Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

Kirkjuþing

Starfsreglur um íslensku þjóðkirkjuna erlendis nr. 1003/2005

1. gr.

Íslenska þjóðkirkjan erlendis er sérstakt viðfangsefni þjóðkirkjunnar og heyrir undir biskup Íslands.

2. gr.

Íslenska þjóðkirkjan erlendis sinnir boðun trúar, fræðslu og kærleiksþjónustu meðal Íslendinga á erlendri grundu, með helgihaldi, sálgæslu, uppfræðslu í trú og sið.

3. gr.

Um störf og starfsskyldur presta sem starfa innan vébanda íslensku þjóðkirkjunnar erlendis gilda, auk ákvæða starfsreglna þessara, ákvæði starfsreglna um presta, svo og önnur ákvæði íslenskra réttarheimilda eftir því sem við á.

Prestar íslensku þjóðkirkjunnar erlendis starfa á grundvelli erindisbréfs sem biskup setur þeim.

4. gr.

Prestarnir veita íslensku sendiráðunum og stjórnvöldum þjónustu eftir því sem um semst.

5. gr.

Biskupsstofa hefur þessi verkefni með höndum fyrir íslensku Þjóðkirkjuna erlendis:

  1. Umsjón með þjónustu, starfrækslu og fjárreiðum þeirra embætta sem biskup semur um.
  2. Aðstoð við öflun fjár til starfseminnar og undirbúning samningsgerðar um embætti við hlutaðeigandi aðilja, svo sem Tryggingastofnun ríkisins, ráðuneyti, kirkjuleg stjórnvöld erlendis og íslenska söfnuði.
  3. Kynningu á starfseminni jafnt innan kirkjunnar sem utan.
  4. Önnur verkefni eftir nánari ákvörðun Biskups.

6. gr.

Biskup ákveður hvar skuli veita prestsþjónustu meðal Íslendinga erlendis með þeim fjárhagsskorðum sem settar eru í 7. gr.

7. gr.

Til þjónustu íslensku þjóðkirkjunnar erlendis er heimilt að nýta sértekjur og andvirði þriggja þeirra prestsembætta er getur í 60. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997, að meðtöldum embættiskostnaði við jafnmörg prestsembætti á Íslandi.

[Heimilt er ákvarða og greiða embættiskostnað og annan kostnað en laun í mynt þess lands þar sem viðkomandi prestur starfar.] ¹

¹) Starfsreglur nr. 1075/2008 1. gr.

8. gr.

Valnefnd velur prest úr hópi umsækjenda. Valnefnd skal skipuð þremur fulltrúum sem valdir eru af viðkomandi safnaðarstjórnum og einum skipuðum af biskupi Íslands og er sá formaður valnefndar. Ef prestsembættið er samstarfsverkefni íslensku þjóðkirkjunnar og ráðuneytis og/eða ríkisstofnunar þá skulu samstarfsaðilar tilnefna einn fulltrúa hver.

9. gr.

Biskup Íslands kallar að jafnaði annað hvert ár til samráðsfundar íslensku þjóðkirkjunnar erlendis. Fundurinn skal vera samstarfs- og samráðsvettvangur um hvaðeina er lýtur að þjónustu þjóðkirkjunnar á erlendri grundu, stefnumótun og fjáröflun. Til fundarins skal bjóða einum fulltrúa frá hverjum söfnuði íslensku kirkjunnar erlendis. Biskupsstofa greiðir ferðastyrk fyrir fulltrúa og annan kostnað af fundinum.

10. gr.

Starfsreglur þessar sem settar eru á grundvelli 59. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997 öðlast gildi 1. janúar 2006. Jafnframt falla brott starfsreglur um íslensku þjóðkirkjuna erlendis nr. 737/1998 brott frá sama tíma.