Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

Kirkjuþing

Siðareglur P.Í. og reglur um siðanefnd

1. Inngangur

1.1 Þetta eru siðareglur presta, sem vígðir hafa verið til hins heilaga prests- og prédikunarembættis innan þjóðkirkju Íslands og presta annarra kristinna trúfélaga sem eru meðlimir í Prestafélagi Íslands. Þær eru ætlaðar þeim til stuðnings og leiðbeiningar í þjónustu við Guð og menn.

1.2. Siðareglurnar eiga að efla starfsmetnað stéttarinnar og stuðla að auknu samstarfi og samkennd hennar.

2. Köllun

2.1 Prestsembættið er sett af Drottni og er ómissandi þáttur í lífi kristinnar kirkju og köllun hennar, að boða Krist og útbreiða ríki hans. Prestsembættið sprettur upp úr hinum almenna prestsdómi allra skírðra sem kallaðir eru til að þjóna Drottni og vitna um hann í lífi sínu og starfi.

Prestur er sá sem er réttilega kallaður í kirkjunni til þjónustu orðs og sakramenta og er vígður til hennar. Prestsvígslan fyrir bæn og handayfirlagningu veitir umboð til þeirrar þjónustu innan evangelísk-lúterskrar kirkju eins og vígslubréf kveður á um.

Prestur er þjónn og hirðir safnaðarins, en er ekki starfsmaður hans.

2.2 Grundvallarregla allra mannlegra samskipta er gullna reglan: „Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“ (Matt. 7.12.) Prestar vilja umfram allt hafa þá reglu að leiðarljósi.

2.3 Prestsvígslan leggur prestum sérstakar skyldur á herðar í afstöðu og viðmóti við aðra. Presturinn gerir sér því far um að mæta hverjum einstaklingi í kærleika Krists með virðingu eftir því sem skilningur hans og samviska bjóða hverju sinni. Hann ber og sérstaka ábyrgð gagnvart þeim sem minna mega sín og standa höllum fæti í tilverunni.

2.4 Sálgæsla byggist á virðingu og trúnaðartrausti og er því sérstaklega viðkvæm og vandmeðfarin. Prestur má ekki undir neinum kringumstæðum misnota aðstöðu sína sem sálusorgari eða ógna velferð skjólstæðings, s.s. með kynferðislegri áreitni, né vanvirða tilfinningar hans og tiltrú með öðrum hætti.

2.5 Prestur notfærir sér ekki vitneskju eða tengsl sem hann öðlast við störf sín í ábata- eða hagsmunaskyni.

2.6 Prestur fer ekki í manngreinarálit og veitir fólki sálgæslu og kirkjulega þjónustu eftir því sem við á.

2.7 Prestur innir ekki af hendi prestsþjónustu við athafnir sem ekki samrýmast helgisiðum eða boðun þjóðkirkjunnar eða sem hann treystir sér ekki til að sinna samvisku sinnar vegna.

2.8 Prestur sýnir jafnan trú og siðum annarra umburðarlyndi og forstöðumönnum og prestum annarra trúfélaga og kirkjudeilda virðingu.

2.9 Prestur ber ábyrgð á að rækja embætti sitt eftir gildandi lögum og kirkjusiðum. Hann er fulltrúi kirkju sinnar og stéttar. Hann gætir þess í starfi og einkalífi að hafa virðingu kirkjunnar og sóma stéttarinnar í heiðri.

2.10 Prestur innir jafnan embættisþjónustu sína af hendi í samræmi við gildandi helgisiði og hefðir þjóðkirkjunnar og leitar leyfis biskups til frávika frá þeim.

2.11 Prestur sinnir af kostgæfni öðrum þeim verkefnum sem gildandi lög eða reglur kveða á um eða sem biskup felur honum á hendur, enda rúmist þau innan embættisþóknunar.

2.12 Prestur tekur ekki að sér aukastörf sem skert geta sjálfstæði hans og frelsi til þeirrar helgu þjónustu sem vígslubréf og vígsluheit leggja honum á herðar.

3. Saman að einu marki

Ákvæði um skyldur gagnvart starfssystkinum

3.1 Prestar virða starfsvettvang hver annars og stuðla að góðu samstarfi og samkennd fremur en samkeppni innan stéttarinnar. Þeir sýna hver öðrum heilindi og virðingu í viðtali sem umtali, ráðum og gjörðum.

3.2 Þar sem fleiri en einn prestur starfa saman skulu þeir skipta með sér verkum í samráði við prófast. Verði ágreiningur milli presta skal leggja málið fyrir prófast og ef þörf krefur vísa því til biskups til úrskurðar.

3.3 Prestar vinna embættisverk fyrir starfssystkin sín án þess að krefja þau um greiðslu.

3.4 Þegar prestur sækir um embætti eða starf sýnir hann öðrum umsækjendum fyllstu tillitssemi og samstöðu Þegar prestur lætur af embætti hlutast hann ekki til um hver umsækjenda er valinn í hans stað.

