Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

Kirkjuþing

Stefna þjóðkirkjunnar í vímuefnavandanum 1998

I. Þjóðkirkjan og vímuefnavandinn.

Trúin á Guð og trúin á manninn.
Kristin trú gengur út frá þeirri jákvæðu játningu að maðurinn sé skapaður í Guðs mynd sem karl og kona. Sú sýn er í senn fögur og uppörvandi. Kristin trú boðar að Guð hafi tekið sér stöðu við mannsins hlið í Jesú Kristi. Þar birtist Guð sem bróðirinn, vinurinn, huggarinn, læknirinn, frelsarinn. (1. Mós 1.26, Jóh 1.14, Lúk 19.10, Matt 9.20-22). Umhyggja Guðs fyrir manninum og gjörvallri sköpun hans er sem rauður þráður í Biblíunni. Guð reisir við hið brotna og bindur um hið limlesta. Hin jákvæða sýn á rætur í sköpunarsögunni. Á krossinum gefur hann son sinn sem sektarfórn fyrir heiminn. Jesús, Guðssonurinn, leiddi í ljós þá elsku sem sigrar allt. Sú trú er afl í baráttu við böl og þjáningu í föllnum heimi syndar og svika, lævísi og lífsflótta. (Ef 2.8). Veröldin er vettvangur sköpunar og endurlausnar. Þar er öllum falið hlutverk: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Elskið hvert annað. (Matt 22.39, Jóh 13.34). Kirkjan hefur það hlutverk að boða Guðs orð svo að það verði raunverulegt og lifandi í lífi safnaða og einstaklinga. Hún stendur frammi fyrir sama verkefni og Jesús forðum: Að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins. (Lk 4.18-19) Hér er slegið á strengi vonar og nýs upphafs. Miskunn Drottins er ný á hverjum morgni. Þess vegna gefst kirkjan aldrei upp í viðleitni sinni til þess að rétta hag þeirra sem standa höllum fæti. Boðskapur Jesú Krists og kraftur heilags anda megnar að leiða menn frá myrkri til ljóss. (Jóh. 8.12)

Viðhorf til fíknar.
Maðurinn er skapaður til samfélags við Guð. Hann á ekki að hafa aðra guði, ekki láta eyðandi öfl fá vald yfir sér. Vímuefnaneysla er alvarlegt mein í íslensku samfélagi. Þjóðkirkjan tekur undir viðhorf Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) frá 1955 þar sem alkohólismi er skilgreindur sem sjúkdómur og byggir viðhorf sitt til hverskonar fíknar á þeirri greiningar- og meðferðarþróun sem í kjölfar hennar hefur siglt á sviði læknisfræðinnar. Hún fagnar þróttmiklu starfi samtaka sem vinna gegn vímuefnaneyslu og þeirra sem veita sjúkum meðferð og vill taka höndum saman við þá í baráttunni fyrir heilbrigðara þjóðfélagi. Jafnframt þakkar Þjóðkirkjan viðleitni hins opinbera í þessu efni en hvetur ríki og sveitarfélög enn til dáða. Þjóðkirkjan tekur einnig eindregna afstöðu gegn tóbaksreykingum þar sem leitt hefur verið í ljós hversu heilsuspillandi þær eru og jafnframt að þær geta myndað undirstöðu annarar fíknar. Auk þess leiða reykingar óásættanlega hættu yfir nærstatt fólk. Þjóðkirkjan styður eindregið það starf sem unnið er til að andæfa og útrýma reykingum. Það er kunnara en frá þurfi að segja að bein tengsl eru á milli glæpa og afbrota af ýmsu tagi og vímuefnaneyslu. Vonbrigði, reiði, öfund, rótleysi, kvíði og vonleysi eru meðal fylgifiska vímunnar. Ávextir kristinnar trúar eru hins vegar allt aðrir: Gleði, fórnfýsi, festa, æðruleysi og bjartsýni (Gal 5.22-23).

