Biskupsstofa
Laugavegi 31, 150 Rvk.
Sími 528 4000, fax 528 4098
kirkjan@kirkjan.is

Kirkjuþing
Safnaðarheimili Grensáskirkju
Háaleitisbraut 66, 108 Rvk.
Sími 856 1542
kirkjuthing@kirkjuthing.is

Leiðarstýring

Starfsreglur um kjör til kirkjuþings

Númer: 
13
Ár: 
2012

Kjör til kirkjuþings
1. gr. Á kirkjuþingi eiga sæti 29 þjóðkirkjumenn, kjörnir til fjögurra ára í senn. Eru 12 þeirra úr hópi vígðra manna, þ.e. presta og djákna, sem kosnir hafa verið samkvæmt ákvæðum starfsreglna þessara. Leikmaður telst sá sem ekki hefur tekið vígslu til prests eða djákna.
Miða skal kosningarrétt og kjörgengi samkvæmt starfsreglum þessum við 1. apríl á kosningaári.

Kjördæmi kirkjuþings
2. gr. Kjördæmi kirkjuþings eru:
a) Vígðra:
1. Reykjavíkurkjördæmi, þ.e. Reykjavíkurprófastsdæmi vestra og eystra- og Kjalarnessprófastsdæmi.
2. Skálholtskjördæmi, þ.e. Suður-, Vesturlands- og Vestfjarðaprófastsdæmi.
3. Hólakjördæmi, þ.e. Húnavatns og Skagafjarðar, Eyjafjarðar og Þingeyjar- og Austurlandsprófastsdæmi.
b) Leikra:
1. Reykjavíkurprófastsdæmi vestra
2. Reykjavíkurprófastsdæmi eystra
3. Kjalarnessprófastsdæmi
4. Vesturlandsprófastsdæmi
5. Vestfjarðaprófastsdæmi
6. Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi
7. Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi
8. Austurlandsprófastsdæmi
9. Suðurlandsprófastsdæmi.

Kjörgengi
3. gr. Leikmenn skulu uppfylla skilyrði til að taka sæti í sóknarnefnd í kjördæmi sínu.
Þjónandi prestar og djáknar eru kjörgengir innan þess kjördæmis þar sem aðalstarfsstöð þeirra er. Biskupar og kennarar við guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands njóta ekki kjörgengis.

Fjöldi leikmanna á kirkjuþingi í einstökum kjördæmum og kosningarréttur
4. gr. Sóknarnefndarmenn í 1., 2. og 3. kjördæmi, hverju fyrir sig og varamenn þeirra kjósa úr röðum leikmanna, þrjá kirkjuþingsmenn og þrjá varamenn.
Aðalmenn í sóknarnefndum í 7. og 9. kjördæmi, hvoru fyrir sig, kjósa úr röðum leikmanna, tvo kirkjuþingsmenn og tvo varamenn.
Aðalmenn í sóknarnefndum í 4., 5., 6. og 8. kjördæmi, hverju fyrir sig, kjósa úr röðum leikmanna, einn kirkjuþingsmann og tvo til vara.
Miða skal kosningarrétt samkvæmt ákvæði þessu við 23. mars á kosningarári.

Fjöldi presta og djákna á kirkjuþingi í einstökum kjördæmum og kosningarréttur
5. gr. Þjónandi prestar og djáknar í föstu og launuðu starfi njóta kosningarréttar innan þess kjördæmis þar sem aðalstarfsstöð þeirra er.
Biskupar og kennarar við guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands njóta ekki kosningarréttar.
Þjónandi prestar og djáknar í Reykjavíkurkjördæmi kjósa sex kjörgenga kirkjuþingsfulltrúa fyrir kjördæmið og þrjá til vara.
Þjónandi prestar og djáknar í Skálholtskjördæmi kjósa þrjá kjörgenga kirkjuþingsfulltrúa fyrir kjördæmið og tvo til vara.
Þjónandi prestar og djáknar í Hólakjördæmi kjósa þrjá kjörgenga kirkjuþingsfulltrúa fyrir kjördæmið og tvo til vara.
Prestur sem settur er til þjónustu til eins árs eða lengri tíma nýtur kosningarréttar. Prestur sem settur er í embætti, þar sem ekki er skipaður prestur fyrir, skal hafa kosningarrétt í því kjördæmi sem hann þjónar í. Prestur, sem sinnir aukaþjónustu, getur ekki greitt atkvæði fyrir það embætti. Prestur í launalausu leyfi eitt ár eða lengur, nýtur ekki kosningarréttar.
Djákni skal vera ráðinn ótímabundið eða til a.m.k. eins árs til að njóta kosningarréttar.

