Biskupsstofa
Laugavegi 31, 150 Rvk.
Sími 528 4000, fax 528 4098
kirkjan@kirkjan.is

Kirkjuþing
Safnaðarheimili Grensáskirkju
Háaleitisbraut 66, 108 Rvk.
Sími 856 1542
kirkjuthing@kirkjuthing.is

Leiðarstýring

Staðfesting á samþykktum um innri málefni þjóðkirkjunnar

Númer: 
4
Ár: 
2009

SAMÞYKKTIR UM INNRI MÁLEFNI ÞJÓÐKIRKJUNNAR

I. Trú, játning og kenning Þjóðkirkjunnar
II. Grunneining kirkjunnar
III. Helgihald
IV. Handbók kirkjunnar og Sálmabók
V. Skírn
VI. Heilög kvöldmáltíð
VII. Skriftir
VIII. Ferming
IX. Hjónavígsla
X. Staðfesting samvistar
XI. Útför
XII. Vígsla til þjónustu
XIII. Tilsjón
XIV. Innsetning í embætti og starfslok
XV. Vígslur og blessanir
XVI. Kirkjuárið
XVII. Embættisklæði og skrúði presta og djákna
XVIII. Kirkjuklukkur
Greinargerð

I. Trú, játning og kenning Þjóðkirkjunnar

Grundvöllurinn
Starf og boðun hinnar evangelísk-lútersku þjóðkirkju á Íslandi ber vitni um trú, játningu og kenningu hennar. Kenning Þjóðkirkjunnar er tjáð í Heilagri ritningu, játningum trúarinnar, hefð og arfi kirkjunnar, í Handbók og Sálmabók kirkjunnar og samkirkjulegum samþykktum sem Þjóðkirkjan hefur gerst aðili að. Þjóðkirkjan gengur út frá því að þau sem koma fram fyrir hennar hönd játi kristna trú og leitist við að lifa kristnu trúarlífi. Í samfélagi kirkjunnar leitast sérhver kristinn maður, jafnt karl sem kona, við að lifa sig inn í leyndardóma trúarinnar og gera sér vitnisburð trúarinnar og köllun sína ljósa. Með helgihaldi, kærleiksþjónustu, fræðslu og boðunarstarfi vill Þjóðkirkjan bjóða öllum að eignast samfélag í trúnni og hlutdeild í lífi hennar. Hún vill efla fólk á öllum aldri til þátttöku í starfi kirkjunnar og til kristins vitnisburðar með lífi og breytni á vettvangi dagsins. Kenning evangelísk lúterskrar kirkju er sett fram og túlkuð með íhugun guðfræðinnar um trú og játningu í lífi manns og heims.

Játningar
1. Þjóðkirkjan játar trú á heilaga þrenningu, einn Guð, föður, son og heilagan anda.
2. Þjóðkirkjan játar Guð föður, skaparann, sem elskar og verndar sköpun sína.
3. Þjóðkirkjan játar Jesú Krist sem Drottin og frelsara og fagnaðarerindi hans sem kraft Guðs til hjálpræðis þeim sem trúa.
4. Þjóðkirkjan játar heilagan anda, lífgjafann og hjálparann, sem kallar hana, upplýsir og helgar með gjöfum sínum.
5. Þjóðkirkjan viðurkennir heilaga ritningu Gamla og Nýja testamentisins sem orð Guðs og sem uppsprettu og mælikvarða boðunar, trúar og lífs.
6. Þjóðkirkjan játar postullegu trúarjátninguna, Níkeujátninguna og Aþanasíusar-játninguna sem sanna skilgreiningu trúar heilagrar almennrar kirkju.
7. Evangelísk-lútersk kirkja viðurkennir Ágsborgarjátninguna 1530 og Fræði Lúthers minni sem sannan vitnisburð um fagnaðarerindi Jesú Krists og um það hvernig trú hinnar almennu kirkju var túlkuð sem svar við spurningum siðbótartímans.

Lög, reglur og aðrar réttarheimildir
• Ákvæði 62. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins um Þjóðkirkjuna eru byggð á Konungalögum 1665, Norsku lögum, 1687, II. bók, 1. kafli og Kirkjurítúalinu, 1685.
• Erindisbréf biskupa, 1746 , 43. gr.
• Lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997, 1. gr.
• Handbók kirkjunnar, 1981
• Stjórnarskrá Lúterska heimssambandsins, 1947
• BEM-skýrslan, Skírn, máltíð og þjónusta, 1984
• Porvoo-samkomulagið, 1995

II. Grunneining kirkjunnar
Sókn og söfnuður
Sóknin er grunneining þjóðkirkjunnar og vettvangur þjónustu hennar á hverjum stað. Sóknin er félag þess fólks innan Þjóðkirkjunnar sem myndar söfnuð, þar sem fagnaðarerindið er boðað og sakramentin um hönd höfð og fólk leitast við að lifa samkvæmt boði Krists. Söfnuðurinn er kirkjan. Þegar söfnuðurinn safnast saman um orð Guðs og sakramenti, þá birtist þar kirkja Krists öll, líkami Krists á jörðu, samfélag heilagra. „Hvar sem tveir eða þrír eru samankomnir í mínu nafni þar er ég mitt á meðal þeirra,“ segir Kristur (Matt.18.20). Og í 7. grein Ágsborgarjátningarinnar segir: „Ennfremur kenna þeir: Ein, heilög kirkja mun ávallt vera til, en kirkjan er söfnuður heilagra, þar sem fagnaðarerindið er kennt hreint og sakramentunum er veitt rétt þjónusta.“ Söfnuðurinn boðar návist Guðs í lífi fólks og að náð Guðs stendur öllum til boða. Söfnuðurinn veitir skilyrði til vaxtar og þroska í trú, von og kærleika í daglegu lífi og störfum. Skipulag Þjóðkirkjunnar birtir að hún er líkami Krists og farvegur návistar hans meðal mannanna. Hún er send til að biðja, boða og þjóna. Það er sameiginleg ábyrgð allra skírðra sem kirkjunni tilheyra. Kristur, upprisinn, sendir lærisveina sína að gera allar þjóðir að lærisveinum og heitir að vera með þeim alla daga, ávallt. Prestar og forystufólk sóknanna bera sameiginlega ábyrgð á samfélagi trúarinnar í söfnuðinum.
Sóknaskipan Þjóðkirkjunnar felur í sér að kirkjan á erindi við þjóðina alla og enginn er þar undan skilinn.
Með sérþjónustu kirkjunnar, svo sem á sjúkrastofnunum og í fangelsum, leitast kirkjan við að sinna þeirri kirkjulegu þjónustu sem vart er unnt að veita á vettvangi sóknanna.

Þjónustan

 1. Frumskylda sóknar er helgihald, kærleiksþjónusta og fræðsla sem nærir og eflir trú sem starfar í kærleika.
 2. Sérhvert sóknarbarn á að eiga kost á guðsþjónustu hvern helgan dag.
 3. Sóknin skal leitast við að hafa reglubundið helgihald og fjölbreytt guðsþjónustulíf til að ná til fólks á ýmsum aldursskeiðum, og nýta þau tækifæri sem athafnir á krossgötum ævinnar veita til boðunar og sálgæslu.
 4. Þar sem ekki er unnt að halda uppi reglubundnu helgihaldi, svo sem vegna fámennis, geta sóknir í sama prestakalli, eða á sama þjónustusvæði, sameinast um helgihald og aðra meginþætti safnaðarstarfs.
 5. Heimilisguðrækni og bænalíf einstaklinga og fjölskyldna er óaðskiljanlegur þáttur í guðsþjónustu og trúarlífi og ber söfnuðinum að hlúa að því eftir megni.
 6. Sóknin hlynni að samfélagi umhyggju og kærleika, láti sér annt um að vernda mannslífið á ólíkum skeiðum þess, og bera þannig vitni um hina kristnu von og kærleika með líknarþjónustu, svo og með aðild að hjálparstarfi og kristniboði kirkjunnar.
 7. Sóknin sjái til þess að sóknarbörn njóti sálgæslu, umhyggju og stuðnings á lífsgöngunni og eigi aðgang að sálgæslu í samtali, prédikun, sakramenti og fyrirbæn.
 8. Sókninni ber að veita fræðslu í kristinni trú og sið og styðja þannig heimilin í trúaruppeldi þeirra með barnastarfi, fermingarundirbúningi og æskulýðsstarfi. Með því skal séð til þess að þau sem skírð eru fái kristið uppeldi og fræðslu, læri að biðja og verða handgengin Heilagri ritningu og hljóti leiðsögn, uppörvun og stuðning til að lifa trú sína í daglegu lífi og starfi.

Lög, reglur og aðrar réttarheimildir
• Skilgreining á sókninni er að finna í lögum um stöðu, stjórn og starfshætti Þjóðkirkjunnar, í starfsreglum, í Stefnumótun safnaðaruppbyggingar, í Stefnu og starfsáherslum 2004-2010 og víðar.
• Lög um leysing á sóknarbandi nr. 9/1882
• Lög um umsjón og fjárhald kirkna nr. 22/1907
• Lög um skráð trúfélög nr. 108/1999
• Tilskipun um húsvitjanir, 1746

III. Helgihald
Guðsþjónusta
Fyrsti dagur vikunnar, sunnudagurinn, er Drottins dagur, helgaður Kristi sem reis upp frá dauðum. Það er Kristur sem kallar lýð sinn saman til helgrar þjónustu. Messan er hjartsláttur trúarlífsins þar sem söfnuðurinn mætir Drottni í orði og sakramentum. Í messunni fær trúin næringu til vaxtar og þroska fyrir boðun fagnaðarerindisins, samneyti heilagrar kvöldmáltíðar altarisins og samfélagið í bæn og beiðni og þakkargjörð. Frá messunni er söfnuður Krists sendur út með blessun hans.
Þjóðkirkjan er hvarvetna sýnileg í athöfnum sínum og trúariðkun. Guðsþjónusta Þjóðkirkjunnar stendur öllum opin. Guðsþjónustan er gjöf og köllun kirkjunnar allrar og þar birtist hinn almenni prestsdómur allra skírðra. Guðsþjónustan er verk safnaðarins, þjónusta lýðsins.
Orðið messa merkir útsending. Söfnuður Krists þiggur dagskipun hans til að fara út í hversdaginn til að vitna um fagnaðarerindið og vinna verk kærleikans.
Presturinn, djákninn, meðhjálparinn, hringjarinn, organistinn og söngfólkið og aðrir sem koma með beinum hætti að helgihaldinu eru þjónar safnaðarins í samfélagi heilagrar kirkju. Vígður þjónn kirkjunnar veitir guðsþjónustunni forstöðu í Krists stað og í umboði heilagrar kirkju hans. Sóknarprestur og sóknarnefnd bera ábyrgð á því að guðsþjónusta standi jafnan sóknarbörnum til boða. Sérhver sá sem til kirkju kemur og þaðan fer innir af hendi dýrmæta þjónustu hins almenna prestsdóms.

