Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

Kirkjuþing

Kirkjumiðstöð Austurlands

SKIPULAGSSKRÁ
Staðfesting forsetans á skipulagsskrá fyrir Kirkjumiðstöð Austurlands, útgefin á venjulegan hátt ad mandatum af dómsmálaráðherra 10. júní 1985

1. gr.

Stofnunin heitir Kirkjumiðstöð Austurlands og er sjálfseignarstofnun og rekur Kirkjumiðstöð fyrir Austurland á eigin ábyrgð fyrir ýmsa starfsemi á vegum Þjóðkirkjunnar á Austurlandi, svo sem sumarbúðir ungmenna, mót, námskeið og orlofsdvalir. Stofnunin yfirtekur og eignast byggingu sem er í smíðum við Eiðavatn undir umsjón Prestafélags Austurlands, sbr. sérsamning um eignayfirtöku (afsal). Er þessi bygging afhent skuldlaus og án allra kvaða.

2. gr.

Starfsemi Kirkjumiðstöðvarinnar miðar að eflingu kirkjulegs starfs á Austurlandi og aukinni samvinnu safnaðanna, þannig að söfnuðir Þjóðkirkjunnar á Austurlandi fái betur rækt hlutverk sitt við boðun fagnaðarerindisins og þjónustu við samfélagið. Markmiði þessu hyggst stofnunin ná með því að starfrækja kirkjumiðstöð.

3. gr.

Tekjur Kirkjumiðstöðvarinnar eru framlög einstaklinga, félaga og stofnana og hugsanlegar tekjur af eigin rekstri og útgáfustarfsemi.

4. gr.

Í stjórn stofnunarinnar eru kjörnir 5 menn. Héraðsfundur Múlaprófastsdæmis og héraðsfundur Austfjarðaprófastsdæmis kjósa hvor um sig 2 menn og 1 maður er kosinn af Prestafélagi Austurlands. Sömu aðilar kjósa jafn marga varamenn. Eru stjórnarmenn kosnir til 2ja ára í senn.

5. gr.

Fulltrúi Prestafélags Austurlands kallar nýskipaða stjórn saman, en síðan skiptir hún sjálf með sér verkum. Stjórnin annast rekstur Kirkjumiðstöðvarinnar. Hún skilar árlega skýrslu til beggja héraðsfundanna og aðalfundar P.A.

6. gr.

Stjórnin skal halda gjörðabók þar sem ákvarðanir hennar eru færðar, svo og framlög aðila. Stjórnin skal á hverjum tíma ávaxta fé stofnunarinnar með bestu fáanlegum kjörum.

7. gr.

Reikningsár stofnunarinnar er almanaksárið og skulu reikningar endurskoðaðir af tveim endurskoðendum, öðrum löggiltum, sem tilnefndir eru af biskupi og kirkjumálaráðherra.

BS 11090

8. gr.

Komi til þess að stofnunin verði lögð niður, renna eignir hennar til prófastsdæmanna á Austurlandi (M. og A.). Ef ágreiningur rís varðandi ráðstöfun eigna eða túlkun skipulagsskrár skal kirkjuráð skipa úrskurðaraðila.

9. gr.

Skipulagsskrá þessari verður ekki breytt nema með samþykki héraðsfunda beggja prófastsdæmanna og aðalfundar P.A.

10. gr.

Leita skal staðfestingar forseta Íslands á skipulagsskrá þessari.