Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

Kirkjuþing

Samningur um rekstrarkostnað vegna prestsembætta og prófasta, rekstrarkostnað biskupsstofu, framlag til kristnisjóðs og sérframlög til þjóðkirkjunnar 1998

Íslenska ríkið og þjóðkirkjan gera með sér eftirfarandi samning um rekstrarkostnað vegna prestsembætta og prófasta, rekstrarkostnað biskupsstofu, framlag til kristnisjóðs og sérframlög til þjóðkirkjunnar:

1. gr.

Samningur þessi er nánari útfærsla á samkomulagi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar frá 10. janúar 1997, hér eftir nefnt kirkjujarðasamkomulagið, og nær jafnframt til rekstrarkostnaðar þjóðkirkjunnar sem fellur utan þess samkomulags, sbr. 3. gr. laga nr. 78/1997, um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar.

Með samningi þessum eru þrjú fylgiskjöl nr. 1, 2 og 3. Um er að ræða skýringar við samning þennan (fskj. nr. 1), yfirlit yfir fjárhæðir samningsins (fskj. nr. 2) og framangreint samkomulag frá 10. janúar 1997 (fskj. nr. 3).

2. gr.

Úr ríkissjóði skal greitt fjárframlag vegna launa og launatengdra gjalda biskups Íslands, vígslubiskupa og 138 presta og prófasta samkvæmt úrskurðum kjaranefndar, kjaradóms og gildandi lögum og reglum á hverjum tíma.

Að auki skal árlega gera ráð fyrir fjárframlagi er svarar til launa og launatengdra gjalda í 70 mánuði vegna námsleyfa, veikinda og annarra launaútgjalda umfram greiðslur samkvæmt 1. mgr., þar með talið fæðingarorlof. Þau mánaðarlaun skal miða við meðalheildarlaun sóknarprests samkvæmt líkani sem tilgreint er í 4. mgr. þessarar greinar.

Fjölgi eða fækki prestum samkvæmt 2. tl. 3. gr. kirkjujarðasamkomulagsins skal framlag, sbr. 1. mgr., breytast sem því nemur. Fyrir hvert prestsembætti, sem þannig fjölgar eða fækkar um, skal fjölga eða fækka mánuðum vegna námsleyfa o.fl., sbr. 2. mgr., um hálfan mánuð.

Fjárframlag samkvæmt 1. mgr. og 2. mgr. skal áætlað í reiknilíkani sem Biskupsstofa hefur umsjón með í samráði við dóms-og kirkjumálaráðuneytið. Líkanið skal sundurliða launin niður á embætti og launategundir. Við undirbúning frumvarps til fjárlaga hvers árs skal Biskupsstofa endurskoða líkanið til samræmis við síðustu úrskurði kjaranefndar og kjaradóms. Niðurstaða líkansins skal lögð til grundvallar fjárframlagi í frumvarp til fjárlaga hvers árs enda staðfestir dóms-og kirkjumálaráðuneyti og fjármálaráðuneyti líkanið.

Ef nýjir úrskurðir kjaranefndar og kjaradóms leiða til breytinga á kostnaði samkvæmt 1 mgr. og 2. mgr. sem ekki eru í samræmi við forsendur fjárlaga skal leiðrétta framlögin til samræmis.

3. gr.

Úr ríkissjóði skal árlega greitt fjárframlag að fjárhæð 89,5 m.kr. til rekstrarkostnaðar prestsembætta og prófasta og annars kostnaðar en launa sem tilgreindur er í úrskurðum kjaranefndar. Kirkjuþing setur reglur um greiðslu rekstrarkostnaðar prestsembætta og prófasta og skulu þær taka gildi 1. janúar 1999.

Fjölgi eða fækki prestum, samkvæmt 2. tl. 3. gr. kirkjujarðasamkomulagsins, breytist fjárframlag um 0,6 m.kr.

Samningsfjárhæðir, samkvæmt grein þessari, skulu verðbættar í fjárlögum ár hvert í samræmi við forsendur fjárlaga um hækkun annarra rekstargjalda en launa.

4. gr.

Úr ríkissjóði skal árlega greitt framlag að fjárhæð 52,7 m.kr. til greiðslu launa starfsmanna biskupsstofu. Biskupsembættið ákveður fjölda starfsmanna hverju sinni og ráðningarkjör þeirra.

Fjölgi eða fækki störfum á biskupsstofu samkvæmt 3. tl. 3. gr. kirkjujarðasamkomulagsins skal framlag samkvæmt 1. mgr. breytast um 2,9 m.kr. fyrir hvert starf.

Samningsfjárhæðir samkvæmt grein þessari skulu hækka í samræmi við meðalhækkun launa ríkisstarfsmanna samkvæmt mati Hagstofu Íslands. Verði breyting á þeim, sem ekki er í samræmi við forsendur fjárlaga skal framlagið leiðrétt.

5. gr.

Árlega skal greitt úr ríkissjóði framlag að fjárhæð 30 m.kr. til annars kostnaðar biskupsstofu, vígslubiskupa og biskups Íslands, en að framan greinir. Fjárhæðin tekur til alls rekstrarkostnaðar annars en launa og launatengdra gjalda samkvæmt 2. og 4. gr., m.a. endurnýjunar á tækjum og búnaði, húsnæðiskostnaðar, ferðakostnaðar, risnu og kostnaðar vegna biskupskosninga.

