viðhald, búnað og kirkjumuni er kirkjan á. Biskup og prófastur kanna máldaga er þeir vísitera, árita máldagabækur og gera athugasemdir ef efni þykja standa til þess.

Máldagar þeir, er greinir í erindisbréfi handa biskupum 1. júlí 1746, 16. gr., sbr. konungsbréf frá 5. apríl 1749, sem löggildir máldaga Gísla biskups Jónssonar, gilda svo sem tíðkast hefur. Eldri máldaga kirkju skal eftir föngum skrá í máldagabók.

15. gr.

Nú verður ágreiningur um fornar eignir og réttindi kirkna og eru þá eftirgreindar skrár áreiðanlegar og löggiltar kirkjuskrár og máldagabækur, sbr. erindisbréf handa biskupum 1. júlí 1746, 16 gr. og konungsbréf 5. apríl 1749, sem löggildir máldaga Gísla biskups Jónssonar, gilda sem tíðkast hefur.

 1. Máldagabók Vilchins biskups frá 1397.
 2. Registur og máldagabók Auðunar biskups frá 1318.
 3. Jóns biskups Eiríkssonar frá 1360.
 4. Péturs biskups Þorsteinssonar frá 1394.
 5. Ólafs biskups Rögnvaldssonar frá 1461.
 6. Sigurðarregistur frá 16. öld.
 7. Máldagabók Gísla biskups Jónssonar frá um 1570.

Skulu gögn þessi lögð til grundvallar í dómsmálum, nema hnekkt sé.

Ákvæði þessarar greinar taka einnig til ágreinings um búnað og muni kirkna eftir því sem við getur átt.

[16. gr.

... ] 1)

1) Starfsreglur nr. 1030/2007, 7 . gr.

[17. gr.

... ] 1)

1) Starfsreglur nr. 1030/2007, 7 . gr.

[18. gr.

... ] 1)

1) Starfsreglur nr. 1030/2007, 7. gr.

19. gr.

Ákvörðun sóknarnefndar, safnaðarfunda og byggingarnefndar um gerð kirkju og safnaðarheimila, stækkun eða aðrar breytingar á þeim byggingum, skal háð samþykki kirkjuráðs, enda verði ráðinu málið kynnt [...] 1) áður en til ákvörðunar kemur.

1) Starfsreglur nr. 1030/2007, 7 . gr.

[20. gr.

... ] 1)

1) Starfsreglur nr. 1030/2007, 7. gr.

21. gr.

Vígja skal kirkju sem reist er eða endurbyggð frá grunni, sbr. ákvæði Kristinréttar Árna biskups Þorlákssonar 1275, enda sé hún vígsluhæf að dómi prófasts.

[22. gr.

Starfsreglur um skipan sókna, prestakalla og prófastsdæma nr. 731/1998 breytast sem hér segir:

Í 1. ml. 2. mgr. 9. gr. falli brott orðin „sbr. reglur um kirkjur og kirkjubyggingar samþykktar á kirkjuþingi 1994“.

Við 3. ml. 9. gr. bætast við orðin: eða greftrunarkirkjur.

Við 2. mgr. 9. gr. bætist nýr málsliður svohljóðandi: Þar sem hefð stendur til er heimilt að þær haldi kirkjunafni sínu. ]1

1) Starfsreglur 770/2002, 2. og 3 gr.

[23. gr.

Starfsreglur þessar sem settar eru samkvæmt heimild í 59. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997 öðlast gildi 1. janúar 2001. Frá sama tíma falla brott reglur um kirkjur og kirkjubyggingar samþykktar á kirkjuþingi 1994.]1

1) Starfsreglur 770/2002 ,2. og 3. gr.