Framboð til kirkjuþings
6. gr. Kjörstjórn auglýsir eigi síðar en 1. mars á kosningaári eftir framboðum til þingsins.
Þeir sem hyggjast bjóða sig fram til kirkjuþings skulu hafa tilkynnt kjörstjórn framboð sitt skriflega eigi síðar en 1. apríl það ár sem kjósa skal.
Ef ekki berast nægilega mörg framboð þ.e. jafnmörg og aðal- og varamenn eru í viðkomandi kjördeild skal kjörstjórn gera próföstum viðvart. Kjörstjórn óskar eftir að prófastar úr viðkomandi kjördæmi tilnefni sameiginlega þá frambjóðendur sem á vantar. Skal sú tilnefning hafa borist kjörstjórn eigi síðar en 15. apríl.

Kjörskrá.
7. gr. Kjörstjórn semur kjörskrá fyrir 1. apríl það ár sem kjósa skal og leggur hana fram sama dag.
Kjörskrá skal liggja frammi í eina viku á biskupsstofu og hjá próföstum. Heimilt er kjörstjórn að láta kjörskrá liggja frammi á fleiri stöðum svo og að birta hana á vefsvæðum.
Kjörstjórn auglýsir framlagningu kjörskrár og kærufrest, sem skal vera ein vika frá framlagningu.
Kjörstjórn úrskurðar kærur, og gengur endanlega frá kjörskrá innan viku frá lokum kærufrests. Niðurstöður kjörstjórnar skulu liggja frammi á biskupsstofu og skulu kærendur kynna sér þær þar. Heimilt er að skjóta úrskurði kjörstjórnar til yfirkjörstjórnar þjóðkirkjunnar, innan þriggja daga frá því að kærufrestur rann út. Yfirkjörstjórn skal hafa lokið úrlausnum kærumála innan viku frá því kæra barst.

Útsending kjörgagna – kosning.
8. gr. Kosning skal vera rafræn og hefjast eigi síðar en 1. maí á því ári sem kjósa skal. Þá sendir kjörstjórn öllum þeim sem kosningarrétt eiga nauðsynleg kjörgögn, þ.e. skrá yfir frambjóðendur í hlutaðeigandi kjördæmi og kjördeild. Þá skulu fylgja leiðbeiningar um það hvernig kosning fari fram.
Kjörgögn þessi eru send rafrænt með staðfestri móttöku. Hafi kjósandi ekki rafrænt póstfang skal senda lykilorð til hans í pósti ásamt leiðbeiningum um hvert hann skuli snúa sér. Allar upplýsingar og nauðsynleg gögn skulu einnig vera aðgengileg á vef þjóðkirkjunnar.
Rafrænni kosningu skal vera lokið á miðnætti 15. maí.

Kjörstjórn við kirkjuþingskjör.
9. gr. Kjörstjórn skipa þrír menn til fjögurra ára.
Biskup skipar formann og varaformann. Kirkjuþing kýs tvo kjörstjórnarmenn og tvo varamenn hvors þeirra um sig. Varamenn skulu kosnir í þeirri röð sem þeir taka sæti aðalmanns.
Kjörstjórnarmenn mega hvorki vera kirkjuþingsmenn eða varamenn þeirra né í föstu, launuðu starfi hjá þjóðkirkjunni.
Kosning til kjörstjórnar fer fram á þriðja reglulega kirkjuþingi eftir kjör kirkjuþings. Biskup skal kunngera skipun formanns og varaformanns á því kirkjuþingi, áður en þingið kýs til kjörstjórnar.
Kjörtími kjörstjórnar er frá 1. desember það ár sem þriðja kirkjuþing er haldið. Kjörstjórn hefur aðsetur á Biskupsstofu. Kjörstjórn er heimilt að fela starfsmönnum eða trúnaðarmönnum þjóðkirkjunnar að annast á ábyrgð kjörstjórnar framkvæmd tiltekinna þátta í kosningu til kirkjuþings.

Niðurstaða kosningar og útgáfa kjörbréfa
10. gr. Kjörstjórn úrskurðar atkvæði og staðfestir niðurstöðu kosningar.
Sá er kjörinn aðalmaður, sem flest fær atkvæði sem aðalmaður. Sá er kjörinn 1. varamaður sem flest fær atkvæði sem varamaður að viðbættum þeim atkvæðum sem hann fær sem aðalmaður, sá 2. varamaður sem næstflest fær atkvæðin talin með sama hætti og sá 3. varamaður, þar sem það á við, sem fær atkvæði talin með sama hætti.
Hljóti tveir eða fleiri jöfn atkvæði ræður hlutkesti og gildir það einnig um röð varamanna ef því er að skipta.
Kjörstjórn skal birta nöfn þeirra er kosningu hlutu, strax að lokinni talningu.
Kjörstjórn gefur út kjörbréf til þingmanna, aðalmanna og varamanna og skal röð varamanna greind sérstaklega.

