Biskupsstofa
Laugavegi 31, 150 Rvk.
Sími 528 4000, fax 528 4098
kirkjan@kirkjan.is

Kirkjuþing
Safnaðarheimili Grensáskirkju
Háaleitisbraut 66, 108 Rvk.
Sími 856 1542
kirkjuthing@kirkjuthing.is

Leiðarstýring

Kirkjuþing þakkar biskupi Íslands

Í ályktun við skýrslu kirkjuráðs sem var samþykkt á kirkjuþingi í dag þakkaði þingið biskupi Íslands fyrir að hafa „í embætti sínu unnið með heill og hag kirkju Krists í huga og mótað kirkju síns tíma.“ Þingið skoraði jafnframt á Alþingi að hafa ákvæði um íslenska þjóðkirkju í frumvarpi til nýrrar stjórnarskrár.

Ályktun við skýrslu kirkjuráðs

Þakkir til biskups

Kirkjuþing 2011 þakkar biskupi Íslands, sem senn lætur af störfum og hefur í embætti sínu unnið með heill og hag kirkju Krists í huga og mótað kirkju síns tíma.

Tillögur um nýja stjórnarskrá

Kirkjuþing 2011 skorar á Alþingi að hafa ákvæði um íslenska þjóðkirkju í því frumvarpi til nýrrar stjórnarskrár sem þingið afgreiðir með formlegum hætti eða leggur undir ráðgefandi þjóðaratkvæði. Að öðrum kosti verði þess gætt að ákvörðun um afnám þjóðkirkju úr stjórnarskrá verði tekin á þann veg sem núgildandi stjórnarskrá býður svo að þjóðin sjálf fái notið þess réttar að greiða sérstaklega atkvæði um slíka ákvörðun.

Þjóðkirkjan líður ekki kynferðisbrot
Kirkjuþing ítrekar að þjóðkirkjan líður ekki kynferðisbrot. Þjóðkirkjan vill:

- efla forvarnir og fræðslu varðandi kynferðisbrot.
- vinna gegn ofbeldi í hvaða mynd sem það birtist.
- taka sér stöðu með þeim sem brotið er á, styðja og vernda þolendur.
- setja sér vandaðar verklags- og siðareglur.
- eiga í góðu samstarfi við alla sem vinna af fagmennsku að þessum málum.
- læra af þeim sem best þekkja til og hafa mikla reynslu.
- setja sér það markmið að fræðsla, forvarnir og viðbrögð í málum er varða kynferðisbrot skuli alltaf miðuð við það besta sem þekkist.
- hvetja þá einstaklinga sem telja á sér brotið að nýta sér öll þau úrræði sem í boði eru í samfélaginu, sjálfum sér til öryggis, hjápar og réttlætis.
- vera öruggt skjól til að leita til og veita hjálp, ráð og huggun.

Opin kirkja

Kirkjuþing 2011 leggur áherslu á að þjóðkirkjan saknar þeirra sem hafa sagt sig úr þjóðkirkjunni og þar með yfirgefið söfnuði sína. Þjóðkirkjan vill vinna að því að þau finni sig ávallt velkomin í kirkjuna og starf safnaðanna.

Skóli og kirkja

Kirkjuþing 2011 hvetur til að sveigjanleika sé gætt í samskiptum skóla og trúar- og lífsskoðunarhópa í anda óbreyttrar trúfrelsishefðar á Íslandi. Hún felur í sér víðtækt frelsi til tjáningar og iðkunar trúar en virðir jafnframt ólíkar lífsskoðanir.

Foreldraréttur skal virtur. Trúarleg og siðferðileg mótun ungmenna sé í samræmi við trú eða lífsskoðanir foreldra.

Tilgátu-miðaldakirkja

Kirkjuþingi 2011 hafa verið kynntar hugmyndir áhugahóps fjárfesta um endurgerð miðaldakirkju í Skálholti. Kirkjuþing felur kirkjuráði að kanna, án skuldbindinga, alla þætti í fjármögnun, skipulagi og rekstri varðandi byggingu tilgátukirkju í Skálholti.

Þjónustumiðstöð kirkjunnar

Kirkjuþing 2011 felur kirkjuráði að vinna með tillögur sem Ríkisendurskoðun hefur lagt fram um biskupsstofu, sóknir og sjóði kirkjunnar. Hugmyndirnar hafa áður verið ræddar í þjóðkirkjunni. Þingið felur kirkjuráði að vinna að umbótum í anda skýrslunnar.

Fjármál

Kirkjuþing 2011 felur kirkjuráði að gera fjárhagsáætlanir til lengri tíma og langtímaspá um þróun fjármála kirkjunnar. Forðast verði eins og unnt er að ganga á höfuðstól til að mæta rekstrarútgjöldum. Sala fasteigna verði hófstillt og skynsamleg. Fjárframlög dugi til reksturs þjóðkirkjunnar.

Kirkjutónlist

Kirkjuþing 2011 felur kirkjuráði að fella ekki niður fjárframlag til Tónskóla þjóðkirkjunnar og til embættis Söngmálastjóra því mikilvægt er að hlúa að tónlistarstarfi kirkjunnar.