Helgihald Þjóðkirkjunnar

 1. Helgihald Þjóðkirkjunnar felst í almennri guðsþjónustu, messu, barna- og fjölskylduguðsþjónustu, tíðagjörð, fyrirbænaguðsþjónustu, kyrrðarstund, helgistund, skírn, altarisgöngu, fermingu, hjónavígslu, staðfestingu samvistar, útför.
 2. Helgihald Þjóðkirkjunnar er opinbert og opið öllum. Þeir sem tilheyra Þjóðkirkjunni eiga rétt á að taka þátt í helgihaldi sóknar sinnar og athöfnum samkvæmt því sem Handbók kirkjunnar mælir fyrir um.
 3. Sóknarbörn eiga rétt á að sækja helgihald og prestsþjónustu utan sóknar sinnar ef svo ber undir. Frumskylda presta Þjóðkirkjunnar er við eigin sóknarbörn.
 4. Í hverri sókn skal að jafnaði halda almenna guðsþjónustu hvern helgan dag og á hátíðum kirkjuársins. Þar sem aðstæður krefjast geta fleiri en ein sókn í prestakalli eða á samstarfssvæði sameinast um almenna helgidagaguðsþjónustu og annað helgihald.
 5. Almenna helgidagaguðsþjónustu skal halda í samræmi við Handbók kirkjunnar.
 6. Sóknarprestur ber ábyrgð á helgihaldi sóknarkirkju sinnar. Sóknarprestur eða sá prestur sem annast guðsþjónustu safnaðarins í umboði hans, ákveður í samráði við organista sálma og lög sem sungin skulu.
 7. Messu sóknarinnar skal einungis prestur leiða. Djákni getur og leitt guðsþjónustu sóknarinnar í umboði og á ábyrgð sóknarprests. Leikmaður getur leitt guðsþjónustu sóknarinnar í umboði og á ábyrgð sóknarprests með sérstöku leyfi biskups.
 8. Einungis sá sem hlotið hefur prestsvígslu má hafa um hönd sakramenti kirkjunnar. Í neyðartilvikum, þegar ekki næst til prests, getur þó sérhver skírður karl eða kona annast skemmri skírn. Ber að tilkynna hana sóknarpresti svo fljótt sem auðið er.
 9. Skírn, fermingu, hjónavígslu, staðfestingu samvistar og útför skal jafnan undirbúa með samtali þess prests sem athöfnina annast og aðstandenda. Prestur ber ábyrgð á eftirfylgd við hlutaðeigendur að athöfn lokinni.
 10. Ef prestur er beðinn um að annast guðsþjónustu eða helga athöfn í kirkju utan sóknar sinnar skal hann ávallt leita leyfis þjónandi prests viðkomandi helgidóms.

  Helgidómurinn

 11. Sóknarprestur og sóknarnefnd bera sameiginlega ábyrgð á helgidóminum.
 12. Kirkja er vígð, frátekin fyrir helga iðkun, bæn, prédikun orðsins og þjónustu sakramentanna.
 13. Ekki skal nota kirkju til annarra athafna en þeirra sem teljast samrýmast tilgangi hennar og stöðu sem vígðs helgidóms Þjóðkirkjunnar, svo sem borgaralegra athafna eða athafna á vegum annarra trúfélaga en kristinna.
 14. Þess skal jafnan gætt að annast sé um muni kirkju og búnað með virðingu fyrir helgidóminum og að búnaður, skrúði og helgimunir séu ætíð hreinir og þeim vel við haldið.
 15. Að jafnaði skal ekki vera annað á altari en það sem viðkemur helgiþjónustunni: hvítur dúkur, líndúkur, stjakar fyrir lifandi ljós, Biblía, Handbók og Sálmabók.
 16. Tendra skal ljós á altari þegar guðsþjónusta fer fram eða aðrar helgiathafnir. Á föstudaginn langa eru ekki kveikt ljós á altari.
 17. Eigi skal tendra altarisljós á tónleikum, samkomum eða fundum sem ekki teljast til helgiathafna.

  Prédikunin

 18. Guðsþjónusta helgidagsins er tími sem helgaður skal boðun fagnaðarerindisins.
 19. Meginskylda prests er samkvæmt vígsluheiti „að prédika Guðs orð hreint og ómengað eins og það er að finna í hinum spámannlegu og postullegu ritum og í anda vorrar evangelísk-lútersku kirkju.“
 20. Prédikun er útlegging orða Ritningarinnar, heimfærsla merkingar þeirra og gildis fyrir samtímann.
 21. Prédikun helgidagsins skal að jafnaði styðjast við þá ritningartexta sem deginum eða tilefninu tilheyra samkvæmt

  Handbók kirkjunnar

 22. Af vígsluheiti leiðir að presti er óheimilt að prédika nokkuð það sem stríðir gegn játningagrundvelli kirkjunnar. Eins verður prestur að gæta almenns velsæmis í orðum. Þetta á eins við þann sem prestur fær til að boða orðið í almennri guðsþjónustu safnaðarins.
 23. Láti prestur öðrum eftir að prédika, þá ber hann ábyrgð á því að það sé í samræmi við boðskap og trú kirkjunnar.

  Afnot kirkju

 24. Sóknarprestur ákvarðar um notkun helgidómsins til kirkjulegrar þjónustu, guðsþjónustu og annarra kirkjulegra athafna Þjóðkirkjunnar og ber ábyrgð á að ekkert fari þar fram sem ekki samrýmist vígðum helgidómi Þjóðkirkjunnar.
 25. Sóknarnefnd með samþykki sóknarprests ákveður um notkun kirkju til annarra hluta en áskilið er í 12. gr.
 26. Sóknarprestur veitir í samráði við sóknarnefnd leyfi til að lána eða leigja kirkju til guðsþjónustu og helgiathafna annarra kristinna trúfélaga.
 27. Verði ágreiningur um afnot kirkju skal biskup Íslands skera úr. Þeim úrskurði verður ekki áfrýjað.
 28. Biskup Íslands og vígslubiskupar hafa rétt til að nota sóknarkirkjur og aðra helgidóma Þjóðkirkjunnar til helgihalds og biskupsverka.

  Ákvæði um messuskyldu

 29. Í sókn með 2000 sóknarbörn eða fleiri skal haldin almenn guðsþjónusta hvern helgan dag, um 60 guðsþjónustur á ári.
 30. Í sóknum með 750-2000 sóknarbörn að lágmarki annan hvern sunnudag auk hátíða, ekki sjaldnar en 25 sinnum á ári.
 31. Í sóknum með 300-750 sóknarbörn að lágmarki einu sinni í mánuði auk hátíða, ekki sjaldnar en 15 sinnum á ári.
 32. Í sóknum með 100-300 sóknarbörn að lágmarki 8 sinnum á ári, auk hátíða.
 33. Í sóknum með 50-100 sóknarbörn, að lágmarki 6 sinnum á ári.
 34. Í sóknum með færri en 50 sóknarbörn er messað eftir aðstæðum.
 35. Heimilt er með leyfi biskups að taka tillit til annarra þátta en fjölda sóknarbarna, svo sem staðhátta, hefðar og hlutverks kirkjunnar í sókninni eða á svæðinu.

Lög, reglur og aðrar réttarheimildir
• Kristinréttur Árna biskups Þorlákssonar, 1275
• Kirkjuordinatia Kristjáns IV, 1607
• Tilskipun um tilhlýðilegt helgihald sabbatsins 29. maí 1744
• Erindisbréf handa biskupum, 1746
• Bréf kansellísins um tilhögun á kirkjuhurðum, 1828
• Reglugerð um sunnudaga og helgidagahald hjer á landi 28. marz 1855 og opið bréf um sama efni 26. september 1860
• Bréf dóms- og kirkjumálaráðuneytis nr. 69 7. apríl 1970
• Handbók kirkjunnar, 1981
• Sálmabók kirkjunnar, 1972 (með síðari breytingum)
• Leiðbeiningar um samstarf Þjóðkirkjunnar og Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi um afnot af kirkjum, 2008

IV. Handbók kirkjunnar og Sálmabók
Hlutverk handbókar og sálmabókar
Handbók kirkjunnar er einingarband og vitnisburður um samstöðu í tjáningu trúar og siðar á grundvelli játninga evangelísk-lúterskrar kirkju. Handbók kirkjunnar veitir leiðbeiningar um guðsþjónustu og helgihald.
Messan og helgiathafnir kirkjunnar endurspegla í senn hefð kirkjunnar og endurnýjuð form sameiginlegrar tilbeiðslu almennrar kirkju. Jafnvægi hefðarfestu, sveigjanleika og margbreytileika reynslunnar gefur vísbendingu um einingu í fjölbreytni helgihaldsins.
Textaraðir kirkjuársins geyma þá texta sem lesnir eru og útlagðir í helgihaldi kirkjunnar. Í orði Ritningarinnar er grundvöllur trúar, játninga og kenningar kirkjunnar. Í textum helgihaldsins hljómar Guðs orð sem fyrir heilagan anda verður lifandi orð þeim sem heyrir og þiggur í trú. Í og fyrir þetta orð mætir hinn upprisni Kristur kirkju sinni.
Sálmabók kirkjunnar geymir í senn sálma og bænamál guðsþjónustunnar og trúarlífs einstaklinga og fjölskyldna. Í sálmum og bænum Sálmabókarinnar er fjársjóður trúararfsins. Þar er að finna reynsluheim trúarinnar, reynslu einstaklinga og safnaðar af samleið sinni með Guði.

Handbók og Sálmabók

 1. Í Handbók kirkjunnar og Sálmabók er að finna grundvallaratriði kenningar og trúarlífs heilagrar, almennrar kirkju samkvæmt vitnisburði evangelísk-lúterskar kirkju í játningum hennar.
 2. Textar og fyrirmæli Handbókar skulu gilda um helgihald kirkjunnar.
 3. Sálmabók kirkjunnar skal notuð við guðsþjónustur og helgihald kirkjunnar.
 4. Nota má sálma utan Sálmabókar ef prestur og organisti eru sammála um það. Sama gildir um veraldlega tónlist og texta. Verði ágreiningur milli prests og organista í þessum efnum skal prestur ráða.
 5. Prestar skulu að jafnaði fylgja textaröðum kirkjuársins samkvæmt Handbók kirkjunnar í þeirri röð sem biskup Íslands mælir fyrir um.
 6. Kollektur þær sem Handbók kirkjunnar tilgreinir fyrir hvern dag kirkjuársins skulu fluttar í hinni almennu guðsþjónustu.
 7. Almenn kirkjubæn skal fylgja fyrirmynd Handbókar kirkjunnar í því að beðið er í hinni almennu helgidagaguðsþjónustu fyrir kirkjunni, þjóð og landi, stjórnvöldum og atvinnuvegum, sjúkum og sorgmæddum, kristniboði og hjálparstarfi, friði á jörðu.

