Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

Kirkjuþing

,,Við erum líka rödd kirkjunnar!” Kirkjuþing unga fólksins haldið á Biskupsstofu.

IMG_9777Kirkjuþing unga fólksins kom saman á Biskupsstofu laugardaginn 30. apríl sl. Tuttugu fulltrúar frá átta prófastsdæmum og fulltrúi KFUM&KFUK sóttu þingið að þessu sinni. Forseti var kjörin Margrét Arnardóttir úr Suðurprófastsdæmi. Fyrir þinginu lágu að þessu sinni sjö mál, sex þeirra fengu framgang og voru afgreidd, eitt var fellt.

Það sem unga fólkinu er ofarlega í huga eru umhverfismál og var þingið rafrænt og pappírslaust. Þingið lýsti yfir ánægju sinni með starfandi umhverfisnefnd á Biskupsstofu en vildu sjá að kirkjan í heild, sinni umhverfismálum og sé leiðandi í umræðunni í samfélaginu, t.d. er varðar olíuleit á Drekasvæðinu sem þeim finnst tímaskekkja. 

En það sem mest brann á þeim var að rödd þeirra fengi að heyrast og að unga fólkið væri tekið alvarlega í kirkjunni. 

Kirkjuþing unga fólksins kemur saman einu sinni á ári. Það kaus Margréti, forseta sinn, sem áheyrnarfulltrúa á kirkjuþing, og mun hún því sitja kirkjuþing 2016, sem fram fer í haust. Ályktanir þingsins verða lagðar fyrir kirkjuráð.

Málin sex sem voru afgreidd á þinginu eru eftirfarandi:

1. mál fjallaði um siðareglur og heilræði og að það væri tryggt að leiðtogar þekktu til þeirra. http://kirkjuthing.is/kerfi//skraarsofn/kirkjuthing/2016/05/1.-mál-KUF-2016-Um-siðareglur.pdf

Í 2. máli var þess farið á leit að staða æskulýðsfulltrúa Þjóðkirkjunnar yrði endurvakin. http://kirkjuthing.is/kerfi//skraarsofn/kirkjuthing/2016/05/2.-mál-KUF-216-Staða-æskulýsfulltrúa-á-Biskupsstofu.pdf

Í 3. máli var samþykkt tillaga að breytingum á starfsreglum KUF og meðferð mála eftir að þingdegi lýkur. http://kirkjuthing.is/kerfi//skraarsofn/kirkjuthing/2016/05/3.-mál-KUF-2016-Breyting-á-starfsreglum-KUF.pdf

Í 4. máli var fjallað um æskulýðsstarf og fræðslustefnuna, þar sem gagnrýnt var að stórir söfnuðir á höfuðborgarsvæðinu gætu komist upp með að bjóða ekki upp á neitt æskulýðsstarf. http://kirkjuthing.is/kerfi//skraarsofn/kirkjuthing/2016/05/4.-má-KUF-2016-Fræðslustefna-þjókirkjunnar.pdf

5. málið fjallaði um umhverfismál, Ljósaskrefið og umhverfisstefnu þjóðkirkjunnar, sem eru kirkjuþingsfulltrúum alltaf ofarlega í huga en undanfarin ár hefur kirkjuþing unga fólksins ályktað um umhverfismál og hvatt þjóðkirkjunnar til að gera betur á þeim vettvangi. Í ályktun þingsins að þessu sinni segir: „Kirkjuþing unga fólksins fagnar því að á Biskupsstofu sé starfandi nefnd sem vinnur eftir Ljósaskrefinu og umhverfisstefnu þjóðkirkjunnar, en skorar um leið á þjóðkirkjuna í heild til að fylgja í þau fótspor og vera leiðandi afl í samfélaginu í umhverfisvernd.“ (5. mál)

Í greinargerð með málinu segir m.a.: „Kirkjan er einmitt sú stofnun sem á að vera leiðandi í umhverfisvernd, bæði vegna stöðu sinnar og vegna köllunar sinnar, í Biblíunni (1M 1.28 og 2.15) er mannkynið sett í ráðsmanns hlutverk og því hlutverki verður kirkjan að vera trú.“ http://kirkjuthing.is/kerfi//skraarsofn/kirkjuthing/2016/05/5.-mál-KUF-2016-Umhverfismál.pdf

Í 6. máli var það lagt til að kirkjuþing unga fólksins yrði lagt niður ef ekki ætti að taka rödd unga fólksins alvarlega og eini tilgangur þingsins væri krúttileg hópmynd til að birta á heimasíðu kirkjunnar, www.kirkjan.is. 

Þingið samþykkti einnig skipun nefndar sem skal halda utan um eftirfylgd mála sem sett eru fram á kirkjuþingi unga fólksins. (6. mál).

Kosið var í nefndina á þinginu um leið og áheyrnarfulltrúi kirkjuþings unga fólksins á kirkjuþingi var kosinn. Í greinargerð málsins segir m.a.: „Frá árinu 2011 hefur þingið komið saman árlega, í ár í 6. skiptið. Þar koma saman á þriðja tug ungmenna í sjálfboðavinnu til að stuðla að jákvæðum breytingum innan þjóðkirkjunnar, kirkju okkar allra. Gefinn er sviti og tár í að vinna mál frá grunni og þar til þau eru tilbúin til að vera send til kirkjuráðs. En hvað verður svo um málin? Það er vandamálið sem við horfum á ár eftir ár. Með tilvitnun í 7. gr. starfsreglna um kirkjuþing unga fólksins nr. 952/ er það á höndum kirkjuráðs að taka málin til umfjöllunar og meðferðar. Frá sjónarhóli flutningsmanns er það þó ekki að sjá að málin séu tekin fullri alvöru af kirkjuráði.“ http://kirkjuthing.is/kerfi//skraarsofn/kirkjuthing/2016/05/6.-mál-KUF-2016-Nefnd-um-eftirfylgd-mála.pdf

Þingsálykanir

Hægt er að sækja ályktanir þingsins á PDF formi á ofangreindum slóðum.

Myndir frá þinginu má nálgast hér: https://www.flickr.com/photos/kirkjan/albums/72157666572003933