Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

Kirkjuþing

Erindisbréf prófasts og heitstafur

Biskup Íslands
sendir öllum þeim, er þetta bréf lesa eða heyra, kveðju Guðs og sína. Í nafni Guðs, föður, sonar og heilags anda. Amen.

Kunnugt gerist: að í samráði við héraðsnefnd hef ég útnefnt prestinn séra …………. til að vera prófastur í ………….. prófastsdæmi og gef honum þetta erindisbréf

Prófastur skal í öllum greinum breyta eftir gildandi landslögum og starfsreglum sem kirkjuþing setur og hafa eftirlit með því að prestar og sóknarnefndir hlýti fyrirmælum þeirra. Prófastur skal eigi að síður vandlega gæta boða og skipana kirkjustjórnarinnar og halda öðrum til þess sem hann er yfir settur.

Prófastur er fulltrúi biskups í prófastsdæminu, trúnaðarmaður og hollur ráðunautur í öllum kirkjulegum málum og skal yfir höfuð vera biskupi – ef svo mætti að orði komast – auga og hönd til allrar aðgæslu og hvers kyns framkvæmda inna prófastsdæmisins.

Prófastur skal reynast prestum og starfsliði kirkjunnar í prófastsdæminu hollráður og leiðbeina og styðja til allra réttra mála. En jafnframt skal hann með alvöru og festu halda prestunum til að gæta góðrar reglu og skyldu sinnar í allri embættisfærslu með hreinleik og grandvarleik í öllu dagfari sínu, sem Drottins þjónum sæmir, og kostgæfilegri ástundun heilsusamlegrar kenningar, kristindómsfræðslu og sálgæslu.

Prófastur skal svo sem venja er til vísitera prófastsdæmið, söfnuði, presta og kirkjur ásamt grafreitum, og skal hann að minsta kosti vitja hverrar sóknar á hverjum tveimur árum. Komu sína skal hann í tæka tíð boða presti, safnaðarfulltrúa og sóknarnefnd.

Prófastur skal kynna sér hið andlega ástand safnaðanna og samskipti prests og safnaðar, vanda um ef þarf og stuðla að umbótum. Sérstaklega skal prófastur bera fyrir brjósti og athuga helgihald, fræðslu barna, ungmenna og fullorðina, og kærleiksþjónustu safnaðarins.

Prófastur skal hafa góða varðveislu á öllu því fé sem embættis hans vegna fer um hans hendur, ástunda góða stjórnsýsluhætti og gæta hagkvæmni við rækslu embættisins í hvívetna. Hann skal hafa góðar gætur á embættislegri fjárvörslu presta og kirkjufjárhaldi sóknarnefnda.

Prófastur skal ganga eftir öllum lögboðnum skýrslum og skilagreinum á settum tíma.

Prófastur skal tilkynna biskupi tafarlaust þá viðburði er verða í prófastsdæmi hans og kirkjuna varða og þær ráðstafanir sem hann hefur gert. Hann skal og afdráttarlaust og án manngreinarálits skýra biskupi frá þeim misfellum er kunna að vera í prófstsdæminu og vísa málum áfram til vígslubiskups og biskups ef þarf.

Prófastur skal halda héraðsfundi á lögskipaðan hátt og boða til með nægum fyrirvara.

Prófastur er verkstjóri og tilsjónarmaður kirkjulegrar þjónustu í prófastsdæminu og sjái til þess að sóknarbörn njóti þeirrar þjónustu sem kirkjunni ber að veita og fylgist með að stefnumörkun kirkjunnar sé framfylgt á hverjum stað, að allt sé í góðri reglu. Allt þetta og hvað annað er kristilegur og löglegur landssiður ætlast til af embætti hans ber prófasti trúlega að rækja, eins og sæmir árvökulu yfirvaldi og grandvörum guðsmanni. Aftur á móti býð ég í embættisnafni prestum sóknarnefndum og öllu þjóðkirkjufólki í ……..prófastsdæmi að kannast við séra ……….. sem prófast sinn og veita fúslega alla þá virðingu, elsku, hlýðni og aðstoð er þeir eiga að sýna prófasti sínum. Óska ég svo bæði prófasti og þeim sem þjónustunar eiga að njóta, náðar Guðs og blessunar fyrir Jesú Krist. Allt þetta staðfesti ég með nafni mínu og embættisinnsigli.

Ég ……….. prófastur í ……prófastsdæmi, lofa því í augsýn allsvitanda Guðs að kosta alvarlega kapps um að gegna þeim skyldum, sem þetta embætti mitt leggur mér á herðar. Þess vegna heiti ég því: að vera biskupi mínum trúr samverkamaður og hollur ráðunautur í stjórn og umsjón allra kirkju- og safnaðarmála í prófastsdæmi mínu; að halda upp hreinni kristilegri kenningu samkvæmt Guðs orði í heilagri ritningu og í anda vorrar evangelísk-lútersku kirkju, og leitast við af fremsta megni að efla kristilegt trúarlíf og siðgæði með söfnuðunum; að vera hollráður leiðbeinandi því samverkafólki mínu sem er undir umsjá minni, ganga á undan því með góðu eftirdæmi til orða og verka, vanda um við það, ef það kynni að vanrækja embættisskyldur sínar eða aðhafast eitthvað það, sem er ósamboðið helgu embætti og kristinni kirkju og, ef nauðsyn krefur, skýra biskupinum frá því; að fara jafnaðarlega eftirlitsferðir um prófastsdæmið til að kynnast kristnihaldi og högum safnaðanna, skoða kirkjur þeirra og grafreiti, grennslast eftir samkomulagi presta og safnaða, líta eftir helgihaldi, fræðslu og kærleiksþjónustu og vaka yfir því, að það sé rækt samviskusamlega; að sjá um, að kirkjulögin séu haldin og starfsreglur kirkjunnar og fyrirmælum kirkjustjórnarinnar hlýtt, og að gæta þess, að því sem í mínu valdi stendur, að eignir og ítök kirkna í prófastsdæmi mínu gangi ekki úr sér fyrir vanhirðingu. Með reikningsskapardaginn fyrir augum heiti ég því að halda allt þetta samviskusamlega, eftir því sem Guð vill veita mér náð til þess.

………………..