Lög, reglur og aðrar réttarheimildir
• Lög um Kirkjuráð nr. 21/1931
• Handbók kirkjunnar, 1981
• Sálmabók kirkjunnar, 1972 (með síðari viðaukum)
• Tónlistarstefna Þjóðkirkjunnar, 2004

V. Skírn
Heilög skírn
Sakramenti evangelísk-lúterskrar kirkju eru tvö, skírn og kvöldmáltíð. Sakramenti eru fyrirheit Drottins um fyrirgefningu, líf og sáluhjálp, bundin jarðneskum táknum.
Skírnin er heilög athöfn sem Jesús Kristur hefur stofnað og heitir návist sinni og náð. Skírn er ætíð í vatni og í nafni föður og sonar og heilags anda. Í skírninni endurfæðist maðurinn fyrir vatn og heilagan anda inn í ríki Guðs þar sem er fyrirgefning syndanna, líf og sáluhjálp.
Skírnin gerist í eitt skipti fyrir öll. Þríeinn Guð tekur oss í samfélag sitt og leiðir inn í ríki sitt og söfnuð kirkju sinnar. Þess vegna fer skírnin ætíð fram í kristnum söfnuði, hvort heldur hún fer fram í kirkju, heimahúsi eða á sjúkrastofnun. Presturinn og guðfeðgin, skírnarvottar, eru fulltrúar samfélags heilagrar, almennrar kirkju og ábyrg fyrir því að barnið fræðist um Jesú Krist og fagnaðarerindi hans.
Skírnarathöfnin er öðrum þræði þakkargjörð fyrir lífið og bæn fyrir barninu og heimili þess. Barnsskírnin er dýrmætur tengiliður milli Þjóðkirkjunnar og heimilanna. Skírnin markar lífsleið manns. Dag hvern fær hinn skírði að lifa í skírn sinni og ganga gegnum dauða til lífs, frá helsi til frelsis. Fyrir skírnina öðlast maðurinn náð Guðs sem ber gegnum líf og dauða til eilífs lífs.
Hlutverk kirkjunnar er að ná til allra með tilboð Krists um skírn í nafni Guðs föður, sonar og heilags anda, fræðslu um það sem Kristur hefur kennt, og vitund um návist hans alla daga allt til enda veraldar. Það er verkefni sóknarinnar að sjá til þess að skírðir séu fræddir í grundvallaratriðum kristinnar trúar og leiddir inn í samfélag trúarinnar. Fermingin er mikilvægur þáttur í því.

Skírnarathöfnin

 1. Skírt er í nafni föður og sonar og heilags anda, í hreinu vatni. Vatni er ausið þrisvar yfir höfuð skírnarþega um leið og nafn hans er nefnt. Þjóðkirkjan viðurkennir hverja skírn sem þannig er framkvæmd og eins niðurdýfingarskírn sé hún framkvæmd í nafni heilagrar þrenningar.
 2. Skíra skal barn ef þess er óskað af foreldri eða forsjáraðila, sem þar með tekst á hendur ábyrgð á því að barnið sé alið upp í kristinni trú.
 3. Foreldrar sem hafa sameiginlega forsjá barns taka ákvörðun sameiginlega um skírn. Foreldrum ber að hafa samráð við barn sitt eftir því sem aldur og þroski barnsins gefur tilefni til. Hafi barn náð 12 ára aldri skal leita álits þess.
 4. Prestur sem skírir skal ætíð ræða við foreldra (forsjáraðila) barnsins fyrir athöfnina og fara yfir skírnarathöfnina og merkingu hennar.
 5. Skírn er í eitt skipti fyrir öll og verður ekki endurtekin.
 6. Fullvaxinn einstakling má skíra ef hann hefur ekki verið skírður áður en óskar þess að skírast til kristinnar trúar og vill lifa í kristnum söfnuði í samfélagi við Jesú Krist. Skírn fulltíða manns skal jafnan undirbúin með fræðslu um grundvallarþætti kristinnar trúar og siðar.
 7. Fylgt skal atferli Handbókar kirkjunnar nema þegar um skemmri skírn er að ræða (sjá 10.-11. gr. hér að neðan).
 8. Þjónandi prestur Þjóðkirkjunnar annast skírn. Skírn sem aðrir vígðir prestar (prestar sem ekki eru í embætti) annast skal vera á ábyrgð og í umboði sóknarprests sem sér til þess að færa hana til bókar og gera skýrslu um hana til Þjóðskrár.
 9. Skírnarvatni skal hellt í mold eða kirkjugrunn eftir notkun, aldrei í niðurfall. 

  Skemmri skírn

 10. Sérhver skírður einstaklingur getur skírt skemmri skírn ef líf er í hættu og ekki næst til prests.
 11. Sá sem annast skemmri skírn skal þegar í stað tilkynna það sóknarpresti sem gengur úr skugga um að skírnin hafi farið fram í nafni föður, sonar og heilags anda, og skal færa það til bókar og tilkynna til Þjóðskrár.

  Skírnarfræðsla

 12. Sóknin skal bjóða sóknarbörnum fræðslu í grundvallaratriðum trúarinnar. Slík fræðsla skal ætíð standa foreldrum skírnarbarna til boða og skal vera skilyrði fyrir því að fulltíða maður hljóti skírn.

  Skírnarvottar - guðfeðgin

 13. Skírnarvottar eru vottar að athöfninni og fulltrúar kristins safnaðar sem ábyrgist að barnið hljóti uppfræðslu í trú og bæn kirkjunnar. Skírnarvottarnir biðja fyrir barninu og leitast við að styðja foreldra og söfnuð í trúaruppeldi þess.
 14. Skírnarvottar, guðfeðgin, skulu vera minnst tveir eða tvö, mest fimm og ekki yngri en um fermingu.

Lög, reglur og aðrar réttarheimildir
• Kristinréttur Árna biskups Þorlákssonar, 1275, 8. kap.
• Tilskipun um húsagann á Íslandi 3. janúar 1746, 2. gr.
• Tilskipun 27. júlí 1771 um heimaskírn barna
• Kirkjurítúalið 1685 og tilskipun 1746 um guðfeðgin
• Handbók kirkjunnar, 1981
• BEM-skýrslan, Skírn, máltíð og þjónusta, 1984
• Barnalög nr. 76/2003
• Fræðslustefna kirkjunnar, 2004

VI. Heilög kvöldmáltíð
Heilög kvöldmáltíð
Sakramenti evangelísk-lúterskrar kirkju eru tvö, skírn og kvöldmáltíð. Sakramenti eru fyrirheit Drottins um fyrirgefningu, líf og sáluhjálp, bundin jarðneskum táknum.
Heilög kvöldmáltíð, altarisganga, samfélagið um Guðs borð, er sakramenti sem Jesús Kristur hefur stofnað. Hún er máltíð í brauði og víni þar sem kirkjan og einstaklingurinn sameinast Kristi og þeim sem hann játa á öllum öldum um víða veröld, á himni og á jörðu. Í heilagri kvöldmáltíð er Jesú Krists minnst, fórnardauða hans á krossi og upprisu hans frá dauðum. Kristur er raunverulega nálægur og gefur sjálfan sig í brauði og víni altarisgöngunnar. Sá sem þiggur í trú fær hlutdeild í því sem Jesús Kristur gaf lærisveinum sínum, fyrirgefningu syndanna og eilíft líf.
Altarissakramentið er hátíðarmálsverður og leyndardómur trúarinnar sem tjáir þakkargjörð og innilegt samfélag. Samfélagið í heilagri kvöldmáltíð er tákn þeirrar sýnilegu einingar sem kirkjan er kölluð til og þeirrar sáttargjörðar og einingar heimsins sem hún biður fyrir og vill stuðla að. Hlutdeildin í hinu eina brauði sem við brjótum og bikar blessunarinnar sem við blessum er tákn og áminning um að við deilum með okkur gjöfum lífsins heiminum og náunganum til heilla. Sjónum okkar er beint til þess er hátíðin fullnast í máltíðinni á himni.
Kvöldmáltíðarborð Þjóðkirkjunnar er opið öllum sem skírðir eru í nafni föður, sonar og heilags anda og vilja mæta Jesú Kristi við borð hans.
Vígður prestur annast þjónustu að heilagri kvöldmáltíð, í samfélagi safnaðarins og í einrúmi, svo sem við sjúkrabeð eða húsvitjun.

Altarisgangan

 1. Heilög kvöldmáltíð, altarissakramentið, er veitt með lestri innsetningarorðanna og neyslu brauðs og víns sem blessað er.
 2. Sérhver sá sem skírður er í nafni föður, sonar og heilags anda og vill mæta Jesú Kristi við borð hans er velkominn að kvöldmáltíðarborði Þjóðkirkjunnar.
 3. Heimilt er að taka ófermd börn til altaris, en þá aðeins í fylgd eða með samþykki foreldris eða forsjáraðila.
 4. Sá einn sem hlotið hefur prestsvígslu í Þjóðkirkjunni eða kirkju sem Þjóðkirkjan hefur borðssamfélag við getur veitt altarissakramentið í Þjóðkirkjunni.
 5. Ef djákni aðstoðar við útdeilingu útdeili hann víninu.
 6. Hver sá sem er skírður og tilheyrir Þjóðkirkjunni eða söfnuðum sem hún er í borðsamfélagi við getur aðstoðað við útdeilingu altarissakramentisins með því að útdeila víninu.
 7. Heilög kvöldmáltíð, altarissakramentið, skal veitt í samfélagi safnaðarins í vígðum helgidómi. Ef sérstakar ástæður krefja er leyfilegt að hafa altarissakramentið um hönd annars staðar, svo sem við sjúkrabeð eða húsvitjun.
 8. Fylgt skal atferli Handbókar kirkjunnar um heilaga kvöldmáltíð.
 9. Frumregla er að kropið sé við gráðurnar við bergingu en heimilt er að meðtaka sakramenti standandi. Gæta skal þess að fatlaðir og hreyfihamlaðir geti meðtekið sakramentið.
 10. Meginregla er að bergt sé af kaleiknum. Nota má sérbikara, þó ekki einnota. Heimilt er að leggja brauðið í lófa og að því sé dýft í kaleikinn.

  Um brauð og vín

 11. Nota skal ósýrt brauð, oblátur, við kvöldmáltíðina. Heimilt er að nota venjulegt (helst ósýrt) brauð, svo og glútenfrítt brauð.
 12. Meginregla er að nota við heilaga kvöldmáltíð vín, rautt eða hvítt . Blanda má það með vatni. Heimilt er að nota áfengisskert (óáfengt) vín. Sé ekki notað venjulegt vín eða alkóhólskert, til dæmis vegna takmarkaðs geymsluþols, er unnt að nota sérrí eða púrtvín, sem blanda má vatni. Heimil er notkun óáfengs þrúgusafa í altarisgöngunni.
 13. Vanda ber alla meðferð og umhirðu hinna helgu efna og kaleiks og patínu. Kaleik á undantekningarlaust að þvo eftir altarisgöngu.
 14. Prestar gæti þess að umframefna sé neytt að lokinni altarisgöngu, ef unnt er. Geyma má helgað brauð í sérstöku skríni. Afgangsvíni skal hellt í mold, eða kirkjugrunn, aldrei í niðurfall.

