Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

Kirkjuþing

Þingsályktun um viðmið um málsmeðferð á tillögum um skipan sókna, prestakalla og prófastsdæma

Kirkjuþing samþykkir eftirfarandi viðmið um málsmeðferð á tillögum um skipan sókna, prestakalla og prófastsdæma.

Réttarheimildir

Samkvæmt 19. gr. þjóðkirkjulaga nr. 78/1997 skal biskupafundur gera tillögur um skipan sókna, prestakalla og prófastsdæma til kirkjuþings, sbr. 50. gr. laganna.

Samkvæmt 3. gr. starfsreglna um skipan sókna, prestakalla og prófastsdæma nr. 731/1998 getur hver þjóðkirkjuþegn gert tillögu um breytingu á skipan sókna, prestakalla og prófastsdæma. Tillögur um breytingar á skipan sókna og prestakalla skulu fá umsögn á aðalsafnaðarfundum viðkomandi sókna og því næst bornar upp á héraðsfundi, sem sendir þær biskupafundi. Hann býr málið til Kirkjuþings. Tillögur um breytingar á skipan prófastsdæma skulu fá umsögn á viðkomandi héraðsfundum og því næst sendar biskupafundi, sem býr málið til Kirkjuþings.

Samkvæmt 4. gr. starfsreglna um biskupafund nr. 819/2000 undirbýr biskupafundur mál er varða breytingar á skipan sókna, prestakalla og prófastsdæma í hendur kirkjuþings. Biskupafundur gerir tillögur um þau efni á grundvelli gildandi laga og starfsreglna og stefnumörkunar Kirkjuþings ef árleg endurskoðun skipulags þykir gefa tilefni til. Þá undirbýr biskupafundur auk þess tillögur um þessi efni sem kunna að berast frá héraðsfundum í hendur Kirkjuþings og fjallar jafnframt um aðrar tillögur sem kunna að berast.

Samkvæmt því er að ofan greinir er ljóst að tillaga um skipulagsbreytingar þarf að fá umfjöllun þriggja kirkjulegra aðila hið minnsta til að unnt sé að leggja hana fram á Kirkjuþingi. Nokkur munur er á því hvort um tillögu að sóknarskipan er að ræða, prestakallaskipan eða prófastsdæmaskipan.

Eftirfarandi umfjöllun varðar fyrst og fremst málsmeðferð er varðar prestakallaskipan enda yfirleitt mest um þær fjallað á Kirkjuþingi. Hér er fyrst og fremst átt við tillögur sem fela í sér sameiningu prestakalla en síður tillögu um stofnun nýrra. Einnig er vikið að tillögum um breytta sóknarskipan og prófastsdæmaskipan.

Almenn málsmeðferð vegna breytinga á skipan sókna, prestakalla og prófastsdæma:
Tillögu getur hver þjóðkirkjuþegn eða stofnun Þjóðkirkjunnar gert. Hún þarf að fara í eftirfarandi ferli

Aðalsafnaðarfundur

Tillögu skal bera upp á aðalsafnaðarfundum hlutaðeigandi sókna og þeim gefinn kostur á að veita umsögn. Ekki er skylt að bera upp tillögu um breytingu á skipan prófastsdæma þar.

Héraðsfundur

Tillögu skal bera upp á héraðsfundi ásamt umsögnum aðalsafnaðarfunda. Héraðsfundur mælir með henni eða gegn og sendir áfram til biskupafundar.

Biskupafundur

Biskupafundur metur mál á þessu stigi í ljósi framkominna umsagna. Hann getur ákveðið að andmæla tillögunni eða flutt hana breytta eða óbreytta á Kirkjuþingi. Berist tillaga beint til biskupafundar skal hann sjá til þess að hún fari í ofangreint ferli.

Kirkjuþing

Kirkjuþing fjallar um tillöguna á venjubundinn hátt. Kirkjuþingsfulltrúi getur borið fram tillögu í þessum málum á þinginu enda liggi fyrir umsagnir hlutaðeigandi aðila sbr, liði 1, 2 og 3.

Komi fram breytingartillaga í fyrri umræðu er eðlilegt að kanna hvort hún sé þess efnis að áskilja verði að hún hafi fengið lögboðna umsögn heima í héraði. Eðlilegt er að forsætisnefnd Kirkjuþings úrskurði um það. Málsmeðferð fer síðan eftir þeim úrskurði.
Um þingsályktunartillögur

Sé hins vegar um að ræða þingsályktunartillögu þar sem gert er ráð fyrir umfjöllun um tilteknar tillögur að breytingum á skipan sókna, prestakalla og prófastsdæma er þinginu að sjálfsögðu heimilt að afgreiða hana sem og þær breytingatillögur sem fram kunna að koma á þann veg sem þingið kýs án umfjöllunar utan þingsins sjálfs.