Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

Kirkjuþing

Starfsreglur um héraðsfundi og héraðsnefndir nr. 965/2006

1. gr.

Héraðsfundur er aðalfundur prófastsdæmis og fjallar um málefni sem varða starf þjóðkirkjunnar í prófastsdæminu. Þar fara fram starfsskil héraðsnefndar vegna síðasta árs, svo og reikningsskil héraðssjóðs. Héraðsfundur samræmir og markar sameiginlegt kirkjustarf í prófastsdæminu og ráðstafar héraðssjóði fyrir næsta ár.

Héraðsfundur samræmir og markar sameiginlegt kirkjustarf í prófastsdæminu og afgreiðir fjárhagsáætlun héraðssjóðs fyrir næsta ár.

2. gr.

Á héraðsfundi mæta:

  1. þjónandi prestar í prófastsdæminu
  2. safnaðarfulltrúar og formenn sóknarnefnda eða varamenn þeirra
  3. djáknar, starfandi í prófastsdæminu
  4. kirkjuþingsmenn viðkomandi kjördæmis
  5. fulltrúar prófastsdæmisins á leikmannastefnu.

Vígslubiskupi umdæmisins skal boðið að sitja héraðsfund með málfrelsi og tillögurétt.

Starfsmönnum sókna og prófastsdæmis svo og öllum áhugamönnum innan Þjóðkirkjunnar um kirkjuleg málefni er heimilt að mæta á héraðsfundi með málfrelsi og tillögurétt.

Á héraðsfundi hafa atkvæðisrétt tveir fulltrúar frá hverri sókn, sbr. b-lið, starfandi prestar og djáknar. Afl atkvæða ræður úrslitum mála á héraðsfundi. Verði atkvæði jöfn ræður atkvæði prófasts.

3. gr.

Héraðsfund skal halda eigi síðar en 15. júní ár hvert. Héraðsnefnd ákveður fundarstað.

4. gr.

Prófastur boðar héraðsfund skriflega með hálfs mánaðar fyrirvara og skal í fundarboði greina frá dagskrá fundar. Fundarboð skal sent öllum sóknarnefndum, prestum og djáknum í prófastsdæminu, fulltrúum á Kirkjuþingi í kjördæminu og fulltrúum prófastsdæmisins á leikmannastefnu, sbr. starfsreglur um leikmannastefnu. Fundurinn skal einnig auglýstur.

Rétt boðaður fundur er lögmætur.

5. gr.

Dagskrá héraðsfundar:

1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
2. Skýrsla héraðsnefndar um starfsemi liðins árs þar sem m.a. skal getið um framkvæmd ályktana og samþykkta síðasta héraðsfundar
3. Ársreikningar héraðssjóðs til samþykktar
4. Starfsáætlun héraðsnefndar þ.m.t styrkir og fjárhagsáætlun héraðssjóðs fyrir næsta almanaksár til samþykktar
5. Starfsskýrslur sókna, nefnda, héraðsprests og annarra starfsmanna prófastsdæmisins lagðar fram svo og ársreikningar sókna og kirkjugarða
6. Mál er varða Kirkjuþing, tekin til umfjöllunar og afgreiðslu
7. Samþykktir Prestastefnu og Leikmannastefnu kynntar
8. Ákvörðun um greiðslur til kjörinna héraðsnefndarmanna fyrir störf þeirra á liðnu ári
9. Sameiginleg mál sóknarnefnda er varða rekstur og starfsmannahald
10. Kosningar:

a) kosning aðalmanna og varamanna til héraðsnefndar, annarra en formanns, til tveggja ára í senn
b) kosning tveggja skoðunarmanna eða endurskoðenda reikninga héraðssjóðs og tveggja til vara til tveggja ára í senn
c) kosning fulltrúa og varamanna þeirra á leikmannastefnu til fjögurra ára í senn, sbr. starfsreglur um leikmannastefnu
d) kosning aðalmanns og varamanns til fulltrúaráðs Hjálparstarfs kirkjunnar til tveggja ára í senn

11. Aðrar kosningar eða tilnefningar sem heyra undir héraðsfund
12. Önnur mál.

6. gr.

Prófastur boðar aukahéraðsfund, ef þurfa þykir. Skylt er að boða slíkan fund, ef fjórðungur atkvæðisbærra héraðsfundarmanna óskar þess¸eða ef Kirkjuráð mælir svo fyrir. Ákvæði starfsreglna þessara eiga við um slíka fundi eins og við getur átt.