Lög, reglur og aðrar réttarheimildir
• Tilskipun 27. maí 1746
• Sálmabók, 1972 ( með síðari breytingum)
• Handbók kirkjunnar, 1981
• BEM-skýrslan, Skírn, máltíð og þjónusta, 1984
• Porvoo-samkomulagið, 1995

VII. Skriftir
Iðrun og fyrirgefning
Í skriftum þiggur sá er játar synd sína fyrirgefningu Guðs. Í skriftum játar maður hlutdeild sína í lífi sem er frásnúið Guði og vilja hans. Í skriftum eru bæði játuð einstök brot og ófullkomleiki sem sá sér og skynjar sem speglar líf sitt í fullkomnum kærleika Guðs.
Skriftir fela í sér tvennt: Játningu synda og aflausn í nafni Jesú Krists. Í syndajátningunni, sem borin er fram í orðum eftir samtal, játar sá sem skriftar synd sína og sekt. Í aflausninni þiggur hann fyrirgefningu Guðs. Jesús Kristur tekur á sig byrðar þess sem játar synd sína.
Í skriftum fær sá sem játar synd sína að vaxa í trú og lífi og nálgast æ meir þann leyndardóm sem lífið í Kristi er. Kristur veitir ekki aðeins fyrirgefningu sína, heldur kallar til fylgdar og felur þeim sem þiggur að miðla öðrum fyrirgefningu, miskunnsemi, náð og sáttargjörð.
Sá sem hlýðir skriftum er bundinn þagnarskyldu. Um þagnarskylduna segir Lúther að skriftir „eiga sér ekki stað í áheyrn minni heldur Krists, úr því að hann bregst ekki trúnaðarskyldunni geri ég það ekki heldur.“

Skriftir

 1. Skriftir fara fram í einrúmi og felast í því að skriftaþegi játar synd sína og að presturinn boðar fyrirgefningu syndanna í Jesú nafni.
 2. Þjónandi prestur í Þjóðkirkjunni skal hlýða skriftum. Skriftamál eru bundin trúnaðarskyldu.

  Almenn syndajátning

 3. Almenn syndajátning fer fram í samfélagi safnaðarins og er mikilvægt tákn um einingu hans. Prestur leiðir syndajátningu safnaðarins eftir fyrirmælum Handbókar kirkjunnar og að því loknu skal hann með upplyftri hægri hendi boða söfnuðinum fyrirgefningu syndanna í Jesú nafni.

Lög, reglur og aðrar réttarheimildir
• Norsku lög 1685, II. bók
• Handbók kirkjunnar, 1981
• Barnaverndarlög 2002, 17. gr.

VIII. Ferming
Fermingin
Ferming er staðfesting. Hún er staðfesting þess að viðkomandi er skírður og vill játast gjöf og köllun skírnarinnar og staðfesting kirkjunnar á því að hinn skírði hafi hlotið uppfræðslu í grundvallaratriðum trúarinnar.
Það er hlutverk foreldra, guðfeðgina og safnaðarins að uppfræða hinn skírða í kristinni trú og líferni.
Fermingarathöfnin er játning, bæn og blessun og altarisganga. Fermingarbarnið þiggur fyrirbæn og handayfirlagningu sem tákn návistar heilags anda í lífi þess og að það er sent út í heiminn sem samverkamaður Guðs í ríki hans.
Ferming stendur öllum til boða sem vilja játa trú sína á Krist í samfélagi kirkjunnar.

Inntak fermingarinnar

 1. Fermingin felur í sér fræðslu um meginatriði trúarinnar, þátttöku í guðsþjónustulífi safnaðarins, svo og fermingarguðsþjónustu þar sem beðið er fyrir fermingarbarninu með handayfirlagningu er það hefur játað trúna. Fermingarbarnið er falið fyrirbæn safnaðarins, tekið til altaris og sent út í heiminn sem samverkamaður Guðs í ríki hans.

  Skilyrði fermingar

 2. Sá sem skírður er í nafni heilagrar þrenningar og óskar þess skal fermdur. Almennt skal miðað við að börn á 14. aldursári séu fermd. Heimilt er að ferma yngri börn ef sérstakar ástæður krefjast og sóknarprestur metur svo. Enginn skal fermdur án þess að hafa hlotið fræðslu sbr. 5. grein.
 3. Ferming er safnaðarathöfn sem jafnan ætti að fara fram í almennri guðsþjónustu helgidagsins.
 4. Heimilt er að ferma í sérstakri athöfn og á virkum degi ef sérstakar aðstæður krefjast. Þess skal gætt að slíkar athafnir komi ekki í stað almennrar guðsþjónustu helgidagsins.
 5. Fermingarfræðsla fylgi námskrá sem biskup Íslands setur og Kirkjuþing staðfestir. Sérhver sá sem fermdur er skal kunna bæn Drottins, postullegu trúarjátninguna, boðorðin tíu, tvöfalda kærleiksboðorðið, signinguna og blessunarorðin. Einungis skulu gerðar undantekningar frá þessum grundvallarskilyrðum ef sérstaklega stendur á.

  Ábyrgð og umsjá

 6. Sóknarprestur ber ábyrgð á skírnarfræðslu og fermingarundirbúningi.
 7. Þegar prestur tekur við barni til fermingar, en það hefur hlotið uppfræðslu annars staðar, skal gæta þess að fyrir liggi vottorð viðkomandi prests um að það hafi lokið tilskilinni fermingarfræðslu.
 8. Fermingu er ætlað að leiða inn í trúarlíf kirkjunnar. Þar skipar altarissakramentið mikilvægan sess.
 9. Heimilt er að taka ófermd börn til altaris á fermingarfræðslutímanum, í fylgd eða með samþykki forráðanda.

Lög, reglur og aðrar réttarheimildir
• Handbók kirkjunnar, 1981
• Forordning áhrærandi uppvaxandi ungdómsins confirmation og staðfesting i hans skírnarnáð 13. janúar 1736
• Konungsbréf til biskupanna um confirmation 29. maí 1744
• Tilskipan um ferminguna 25. maí 1759
• Konungsbréf 14. nóv. 1832 veitir biskupum vald til að veita undantekningar frá aldursmörkum
• Námskrá fermingarstarfanna, 1999
• Fræðslustefna kirkjunnar, 2004
• Bréf biskups og helgisiðanefndar, 2005

IX. Hjónavígsla
Hjónvígsla, hjónaband
Kirkjuleg hjónavígsla er helgiathöfn þar sem karl og kona heita hvort öðru ævitryggðum, að eiga, njóta og þiggja saman önn sem yndi lífsins, gleði og sorgir.
Hjónavígslan er tjáning gleði og fagnaðar, samstöðu, ábyrgðar og vonar á þessum vegamótum lífsins sem þau tvö standa á. Kirkjan umlykur þau fyrirbæn sinni og vill með Jesú Krist sem fyrirmynd sýna brúðhjónunum samfélag hinnar gagnkvæmu þjónustu og þörf allra fyrir samfélag við Guð og náungann utan hrings fjölskyldunnar. Návist Guðs í hjónabandinu veitir hjónunum hjálp til að lifa saman í kærleika og umhyggju og vera vottar þess í umhverfi sínu.
Hjónin játast hvort öðru opinberlega fyrir Guði og söfnuðinum, heita því að vera hvort öðru trú, elska og virða hvort annað. Guð sameinar þau, þau tvö verða eitt. Presturinn minnir þau á skuldbindingar og ábyrgð og fyrirheit hjónabandsins, og lýsir þau hjón og leggur blessun Guðs yfir hjúskap þeirra. Viðstaddir biðja fyrir þeim og heimili þeirra.

Hjónavígsluathöfnin

 1. Hjónavígsla er guðsþjónusta sem skal fara fram samkvæmt Handbók kirkjunnar. Hún felur í sér ritningarlestur og bæn, heitorð brúðhjónanna um tryggð, ást og virðingu, yfirlýsingu um að þau séu hjón ásamt bæn kirkjunnar og blessun.
 2. Hjónavígsla skal ætíð fara fram í viðurvist tveggja votta (svaramanna) sem eru lögráða.
 3. Prestur sem annast hjónavígslu ber ábyrgð á því að tónlist og annað sem fram fer við athöfnina samrýmist tilefninu og helgi stundarinnar.
 4. Prestur skal jafnan gæta þess að undirbúa hjónavígslu með samtali við hjónaefni um þær skuldbindingar sem í henni felast.
 5. Hjónavígslu annast prestur sem rétt hefur sem vígslumaður skv. hjúskaparlögum, að undangenginni könnun hjúskaparskilyrða sem löggiltur könnunarmaður annast. Presti ber að gæta vel allra formsatriða og skilyrða, svo sem fyrir er mælt í hjúskaparlögum. Prestar Þjóðkirkjunnar eru vígslumenn að lögum einungis þegar annað hjónaefna eða bæði tilheyra Þjóðkirkjunni. Vígsluréttur er einungis gildur í íslenskri lögsögu.
 6. Sóknarprestur skal sjá til þess að hjónavígsla sé færð til kirkjubókar og skýrsla þar að lútandi sé send Þjóðskrá.

  Blessun hjónabands

 7. Hjón sem gengið hafa í borgaralegt hjónaband geta fengið blessun yfir heitorð sín og samlíf við athöfn í kirkjunni. Slík guðsþjónusta getur farið fram með svipuðum hætti og hjónavígsla, nema að einungis er spurt seinni spurningarinnar. Sama á við um hjón sem vilja endurnýja hjúskaparheit sín.
 8. Prestur sem annast blessun borgarlegs hjónabands ber ábyrgð á því að tónlist og annað sem fram fer við athöfnina samrýmist tilefninu og helgi stundarinnar.

