Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

Kirkjuþing

Samkomulag milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar um prestssetur og afhendingu þeirra, undirritað 20. október 2006

Íslenska ríkið og Þjóðkirkjan gera með sér eftirfarandi
samkomulag
um prestssetur og afhendingu þeirra til Þjóðkirkjunnar

I. Kafli

1. gr.

Prestssetur, þ.e. prestssetursjarðir og prestsbústaðir, sem Prestssetrasjóður tók við yfirstjórn á frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu hinn 1. janúar 1994 með síðari skjalfestum afhendingum frá ráðuneytinu, sbr. upptalningu prestssetra í II. kafla samkomulags þessa, er eign Þjóðkirkjunnar.

2. gr.

Prestsbústaðir, hús og aðrar eignir, sem Prestssetrasjóður hefur keypt er eign Þjóðkirkjunnar, sbr. upptalningu í III. kafla samkomulags þessa.

3. gr.

Íslenska ríkið afhendir eignirnar til fullra yfirráða eins og þær eru nú ásamt þeim réttindum, skyldum og/eða kvöðum sem þeim fylgja með þeim takmörkunum sem nánar greinir í samkomulagi þessu. Þjóðkirkjan tekur við eignunum ásamt réttindum, skyldum og/eða kvöðum frá sama tíma.

4. gr.

Samkomulag þetta felur í sér, auk afhendingar tiltekinna eigna til Þjóðkirkjunnar, að íslenska ríkið hækkar árlegt framlag sitt til Kirkjumálasjóðs sem nemur 3,0% af því gjaldi sem árlega er greitt til sjóðsins þannig að gjald í Kirkjumálasjóð verði 14,3% frá 1. janúar 2007. Samhliða umræddri hækkun munu framlög samkvæmt eftirfarandi viðfangsefnum undir fjárlagaliðnum 06-701 Þjóðkirkjan falla brott frá og með fjárlögum 2007: 1.12, 1.15, 1.16 og 1.91.

5. gr.

Með eignaafhendingu og uppgjöri samkvæmt samkomulagi þessu á sér stað fullnaðaruppgjör vegna allra prestssetra og prestssetursjarða. Uppgjör þetta tekur einnig til ákvarðana stjórnvalda um stofnun, flutning, viðhald eða breytingar á prestssetrum sem teknar voru áður en umsýsla prestssetra fluttist til Prestssetrasjóðs og höfðu eða kunna að hafa í för með sér fjárskuldbindingar fyrir sjóðinn. Samkomulag er með aðilum um að í uppgjöri þessu felist einnig að bættur hafi verið sá umsýslu- og stjórnunarkostnaður sem Prestssetrasjóður hefur haft af rekstri sjóðsins eftir að dóms- og kirkjumálaráðuneytið hætti að kosta umsýslu með honum. Sama gildir um þann lögfræði- og málskostnað sem Þjóðkirkjan kann að bera í framtíðinni við að leiða nánar í ljós réttindi eða skyldur sem tengjast umræddum jörðum.

6. gr.

Með samkomulagi þessu eru ekki afhentar aðrar eignir en þær sem nú eru á forræði Prestssetrasjóðs. Hjáleigur prestssetursjarða, nýbýli, lóðir og jarðarhlutar sem skipt hefur verið úr hinum afhentu jörðum ganga ekki til Þjóðkirkjunnar né andvirði fyrir sölu þeirra nema þess sé sérstaklega getið í samkomulagi þessu, sbr. III. Kafla. Önnur prestssetur, ásamt því sem þeim fylgdi og aðrar eignir og skuldbindingar ríkisins vegna prestssetra, teljast með kirkjueignum, sem afhentar voru með kirkjujarðasamkomulaginu frá 10.1.1997. Jörðin Þingvellir er þar meðtalin og skal hún vera eign íslenska ríkisins. Kirkjan þar er eign íslenska ríkisins, sem sér um búnað hennar og viðhald, ásamt því að veita aðstöðu fyrir sóknarprest í tengslum við kirkjuathafnir.

7. gr.

