Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

Kirkjuþing

Jafnréttisstefna þjóðkirkjunnar

I. Inngangur

Jafnréttisstefna kirkjunnar á að stuðla að jafnrétti eins og rétt og skylt er í samræmi við líf og boðskap Jesú Krists. Tvöfalda kærleiksboðorðið, Gullna reglan og Litla biblían eru orð fagnaðarerindisins sem innihalda undirstöðuatriði kristins boðskapar og fela í sér jafnréttishugsjón.

Kirkjan byggir á þeim grunni sem lagður er af hinum upprisna frelsara. Skírn inn í það samfélag gerir engan greinarmun á konum og körlum. Kirkjan gegnir þess vegna mikilvægu hlutverki í  miðlun þess boðskapar. Því er jafnréttisstefna viðurkenning manngildis og jafnréttis allra jarðarbarna.

Jafnréttisstefna kirkjunnar tekur mið af gildandi jafnréttislögum á Íslandi, nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þar er meðal annars lögð áhersla á að kynjasamþætting1) sé fest í sessi sem mikilvæg leið til að koma á jafnrétti. Kirkjan mun byggja á því í starfi sínu.2)

Jafnframt er tekið mið af því að þjóðkirkjan er aðili að Alkirkjuráði, Kirknaráði Evrópu og Lúterska heimssambandinu. Samtökin hafa hvatt kirkjur sínar til að jafna hlutföll kynjanna í nefndum og ráðum þannig að þar sitji að minnsta kosti 40% konur og að minnsta kosti 40% karlar.

Jafnréttisstefna kirkjunnar tekur annars vegar til stjórnkerfis kirkjunnar og starfsmanna hennar og hins vegar til starfsemi og þjónustu sem kirkjan veitir.

II. Markmið

Markmið jafnréttisstefnunnar er að stuðla að jafnri stöðu og jöfnum rétti kvenna og karla í þjóðkirkjunni og jöfnum möguleikum kynjanna til starfa, áhrifa og þjónustu.

Markmiðin eru:

  1. Að skapa forsendur fyrir konur og karla í kirkjunni til að njóta þess jafnréttis sem tryggt er í lögum.
  2. Að festa kynjasamþættingu í sessi á öllum sviðum kirkjulegs starfs og innan stjórnsýslu kirkjunnar.
  3. Að auðvelda leikum og lærðum að móta og skapa aðstæður sem gera jafnréttismál að viðfangsefni allra innan kirkjunnar.
  4. Að bæta stöðu eða auka möguleika kvenna eða karla í því skyni að koma á jafnri stöðu kynjanna á ákveðnu sviði þar sem á annað kynið hallar.
  5. Að stuðla að jafnri stöðu kvenna og karla í stjórnunar- og áhrifastöðum.
  6. Að tryggja framkvæmd þessara markmiða með framkvæmdaráætlun.

III. Jafnréttisnefnd kirkjunnar – hlutverk

Kirkjuþing kýs fimm fulltrúa í jafnréttisnefnd til fjögurra ára og jafnmarga til vara.

Hlutverk Jafnréttisnefndar kirkjunnar er:

  1. Að vera ráðgefandi fyrir biskup Íslands og kirkjuráð í málefnum er varða jafnrétti kynjanna.
  2. Að hafa frumkvæði að fræðslu og aðgerðum, til að tryggja jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla innan kirkjunnar.
  3. Að fylgjast með framkvæmd jafnréttisstefnunnar fyrir hönd biskups og kirkjuráðs og gera tillögu til kirkjuráðs um endurskoðun framkvæmdaáætlunarinnar til þriggja ára í senn, skv. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 10/2008.3)
  4. Jafnréttisnefnd starfar í samstarfi við jafnréttisfulltrúa kirkjunnar. Biskup Íslands skipar jafnréttisfulltrúann og setur honum erindisbréf að fengnum tillögum frá jafnréttisnefnd.