Lög, reglur og aðrar réttarheimildir
• Hjúskaparlög nr. 31/1993
• Reglugerð um könnun hjónavígsluskilyrða, 1996 (með síðari breytingum)
• Handbók kirkjunnar, 1981
• Tónlistarstefna Þjóðkirkjunnar, 2004
• Fjölskyldustefna kirkjunnar, 2006

X. Staðfesting samvistar
Staðfest samvist
Staðfesting samvistar í kirkju er helgiathöfn þar sem tveir einstaklingar af sama kyni heita hvort öðru ævitryggðum, að eiga, njóta og þiggja saman önn sem yndi lífsins, gleði og sorgir. Kirkjan umlykur parið fyrirbæn sinni og vill með Jesú Krist sem fyrirmynd sýna því samfélag hinnar gagnkvæmu þjónustu og þörf allra fyrir samfélag við Guð og náungann utan hrings fjölskyldunnar. Návist Guðs á heimili og í fjölskyldulífi veitir parinu hjálp til að lifa saman í kærleika og umhyggju og vera vottur þess í umhverfi sínu.
Staðfesting samvistar fer fram eftir þar til ætluðu formi og felur í sér ritningarlestur og bæn, heitorð parsins um tryggð, ást og virðingu, yfirlýsingu um að þau séu í staðfestri samvist, ásamt bæn kirkjunnar og blessun.
Prestum Þjóðkirkjunnar er heimilt að blessa sambúð þeirra sem staðfest hafa samvist sína og skuldbindingar fyrir borgaralegum vígslumönnum.

Athöfnin

 1. 1. Staðfesting samvistar fer fram samkvæmt þar til ætluðu formi.
  2. Staðfesting samvistar annast prestur sem rétt hefur sem vígslumaður skv. lögum um staðfesta samvist að undangenginni könnun skilyrða fyrir staðfesting samvistar sem löggiltur könnunarmaður annast. Presti ber að gæta vel allra formsatriða og skilyrða, svo sem fyrir er mælt í lögum um staðfesta samvist. Prestar Þjóðkirkjunnar eru vígslumenn að lögum einungis þegar annar aðili eða báðir tilheyra Þjóðkirkjunni. Vígsluréttur er einungis gildur í íslenskri lögsögu.
  3. Staðfesting samvistar skal ætíð fara fram í viðurvist tveggja votta (svaramanna) sem eru lögráða.
  4. Prestur skal jafnan gæta þess að undirbúa staðfesting samvistar með samtali við parið um þær skuldbindingar sem í staðfestri samvist felast.
  5. Prestur sem annast staðfesting samvistar ber ábyrgð á því að tónlist og annað sem fram fer við athöfnina samrýmist tilefninu og helgi stundarinnar.
  6. Sóknarprestur skal sjá til þess að staðfest samvist sé færð til kirkjubókar og skýrsla þar að lútandi sé send Þjóðskrá.
  Blessun staðfestrar samvistar
  7. Blessun staðfestrar samvistar fer fram samkvæmt þar til ætluðu blessunarformi.
  8. Prestur sem annast blessun staðfestrar samvistar ber ábyrgð á því að tónlist og annað sem fram fer við athöfnina samrýmist tilefninu og helgi stundarinnar.

Lög, reglur og aðrar réttarheimildir
• Lög um staðfesta samvist nr. 87/1996 með síðari breytingum
• Tónlistarstefna Þjóðkirkjunnar, 2004
• Fjölskyldustefna kirkjunnar, 2006

XI. Útför
Útförin
Útför er guðsþjónusta þar sem aðstandendur í samfélagi hins kristna safnaðar kveðja hinn látna og fela hann miskunn Guðs á hendur. Útförin tjáir sorg og söknuð þeirra sem eftir lifa og er játning hinnar lifandi vonar fyrir upprisu Jesú Krists frá dauðum.
Kirkjan játar og trúir að Jesús Kristur hafi með dauða sínum borið synd og dauða jarðarbarna og með upprisu sinni sigrað dauðann og opnað veginn til eilífs lífs. Útför tjáir í senn alvöru dauðans og sorgarinnar og birtu upprisuvonarinnar. Hún er einnig áminning til þeirra sem eftir lifa um að gefa gaum að dýrmæti lífsins og fallvaltleik.
Í lífi sérhvers manns og í fagnaðarerindi krossins má sjá hve dauði og líf, ljós og myrkur, takast á. Þetta setur svipmót sitt á útförina en sorgin og dauðinn fá nýjan svip þegar það er borið uppi af ómi upprisunnar og hins himneska lofsöngs.
Moldin sem ausið er á kistuna er tákn þess að við erum af moldu runnin og til moldar stefnt, eins og allt sem lifir, en er ætlað að rísa upp, eins og hveitikornið. Signt er yfir kistu sem fyrirbæn og til áminningar þess að hinn krossfesti og upprisni frelsari hefur sigrað dauðann fyrir oss, náð hans og friður umvefur okkur í lífi og í dauða.

Athöfnin

 1. Útför felur í sér ritningarlestur, vitnisburð um fagnaðarerindi upprisunnar, fyrirbæn og moldun, þar sem líkkistan er ausin moldu þrisvar með þeim orðum sem Handbók kirkjunnar mælir fyrir um við þá athöfn.
 2. Varðandi útfararathöfn skal leitast við að uppfylla óskir hins látna og/eða aðstandenda, enda séu þær í samræmi við reglur og venjur Þjóðkirkjunnar.
 3. Í kirkju skal kista snúa þannig að ásjóna hins látna horfi við altari.
 4. Prestur sem annast útförina ber ábyrgð á því að tónlist og annað sem fram fer við athöfnina samrýmist tilefninu og helgi stundarinnar.
 5. Heimilt er að molda í kirkju, en molda skal við gröf þegar þess er kostur.
 6. Óheimilt er að nota annað en mold við moldun (svo sem blóm).
 7. Hringja má klukku þegar lík er borið til kirkju. Hringt skal klukku fyrir útför og eins þegar borið er út úr kirkju. Hringt skal klukku þegar lík er borið til grafar í kirkjugarði verði því viðkomið.
 8. Prestur annast útför. Prestur sem ekki er í þjónustu getur annast útför á ábyrgð sóknarprests sem sér til þess að athöfnin sé skráð í kirkjubækur.
 9. Kistulagningu og húskveðju getur djákni eða leikmaður annast.
 10. Að jafnaði skal prestur eða djákni annast jarðsetningu duftkers. Ætíð ber að tilkynna jarðsetninguna viðkomandi sóknarpresti sem sér um að skráð sé í legstaðaskrá.

Lög, reglur og aðrar réttarheimildir
• Kristniréttur Árna biskups Þorlákssonar, 1275
• Kirkjuordinatia Kristjáns IV, 1607 (kirkjuskipan Kristjáns fjórða hinni norsku frá 1607, löggilt hér á landi 1629)
• Handbók kirkjunnar, 1981
• Lög um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, nr. 36/1993
• Reglugerð um kirkjugarða, 1934
• Reglugerð um dreifingu ösku utan kirkjugarðs, 2003
• Reglugerð um kistu, duftker og líkbrennslu, 2005
• Reglugerð um útfararþjónustu, 2006

XII. Vígsla til þjónustu
Hin vígða þjónusta
Þjónustan, embættið, í kirkjunni er köllun til þjónustu í söfnuði Krists. Frá öndverðu og til þessa dags er þjónustan afhent með vígslu. Þar lýsir kirkjan því yfir að hún lifir í samhengi postulanna og þjónn hennar, vígsluþeginn, er sérstaklega kallaður og frátekinn til að varðveita trúna á þeim grundvelli.
Kirkjan er líkami þar sem limir hennar hafa mismunandi hlutverk og náðargáfur. Í kirkjunni hefur Guð sett postula, spámenn og kennara til að leiða og næra hjörð sína. Þeir bera fagnaðarerindið áfram með orðum og verkum, þjónustu sakramentanna og í þjónustunni við náungann, umfram allt við nauðstadda og sjúka. Þannig er hin vígða þjónusta ein þeirra leiða sem Drottinn notar til að halda áfram verki sínu, að tala og verka á jörðu.
Hin vígða þjónusta er ein þótt mismunur sé á verkefnum og umboði biskups, prests og djákna. Við vígslu vinnur vígsluþegi heit þar sem hann lýsir sig fúsan að inna þjónustu sína af hendi af trúmennsku við trú og játningar kirkjunnar og vitna um kærleika Guðs með líferni sínu. Með handayfirlagningu og bæn um leiðsögn heilags anda er vígsluþegi frátekinn til hins sérstaka hlutverks. Kirkjan umlykur vígsluþega fyrirbæn sinni og sendir hann til að boða Krist í orði og verkum og vera sendiboði hans. Hinn vígði þjónn fær styrk af því í daglegu lífi sínu að vera sendur með erindi kirkjunnar.

Vígslan

 1. Vígsla til þjónustu í Þjóðkirkjunni felur í sér heit vígsluþegans, fyrirbæn og handayfirlagningu biskups.
 2. Vígsluþeginn heitir því að inna þjónustu sína af hendi í samræmi við trú og skipan Þjóðkirkjunnar. Áminningar og heit vígslunnar eru skuldbindandi fyrir líf og þjónustu vígsluþega.
 3. Vígsla hefur í för með sér að vígsluþegi lýtur tilsjón biskups Íslands.
 4. Til að hljóta vígslu í Þjóðkirkjunni þarf að fullnægja eftirtöldum skilyrðum: vera skírður, tilheyra Þjóðkirkjunni og uppfylla að öðru leyti skilyrði laga og starfsreglna um embættisgengi og starfsþjálfun.
 5. Biskup Íslands annast vígslur til kirkjulegrar þjónustu og vígslubiskupar í umboði hans.

  Biskupsvígsla

 6. Biskup Íslands vígir biskupa.
 7. Biskupsvígsla fer fram í dómkirkju.

  Prestsvígsla

 8. Biskup Íslands annast prestsvígslur eða vígslubiskup í umboði hans. Að lokinni prestsvígslu gefur biskup Íslands út vígslubréf sem birt skal þeim söfnuði (söfnuðum, stofnunum) sem prestur er vígður til.
 9. Prestsvígsla fer fram í dómkirkju.

  Djáknavígsla

 10. Biskup Íslands annast djáknavígslur eða vígslubiskup í umboði hans. Að lokinni djáknavígslu gefur biskup Íslands út vígslubréf sem birt skal þeim söfnuði (söfnuðum, stofnunum) sem djákni er vígður til.
 11. Djáknavígsla fer fram í dómkirkju.

  Vígsla til þjónustu utan Þjóðkirkjunnar

 12. Biskupi er heimilt, sé eftir því leitað, að vígja til þjónustu prest eða djákna innan hinna evangelísk-lútersku fríkirkjusafnaða sem starfa á sama játningagrundvelli og Þjóðkirkjan.
 13. Biskupi er heimilt, sé eftir því leitað, að vígja til prests- eða djáknaþjónustu innan kirkna sem Þjóðkirkjan er í samfélagi við á grundvelli hefðar og samkirkjulegra samþykkta.

  Vígsla kristniboða

 14. Biskupi er heimilt að vígja prests- eða djáknavígslu kristniboða sem kallaðir eru á vegum kristniboðsfélaga eða kirkjulegra aðila til starfs á kristniboðsakrinum. Að lokinni vígslu gefur biskup Íslands út vígslubréf sem tilgreinir starfsvettvang og umboð kristniboðans.

