Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

Kirkjuþing

Skipulagsskrá fyrir Minningarsjóð Hönnu og Harald Hope nr. 932/2003

1. gr.

Sjóðurinn heitir Minningarsjóður Hönnu og Harald Hope.

2. gr.

Heimili sjóðsins er á biskupsstofu í Reykjavík

3. gr.

Sjóðurinn er stofnaður til minningar um hjónin Harald Hope sóknarprest, handhafa fálkaorðunnar og St. Ólafsorðunnar og Hönnu Hope, vegna starfs þeirra í þágu íslenskrar þjóðar og Þjóðkirkju, svo og til eflingar sambandi Íslands og Noregs, þar sem kirkju- og sögustaðurinn Skálholt skal vera þungamiðjan.

Tilgangur sjóðsins er að styrkja starfsemi á vegum Skálholtsskóla. Starfsemi sem lýtur að eða tengist sérstaklega norsku kirkju- og skólastarfi skal njóta forgangs.

4. gr.

Stofnfé sjóðsins er söfnunarfé frá Haraldi Hope að fjárhæð norskar kr. 700.000 eða íslenskar kr. 7.560.000 (m.v. gengi 10,80 á stofndegi). Ávaxta skal sjóðinn tryggilega í íslenskri mynt og við íslenska innlánsstofnun og eftir gildandi íslenskum lögum og reglum á hverjum tíma. Sjóðstjórn ber ábyrgð á fjárvörslu fyrir sjóðinn.

5. gr.

Arður sjóðsins af stofnfé skal árlega renna til styrktar málefninu samkvæmt nánari ákvörðun sjóðstjórnar.

6. gr.

Tekjur sjóðsins eru arður, þar með taldir vextir, af stofnfé sjóðsins og öðrum eignum er honum kann að áskotnast fyrir gjöf eða með öðrum hætti. Gjöfum og framlögum skal bæta við eignir sjóðsins og er óheimilt að skerða þær. Skal ávaxta gjafir og framlög með sama hætti og stofnfé. Heimilt er þó að ráðstafa gjöf eða framlagi á annan veg ef sá sem gefur eða veitir framlag mælir fyrir um það fyrir eða við afhendingu. Stjórnunarkostnaður og annar óhjákvæmilegur rekstrarkostnaður greiðist af tekjum sjóðsins.

7. gr.

Stjórn sjóðsins skipa þrír: Biskup Íslands, sem er formaður stjórnar, rektor Skálholtsskóla og verkefnisstjóri fræðslumála á biskupsstofu. Meirihluti ræður ákvörðun stjórnar. Stjórn sjóðsins skal ekki þiggja þóknun fyrir starfa sinn.

8. gr.

Sjóðstjórn úthlutar að jafnaði árlega einum eða fleiri styrkjum úr sjóðnum.

9. gr.

Í Noregi skal starfa sérstakt þriggja manna ráð í tengslum við sjóðinn. Ráðið skipa fulltrúi tilnefndur af Hope fjölskyldunni, biskupum í Björgvin og einn fulltrúi tilnefndur af Kristilegu lýðháskólunum í Noregi. Ráðið getur gert tillögur um úthlutanir og skal sjóðstjórn áðfæra sig við ráðið í mikilvægari málum en sjóðstjórn hefur þó úrslitavald um úthlutanir úr jóðnum.

10. gr.

Reikningsár er almannaksárið. Gerð ársreiknings skal lokið innan þriggja mánaða frá áramótum. Reikningar skulu áritaðir af löggiltum endurskoðanda.

11. gr.

Nafni sjóðsins og meginmarkmiðum verður ekki breytt. Breytingar á ákvæðum skipulagsskrár þessarar vegna breytinga á starfi kirkju- og menntastofnana sem kunna að eiga sér stað, verða einungis gerðar með samþykki sjóðstjórnarinnar og ráðsins.

Verði sjóðurinn lagður niður skulu eignir hans renna til íslensku þjóðkirkjunnar. Skal þess gætt að þær renni til málefna sem skyld eru hinum upphaflegu markmiðum. Um breytingar á stofnskrá þessari, sameiningu eða niðurfellingu sjóðsins fer að öðru leyti að lögum.

12. gr.

Leita skal staðfestingar dóms- og kirkjumálaráðherra á skipulagsskrá þessari. Skipulagsskrá þessi staðfestist hér með samkvæmt lögum um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, nr. 19/1988.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 4. desember 2003.