Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

Kirkjuþing

Skírnarfræðsla og útgáfa nýrrar sálmabókar á dagskrá kirkjuþings 2016

Kirkjuþing 2016 var sett í Grensáskirkju árdegis laugardaginn 5. nóvember sl. Magnús E. Kristjánsson, forseti kirkjuþings, setti þingið og flutti setningarávarp.

Hann ræddi meðal annars um ný vinnubrögð og nauðsynlegar breytingar, en hann sagði m.a.: „Oft finnst mér að það sé kallað eftir breytingum og einhverju nýju án þess að það fylgi hvernig á að breyta. Mér finnst oft áherslan vera frekar að fólk vilji fara frá einhverju ástandi fremur en að fara að einhverju. Stundum virðist vanta leiðsögn, sýn, lausnir og leiðir. Í öðrum tilfellum er skýr sýn á úrbætur og ný vinnubrögð.“ … „Því má spyrja að ef uppskeran ætti að vera meiri, hverju þurfum við þá að breyta til þess að fá betri uppskeru? Kannski fyrst og fremst okkur sjálfum, viðhorfum okkar og hugmyndum.Ávarp forseta má nálgast hér: http://tru.is/pistlar/2016/11/kirkju%c3%being-2016-er-sett

Biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir, leiddi helgistund við upphaf setningarinnar þar sem biskup og kjörnir fulltrúar í kirkjuráði fluttu bæn. Biskupi var m.a. umhugað um fræðslumál í ávarpi sínu og sagði: „Við verðum að uppfræða fólkið í landinu með öllum þeim tækjum sem í boði eru annars er hætta á því að færri og færri geri sér grein fyrir mikilvægi þess að varðveita menningararfinn hvað kristin áhrif áhrærir. Það hefur færst í vöxt að börn eru ekki skírð. Þar með fer barnið á mis við fræðslu um kristna trú og kristin lífsgildi sem mótað hafa þjóðfélag okkar um aldir. Einnig vitnaði biskup í sameiginlega helgistund kaþólskra og lúterskra sem fram fór í Lundi nýlega og sagði: „Meginstefið er að kirkjudeildirnar eiga alltaf að hafa einingu að leiðarljósi en ekki einblína á það sem skilur að.“ Ávarp biskups má nálgast hér http://tru.is/pistlar/2016/11/avarp-vi%c3%b0-setningu-kirkju%c3%beings-5-november-2016

Barnakór Bústaðakirkju söng við setninguna undir stjórn Svövu Kristínar Ingólfsdóttur og við undirleik Jónasar Þóris organista.

Á dagskrá kirkjuþings eru að þessu sinni alls 25 mál sem varða innra og ytra starf kirkjunnar. Málefni er tengjast innra starfi kirkjunnar varða m.a. skírnarfræðslu, kirkjutónlist, útgáfu nýrrar sálmabókar og samkirkjustefnu þjóðkirkjunnar.

Málefni er tengjast ytri umgjörð starfsins eru fjölmörg sem fyrr á kirkjuþingi. Umfjöllun um þjóðkirkjulögin, stefnumótun þjóðkirkjunnar, starfsreglur um kirkjuráð og Biskupsstofu, starfsreglur um val og veitingu prestsembætta, um aukið samstarf sókna og stofnun sóknarsambands eru meðal dagskrárliða þingsins.

Skýrsla kirkjuráðs er ávallt fyrsta mál á dagskrá þar sem kirkjuráð gefur kirkjuþingi skýrslu um störf sín á liðnu starfsári.

Málaskrá kirkjuþings má nálgast hér: http://kirkjuthing.is/malaskra/ 

Myndir frá kirkjuþinginu má nálgast hér: https://www.flickr.com/photos/kirkjan/albums/72157672577457864