  Vígsla annarra trúfélaga

 15. Biskupi er heimilt að viðurkenna prests- eða djáknavígslu í öðru kristnu trúfélagi sem gilda til þjónustu í Þjóðkirkjunni. Að undangenginni slíkri ákvörðun skal biskup hafa prófað viðkomandi og handsalað heit að játningu og skipan Þjóðkirkjunnar. Ákvörðun biskups verður ekki áfrýjað.

  Afturköllun umboðs vígslunnar

 16. Biskup Íslands getur að undangenginni þeirri málsmeðferð sem lög og starfsreglur kveða á um afturkallað tímabundið eða að fullu umboð vígslunnar og fellt vígslubréf úr gildi ef vígður þjónn kirkjunnar:
  a) óskar þess að umboð vígslunnar sé afturkallað
  b) er sviptur embætti með dómi
  c) segir sig úr Þjóðkirkjunni eða evangelísk-lúterskum fríkirkjusöfnuði
  d) hefur opinberlega hafnað játningum evangelísk-lúterskar kirkju
  e) hefur brotið af sér í starfi, t.d. rofið þagnarskyldu, eða orðið uppvís að hegðun eða atferli sem stríðir gegn vígsluheitum.
 17. Við afturköllun umboðs vígslunnar telst viðkomandi óheimilt að gegna þeim störfum sem vígðum þjóni kirkjunnar er ætlað og að bera embættisklæði Þjóðkirkjunnar.
 18. Ákvörðun biskups um að afturkalla umboð vígslunnar verður ekki áfrýjað.
 19. Biskup Íslands getur gefið út vígslubréf að nýju til þess sem sviptur hefur verið vígsluumboði sínu telji biskup skilyrðum fullnægt.

Lög, reglur og aðrar réttarheimildir
• Kirkjuordinantia, 1537
• Konungsbréf um afsetta presta 7. okt. 1740
• Konungsbréf um uppreist presta sem vikið hefur verið frá embætti, 1756
• Erindisbréf handa biskupum, 1746
• Handbók kirkjunnar, 1981
• BEM-skýrslan, Skírn, máltíð og þjónusta, 1984
• Porvoo-samkomulagið, 1995
• Lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996

XIII. Tilsjón
Tilsjónin
Til að styrkja boðun, samfélag og einingu kirkjunnar er sérstök skipan á tilsjón, episkope, með sóknum, söfnuðum, vígðum þjónum og stofnunum kirkjunnar. Innan biskupsdæmis Íslands er tilsjónin iðkuð af biskupi Íslands, og vígslubiskupum og próföstum fyrir hans hönd. Vísitasíur eru mikilvægasti þáttur tilsjónarinnar.

Sá sem vígist til embættis prests eða djákna vinnur biskupi heit um að inna þjónustu sína af hendi á grundvelli játninga og skipanar kirkjunnar. Á grundvelli þess er hinum vígða þjóni veitt ábyrgð á grundvallarþáttum í þjónustu Þjóðkirkjunnar og hann sendur með það umboð. Sérhverjum þeim sem gegnir vígðri þjónustu er því gert að svara fyrir það hvernig þjónustan er rækt og hvernig ákvæðum vígsluheitis og vígslubréfs er sinnt, og gefa þær skýrslur sem biskup eða prófastur óska eftir og varðar það sem tilsjónin nær til.

Sóknarbörn geta leitað umsagnar prófasts og biskups um þjónustu sóknar og prests.

Framkvæmd tilsjónarinnar

 • Tilsjón er ráðgjöf, stuðningur, uppörvun og hjálp sérstaklega hvað varðar játningu, kenningu kirkjunnar, guðsþjónustu og sakramenti og aðrar kirkjulegar athafnir. Svo og um mál sem skipað er með lögum og starfsreglum, og með stefnumótun kirkjunnar.
 • Tilsjón er eftirlit með því hvernig vígðir þjónar, prestar og djáknar, rækja embætti sín og sinna þjónustu orðs og sakramenta samkvæmt vígsluheiti sínu.
 • Í tilsjón felast úrskurðir um hæfi til að gegna embætti í Þjóðkirkjunni.
 • Tilsjón er eftirlit með því hvernig söfnuðir, starfsmenn og stofnanir Þjóðkirkjunnar sinna skyldum sínum í ljósi trúar, játninga kirkjunnar, laga og reglna.

Lög, reglur og aðrar réttarheimildir
• Kirkjuordinantia, 1537
• Erindisbréf handa biskupum, 1746
• Handbók kirkjunnar, 1981
• BEM-skýrslan, Skírn, máltíð og þjónusta, 1984
• Porvoo-samkomulagið, 1995
• Lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997
• Starfsreglur um presta nr. 735/1998
• Starfsreglur um djákna nr. 738/1998
• Starfsreglur um biskupafund nr. 964/2006
• Starfsreglur um vígslubiskupa nr. 968/2006
• Starfsreglur um prófasta nr. 966/2006

XIV. Innsetning í embætti og starfslok
Innsetning, starfslok
Með innsetningu í embætti er hinn vígði þjónn kynntur söfnuði sínum eða starfsvettvangi í guðsþjónustu. Í guðsþjónustunni staðfestir söfnuðurinn eða stofnunin vilja sinn til að fylgja köllun sinni eftir og umlykur hinn vígða fyrirbæn sinni. Eins fer vel á því að óvígðir starfsmenn safnaða séu settir inn í starf, svo sem organistar, meðhjálparar, starfsfólk við barnastarf og öldrunarstarf og sóknarnefndarmenn, við guðsþjónustu safnaðarins.
Þegar vígður þjónn lýkur störfum vegna aldurs eða annarra orsaka, skal hann kvaddur í guðsþjónustu safnaðarins við athöfn þar sem bæn er fram borin og blessun lýst yfir hann.

Ýmis ákvæði

 • Prófastur annast að jafnaði innsetningu presta og djákna í embætti.
 • Biskup Íslands setur prófasta inn í embætti.
 • Ef vígslubiskup tekur við embætti biskups Íslands skal hann settur í embætti í dómkirkjunni. Biskup Íslands eða vígslubiskup í umboði hans annast innsetningu biskups í embætti.
 • Þegar prestakall, eða einstaka sóknir prestakalls sameinast öðru prestakalli, skal sú breyting jafnan mörkuð með innsetningu sóknarprests í embætti.
 • Þegar vígður þjónn lýkur störfum fyrir aldurs sakir eða hverfur til annarra starfa, skal sá kvaddur í guðsþjónustu safnaðarins við athöfn þar sem honum er beðið blessunar.
 • Þegar biskup lætur af biskupsstarfi skal hann kvaddur í dómkirkju með sérstakri athöfn sem markar starfslok hans.

Lög, reglur og aðrar réttarheimildir
• Handbók kirkjunnar, 1981

XV. Vígslur og blessanir
Vígslur og blessanir
Allir hlutir helgast fyrir orð Guðs og bæn. Að vígja kirkju felur í sér að söfnuðurinn með lestri Guðs orðs, bæn og heilagri kvöldmáltíð tekur helgidóminn í notkun og allt sem ætlað er til notkunar við helga þjónustu. Helgidómurinn er frátekinn sem staður tilbeiðslu og lofgjörðar, helgur staður friðar og kyrrðar og tákn himinsins.
Kirkjugarður er vígður með lestri Guðs orðs og bæn, frátekinn sem helgur kyrrðar- og hvíldarreitur. Kirkjugarður er helgidómur er ber vitni um virðingu við minningu og sögu hins látna og hina lifandi von fyrir upprisu Jesús Krists frá dauðum. Með greftrun sinni hefur hann helgað alla jörð og hverja gröf. Fyrir upprisu hans er okkur veitt vonin um upprisu mannsins og eilíft líf.

Vígslur

 1. Vígsla felur í sér lestur Guðs orðs og bæn og yfirlýsing um að húsið, staðurinn, hluturinn, sé frátekið til helgrar notkunar.

  Kirkjuvígsla

 2. Nýbyggð kirkja eða kapella skal vígð. Eins ef helgidómur er tekinn í notkun að nýju eftir gagngerðar viðgerðir eða breytingar. Biskup annast kirkjuvígslu.

  Þegar kirkjuhelgi er aftekin

 3. Þegar kirkja eða kapella er ekki lengur notuð til helgrar þjónustu skal afleggja hana með guðsþjónustu þar sem því er lýst að hún sé ekki lengur vígður helgidómur. Biskup annast slíka athöfn, eða prófastur eða prestur í umboði hans.
 4. Muni aflagðrar kirkju eða kapellu, skrúða og annað það er að helgri þjónustu lýtur skal prófastur skrá sérstaklega og koma í vörslu Þjóðminjasafnsins eða til annarra kirkna að höfðu samráði milli forstöðumanns Fornleifaverndar ríkisins, þjóðminjavarðar og biskups eða prófasts.

  Vígsla kirkjugarðs

 5. Kirkjugarð eða viðbót við kirkjugarð skal vígja með sérstakri athöfn sem prófastur annast eða prestur í umboði hans.
 6. Heimilt er að lögum að taka frá óvígðan reit innan kirkjugarðs.

  Helgir munir og tæki kirkju (ornamenta et instrumenta)

 7. Þegar teknir eru í notkun helgir munir og búnaður kirkju, orgel, kirkjuklukkur, altaristafla, skírnarsár, kaleikur, skrúði, fer vel á að þess sé minnst í upphafi messu með ritningarlestri og bæn.

  Blessun húsnæðis

 8. Safnaðarheimili eða þjónustuhús við kirkjur skulu ekki vígð, heldur blessuð. Prestur annast að jafnaði slíka blessun og skal fara eftir atferli Handbókar um blessun húsnæðis eftir því sem við getur átt. Sama á við ef óskað er eftir blessun yfir hús eða mannvirki önnur sem ekki eru ætluð til kirkjulegra nota.

Lög, reglur og aðrar réttarheimildir
• Kristniréttur Árna biskups Þorlákssonar, 1275
• Þjóðminjalög, 2001
• Handbók kirkjunnar, 1981
• Lög um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, 36/1993
XVI. Kirkjuárið

Hrynjandi kirkjuársins
Kirkjuárið hefst með fyrsta sunnudegi í aðventu. Það er byggt upp kringum stórhátíðir kirkjunnar, jól, páska og hvítasunnu, og setur fram minningu meginatburða hjálpræðissögunnar. Sérhver dagur og tímabil kirkjuársins hefur sitt meginstef út frá guðspjalli dagsins og sem er tjáð í textum og sálmum sem deginum tilheyra. Sérhver hátíð hefur sinn undirbúningstíma, föstutíma, og tíma eftirfylgdar.

Með hrynjandi kirkjuársins fær kirkjan og sérhver kristin manneskja tækifæri til að njóta atburða á ævi Jesú Krists og lifa þá og meginatriði boðskapar hans. Með því að tengjast og íklæðast hinum margvíslegu árstíðabundnu og menningarbundnu siðvenjum, tónlist, hefðum og helgisiðum fáum við að reyna og sjá hvernig Jesús Kristur vitjar kirkju sinnar og lífs sérhvers einstaklings árið um kring.

