Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

Kirkjuþing

Holt í Önundarfirði – Friðarsetur

Skipulagsskrá
Staðfest í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu 7. mars 2003

1. gr.

Stofnunin nefnist Holt í Önundarfirði – Friðarsetur, sjálfseignarstofnun.

Heimili stofnunarinnar er að Holti, 425 Flateyri.

Stofnendur eru:

1. Ísafjarðarprófastsdæmi
2. Kirkjusóknir í Önundarfirði – þ.e. Flateyjarsókn, Holtssókn og Kirkjubólssókn

2. gr.

Sjálfseignarstofnunin rekur kirkju-, félags- og menningarmiðstöð á eigin ábyrgð í húsnæði fyrrum Holtsskóla, sem stendur á landi prestssetursjarðarinnar að Holti í Önundarfirði.

Hlutverk sjálfseignarstofnunarinnar er að standa fyrir fjölbreyttu kirkju- og menningarstarfi, svo sem fundum, námskeiðum, fræðslu, helgihaldi, fjölþjóðastarfi, sumardvöl, friðardögum o.fl. Enn fremur skal stofnunin skapa aðstöðu til félagsstarfs fyrir heimamenn og velunnara.

3. gr.

Stofnfé sjálfseignarstofnunarinnar er:

Fasteignin Holtsskóli, Holti, Önundarfirði, en fasteignamat er kr. 6.278.000, sbr. meðfylgjandi vottorð.

Tekjur eru framlög stofnaðila, Kirkjuráðs og velunnara, styrkveitingar, auk væntanlegra tekna af rekstri.

4. gr.

Í stjórn stofnunarinnar sitja 5 menn:

Prófastur Ísafjarðarprófastsdæmis, sem jafnframt er formaður.

Sóknarprestur í Holti, sem er varaformaður.

1 tilnefndur af héraðsfundi Ísafjarðarprófastsdæmis (og 1 til vara).

2 tilnefndir af sóknarnefndum í Önundarfirði (og 2 til vara).

Héraðsfundur Ísafjarðarprófastsdæmis tilnefnir varamann prófasts, sem skal að jafnaði vera prestur í héraðsnefnd prófastsdæmisins verði því við komið. Ef sóknarprestur í Holti er jafnframt prófastur skal héraðsfundur tilnefna annan prest úr prófastsdæminu sem stjórnarmann. Varamaður sóknarprests í Holti er sá prestur, sem leysir hann af í fjarveru eða forföllum.

Stjórnarmenn og varamenn þeirra að frátöldum prófasti og sóknarpresti eru tilnefndir til 2ja ára í senn.

5. gr.

Stjórn sjálfseignarstofnunarinnar skal sjá til þess að markmiðum skipulagsskrár þessarar sé fullnægt eftir því sem efni og aðstæður leyfa hverju sinni. Enn fremur að rekstur og fjármál séu jafnan í góðu horfi. Stjórnin ræður framkvæmdastjóra og annað starfsfólk telji hún þess þörf og ákveður hver skuli fara með prókúru stofnunarinnar.

Stjórnin skal halda gjörðabók þar sem skráðar eru ákvarðanir stjórnar og meginatriði funda svo og framlög aðila.

Stjórnin skal sjá til þess að skráð sé í starfsbók a) allt starf sem stofnunin stendur fyrir og b) önnur notkun á húsinu.

BS 11069

Stjórnin skilar árlega starfsskýrslu og endurskoðuðum reikningum til þeirra aðila sem tilnefna í stjórn eigi síðar en 30. apríl ár hvert vegna næstliðins árs.

Stjórnin skiptir með sér verkum að öðru leyti og ákveður röð varamanna til trúnaðarstarfa eftir því sem þörf krefur.

6. gr.

Reikningsár stofnunarinnar er almanaksárið og skulu reikningar endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda.

7. gr.

Skipulagsskrá þessari verður ekki breytt nema með samþykki 2/3 hluta stjórnar stofnunarinnar, meirihluta héraðsfundar Ísafjarðarprófastsdæmis og sameiginlegs sóknarnefndarfundar í Önundarfirði. Sama gildir ef fyrirhugað er að sameina sjáfseignarstofnunina öðrum aðila.

Komi til þess að stofnunin verði lögð niður, ráðstafar Kirkjuráð þjóðkirkjunnar eignum hennar.

8. gr.

Umboð stjórnar sjálfseignarstofnunarinnar telst hefjast 1. október 2002 og miðast upphafstími stjórnarsetu tilnefndra stjórnarmanna við þann tíma. Tilnefning stjórnarmanna gildir til loka septembermánaðar árið 2004 og gildir það allt að einu þótt ekki hafi tekist að afla staðfestingar á skipulagsskrá stofnunarinnar eða lögmætrar skráningar fyrir 1. október 2002.

9. gr.

Leita skal staðfestingar dóms- og kirkjumálaráðherra á skipulagsskrá þessari.