Fjölgi eða fækki störfum á biskupsstofu samkvæmt 3. tl. 3. gr. kirkjujarðasamkomulagsins skal framlag vegna reksturs breytast um 1,4 m.kr. fyrir hvert starf.

Samningsfjárhæðir samkvæmt grein þessari skulu verðbættar í fjárlögum ár hvert í samræmi við forsendur fjárlaga um hækkun annarra rekstrargjalda en launa.

6. gr.

Árlegt framlag í fjárlögum til kristnisjóðs skal svara til 15 fastra árslauna presta í fámennustu prestaköllum samkvæmt úrskurði kjaranefndar. Auk þess skal árlega greiða úr ríkissjóði til ársloka 2003 sem nemur einum árslaunum samkvæmt 1. mgr.

7. gr.

Ríkissjóður greiðir samkvæmt fjárlögum ár hvert sérframlög til þjóðkirkjunnar sem samið er um sérstaklega, lög kveða á um eða Alþingi ákveður. Með sérframlögum er átt við styrki sem ekki falla innan 2.-6. gr. samnings þessa.

8. gr.

Þjóðkirkjan ber fulla ábyrgð á fjármálum sínum og hagar rekstri eins og þykir best hverju sinni. Í því felst m.a. að þjóðkirkjan fjármagnar án aðstoðar úr ríkissjóði útgjöld sem reynast umfram greiðsluskyldu ríkissjóðs. Framlag úr ríkissjóði er óháð öðrum tekjum sem þjóðkirkjan kann að afla, hlutdeild Tryggingastofnunar ríkisins vegna presta er þjóna erlendir, þjónustugjöldum sjóða til biskupsstofu o.fl.

Ef kirkjan fjölgar eða fækkar prestum umfram það sem tilgreint er í 1. tl. 3. gr. kirkjujarðasamkomulagsins hefur það ekki áhrif á greiðsluskyldu ríkissjóðs samkvæmt samningi þessum. Eins getur kirkjan fjölgað eða fækkað öðru starfsliði, breytt launakostnaði og öðrum rekstrarkostnaði án þess að það hafi áhrif á framlag úr ríkissjóði.

9. gr.

Hækka skal framlag í fjáraukalögum 1998 til fjárlagaliðar þjóðkirkju Íslands alls um 70,3 m.kr. Af þeirri fjárhæð eru 27,3 m.kr. vegna uppsafnaðs halla fyrri ára. Hækka skal framlag til kristnisjóðs í fjáraukalögum 1998 um 5,2 m.kr.

Heildarframlag til fjárlagaliðar þjóðkirkju Íslands árið 1999 skal vera 655,2 m.kr. Á árinu 2000 lækkar framlag um 8,1 m.kr. Framlag til fjárlagaliðar kristnisjóðs árið 1999 skal vera 36,4 m.kr. Í fjárlögum ársins 2006 lækkar framlag um sem nemur einum árslaunum prests, sbr. 6. gr.

Framlag samkvæmt 1. mgr. er á verðlagi fjárlaga 1998. Aðrar fjárhæðir samnings þessa eru á verðlagi frumvarps til fjárlaga fyrir árið 1999.

10. gr.

Samningsaðilar skulu í upphafi hvers árs sammælast um greiðsluáætlun fyrir einstaka mánuði innan þess fjárhagsramma sem fjárlög ársins setja á fjárlagalið þjóðkirkju Íslands. Laun til biskups Íslands, vígslubiskupa, presta, prófasta og starfsmanna biskupsstofu skulu greidd úr ríkissjóði til viðkomandi einstaklinga án atbeina biskupsstofu. Mánaðarlegt framlag til annars kostnaðar samkvæmt 3. og 5. gr. skal vera mismunur á heildarframlagi viðkomandi mánaðar og þeirra launa sem greidd hafa verið í þeim mánuði. Framlagið skal greiðast til biskupsstofu.

11. gr.

Samningsaðilar geta óskað eftir endurskoðun á samningi þessum ef grundvallarbreyting verður á úrskurðum kjaradóms og /eða kjaranefndar og vegna verulegra breytinga á öðrum forsendum samningsins.

Verði verulegar vanefndir á skyldum af hálfu annars hvors samningsaðila getur hinn sagt samningi þessum upp. Tekur uppsögnin gildi frá og með næstu áramótum eftir að hún er tilkynnt.

Rísi ágreiningur um framkvæmd samnings þessa skal honum vísað til þriggja manna nefndar sem gera skal út um ágreininginn. Skal einn nefndarmaður tilnefndur af biskupi Íslands, einn sameiginlega af dóms-og kirkjumálaráðherra og fjármálaráðherra og oddamaður skal tilnefndur af Hæstarétti Íslands. Kostnaður sem hlýst af starfi nefndarinnar skal að hálfu greiddur úr rikissjóði og að hálfu af þjóðkirkjunni.

12. gr.

Dóms-og kirkjumálaráðherra mun á haustþingi 1998 leggja fram frumvarp til laga á Alþingi er felur í sér brottnám 2. mgr. 1. gr. laga nr. 36/1931, um embættiskostnað sóknarpresta og aukaverk.

Dóms- og kirkjumálaráðherra mun 31. dsember 1998 fella úr gildi reglur um greiðslu embættiskostnaðar presta og prófasta settar 15. júní 1989, með síðari breytingum.

13. gr.

Samningur þessi gildir frá 1. janúar 1999. Hann er gerður með fyrirvara um samþykki kirkjuþings og samþykki Alþingis á fjárframlögum.

Reykjavík 4. september 1998