IV. Framkvæmdaáætlun fyrir árin 2010-2012

1. Jafnréttisfræðsla
Markmið laga nr. 10/2008 er „… að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins.“ Kirkjan mun standa fyrir fræðslu um kynjasamþættingu sem felur í sér að skipuleggja, bæta, þróa og leggja mat á stefnumótun og ákvarðanir þannig að sjónarhorn kynjajafnréttis sé fléttað inn í starf kirkjunnar á öllum sviðum hennar, sbr. 6. mgr. 2. gr.4) og 17. gr. laga nr.10/2008.5) Einnig mun kirkjan stuðla að því að kynjasamþætting verði þáttur í endurmenntun þeirra sem fyrir kirkjuna starfa.

Verkefni 1.1: Haldin verður ráðstefna í lok janúar 2010 á vegum jafnréttisnefndar kirkjunnar um jafnrétti og samþættingu kynjasjónarmiða. Í tengslum við ráðstefnuna verður boðið upp á námskeið um samþættingu kynjasjónarmiða í safnaðarstarfi. Er það sérstaklega ætlað prestum, starfsfólki sókna, starfsfólki Biskupsstofu og yfirstjórn kirkjunnar.
Ábyrgð og framkvæmd: Jafnréttisnefnd kirkjunnar
Tímamörk: 1. júní 2010

Verkefni 1.2: Tekið verði mið af kynjasamþættingu við gerð fræðsluefnis til nota í barna- og æskulýðsstarfi. Gefið verði út efni fyrir 2-4 samverustundir í æskulýðsstarfi um kynjasamþættingu og jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
Ábyrgð og framkvæmd: Biskup Íslands – fræðslusvið Biskupsstofu
Tímamörk: 1. september 2010

2. Málfar
Kirkjan skal í boðun sinni, helgihaldi og fræðslu, gæta þess að höfðað sé til beggja kynja. Sérstaklega verði horft til málfars í handbók og sálmabók kirkjunnar.
Verkefni: Helgisiðanefnd, handbókarnefnd og sálmabókarnefnd gæti að kynjasamþættingu í störfum sínum varðandi málfar og efnisval í nýrri sálmabók og nýrri handbók.
Ábyrgð og framkvæmd: Helgisiðanefnd, Handbókanefnd, Sálmabókanefnd.
Tímamörk: Hvað varðar sálmabók: Útgáfudagur. (1. sunnud. í aðventu 2011). Hvað varðar handbók: Útgáfudagur.

3. Jöfn laun og kjör starfsfólks
Í lögum nr. 10/2008 er hvers konar mismunun á grundvelli kyns óheimil. Samkvæmt 19. gr.6) ber hverjum atvinnurekanda að greiða starfsfólki sínu sömu laun og veita sömu kjör fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Starfsmönnum er ávallt heimilt, ef þeir kjósa svo, að skýra frá launakjörum sínum. Á árabilinu skal sérstaklega horft til þess að safna saman og greina tölulegar upplýsingar út frá kyni og vinna gegn launamisrétti.

Verkefni: Safnað verði upplýsingum um laun innan kirkjunnar, annars vegar á prófastsdæmisvísu hvað starfsfólk safnaða varðar og hins vegar á landsvísu hvað presta og starfsfólk Biskupsstofu og stofnana kirkjunnar varðar.
Ábyrgð og framkvæmd: Prófastar (starfsfólk safnaða) og Biskupsstofa (prestar á landsvísu og starfsfólk Biskupsstofu og stofnana) og þeim til aðstoðar aðilar sem sjá um laun innan kirkjunnar.
Tímamörk: Niðurstöðurnar verði lagðar fram á héraðsfundum og á kirkjuþingi árin 2010, 2011 og 2012.

4. Staða kynjanna innan kirkjunnar
4.1. Að greina hlut kvenna innan kirkjunnar.
Þess skal gætt að við tilnefningar og skipan í ráð og nefndir að farið sé eftir 15. gr. laga nr. 10/2008.7)
Hins sama skal gætt við ráðningar á starfsfólki sókna og stofnana kirkjunnar að sem jafnast hlutfall sé milli kynjanna. Á árabilinu skal sérstaklega horft til þess að taka saman tölulegar upplýsingar, greina þær út frá kyni og gera skýrslu um stöðuna.

Verkefni: Í Árbók kirkjunnar og á heimasíðu jafnréttisnefndar kirkjunnar verði birtar árlega upplýsingar um kynjahlutföll í nefndum, ráðum og stjórnum, sem þar eru birtar.
Ábyrgð og framkvæmd: Prófastar, Biskupsstofa og jafnréttisnefnd kirkjunnar.
Tímamörk: Tölulegar upplýsingar birtist í Árbók kirkjunnar 2010 og 2011. Skýrslan komi út í ágúst 2012.