Samkvæmt fornri hefð gengur helgin í garð klukkan 18:00 á aðfangadegi jóla, páska og hvítasunnu.

Um guðsþjónustur og helgihald kirkjuársins fer eftir Handbók kirkjunnar og ákvörðun biskups og kirkjulegra stjórnvalda.

Helgar og hátíðir

 1.  Á helgum og hátíðum kirkjuársins skal haldin almenn guðsþjónusta:
  • Sunnudagar
  • aðfangadagskvöld jóla
  • jóladagur
  • annar jóladagur
  • gamlárskvöld
  • nýársdagur (áttidagur jóla)
  • skírdagur
  • föstudagurinn langi
  • páskadagur (fyrsti sunnudagur eftir fullt tungl eftir vorjafndægur)
  • annar páskadagur
  • uppstigningardagur (fjörutíu dögum eftir páska)
  • hvítasunnudagur
  • annar hvítasunnudagur
  • þrenningarhátíð (sunnudagur eftir hvítasunnu)
 2. Sunnudagar sem eru helgaðir ákveðnum málefnum:
  • 2. sunnudagur í níuviknaföstu, Biblíudagurinn
  • 5. sunnudagur í föstu, Boðunardagur Maríu
  • 5. sunnudagur eftir páska, Hinn almenni bænadagur
  • 13. sunnudagur e. þrenn., Dagur kærleiksþjónustunnar
  • 1. sunnudagur í mars, Æskulýðsdagur kirkjunnar
  • 1. sunnudagur í júní, Sjómannadagurinn, ef ekki ber upp á hvítasunnu, þá sunnudagurinn á eftir.
  • Síðasti sunnudagur í október, Siðbótardagur
  • 1. sunnudagur í nóvember, Allra heilagra messa
  • 2. sunnudagur í nóvember, Kristniboðsdagur
  • sunnudagur næst 20. júlí, Þorláksmessu á sumri, Skálholtshátíð
  • sunnudagur í 17. viku sumars, Hólahátíð
 3. Aðrir helgidagar og minningardagar
  3. Aðrir helgidagar og hátíðir sem ekki hvílir messuskylda á:
  • 6. janúar, Birtingarhátíð Drottins, þrettándi dagur jóla
  • 18. janúar. Pétursmessa. Upphaf samkirkjulegrar bænaviku.
  • 25. janúar. Pálsmessa postula
  • 2. febrúar. Kyndilmessa
  • öskudagur, miðvikudagur í sjöundu viku fyrir páska
  • 1. föstudagur í mars, Alþjóðlegur bænadagur kvenna
  • 16. mars, Gvendardagur
  • 25. mars, Boðunardagur Maríu (sé ekki messað þann dag skal hann haldinn 5. sunnudag í föstu)
  • Sumardagurinn fyrsti (fyrsti fimmtudagur eftir 18. apríl)
  • 23. apríl, Jónsmessa Hólabiskups um vorið, ártíð Jóns biskups helga.
  • 17. júní, lýðveldishátíðin, 17. júní, Þjóðhátíðardagur Íslendinga.
  • 24. júní, Jónsmessa
  • 29. júní Pétursmessa og Páls (Tveggja postula messa)
  • 2. júlí. Vitjunardagur Maríu (Þingmaríumessa)
  • 20. júlí Þorláksmessa á sumri
  • 22. júlí Maríumessa Magdalenu
  • 25. júlí Jakobsmessa postula
  • 24. ágúst Bartólómeusarmessa postula
  • 29. ágúst Höfuðdagur (dánardagur Jóhannesar skírara)
  • 14. sept. Krossmessa
  • 21. sept. Matteus postuli. Alþjóðlegur friðardagur
  • 29. sept. Mikjálsmessa og allra engla
  • 18. okt. Lúkasarmessa guðspjallamanns
  • 27. okt. Hallgrímsmessa (ártíðardagur Hallgríms Péturssonar)
  • 1. des. Fullveldisdagurinn
  • 23. des. Þorláksmessa
  • 27. des. Jóhannes postuli og guðspjallamaður
  • 28. des. Barnadagurinn
  • Kirkjudagur, vígsludagur kirkjunnar

Lög, reglur og aðrar réttarheimildir
• Tilskipun um helgidagahald 29. maí 1744
• Tilskipun 8. marz 1855
• Lög um helgidagafrið nr. 32 /1997

XVII. Embættisklæði og skrúði presta og djákna
Skrúði og embættisklæði
Við helgiathafnir kirkjunnar kemur prestur fram sem þjónn og í umboði heilagrar kirkju. Prestur skal ætíð bera einkennisbúning eða skrúða þegar hann annast helgar athafnir, líka utan kirkju.
Embættisklæðnaður þjóðkirkjupresta er einkennisbúningur stéttarinnar. Embættisklæðnaður presta Þjóðkirkjunnar er svört, skósíð hempa ásamt pípukraga. Til embættisbúnings vígðra þjóna kirkjunnar heyrir og prestaskyrta og flibbi.
Skrúði er klæði, sem vígður þjónn notar við helgiathafnir. Til skrúða teljast rykkilín, alba, stóla, hökull og biskupskápa.
Reglur um notkun skrúða og liti kirkjuársins er að finna í Handbók kirkjunnar.
Heimilt er að bera hempuna eina við helgiathafnir kirkjunnar, en mælt er með notkun rykkilíns og stólu við þær allar.

Hempa

 1. Hempa ásamt pípukraga er embættisbúningur presta íslensku þjóðkirkjunnar og ber að nota hana, þegar prestum er gert að mæta í embættisnafni við athafnir, svo sem embættistöku forseta Íslands, við upphaf synodus, við kirkjuvígslu eða innsetningu prests í embætti í prófastsdæminu.
 2. Við skírn, hjónavígslu, útför, kistulagningu, minningarathafnir og blessun húsnæðis skrýðist prestur rykkilíni og stólu yfir hempu. Við útför skal stóla vera fjólublá eða svört, við skírn eða hjónavígslu utan messu má stóla vera hvít. Að öðru leyti ráða litir kirkjuársins.
 3. Heimilt er að nota hempuna eina við ofantaldar athafnir.
 4. Prestur má klæðast hempunni einni undir prédikun og eftir prédikun, ef ekki fer fram altarisganga. Best fer þó á því, að hann skrýðist þá rykkilíni og stólu, þar eð rykkilín og stóla er skrúði.

  Prestaskyrta

 5. Þegar vígður þjónn kirkjunnar kemur fram í embættisnafni getur hann klæðst skyrtu og flibba. Prestar að öllu jöfnu svörtum, gráum, bláum eða hvítum, djáknar grænum, biskupar rauðum eða fjólubláum.

  Alba

 6. Ölbu, með linda eða án, má nota í stað hempu og rykkilíns við kirkjulegar athafnir.
 7. Alba er aldrei borin ein, heldur aðeins með stólu eða stólu og hökli eftir atvikum.
 8. Við kistulagningu má prestur eða djákni bera ölbu og fjólubláa eða svarta stólu. Eins má hann bera ölbu og stólu í litum kirkjuársins við blessun húsnæðis.

  Rykkilín

 9. Rykkilíni skrýðist prestur utan yfir hempu. Heimilt er að bera rykkilín og stólu við allar athafnir.

  Stóla

 10. Stóla er aðeins höfð utan yfir rykkilín eða ölbu. Hún breytist eftir litum kirkjuársins. Prestur getur skrýðst stólu við allar athafnir.
 11. Við útför má prestur skrýðast fjólublárri eða svartri stólu eða klæðast hempunni einni.

  Hökull

 12. Hökull er messuklæði eingöngu og á ekki að nota hann við aðrar athafnir en messuna. Ef prestur afskrýðist hökli fyrir prédikun skrýðist hann höklinum eftir prédikun einungis ef altarisganga er.
 13. Við annað helgihald, svo sem morgunsöng, aftansöng og prédikunarguðsþjónustu, skírn og hjónavígslu, skrýðist prestur ekki hökli, heldur aðeins rykkilíni eða ölbu og stólu.
 14. Við athafnir í heimahúsum notar prestur ekki hökul, heldur hempuna eina ásamt rykkilíni eða ölbu og stólu.
 15. Þegar fleiri en einn prestur þjóna að messunni, ber aðeins einn prestur hökul, sá sem þjónar, en aðrir prestar séu skrýddir rykkilíni eða ölbu og stólu. Sá sem þjónar fyrir altari og ber hökul, byrjar dýrðarsöng, biður kollektu, les guðspjall, fer með þakkargjörðina við máltíð Drottins, útdeilir brauðinu og lýsir blessun í lokin.

  Skrúði djákna

 16. Skrúði djákna er alba ásamt stólu sem borin er á vinstri öxl og skáhallt yfir á hægri mjöðm.

  Biskupsskrúði og embættisklæði

 17. Embættisbúningur biskups er svört silkihempa með flauelsborðum.
 18. Biskupskápa er skrúði biskups við biskupsathafnir.
 19. Ef biskup notar mítur ber hann það í skrúðgöngu til og frá kirkju og leggur á altari hægra megin við sig um leið og hann gengur fyrir það.
 20. Biskupsstaf, bagal, ber biskup í vinstri hendi í skrúðgöngu og leggur við altari eða gráður þegar í kirkju er komið.
 21. Þegar biskup lýsir blessun heldur hann bagli í vinstri hendi og lýsir blessun með þeirri hægri.
 22. Við athöfn þar sem biskup er viðstaddur í embættisnafni lýsir hann ætíð blessun í lok hennar.

Lög, reglur og aðrar réttarheimildir
• Samþykkt Kirkjuþings, 1989

XVIII. Kirkjuklukkur
Klukkur og hringingar
Samkvæmt fornri venju skal vera klukka eða klukkur í hverri kirkju.
Hljómur kirkjuklukknanna er vitnisburður um lifandi Guð. Klukkurnar minna á návist hans, kalla til bænar og tilbeiðslu, lýsa friði Guðs yfir byggð og land, og marka eyktir mannlífsins. Samhringing kirkjuklukkna er sigurhljómur og hátíðar-, þakkaróður og vitnisburður um Drottins nægð og náð. Því er aðeins samhringt á sunnudögum og hátíðum kirkjuársins, áramótum og þegar stórhátíðir eru hringdar inn. Ekki er hringt klukkum á föstudaginn langa. Líkhringing er sorgarhljómur og samúðar-, og vitnisburður um forgengileika lífsins. Bænaslögin, þegar hringd eru þrisvar sinnum þrjú slög, eru hljómur signingarinnar, sem felur stund og stað föður, syni og heilögum anda og heilagri návist hans.