II. Kirkjuleg þjónusta.

Þjóðkirkjan hefur tekist á við vandamál vímuefnaneyslu með prédikun, fræðslu, sálgæslu og fyrirbæn. Starfsfólk hennar, prestar, djáknar og fleiri, hafa mikið á sig lagt til þess að hjálpa einstaklingum til þess að finna leið til bata og stutt fjölskyldur þeirra margvíslega. Ennfremur hefur félagsstarf sem styður þá sem glíma við vandann átt greiðan aðgang að safnaðarheimilum víða um land. Kristileg mótun, trú og bænalíf, eru grundavallaratriði í forvörnum sem úrlausnum og rétt að benda sérstaklega á barna- og unglingastarf kirkjunnar í því sambandi. Heilbrigð fjölskylda er mikilvægur jarðvegur heilbrigðs persónuþroska. Þjóðkirkjan hefur birt í fjölskyldustefnu sinni vilja til þess að veita fjölskyldunni stuðning og ítrekar það sérstaklega í þessu samhengi. Kirkjan gegnir mikilvægu hlutverki í eflingu heilbrigðis og hamingju. Reynsla margra sem glíma við fíkn sína er sú að trúin skipti mestu máli til að öðlast frelsi frá vímunni. Kirkjuleg þjónusta er innt af hendi á þremur sviðum sem eru nefnd: Helgihald, fræðsla og kærleiksþjónusta. Öll þjónusta Þjóðkirkjunnar hefur í sér fólgið, annað hvort eða hvort tveggja í senn, forvarnargildi og hjálp í vanda. Brýnt er að starfsfólk Þjóðkirkjunnar beiti sér markvisst í starfi sínu í baráttunni við vímuefnavandann. Í helgihaldið sækir fólk trúarstyrkingu, leiðsögn og fyrirbæn. Þar er unnið uppbyggingarstarf sem tekur bæði til andlegrar eflingar einstaklingsins sem og til samfélagseflingar.

Í helgihaldinu felst því mikilvægt tilboð til þeirra sem berjast við fíkn sína og hafa misst af félagslegum tengslum vegna neyslu sinnar. Í prédikuninni felst í senn leiðsögn og hvatning og í fyrirbæninni og máltíð Drottins gefast fólki tækifæri til þess að bera vanda sinn fram fyrir þann Guð sem elskar syndarann og á mátt til þess að brjóta hlekki sem mönnum reynist oft um megn. Með boðunarstarfi sínu hafa prestar umtalsverð áhrif á almenningsálitið og einnig stjórnvöld.

Á fræðslusviðinu er unnin mikilsvert forvarnarstarf. Börn frá leikskólaaldri til unglingsára fá fræðslu sem að haldi kemur ekki síst í baráttunni við vímuefnavandann síðar á lífsleiðinni. Í foreldrastarfi sem er í vexti hvarvetna miðlar kirkjan uppeldislegum gildum og beinni aðstoð við foreldra í afar mikilsverðu uppeldisstarfi þeirra. Þetta hefst á grundvelli skírnar barnanna þar sem mikilvægt tækifæri skapast til endurnýjunar kynna við foreldrana með það að markmiði að skapa tengsl við safnaðarstarfið og styrkja með þeim kristileg uppeldisgildi. Í þessu efni eru fermingarstörfin sérstaklega mikilvæg. Þjóðkirkjan vill nýta það tækifæri sem í þeim felst sem best má verða til þess að knýta tengsl við unglinga og foreldra þeirra í sóknum landsins og fylgja þeim eftir að sínu leyti. Það gerir hún m.a. með tilboðum um samfélag unglinga í æskulýðsstarfi Þjóðkirkjunnar. Þar er boðið upp á hollan félagsskap og styrkingu gilda sem varðað geta veg þeirra til farsældar. Á þessu sviði hefur Þjóðkirkjan viljað leggja áherslu á samvinnu við skóla og íþróttahreyfingu, sem og foreldrafélög og -samtök. Hún hefur mikinn vilja til þess að þróa það enn frekar.

Í kærleiksþjónustu Þjóðkirkjunnar liggja helstu úrræði hennar til hjálpar í vanda. Sú þjónusta hefur lengst af verið í höndum presta og miskunnsamra náunga eins og hún birtist m.a. í samhjálparstarfi alkóhólista, kærleiksríkri aðstoð vina og ættingja. Nú hafa djáknar bæst í leikinn og ásamt prestunum veita þeir margvíslega aðstoð, með viðtölum, vitjunum, fyrirgreiðslu og vísun á þau úrræði sem þjóðfélagið hefur.