Prestssetursjarðir, sem afhentar eru, miða við landamerki jarða eins og þau eru talin vera í dag og er Þjóðkirkjunni kunnugt um að niðurstöður Óbyggðanefndar og/eða dómstóla skv. lögum nr. 58/1998, um þjóðlendur og ákvörðun eignarlanda, þjóðlenda og afrétta, kunna að breyta þeim landamerkjum. Séu á umræddum jörðum byggingar eða aðrar eignir sem ekki hafa verið í eigu eða umsjá Prestssetrasjóðs fyrir samkomulag þetta, s.s. skólabyggingar, íbúðarhús eða önnur mannvirki, skal Þjóðkirkjan útmæla slíkum mannvirkjum hæfilega lóð og gera lóðarsamning við eiganda eða umsjónaraðila mannvirkisins. Þjóðkirkjan tekur við eignunum að öðru leyti í því ástandi, sem þær eru í, við undirritun samkomulags þessa og sættir sig við að fullu.

8. gr.

Nú rís ágreiningur um efni eða túlkun samkomulagsins milli aðila þess, t.d. varðandi eignir, landamerki, hlunnindi eða ítök einstakra prestssetursjarða, og skal þá þriggja manna gerðardómur útkljá slík deilumál, enda verði gerðardómsmál höfðað fyrir árslok 2010. Gerðardómurinn skal skipaður einum fulltrúa tilnefndum af fjármálaráðuneytinu, einum tilnefndum af Þjóðkirkjunni og einum skipuðum af Héraðsdómi Reykjavíkur. Um gerðardóm þennan og um skiptingu málskostnaðar fyrir honum fer að öðru leyti samkvæmt lögum nr. 53/1989, um samningsbundna gerðardóma. Sé ágreiningur þess eðlis að hann varði eignir, hlunnindi, ábúð, ítök, landamerki o.fl. sem snúi að öðrum en ríkisaðilum, eða gerðardómsmál skv. 1. mgr. 8. gr. og mál hefur ekki verið höfðað fyrir árslok 2010, fer um úrlausn þess samkvæmt almennum reglum.

9. gr.

Þjóðkirkjunni er kunnugt um að í einhverjum tilvikum kann að skorta eignarheimildir fyrir eignunum. Lög um breytingar á lögum nr. 137/1993, um prestssetur, ásamt samkomulagi þessu skulu teljast fullnægjandi eignarheimild til að unnt verði að skrá prestssetrin og fá þeim þinglýst sem eign Þjóðkirkjunnar. Rísi vafi hjá þinglýsingarstjóra um skráningu í eigna- og veðmálabækur, skal dóms- og kirkjumálaráðuneytið útbúa sérstaka yfirlýsingu er skapi eignarheimild Þjóðkirkjunnar að tilteknu prestssetri.

10. gr.

Samkomulag þetta er gert með fyrirvara um samþykki Kirkjuþings svo og um samþykki Alþingis á frumvarpi til laga um breytingar á lögum um prestssetur nr. 137/1993.

II. Kafli

Hér að neðan eru tilgreindar þær eignir, prestssetursjarðir eða prestsbústaðir sem afhentar verða Þjóðkirkjunni til yfirráða frá 1. janúar 2007. Sjá fylgiskjal a.

III. Kafli

Hér eru tilgreindar þær 20 eignir, sem Prestssetrasjóður hefur keypt eða byggt og verða eign Þjóðkirkjunnar: Sjá fylgiskjal b.

IV. Kafli

Samkomulag þetta grundvallast á álitsgerð kirkjueignanefndar frá 1984 og er viðauki við samkomulag íslenska ríkisins og Þjóðkirkjunnar frá 10. janúar 1997, sbr. V. kafla laga nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti Þjóðkirkjunnar og samning íslenska ríkisins og Þjóðkirkjunnar frá 4. september 1998 með fjárskuldbindingum ríkisins á móti afhendingu kirkjueigna allt frá 1907. Í 5. gr. samkomulags íslenska ríkisins og Þjóðkirkjunnar, frá 10. janúar 1997, um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna Þjóðkirkjunnar, segir að prestssetrin og það sem þeim fylgi séu undandskilin samkomulaginu. Í ákvæðinu kemur fram að fjallað verði síðar um eignarréttarstöðu prestssetranna. Með undirritun samkomulags þessa hefur þeirri umfjöllun að fullu verið lokið milli íslenska ríkisins og Þjóðkirkjunnar og lýsa samningsaðilar því yfir að sú eignaafhending og árleg greiðsla sem á sér stað með samkomulagi þessu sé fullnaðaruppgjör milli íslenska ríkisins og Þjóðkirkjunnar vegna allra prestssetra og hvorugur aðili eigi kröfu á hendur hinum vegna þeirra.

Reykjavík, 20. október 2006