4.2. Að jafna stöðu kynjanna í valnefndum.
Sóknarnefndir gegna lykilhlutverki þegar kemur að því að velja presta. Ráðningarferlið skal vera opið og gagnsætt. Sóknarnefndir kjósa valnefndir og bera ábyrgð á því að í þær veljist fólk af báðum kynjum í sem jöfnustu hlutfalli. Sóknarnefndir skulu leitast við að vinna að jöfnum áhrifum og jafnri virðingu kvenna og karla og þar með að bættum samskiptum og líðan allra sem starfa á kirkjulegum vettvangi. Prófastar og formenn sóknarnefnda þurfa m.a. að upplýsa þau sem í valnefndum sitja um jafnréttisstefnu kirkjunnar og skyldur þeirra gagnvart henni.

Verkefni: Valnefndir skulu skipaðar þannig að þar sitji að minnsta kosti 40% konur og að minnsta kosti 40% karlar. Upplýsa skal valnefndir um jafnréttisstefnu kirkjunnar og skyldur þeirra gangvart henni
Ábyrgð og framkvæmd: Sóknarnefndir og formenn valnefnda (prófastar).
Tímamörk: 1. júní árið 2011

4.3. Að jafna hlut kynjanna í stjórnunarstöðum innan kirkjunnar
Að afla upplýsinga um hlutfall kynjanna í stjórnunar- og áhrifastöðum og stuðla að jafnri stöðu kvenna og karla.

Verkefni: Aflað verði upplýsinga um stöðuna í ljósi 15. og 18. gr. laga nr. 10/2008 og þeim komið til þeirra aðila sem koma að vali eða ráðningu fyrrnefndra aðila og gerðar verði tillögur að vinnulagi sem styðji sóknarnefndir og valnefndir og aðra ákvörðunaraðila í þeirri viðleitni að fara að jafnréttislögum.
Ábyrgð: Kirkjuráð og sóknarnefndir
Tímamörk: 1. júní 2011

5. Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs
Starfsfólki kirkjunnar skal auðveldað að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Yfirstjórn kirkjunnar og sóknarnefndir skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að gera körlum og konum kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu þannig að bæði sé tekið tillit til fjölskylduaðstæðna starfsmanna og þarfa atvinnulífsins, sbr. 21. gr. laga nr. 10/2008.8)

Verkefni: Kirkjuráð geri skýrslu um hvernig starfsfólki kirkjunnar hefur tekist að samræma starf sitt og fjölskyldulíf. Fjölskyldustefna og starfsmannastefna kirkjunnar verði yfirfarin í samræmi við lög nr. 10/2008.
Ábyrgð: Kirkjuráð
Tímamörk: 1. júní 2012.

6. Endurskoðun framkvæmdaáætlunar
Jafnréttisnefnd leggi mat á jafnréttisstefnuna og endurskoði framkvæmdaáætlun hennar. Fyrir 1. júní 2013 skili nefndin tillögu að nýrri framkvæmdaráætlun til biskups og kirkjuráðs. Hún verði lögð fyrir kirkjuþing haustið 2013 og taki gildi 1. janúar 2014.
Ábyrgð: Jafnréttisnefnd kirkjunnar
Tímamörk: 1. júní 2013.

V. Niðurlag

Biskup Íslands ber ábyrgð á jafnréttisstefnu kirkjunnar. Biskup, vígslubiskupar, kirkjuráð, prófastar, vígðir þjónar kirkjunnar, sóknarnefndir og stofnanir kirkjunnar bera ábyrgð á að farið sé að jafnréttislögum og að jafnréttisstefnunni sé framfylgt, hver á sínu starfssvæði.
Á vegum kirkjunnar er starfandi Fagráð um meðferð kynferðisafbrota innan kirkjunnar  sem fjallar um kynbundna áreitni og kynferðislega áreitni skv. 22. gr. jafnréttislaga nr. 10/2008.9) Fagráðið starfar samkvæmt starfsreglum kirkjuþings.10)

