Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

Kirkjuþing

Fundum kirkjuþings frestað til fyrri hluta árs 2016

Síðari umræða um nokkur mál kirkjuþings fór fram í dag. Samþykkt voru 7. mál, (tillögur um endurskoðun starfsreglna um kjör til kirkjuþings liggi fyrir kirkjuþingi 2016) (10. mál, (endurskoðun starfsreglna um kosningu biskups Íslands og vígslubiskupa liggi fyrir kirkjuþingi 2016)) 13. mál (sameining sókna í Dalvíkurprestakalli), 6. mál, (breyting á starfsreglum um kirkjuráð, þ.e. Tónlistarráð komi inn í starfsreglurnar í stað stjórnar Tónskólans) og 8. mál kirkjuþings (um endurskoðun á starfsreglum um starfsþjálfun prestsefna).
14. mál kirkjuþings (um hlut kristinna fræða í grunnskólum) fékk ekki framgang. Í nefndaráliti allsherjarnefndar kirkjuþings var þökkuð góð greinargerð flutningsmanns með málinu. Allsherjarnefnd beindi því til kirkjuráðs að efla fræðslumál kirkjunnar með það að markmiði að styðja við fræðslu barna og unglinga í kristnum fræðum í þeim tilgangi að efla hana ásamt því að leita leiða til að koma henni á framfæri.
16. mál um skýrslu þjóðmálanefndar var afgreidd með ályktun þingsins sem lýsti yfir ánægju sinni með málþingið ,,Hver er þá náungi minn” sem þjóðmálanefnd stóð fyrir í Norræna húsinu, 22.október síðast liðinn.
5. mál kirkjuþings (hlunnindi á jörðum kirkjunnar) var afgreitt með ályktun um skipun nefndar.
1. mál, skýrsla kirkjuráðs, var afgreidd frá kirkjuþingi með þingsályktun og 15. mál (um presta sem vígslumenn).
Álytun í 17. mál kirkjuþings um skipan viðræðunefndar kirkjuþings undir forystu forseta þingsins var samþykkt. Í viðræðunefnd kirkjuþings voru kosnir Óskar Magnússon, lögmaður, varamaður á kirkjuþingi og Jónína Bjartmarz lögmaður, aðalmaður á kirkjuþingi.
Þá var 11. og 12. mál þingsins, tillögur að starfsreglum um val og veitingu prestsembætta, samþykkt með nokkrum breytingum. Kirkjuþing tilnefndi í framhaldi af því þau Pétur Kr. Hafstein og Ragnhildir Benediktsdóttir, sem fulltrúa í nefndina en biskup Íslands skipar formann hennar. Varamenn voru kosnir Arnfríður Einarsdóttir og Ásbjörn Jónsson, Seinni umræða um 2. mál, fjármál þjóðkirkjunnar, hófst en var frestað. Þó var afgreidd ályktun um að beina því til kirkjuráðs að skipa, samkvæmt heimild í starfsreglum, fjármálahóp.

Þingfundum kirkjuþings var að því búnu frestað og er reiknað með að fundum verði framhaldið í febrúar eða mars 2016. Nokkur mál eru óafgreidd og til meðferðar hjá nefndum kirkjuþings á tímabilinu.
Allsherjarnefnd er með 4. mál – áfangaskýrsla starfshóps um stefnumótun þjóðkirkjunnar.
Fjárhagsnefnd er með 2. mál – fjármál þjóðkirkjunnar.
Löggjafarnefnd er með 3. mál, (frumvarp til nýrra þjóðkirkjulaga), 9. mál, (frumvarp til breytinga á þjóðkirkjulögum – seta biskups í kirkjuráði) og 18. mál, (frumvarp til breytinga á þjóðkirkjulögum – fjárstjórnarvald kirkjuþings o.fl).

Samþykktir kirkjuþings og aðrar upplýsingar um þingið eru birtar á vef kirkjuþings kirkjuthing.is