Þá heldur Þjóðkirkjan úti margháttaðri þjónustu í gegnum Fræðslu- og þjónustudeild, sérþjónustu sína og Fjölskylduþjónustu kirkjunnar og beinir henni m.a. að vímuefnavandanum. Sömuleiðis heldur hún þannig uppi samstarfi við aðra þá sem að þessum málum vinna af hálfu hins opinbera og áhugamannasamtaka.

III. Nýmæli og áhersluatriði.

1. Biskupsstofa hugi að því að efla endurmenntun þjóna kirkjunnar. Í þessu efni sé miðað að því að prestar og djáknar hafi forsendur til greiningar vandans, séu jafnan vel að sér um þau úrræði sem eru fyrir hendi um meðferð fyrir vímuefnaneytendur og fylgist með þróun meðferðar og úrræða samfélagsins í baráttunni við vímuefnin.

Hugað verði að leiðum til að hvetja starfsfólk Þjóðkirkjunar til þess að afla sér sérmenntunnar á sviði vímuefnavarna og meðferðar áfengis- og fíkniefnasjúklinga.

2. Á Fræðslu- og þjónustudeild verði sérstökum fulltrúa falið að vera í forsvari fyrir kirkjulegu starfi að áfengis- og vímuefnamálum, vinna að áframhaldandi þróun starfsins og annast tengsl við aðra þá aðila sem vinna að þessum málum í samfélaginu.

3. Þjóðkirkjan vill bjóða upp á sérstakt helgihald fyrir þá sem eiga við vímuefnavandann að etja. Þetta starf er að vaxa fram undir nafninu Æðruleysismessur. Þjóðkirkjan vill að tilboð af líku tagi séu sem víðast í boði eftir ástæðum. Fræðslu- og þjónustudeild vaki yfir þróun þessa starfs og miðli því sem best reynist til annara presta og safnaða með ráðgjöf og hvatningu.

4. Nú er unnið að þróun götustarfs í miðborg Reykjavíkur í samstarfi KFUM&K og Reykjavíkurprófastsdæma. Starfið er unnið á grundvelli þess vilja Þjóðkirkjunnar að koma til móts við neyð mannanna hver sem hún birtist. Miðborgarvandinn er tíðræddur og flókinn og mest svíður þeim sem á þessum vettvangi starfa umkomuleysi barna og unglinga sem ánetjast hafa fíkniefnum. Hlú þarf að þessu starfi og freista þess að skapa sem flestar útgönguleiðir fyrir ungt fólk úr vandanum og aðstoða það við að rjúfa þau bönd sem binda það við eymd fikniefnaneyslunnar og koma undir sig fótum á ný.

5. Prestar láti ekki óreglu sem þeim er kunn fram hjá sér fara án afskipta, þeir áminni, leiðbeini, hvetji og styði þá sem hlut eiga að máli svo sem þeim ber skylda til samkvæmt vígslubréfi sínu. Prestar gái að því að gera vímuefnavandann reglulega að umtalsefni í ræðu og riti í því skyni að afstaða kirkjunnar megi verða þeim til stuðnings og hvatningar sem til næst og vísað sé eindregið á þýðingu trúarinnar í bataferlinu.

Prestar hafi ef með þarf forgöngu um myndun og viðhald tengslanets með þeim sem hafa með vímuefnamál að gera, ss. heilbrigðisstarsfólki, félagsþjónustu sveitarfélaga, löggæslu, skólastjórnendum og trúnaðarmönnum í AA og Al-Anon eftir því sem skipast kann.

6. Þjóðkirkjan setur sér að leggja sérstaka áherslu á þátttöku í baráttunni fyrir því að halda grunnskólanemendum frá neyslu áfengis og vímuefna og er fús til samtarfs einnig við framhaldsskólann um að vinna þar að hliðstæðu marki. Á vettvangi grunnskólans koma oft í ljós þeir atferlisþættir hjá einstaklingum sem seinna eru líklegir til að leiða þá til skaðlegrar neyslu. Kirkjan þarf að koma sérstaklega til móts við þá, laða þá að starfi sínu og finna leiðir til þess að veita skóla og heimili þeirra stuðning með kærleiksþjónustu sinni.

7. Þjóðkirkjan heimilar ekki að haldnar séu í húsakynnum hennar samkomur þar sem sterks áfengis sé neytt og hefur hóf á þeim vínveitingum sem heimilaðar eru.