Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

Kirkjuþing

Reglur um umferð og athafnir í kirkjugörðum Keflavíkur, lóðum þeirra og löndum nr. 203/1971

1. gr. Kirkjugarðarnir eru friðhelgir. Þar er bönnuð öll óþarfa umferð, leikir og hvers konar hávaði.

2. gr. Börn mega eigi hafast þar við, nema í fylgd með fullorðnum, sem þá beri ábyrgð á hegðun þeirra.

3. gr. Öll umferð vélkúinna ökutækja og reiðhjóla er bönnuð þar, nema með sérstöku leyfi hverju sinni. Sömuleiðis er bannað að fara þar um með hesta, hunda og önnur dýr.

4. gr. Aðstandendur þeirra, sem jarðsettir eru í grafreitum eða duftreitum kirkjugaðanna, svo og allir þeir, sem um lönd kirkjugarðanna fara, verða að hlíta þeim reglum, sem þar gilda hverju sinni.

5. gr. Enginn má framkvæma vinnu í görðunum, sem kaup eða gjald kemur fyrir, nema með leyfi og undir eftirliti kirkjugarðsstjórnar. Öll helgidagavinna er bönnuð.

6. gr. Eigi má skilja eftir á leiðum eða götum garðanna: mold, jurtaleifar, eða nokkur annað, sem óprýði, óþrifum eða truflun getur valdið. Allt slíkt skal setja í til þess ætluð ílát eða á til þess ætlaða staði.

7. gr. Allan mannsafnað, sem að mati kirkjugarðsstjórnar eigi telst viðeigandi, að safnist þar saman, skal banna og varna, að komi þar saman.

8. gr. Eigi má setja girðingar úr steini, málmi, timbri eða neins konar hleðslu um einstök leiði eða fjölskyldugrafreiti. Eigi má gera grafhýsi í kirkjugarði.

9. gr. Eigi má án leyfis kirkjugarðsstjórnar gróðursetja tré, runna, né neina plöntu viðarkyns.

10. gr. Greinar trjáa og runna mega eigi ná út fyrir endamörk legstæðisins, séu þær eigi hærra en 2 metra frá jörðu.

11. gr. Eigi má sá til eða gróðursetja, neins staðar í löndum kirkjugarða Keflavíkur, þær jurtir, sem með sjálfssáningu, rótarskoti eða á annan hátt offjölgar, svo að þau valdi óeðlilega mikilli vinnu við hirðingu.

12. gr. Sái einhver eða gróðursetji slíkar jurtir, sem um ræðir í 11. gr., ber honum að greiða kostnað, sem leiða kann af útrýmingu þeirra.

13. gr. Eigi má, án leyfis kirkjugarðsstjórnar, fjarlægja neitt af grafarstæðum, svo sem minnismerki, blóm, trjágróður o.s.frv.

14. gr. Stjórn kirkjugarða Keflavíkur ber eigi skaðabótaábyrgð á, þótt umbúnaður grafarstæðis, minnismerki, gróður eða annað, sem á grafarstæði kann að vera, verði fyrir skemmdum eða ónýtist af völdum náttúruafla eða skemmdarvarga.

15. gr. Minnismerki skulu, að stærð og útliti, vera samkvæmt reglum þeim, sem gilda kunna á því svæði kirkjugarðsins, sem um er að ræða hverju sinni.

16. gr. Frágangur minnismerkja skal vera svo traustur, að þau hvorki raski, né spyrni til jarðvegi, þótt gröf sé tekin við hlið þeirra.

17. gr. Þegar minnismerki, umbúnaður grafar og þess háttar, er svo úr sér gengið og/eða komið að falli, svo að af stafar hætta, eða er til óprýði, skal gera umráðamanni grafarstæðisins aðvart. Beri það eigi árangur eða náist eigi til hans, má fjarlægja umgerðina og/eða minnismerkið. Skal það þá gert í samræmi við fyrirmæli 16. gr. laga nr. 21 23. apríl 1963.

18. gr. Grafarstæði, sem verið hefur í óhirðu í 3 ár samfleytt, skal kirkjugarðsstjórnin láta tyrfa, malbera eða gera aðrar ráðstafanir við, sem auðvelda umhirðu á því.

19. gr. Eigi skulu skaðabætur koma til rétthafa grafarstæðis, ef beita verður ákvæðum 17. eða 18. greinar.

20. gr. Þótt grafarfriðun sé útrunnin, skal eigi flytja uppistandandi minnismerki eða raska umbúnaði grafarstæðisins, sé það í góðu ásigkomulagi.

21. gr. Auk framantalinna sérreglna gildir lögreglusamþykkt Keflavíkur, eftir því sem við á, á öllum athafnasvæðum kirkjugarða Keflavíkur.

22. gr. Mál, sem kunna að rísa út af reglum þessum, skal fara með samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála. Brot gegn reglum þessum varða sektum frá krónum 500.00 til króna 5000.00, ef eigi liggja við þyngri refsingar samkvæmt öðrum lögum.
Ef yfirsjón barns yngra en 15 ára, er að kenna skorti foreldra eða forráðamanna á umsjón þess, skulu þeir bæta það tjón, sem af kann að hafa hlotist.

23. gr. Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 34. grein laga nr. 21 23. apríl 1963, um kirkjugarða.