1) Sbr. 2. gr. Að skipuleggja, bæta, þróa og leggja mat á stefnumótunarferli þannig að sjónarhorn kynjajafnréttis sé á öllum sviðum fléttað inn í stefnumótun og ákvarðanir þeirra sem alla jafna taka þátt í stefnumótun í samfélaginu.
2) Sbr. 17. gr. Kynjasamþættingar skal gætt við alla stefnumótun og áætlanagerð sem gerð er á vegum ráðuneyta og opinberra stofnana er starfa á málefnasviði þeirra. Hið sama gildir um alla ákvörðunartöku innan ráðuneyta og stofnana eftir því sem við getur átt.
3) „Fyrirtæki og stofnanir þar sem starfa fleiri en 25 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli skulu setja sér jafnréttisáætlun eða samþætta jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu sína. Skal þar m.a. sérstaklega kveðið á um markmið og aðgerðir til að tryggja starfsmönnum þau réttindi sem kveðið er á um í 19.–22. gr. Framkvæmdaáætlun skal fylgja jafnréttisáætluninni eða starfsmannastefnu en hvort tveggja skal endurskoðað á þriggja ára fresti“.
4) 2. gr „Sértækar aðgerðir: Sérstakar tímabundnar aðgerðir sem ætlað er að bæta stöðu eða auka möguleika kvenna eða karla í því skyni að koma á jafnri stöðu kynjanna á ákveðnu sviði þar sem á annað kynið hallar. Þar getur þurft tímabundið að veita öðru kyninu forgang til að ná jafnvægi.“
5) 17. gr. „Kynjasamþættingar skal gætt við alla stefnumótun og áætlanagerð sem gerð er á vegum ráðuneyta og opinberra stofnana er starfa á málefnasviði þeirra. Hið sama gildir um alla ákvörðunartöku innan ráðuneyta og stofnana eftir því sem við getur átt.“
6) 19. gr. Konum og körlum er starfa hjá sama atvinnurekanda skulu greidd jöfn laun og skulu njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Með jöfnum launum er átt við að laun skulu ákveðin á sama hátt fyrir konur og karla. Skulu þau viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðun ekki fela í sér kynjamismunun. Starfsmönnum skal ávallt heimilt að skýra frá launakjörum sínum ef þeir kjósa svo.
7) 15. gr. Þátttaka í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum hins opinbera. Við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skal þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða. Þetta gildir einnig um stjórnir opinberra hlutafélaga og fyrirtækja sem ríki eða sveitarfélag er aðaleigandi að. Þegar tilnefnt er í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skal tilnefna bæði karl og konu. Tilnefningaraðila er heimilt að víkja frá skilyrði 1. málsl. þegar hlutlægar ástæður leiða til þess að ekki er mögulegt að tilnefna bæði karl og konu. Skal tilnefningaraðili þá skýra ástæður þess. Skipunaraðila er heimilt að víkja frá ákvæði 1. mgr. ef undanþáguheimild 2. mgr. á við.
8) 21. gr. Atvinnurekendur skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að gera konum og körlum kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu. Ráðstafanir þær skulu m.a. miða að því að auka sveigjanleika í skipulagningu á vinnu og vinnutíma þannig að bæði sé tekið tillit til fjölskylduaðstæðna starfsmanna og þarfa atvinnulífs, þar með talið að starfsmönnum sé auðveldað að koma aftur til starfa eftir fæðingar- og foreldraorlof eða leyfi úr vinnu vegna óviðráðanlegra og brýnna fjölskylduaðstæðna.
9) 22.gr. Kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni. Atvinnurekendur og yfirmenn stofnana og félagasamtaka skulu gera sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk, nemar og skjólstæðingar verði fyrir kynbundinni eða kynferðislegri áreitni á vinnustað, stofnun, í félagsstarfi eða skólum. Ef yfirmaður er kærður vegna ætlaðrar kynbundinnar eða kynferðislegrar áreitni verður hann vanhæfur til að taka ákvarðanir í tengslum við starfsskilyrði kæranda á meðan meðferð málsins stendur yfir og skal þá næsti yfirmaður taka slíkar ákvarðanir.
10) Starfsreglur um meðferð kynferðisbrota innan íslensku þjóðkirkjunnar nr. 739/1998