Biskupsstofa
Laugavegi 31, 150 Rvk.
Sími 528 4000, fax 528 4098
kirkjan@kirkjan.is

Kirkjuþing
Safnaðarheimili Grensáskirkju
Háaleitisbraut 66, 108 Rvk.
Sími 856 1542
kirkjuthing@kirkjuthing.is

Leiðarstýring

Starfsreglur um breytingu á starfsreglum nr. 1108/2011 um kosningu biskups Íslands og vígslubiskupa - Aukakirkjuþing 2012

Númer: 
100
Ár: 
2012

1. gr.
9. gr. hljóði svo:

Kjörstjórn ákveður hvenær kosning hefst. Að svo búnu sendir kjörstjórn þeim er kosningarrétt eiga nauðsynleg kjörgögn:
a) kjörskrá
b) auðan kjörseðil með nöfnum frambjóðenda auk auðrar línu þar sem kjósandi getur ritað nafn annars kjörgengs manns
c) óáritað umslag
d) eyðublað fyrir yfirlýsingu kjósanda um að hann hafi kosið
e) umslag með utanáskrift kjörstjórnar
f) leiðbeiningar um það hvernig kosning fari fram.
Greina skal glögglega fyrir hvaða tíma kjörseðill skuli sannanlega póstlagður. Ákveður kjörstjórn þann tíma. Að jafnaði skal miða við að kosningu sé lokið innan tveggja vikna frá útsendingu kjörgagna.

Kosning skal vera skrifleg og leynileg. Kjósandi merkir við eða ritar nafn þess, sem hann vill kjósa, á kjörseðil. Eigi skal hann undirrita kjörseðil eða auðkenna hann með öðrum hætti. Hann setur seðilinn síðan í óáritað umslagið og lokar því, fyllir út eyðublaðið og undirritar, lætur gögnin í áritaða umslagið og afhendir það á biskupsstofu gegn móttökukvittun eða leggur það í póst.

Kjörstjórn telur atkvæði eigi síðar en að viku liðinni frá þeim skilafresti á pósthús sem hún hefur sett og úrskurðar þau.

Réttkjörinn biskup eða vígslubiskup er sá sem fær meirihluta greiddra atkvæða. Ef enginn fær þann atkvæðafjölda skal kosið að nýju milli þeirra tveggja sem flest fengu atkvæði. Ef tveir fá jafnmörg atkvæði skal kosið milli þeirra. Ef fleiri en tveir fá jafnmörg atkvæði skal hlutkesti ráða milli hverra tveggja kosið er. Sá er réttkjörinn sem fær þá flest atkvæði. Verði atkvæði jöfn skal hlutkesti ráða.

2. gr.
Starfsreglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 59. gr. laga nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar og öðlast þegar gildi.