Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

Kirkjuþing

Skipulagsskrá fyrir Kirkjuhúsið – Skálholtsútgáfuna

KIRKJURÁÐ ÞJÓÐKIRKJU ÍSLANDS STOFNAR HÉR MEÐ TIL SJÁLFSEIGNARSTOFNUNAR MEÐ EFTIRFARANDI SKIPULAGSSKRÁ:

1. grein

Stofnunin heitir Kirkjuhúsið – Skálholtsútgáfan og er hún sjálfseignarstofnun. Heimili stofnunarinnar og varnarþing er í Reykjavík. Stofnunin er sett á fót að frumkvæði Kirkjuráðs og tekur til starfa 1. ágúst 1990.

2. grein

Kirkjuráð leggur stofnuninni til sem stofnfé kr. 365.000.

Ennfremur leggur Kirkjuráð til stofnuninni firmaheitið Skálholt og blaðheitið Víðförli, en eigendur þessara heita gáfu þau þjóðkirkjunni.

3. grein

Tilgangur stofnunarinnar er að samræma útgáfumál þjóðkirkjunnar með því að annast útgáfu á fræðsluefni fyrir söfnuði landsins og stofnanir kirkjunnar, útgáfu bóka, bæklinga og tímarita þar sem kristin sjónarmið eru flutt og skýrð. Stofnunin annast ennfremur þjónustu við söfnuði og kirkjulega aðila, dreifingu og sölu fræðsluefnis, bóka og bæklinga. Einnig annast hún útvegun og sölu kirkjulegra muna og skylda starfsemi.

4. grein

Stofnunin ber ábyrgð á skuldbindingum sínum með stofnfé og þeim eignum sem hún kann að eignast með öðrum hætti.

5. grein

Stjórn stofnunarinnar skipa níu menn, sem kjörnir skulu til þriggja ára í senn, í fyrsta sinn tilnefndir af Kirkjuráði. Þrír skulu ganga úr stjórn á ári, og kýs aðalfundur tvo í þeirra stað, en Kirkjuráð tilnefnir hinn þriðja. Fyrir aðalfund fyrstu tvö árin skal varpa hlutkesti um hvaða menn úr upphaflegri stjórn skulu ganga út. Kjörtímabil nýrra stjórnarmanna hefst að loknum aðalfundi. Stjórnin skal koma saman til fundar eigi sjaldnar en tvisvar á ári, auk aðalfundar. Stjórnin markar stefnu stofnunarinnar og ber ábyrgð á henni.

6. grein

Aðalfund stofnunarinnar skal halda fyrir 1. apríl ár hvert og er hann lögmætur er 2/3 stjórnarmanna hið fæsta eru á fundi. Til aðalfundar skal boða bréflega með hálfsmánaðar fyrirvara hið skemmsta. Aðalfund sitja stjórnarmenn og hafa þeir einir atkvæðisrétt. Til aðalfundar skal auk þess boða framkvæmdastjóra stofnunarinnar og ritstjórn Víðförla og hafa þeir málfrelsi og tillögurétt. Auk þess getur framkvæmdanefnd boðið öðrum til aðalfundar.

7. grein

Að loknum aðalfundi skal senda ríkisendurskoðanda ársreikning stofnunarinnar svo og Kirkjuráði og Kirkjuþingi. Skipun stjórnar og breytingar á henni skal auglýsa í Lögbirtingarblaði.

8. grein

Dagskrá aðalfundar skal vera þessi:

Skýrsla stjórnar
Endurskoðaðir reikningar stofnunarinnar lagðir fram til samþykktar
Ákvörðun um ráðstöfun hagnaðar í samræmi við 12. grein
Tillögur til breytinga á skipulagsskrá er fram koma
Kjör tveggja manna til þriggja ára í stjórn og tilkynning um tilnefningu eins manna af hendi Kirkjuráðs til sama tíma
Önnur mál

9. grein

Á aðalfundi er kosinn formaður, varaformaður og ritari og eru þeir jafnframt framkvæmdanefnd stofnunarinnar.

10. grein

Framkvæmdanefnd og framkvæmdastjóri bera ábyrgð á daglegu starfi stofnunarinnar. Framkvæmdanefnd hefur heimild til að taka lán fyrir hönd stofnunarinnar og veðsetja eignir hennar. Framkvæmdastjóri skuldbindur stofnunina í umboði framkvæmdanefndar. Framkvæmdanefnd ræður framkvæmdastjóra stofnunarinnar, að fengnum tillögum stjórnar, setur honum erindisbréf og ákveður honum laun.

11. grein

Reikningsár stofnunarinnar er almanaksárið. Um bókhald stofnunarinnar og reikningsskil skal fara eftir gildandi lögum um bókhald, nú lögum nr. 51, 2. maí 1968, og góðum reikningsskilavenjum. Ársreikningur stofnunarinnar skal endurskoðaður af löggiltum endurskoðanda og liggja frammi til athugunar fyrir stjórnarmenn viku fyrir aðalfund.

12. grein

Ef hagnaður verður af starfsemi stofnunarinnar skal honum varið til eflingar hennar í samræmi við 3. grein.

13. grein

Verði ákveðið að leggja Kirkjuhúsið – Skálholtsútgáfuna niður, skulu allar eigur stofnunarinnar renna til líknarmála á vegum þjóðkirkjunnar eða annarra verkefna hennar eftir nánari ákvörðun stjórnar og Kirkjuráðs. Slit stofnunarinnar geta ekki átt sér stað nema með samráði stjórnar og Kirkjuráðs.

14. grein

Tillögur um breytingar á skipulagsskrá þessari ná fram að ganga ef þær hljóta fylgi meirihluta atkvæða stjórnar. Ákvæðum 12., 13. og 14. greina má þó ekki breyta. Tillögur til breytinga á skipulagsskrá skulu hafa borist framkvæmdanefnd viku fyrir aðalfund og skulu liggja frammi, ásamt reikningum sjálfseignarstofnunarinnar.

15. grein

Þessi skipulagsskrá kemur í stað skipulagsskrár Útgáfunnar Skálholts nr. 566, dags. 30. september 1981 og skipulagsskrár Kirkjuhússins nr. 143, dags. 1. mars 1983.

16. grein

Leita skal staðfestingar dómsmálaráðherra á skipulagsskrá þessari.

Skipulagsskrá þessi staðfestist hér með samkvæmt lögum um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, nr. 19/1998.

Dóms-og kirkjumálaráðuneytið, 31. júlí 1990