Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

Kirkjuþing

Starfsreglur um Fjölskylduþjónustu kirkjunnar nr. 951/2009

1. gr.

Á vegum þjóðkirkjunnar skal starfrækja Fjölskylduþjónustu kirkjunnar sem veitir sérhæfða þjónustu í fjölskyldumálum á grundvelli kristinna lífsgilda. Fjölskylduþjónustan er á sviði sálgæslu- og kærleiksþjónustu kirkjunnar og lýtur faglegri forystu biskups Íslands, en heyrir að öðru leyti undir kirkjuráð.

2. gr.

Með sérhæfðri þjónustu kirkjunnar í fjölskyldumálum er átt við að

  1. styðja fjölskyldur sem þess óska með viðtölum, ráðgjöf og fræðslu
  2. styðja og efla presta og djákna í samskiptum við fjölskyldur, svo sem í viðtölum, í sáttaumleitunum, fræðslustarfi og ráðgjöf.

3. gr.

Fjölskylduþjónusta kirkjunnar annast handleiðslu presta, djákna og annarra starfsmanna kirkjunnar eftir því sem við á. Biskup og kirkjuráð setja reglur um fyrirkomulag handleiðslunnar og kostnað.

4. gr.

Kirkjuráð ræður forstöðumann Fjölskylduþjónustu kirkjunnar og skal hann vera prestur með sérmenntun á starfssviði stofnunarinnar. Hann ræður starfsfólk í samráði við biskup Íslands. Kirkjuráð setur forstöðumanni erindisbréf.

5. gr.

Forstöðumaður og starfsfólk er bundið þagnarskyldu um það sem leynt á að fara þ.e. málefni skjólstæðinga, og annað sem lýtur að rækslu starfa þeirra og málefni stofnunarinnar. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

6. gr.

Fjölskylduþjónustunni er heimilt að afla sértekna samkvæmt gjaldskrá er staðfest skal af kirkjuráði.

7. gr.

Starfsreglur þessar, sem settar eru með heimild í 59. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997, öðlast gildi 1. janúar árið 2010. Frá sama tíma falla á brott starfsreglur um sérhæfða þjónustu kirkjunnar við fjölskylduna nr. 824/2000

Ákvæði til bráðabirgða.
Þrátt fyrir ákvæði 4. gr. ræður kirkjuráð forstöðumann úr röðum starfsmanna stofnunarinnar tímabundið.