3.5 Prestur gætir þess að eiga gott samstarf við samstarfsfólk sitt, sóknarnefndir og tilsjónarmenn og leitast við að stuðla að eindrægni og samhug.

3.6 Prestur gætir þess að vera málefnalegur og gætir varkárni í ummælum um kenningarleg og guðfræðileg mál, hvort sem er í samræðum eða opinberlega.

4. Trúnaður

Ákvæði um þagnarskylduna

4.1 Prestur er bundinn þagnarskyldu um allt er hann verður áskynja í starfi og leynt skal fara. Í sálgæslu og skriftum er prestur áheyrandi í Krists stað. Þess sem hann verður þannig áskynja má hann því aldrei láta uppi án samþykkis viðkomandi skjólstæðings. Presti ber að fylgja samviska sinni og sannfæringu.

4.2 Þegar prestur leitar sér faglegrar ráðgjafar eða handleiðslu varðandi mál sem hann hefur eða hefur haft með höndum, gætir hann þess að ákvæði þagnarskyldu séu virt.

4.3 Noti prestur dæmi úr starfi í ræðu eða riti skal hann sjá til þess að þau séu órekjanleg.

Samþykkt á aðalfundi Prestafélags Íslands á Húsavík 24. apríl 2007

Reglur um Siðanefnd Prestafélags Íslands

1. Stjórn Prestafélags Íslands (P.Í.) skipar siðanefnd P.Í. Í henni sitja þrír fulltrúar, skipaðir til fjögurra ára í senn. Stjórn P.Í. velur einn, sem skal vera formaður, og fer þess á leit við biskup Íslands, að hann tilnefni einn og við Siðfræðistofnun Háskóla Íslands að hún tilnefni annan. Þessir sömu aðilar tilnefna einnig jafn marga varamenn. P.Í. kostar störf siðanefndar.

2. Hver sá sem telur að prestur hafi brotið framangreindar siðareglur getur kært til siðanefndar. Siðanefnd tekur aðeins fyrir mál sem henni berast skriflega. Jafnframt skal siðanefnd afgreiða öll mál skriflega. Siðanefnd er heimilt að vísa máli frá með rökstuðningi sjái hún ástæðu til.

3. Siðanefnd gætir þess að fyllsta trúnaðar og nafnleyndar sé gætt varðandi öll málsgögn og samtöl vegna meðferðar mála.

4. Siðanefnd metur hvort einhver nefndarmanna sé vanhæfur til að fjalla um kærumál vegna tengsla við kæranda eða kærðu. Sé nefndarmaður úrskurðaður vanhæfur til að fjalla um mál skal varamaður taka sæti hans. Sé hann einnig vanhæfur skal leita eftir tilnefningu stjórnar P.Í.

5. Siðanefnd heldur gjörðabók og starfar á grundvelli siðareglna P.Í. Aðilum máls skal boðið að mæta fyrir siðanefnd til að útskýra mál sitt, ávirðingar og varnir. Undir öllum kringumstæðum skulu hlutaðeigandi málsaðilar leggja fram skriflegar greinargerðir. Kæranda skal heimilt að draga kæru sína til baka hvenær sem er áður en siðanefndarmenn hafa undirritað úrskurð. Siðanefnd skal taka mál fyrir svo fljótt sem auðið er og hraða eftir föngum úrskurði sínum. Ef siðanefnd er ekki einhuga um úrskurð skal meirihlutaálit ráða niðurstöðu. Siðanefnd er skylt að ná fram niðurstöðu og má ekki víkja frá máli fyrr.

6. Hafi sá er kærður er verið félagsmaður P.Í. þegar meint brot er talið hafa verið framið, þá skal siðanefnd P.Í. fjalla um málið. Ef kæra reynist á rökum reist skal siðanefnd kveða skýrt á um hvort brotið var ámælisvert, alvarlegt eða mjög alvarlegt. Ef brot er ámælisvert skal siðanefnd veita viðkomandi presti áminningu. Ef brotið er alvarlegt eða mjög alvarlegt vísar siðanefnd málinu til stjórnar P.Í. ásamt áliti sínu. Stjórn félagsins tekur ákvörðun um hvort vísa skuli viðkomandi úr félaginu. Í öllum tilvikum skulu málsaðilum, stjórn P.Í. , biskupi Íslands og vígslubiskupum kynntar álitsgerðir siðanefndar.

7. Stjórn P.Í. er heimilt að fengnu samþykki siðanefndar að birta niðurstöður eða álitsgerðir siðanefndar eftir því sem þurfa þykir

8. Siðanefnd skal vera vakandi fyrir þeim ágöllum sem vera kunna á siðareglum þessum og leggja fyrir stjórn P.Í. tillögur um breytingar á þeim ef þurfa þykir.

Samþykkt á aðalfundi Prestafélags Íslands á Húsavík 24. apríl 2007