Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

Kirkjuþing

Samkomulag um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar 10. janúar 1997

Íslenska ríkið og þjóðkirkjan gera með sér eftirfarandi
samkomulag
um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar:

1. gr.

Kirkjujarðir og aðrar kirkjueignir sem þeim fylgja, að frátöldum prestssetrum og því sem þeim fylgir, eru eign íslenska ríkisins. Andvirði seldra jarða rennur í ríkissjóð. Umsýsla og ráðstöfun umræddra eigna fer eftir gildandi lögum á hverjum tíma.

2. gr.

Íslenska ríkið skuldbindur sig til þess, á þeim grundvelli sem að framan greinir, að greiða laun presta þjóðkirkjunnar og starfsmanna biskupsembættisins. Þá skuldbindur ríkið sig til að setja reglur um umgengni á kirkjustöðum.

3. gr.

1. Ríkissjóður greiði laun:

  • Biskups Íslands og vígslubiskupa.
  • 138 starfandi presta og prófasta þjóðkirkjunnar.
  • 18 starfsmanna biskupsembættisins.

2. Fjölgi skráðum meðlimum þjóðkirkjunnar um 5.000 miðað við íbúaskrá þjóðskrár 1. desember 1996 skuldbindur ríkið sig til að greiða laun 1 prests til viðbótar því sem greinir í b-lið 1. mgr. Sama á við um frekari fjölgun. Fækki skráðum meðlimum þjóðkirkjunnar um 5.000 miðað við íbúaskrá þjóðskrár 1. desember 1996 lækkar talan í b-lið 1. mgr. um 1. Sama á við um frekari fækkun.

3. Fjölgi prestum um 10, sbr. það sem greinir í 1. mgr., skuldbindur ríkið sig til að greiða laun 1 starfsmanns biskupsstofu til viðbótar því sem greinir í c-lið 1. mgr. Sama á við um frekari fjölgun. Fækki prestum um 10, sbr. það sem greinir í 2. mgr., lækkar talan í c-lið 1. mgr. um 1. Sama á við um frekari fækkun.

4. Um ráðningar þeirra sem nefndir eru í 1. mgr. fer eftir gildandi lögum á hverjum tíma.

5. Um greiðslu launa til framangreindra starfsmanna þjóðkirkjunnar fer eftir lögum um Kjaradóm og kjaranefnd, nr. 120/1992, með áorðnum breytingum, eða lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna, nr. 94/1986, með áorðnum breytingum, eftir því sem við getur átt.

6. Greiðslur til Kristnisjóðs vegna seldra kirkjujarða falla niður. Þó skal ríkissjóður greiða árlega, næstu 8 ár, upphæð er svarar til fastra árslauna 1 sóknarprests.

4. gr.

Aðilar líta á samkomulag þetta um eignaafhendingu og skuldbindingu sem fullnaðaruppgjör þeirra vegna þeirra verðmæta sem ríkissjóður tók við árið 1907. Aðilar geta óskað eftir endurskoðun á 3. gr. samkomulagsins að liðnum 15 árum frá undirritun þess.

5. gr.

Samkomulag þetta er gert með fyrirvara um samþykki ríkisstjórnar og Kirkjuþings, svo og samþykki Alþingis á frumvarpi til laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar.

_________________________

Til skýringar

Til skýringar vilja fundarmenn taka fram að með kirkjujörðum er í samkomulagi þessu átt við jarðeignir sem kirkjur hafa átt og eigi hafa verið seldar frá þeim með lögmætri heimild eða gengið undan þeim með öðrum sambærilegum hætti, og hafa verið í umsjón ríkisins frá árinu 1907, sbr. lög nr. 46/1907, um laun sóknarpresta, og lög nr. 50/1907, um sölu kirkjujarða, og Álitsgerð kirkjueignanefndar 1984. Með orðalaginu “og aðrar kirkjueignir sem þeim fylgja” er m.a. átt við kirknaítök, réttindi á afréttum o.fl. sem fylgir og fylgja ber umræddum jörðum í hverju tilviki. Undir þetta samkomulag falla ekki eftirtaldar jarðeignir:

  1. Klausturjarðir: Fram kemur í álitsgerð kirkjueignanefndar frá 1984 að ekki verði séð að íslenska kirkjan eigi nú neina lagalega kröfu til klausturjarðanna. Engar jarðir í umsjá ríkisins falla nú undir hugtakið klausturjarðir.
  2. Stólsjarðir: Umræddar jarðir voru seldar kringum aldamótin 1800. Engar jarðir í umsjá ríkisins falla nú undir hugtakið stólsjarðir.
  3. Prestssetur: Eins og tekið er fram í samkomulaginu þá falla prestssetrin og það sem þeim fylgir ekki undir þetta samkomulag. Prestssetrasjóður hefur á höndum umsjón og umsýslu umræddra jarða, sbr. lög nr. 137/1993, um prestssetur. Viðræðunefnd kirkjunnar óskar eftir því að viðræðunefndirnar fjalli síðar um eignarréttarstöðu prestssetranna.
  4. Kristfjárjarðir og fátækrajarðir: Eignarréttarstöðu jarða sem falla undir þessa skilgreiningu er ekki á einn veg háttað. Þær eignir sem eru í eigu eða umsjá sveitarfélaga falla ekki undir þetta samkomulag.

Aðrar kirkjujarðir sem eru með kristfjárkvöðum eða fátækrakvöðum falla undir samkomulagið, en með þeim formerkjum þó að sannanlegar kristfjár- eða fátækrakvaðir sem á þeim hvíla halda gildi sínu. Hreinar kristfjár- eða fátækrajarðir falla ekki undir þetta samkomulag.

Viðræðunefnd kirkjunnar óskar eftir því að viðræðunefndirnar starfi áfram og fjalli sameiginlega um eignar- og réttarstöðu þjóðkirkjunnar í heild sinni.

Í samkomulaginu er fyrirvari um samþykki ríkisstjórnar og kirkjuþings, svo og Alþingis, á frumvarpi til laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar. Frumvarpið og samkomulag þetta verður lagt fyrir ríkisstjórn 14. janúar nk. og fyrir kirkjuþing sem hefst 21. janúar nk. Í frumvarpinu eru ákvæði sem tryggja efnisatriði þessa samkomulags. Kirkjumálaráðherra gerir ráð fyrir að leggja frumvarpið fram á Alþingi á yfirstandandi þingi, að fengnu samþykki ríkisstjórnar og kirkjuþings á þessu samkomulagi.

Fundarmenn eru sammála um framangreind drög, og rita nöfn sín því til staðfestingar undir fundargerð þessa.

Reykjavík, 10. jan. 1997.

Þorsteinn Geirsson, Halldór Árnason, Sveinbjörn Dagfinnsson, Hjalti Zóphóníasson, Stefán Eiríksson, Þorbjörn Hlynur Árnason, Halldór Gunnarsson, Þórir Stephensen