Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

Kirkjuþing

Starfsreglur um biskupafund nr. 964/2006

1. gr.

Biskup Íslands boðar vígslubiskupa til biskupafundar, sbr. 19. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997 og stýrir honum.

2. gr.

Biskupafundur er haldinn ársfjórðungslega og oftar ef þurfa þykir.

3. gr.

Biskupafundur fjallar um málefni sem lög, starfsreglur, ályktanir og samþykktir kveða á um varðandi trú og kenningu kirkjunnar, helgisiði og helgihald. Biskupafundur býr mál er varða trú, kenningu, helgisiði og helgihald í hendur Kirkjuþings sbr. 20. gr. laga 78/1997.

4. gr.

Biskupafundur er haldinn til samráðs um biskupsþjónustuna og upplýsinga um málefni kirkju og kristni.

Biskupafundur skipuleggur vísitasíur biskups Íslands og vígslubiskupa og gerir samræmda áætlun um þær.

5. gr.

Biskupafundur endurskoðar árlega skipan sókna, prestakalla og prófastsdæma. Biskupafundur gerir tillögur um þau efni á grundvelli gildandi laga og starfsreglna, þingsályktana og stefnumörkunar Kirkjuþings og býr mál er varða breytingar í þeim efnum í hendur Kirkjuþings. Biskupafundur fjallar auk þess um allar tillögur um þessi efni sem kunna að berast og býr þær til flutnings á Kirkjuþingi eftir því sem málavextir gefa tilefni til og greinir Kirkjuþingi frá málsmeðferð. .

6. gr.

Starfsreglur þessar sem settar eru á grundvelli 19. gr. og 59. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997 öðlast gildi 1. janúar 2007.

Jafnframt falla brott starfsreglur um biskupafund nr. 819/2000 frá sama tíma.