7. gr.

Héraðsnefnd er framkvæmdanefnd héraðsfundar. Hún er í fyrirsvari fyrir prófastsdæmið að því er varðar sameiginleg málefni prófastsdæmisins.

Héraðsnefnd skipa þrír menn. Formaður nefndarinnar er starfandi prófastur.

Héraðsfundur kýs aðra nefndarmenn, einn prest og einn leikmann, til tveggja ára í senn og varamenn þeirra með sama hætti. Nefndin skiptir að öðru leyti sjálf með sér verkum.

8. gr.

Verkefni héraðsnefndar eru sem hér segir:

  1. Héraðsnefnd fylgir eftir samþykktum héraðsfunda og sendir þær biskupi, vígslubiskupi og öðrum, sem hlut eiga að máli.
  2. Héraðsnefnd fer með stjórn héraðssjóðs, sbr. 12. gr.
  3. Héraðsnefnd ræður starfsmenn til að gegna einstökum verkefnum, sem héraðsfundur hefur samþykkt.
  4. Héraðsnefnd leggur fram starfs- og fjárhagsáætlun á héraðsfundi og ber ábyrgð á framkvæmd hennar. Heimilt er héraðsnefnd að skipa starfshópa eða nefndir til að vinna að einstökum þáttum starfsáætlunar.
  5. Héraðsnefnd sér til þess að starfsemi og rekstur, samkvæmt ákvörðunum héraðsfundar, færsla bókhalds, varsla gagna og önnur atriði í rekstri séu jafnan í góðu horfi.

9. gr.

Prófastur kveður héraðsnefnd saman til fundar svo oft sem þörf krefur. Skylt er að halda fund ef tveir nefndarmanna óska þess. Nefndarmenn fá greidda reikninga fyrir útlagðan kostnað úr héraðssjóði. Nefndarmenn fá greidda þóknun fyrir fundarsetu, en þó ekki prófastur.

10. gr.

Starfræktur skal héraðssjóður er styrkir eða kostar kirkjulega starfsemi innan prófastsdæmis, einkum er varðar samstarf og samstarfsverkefni sókna, fræðslu, málþing, náms- og mótsferðir, fundi og einstök þróunarverkefni. Héraðsjóði er heimilt að styrkja, kosta eða veita sameiginlega þjónustu fyrir sóknir sem eru í formlegu samstarfi innan prófastsdæmisins.

11. gr.

Héraðssjóður greiðir að jafnaði ekki laun utan nefndarlaun og laun sérstakra starfsmanna prófastsdæmisins, sbr. 3. tl. 8. gr. Héraðssjóður styrkir að jafnaði ekki hefðbundið safnaðarstarf einstakra sókna, sbr. starfsreglur um sóknarnefndir nr. 732/1998, nýbyggingar og viðhald bygginga. Héraðssjóður styrkir ekki það sem fellur undir embættiskostnað presta og prófasta, sbr. starfsreglur um rekstrarkostnað prestsembætta og prófastsdæma.

12. gr.

Tekjur héraðssjóðs eru sértekjur og allt að 5% sóknargjalda prófastsdæmisins samkvæmt ákvörðun héraðsfundar.

13. gr.

Héraðsnefnd fer með stjórn héraðssjóðs. Prófastur er formaður sjóðsins, gjaldkeri fer með umboð (prókúru) hans og ritari skráir fundargerð. Hún ákveður úthlutanir úr sjóðnum og sér um reikningshald hans. Héraðsnefnd skal leggja fram ársreikninga liðins almanaksárs og fjárhagsáætlun næsta almanaksárs til samþykktar á héraðsfundi.

14. gr.

Endurskoðun reikninga sjóðsins annast tveir endurskoðendur eða skoðunarmenn kjörnir af héraðsfundi til tveggja ára í senn.

15. gr.

Starfsreglur þessar, sem settar eru skv. heimild í 32., 55. og 57. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997, öðlast gildi 1. janúar 2007. Jafnframt falla brott starfsreglur um héraðsfundi og héraðsnefndir nr. 733/1998 frá sama tíma.

Ákvæði til bráðabirgða.
Kjósa skal til héraðsnefndar til tveggja ára, sbr. 7. gr., á héraðsfundum 2007.

Heimilt er að kjósa annan fulltrúann til eins árs þegar kosið er í fyrsta sinn eftir þessum reglum þannig að leikmaður verði eftirleiðis kosinn annað hvort ár og prestur hitt.