Gerðabók kjörstjórnar
11. gr. Kjörstjórn færir gerðabók þar sem skrá skal meginatriði funda, kærumál og úrlausnir þeirra, svo og úrslit kosninga.

Varamenn
12. gr. Ef kirkjuþingsmaður andast á kjörtímabilinu, flytur burt úr kjördæminu eða forfallast varanlega eða tímabundið, tekur varamaður hans sæti í þeirri röð sem hann er til kjörinn. Hafi hlutaðeigandi kirkjuþingsmaður gegnt embætti forseta kirkjuþings, skal kirkjuþing kjósa til embættisins að nýju.
Varamaður tekur sæti aðalmanns í föstum þingnefndum og þarf ekki að kjósa að nýju um sæti aðalmannsins.

Kærur vegna kirkjuþingskosninga
13. gr. Rétt til að kæra eiga þeir einir sem hafa kosningarrétt við kirkjuþingskjör. Kærur vegna kirkjuþingskosninga skulu hafa borist kjörstjórn eigi síðar en einni viku eftir að atkvæði eru talin. Leggur hún þær, ásamt athugasemdum sínum, fyrir yfirkjörstjórn þjóðkirkjunnar.

Yfirkjörstjórn þjóðkirkjunnar
14. gr. Yfirkjörstjórn þjóðkirkjunnar fer með endanlegt úrskurðarvald í ágreiningsmálum vegna kirkjuþingskosninga. Hún er skipuð þremur mönnum og þremur til vara, til fjögurra ára í senn. Skal einn þeirra vera löglærður sem og varamaður hans.
Yfirkjörstjórnarmenn mega hvorki vera kirkjuþingsmenn eða varamenn þeirra né í föstu, launuðu starfi hjá þjóðkirkjunni.
Kosning til yfirkjörstjórnar fer fram á þriðja reglulega kirkjuþingi eftir kjör kirkjuþings.
Aðsetur yfirkjörstjórnar skal vera á Biskupsstofu. Biskupsstofa sér nefndinni fyrir aðstöðu og þjónustu.

15. gr. Kæra má til yfirkjörstjórnar:
1. Úrlausnir kjörstjórnar vegna kjörskrármála.
2. Framkvæmd kirkjuþingskosninga.
Yfirkjörstjórn hefur eftirfarandi úrræði:
1. Hún getur fallist á - eða synjað - kröfu manns um að vera á kjörskrá.
2. Hún getur fallist á kröfu - eða synjað - um að tiltekinn maður skuli ekki vera á kjörskrá.
3. Hún getur staðfest lögmæti framkvæmdar kirkjuþingskosninga, eftir atvikum með athugasemdum.
4. Hún getur ógilt kosningu tiltekins kirkjuþingsmanns eða kirkjuþingsmanna og lagt fyrir kjörstjórn að endurtaka kosningu í hlutaðeigandi kjördæmi.
5. Hún getur ógilt tiltekna þætti í framkvæmd kirkjuþingskosninga og lagt fyrir kjörstjórn að endurtaka þann þátt svo og aðra þætti sem nauðsynlegt þykir, þannig að niðurstaða fáist.
6. Hún getur ógilt kirkjuþingskosningu að öllu leyti og lagt fyrir kjörstjórn að láta kjósa að nýju.

16. gr. Yfirkjörstjórn vísar kæru frá ef:
1. kærandi hefur ekki kæruaðild
2. hún er of seint fram komin
3. mál heyrir ekki undir yfirkjörstjórn
4. kröfugerð er óskýr eða vanreifuð þrátt fyrir ábendingar yfirkjörstjórnar.

17. gr. Yfirkjörstjórn þjóðkirkjunnar skal skera úr þeim málum sem fyrir hana eru lögð eins fljótt og auðið er og ekki síðar en viku eftir að mál berst.
Niðurstöður yfirkjörstjórnar skulu vera í úrskurðarformi og dregnar saman í úrskurðarorð.

18. gr. Starfsreglur þessar, sem settar eru með heimild í 7. mgr. 21. gr. og 59. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997, öðlast gildi þegar í stað. Frá sama tíma falla brott starfsreglur um kjör til kirkjuþings nr. 234/2006.