Klukkur í kirkju og kirkjugarði

 1. Í hverri sóknarkirkju skulu vera kirkjuklukkur, ein eða fleiri.
 2. Í kirkjugarði skal vera klukka, í sáluhliði eða klukknaporti.
 3. Við hverja sóknarkirkju skal vera hringjari, sem gæta skal þess að klukkum sé hringt í samræmi við reglur þessar og góða staðarhefð og venju. Sérhverri sóknarnefnd er skylt að sjá til þess að svo sé.

  Um messuhringingar

 4. Hringt er til hverrar almennrar guðsþjónustu. Fyrst er hringt hálfri stundu fyrir messu einni klukku. Stundarfjórðungi fyrir messu er hringt stærri klukkunni, ef þær eru tvær, en miðklukkunni ef þær eru þrjár, sex sinnum þrjú slög. Á heila tímanum er samhringt tveim klukkum (handvirkt) níu sinnum þrjú slög. Séu klukkur tvær er þeim báðum hringt samtímis, ef klukkur eru þrjár er að öllu jöfnu hringt tveim hinum stærri.
 5. Þegar hringing er rafstýrð er hringt einni klukku hálfri stund fyrir messu í þrjár mínútur. Stundarfjórðungi fyrir er hringt einni klukku eða tveim, eftir heildarfjölda klukknanna, í eina mínútu. Samhringt er í þrjár til fimm mínútur fyrir upphaf messu öllum klukkum.
 6. Vel fer á að hringja bænaslög, 3×3 slög, í lok samhringingar, áður en messa hefst og eins í messulok
 7. Ekki er hringt til messu á föstudaginn langa.
 8. Í þéttbýli skal hringja inn stórhátíðir kl. 18 á aðfangadag jóla, páska og hvítasunnu. Samhringt er í fimm mínútur hið minnsta.
 9. Í þéttbýli er á áramótum samhringt öllum klukkum, eigi skemur en fimm mínútur.

  Hringingar á virkum dögum og við athafnir

 10. Við athafnir á virkum dögum er aldrei samhringt.
 11. Hringja má kirkjuklukkum þegar brúðhjón ganga úr kirkju að lokinni hjónavígslu.
 12. Við útför skal hringja einni klukku aðeins, og þeirri klukku sem dýpstan tóninn hefur. Líkhringing er eitt slag í senn og líður nokkur stund á milli slaga.
 13. Þar sem tíðkast hefur að hringd sé líkhringing þegar kista er borin til kirkju fyrir útför skal viðhalda þeim sið.
 14. Við upphaf útfararathafnar er hringt einni klukku að minnsta kosti 3×3 slög.
 15. Ávallt skal hringd líkhringing þegar kista er borin úr kirkju.
 16. Í kirkjugarði skal hringja líkhringingu þegar kista er borin í garð verði því viðkomið.
 17. Við sérstaka atburði í samfélaginu í gleði og sorg er klukkum hringt samkvæmt hefð og venju á hverjum stað, og eins eftir sérstökum tilmælum biskups.

Greinargerð
Íslenska þjóðkirkjan
Íslenska þjóðkirkjan er sjálfstætt trúfélag á evangelísk-lúterskum grunni. Þjóðkirkjan byggir á játningum frumkirkjunnar og játar postullega trú heilagrar, almennrar kirkju innan evangelísk-lúterskrar hefðar í ljósi Ágsborgarjátningarinnar frá 1530.

Allt frá því að kristni kom í landið hefur fólk safnast til guðsþjónustu og helgrar iðkunar á krossgötum ævinnar. Í kjölfar kristnitökunnar var kirkjan skipulögð á grundvelli rómversks kirkjuréttar og var því verki að mestu lokið á 13. öld. Á sextándu öld varð kirkjan á Íslandi aðskilin rómversku kirkjunni og endurskipulögð í samræmi við forsendur lútersku siðbótarinnar. Vald konungs í kirkjumálum jókst og varð algert með einveldinu sem lauk með stjórnarskránni 1874. Þar er hin evangelísk-lúterska kirkja skilgreind sem „þjóðkirkja á Íslandi“. Allt frá setningu stjórnarskrár 1874 hefur verið unnið að endurskipulagningu kirkjunnar. Hinn 1. janúar 1998 gengu í gildi þau lög sem marka sjálfstæði hennar og frelsi.

Líf og starf kirkjunnar hefur tekið miklum breytingum í aldanna rás, en meginþráðurinn, þjónusta orðs og sakramenta, hefur verið órofinn gegnum allar sviptingar og umbyltingar. Skipulag og starfshættir hafa tekið breytingum, samskipti ríkisvalds og kirkju hafa verið með ýmsu móti, fjárhagur kirkna og safnaða margvíslegur, en hér hefur alltaf verið til staðar kirkja sem þjónað hefur þjóðinni allri, kirkja á grundvelli postulanna og almennrar kirkju. Játningar kirkjunnar eru sameign almennrar kirkju. Með guðfræðilegri iðkun og íhugun, samtali við aðrar hefðir og kirkjur, í guðsþjónustu og boðun, miðlar og þroskar Þjóðkirkjan trú sína og erindi á hverri tíð.

Tilgangur samþykktanna
Megintilgangur samþykktanna er að styrkja einingu kirkjunnar og samfélag sóknarfólks, safnaða og kirkjustjórnar, innra og ytra samhengi Þjóðkirkjunnar og hinnar almennu, alþjóðlegu kirkju. Þessar samþykktir eiga að vera samstöðugrunnur, til að styrkja sjálfsmynd og samstöðu um meginatriði og gera grein fyrir forsendum starfshátta og hefða.

Skipan innri mála Þjóðkirkjunnar hlýtur að vera í stöðugri endurskoðun til þess að kirkjan geti sem best sinnt skyldum sínum, aðlagast breyttum aðstæðum og eflst á grundvelli köllunar sinnar.Samþykktirnar gefa ekki tæmandi mynd af trú og lífi Þjóðkirkjunnar. Regluverkið og lögin eiga umfram allt við um stofnunina. Önnur mikilvæg atriði í lífi og trú, játningu og boðun Þjóðkirkjunnar og safnaðarfólks er ekki þar að finna.

Evangelísk-lútersk kirkja hefur mikið frelsi til að skipa málum sínum út frá því sem best þjónar markmiðum fagnaðarerindisins á hverri tíð. Í þessum samþykktum er fólgið margt sem ekki er beinlínis nauðsynlegt vegna einingar kirkjunnar en þegar Þjóðkirkjan hefur samþykkt ákvarðanir í ýmsum efnum er mikilvægt að þeim sé fylgt eftir til þess að varðveita eininguna og sátt um niðurstöðuna.

Samþykktir um innri málefni kirkjunnar byggjast á þeim sögulega arfi sem Þjóðkirkjan ber með sér og félagslegu og sögulegu hlutverki hennar í íslensku samfélagi. Skipulag og tjáningarform kirkjunnar tengja hana því þjóðfélagi og umhverfi sem hún á að þjóna. Jafnframt verða ákvarðanir um innri mál kirkjunnar, lög og starfsreglur að vera í samhljómi við trú, játningu og kenningu evangelísk-lúterskrar kirkju.

Innri mál Þjóðkirkjunnar
Með gildistöku laga um Kirkjuráð nr. 21 9. júní 1931 fékk Þjóðkirkjan sjálf „samþykktaratkvæði og ákvörðunarrétt um guðsþjónustur kirkjunnar, veitingu sakramenta og kirkjulegar athafnir og helgisiði... “ Þar með hlaut kirkjan sjálf forræði sinna innri mála, sem áður var á hendi konungs. Þetta var staðfest með lögum um Kirkjuþing sem tóku gildi 1958 og enn frekar í núgildandi lögum um stöðu, stjórn og starfshætti Þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997. Þar er hin evangelísk lúterska þjóðkirkja á Íslandi skilgreind sem sjálfstætt trúfélag sem ber ábyrgð á eigin trúargrundvelli, helgisiðum og kenningu. Með þessari breytingu færðust nánast öll verkefni sem áður heyrðu undir ráðherra kirkjumála til Kirkjuþings. Atbeini ríkisvaldsins að innri málum kirkjunnar er þar með að öllu leyti horfinn frá Stjórnarráðinu til kirkjunnar sjálfrar.

Samkvæmt lögum nr. 78/1997 hefur Kirkjuþing „æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar innan lögmæltra marka. Málefni, er varða kenningu kirkjunnar og agavald, heyra þó undir biskup Íslands, sbr. 10., 11., 19. og 28. gr.Samþykktir um kenningarleg málefni, guðsþjónustuhald, helgisiði, skírn, fermingu og altarissakramenti verða að sæta umfjöllun prestastefnu áður en þær hljóta endanlega afgreiðslu á kirkjuþingi.“

Samþykktir
Mikilvægt er hafa á einum stað glöggt yfirlit yfir kenningu kirkjunnar og forsendur fyrir siðum hennar og hefðum.
Fátt er um eiginleg nýmæli í þessum samþykktum, heldur er um að ræða skráning og framsetning þess hvernig Þjóðkirkjan hefur á umliðnum áratugum skilið og túlkað og framkvæmt hlutina. Framsetningin er að fyrirmynd nýlegrar kirkjuskipanar sænsku kirkjunnar og þýskra landskirkna. Það á t.d. við um formálana. Þeir eru eins konar guðfræðileg greinargerð fyrir viðkomandi viðfangsefni. Síðan fylgja efnisgreinar. Þjóðkirkjan er sem evangelísk-lútersk kirkja í samstarfi og samræðum við aðrar kirkjur og verður að gera grein fyrir sér, sjálfsmynd sinni og veru. Orðfæri og framsetning ber keim af því.

Með samþykktum um innri mál kirkjunnar er safnað saman á einn stað upplýsingum, reglum, fyrirmælum og ákvörðunum frá ýmsum tímum. Um kirkjulegar athafnir og framkvæmd þeirra hafa gilt ákvæði handbóka kirkjunnar, reglugerðir stjórnvalda, konungsbréf, “forordningar” og “rescript” frá ýmsum tímum, fyrirmæli biskupa og úrskurðir, og hefðir og venjur. Lög um stöðu, stjórn og starfshætti Þjóðkirkjunnar vísa til innri mála kirkjunnar, játninga og helgisiða. Ýmis önnur lög, starfsreglur og stjórnvaldsákvæði og kirkjuleg siðvenja vísa iðulega til hefða sem hvergi eru skilgreindar með aðgengilegum hætti, þótt sumt af þessu sé enn að finna í Lagasafni. Þar er þó um margvísleg ákvæði að ræða sem telja má úrelt. Þegar þessar samþykktir hafa verið staðfestar munu þau ákvæði verða felld úr gildi. Hin evangelísk-lúterska þjóðkirkja á Íslandi er sjálfstætt trúfélag og hlýtur sem slíkt að bera ábyrgð á eigin trúargrundvelli, helgisiðum og kenningu. Með umfjöllun Prestastefnu og staðfesting Kirkjuþings á samþykktum þessum axlar Þjóðkirkjan þá ábyrgð.