Þú finnur kirkjuna einnig á   fr yt Tw fb

Þjóðkirkjan

Kirkjuþing

Kirkjuþing unga fólksins kom saman laugardaginn 9. maí

Kirkjuþing unga fólksins kom saman í Grensáskirkju laugardaginn 9. maí. Fyrir þinginu lágu að þessu sinni sjö mál. Þingið kallaði meðal annars eftir umbótum á fræðslu leiðtoga í kirkjustarfi, aukinni eftirfylgd við umhverfisstefnu þjóðkirkjunnar, mótun stefnu um rafræn samskipti og afnámi ákvæða um samviskufrelsi sem heimila prestum að neita að vígja hjón á grundvelli kynhneigðar.

Kirkjuþing unga fólksins kemur saman einu sinni á ári. Það kaus einn áheyrnarfulltrúa, Hafþór Frey Líndal, sem mun sitja kirkjuþing í haust. Ályktanir þingsins verða lagðar fyrir kirkjuráð.

Betri eftirfylgd mála frá kirkjuþingi

Kirkjuþingið kallaði meðal annars eftir því að aldurstakmark til þátttöku í almennum prestskosningum og til kjörgengis í sóknarnefnd væri samræmt (2. mál). Samkvæmt núgildandi reglum geta sextán ára og eldri tekið sæti í sóknarnefnd en í almennum prestskosningum er miðað við átján ára aldur.

Þá kallaði þingið eftir skýrari ákvæðum um kynningu og eftirfylgd mála kirkjuþings unga fólksins (7. mál) og heimildum til að fylgja málum eftir með því að taka þau á aftur dagskrá á næsta þingi ef þingmenn teldu ekki hefði verið unnið nægilega vel úr þeim (1. mál).

Úrbætur í leiðtogaþjálfun

Þingið kallaði eftir því að gerðar væru úrbætur á þjálfun leiðtoga í kirkjustarfinu (3. mál):

„Einkum á landsbyggðinni er fræðslunni ábótavant og jafnvel kemur fyrir að starfandi eru leiðtogar sem hafa ekki hlotið leiðtogaþjálfun. Gerir lítil eða engin menntun það að verkum að leiðtogar standa berskjaldaðir ef upp koma aðstæður sem reyna á innihald fræðslunnar.

Ef litið er til KFUM og KFUK bjóða þeir upp á tvö leiðtoganámskeið á ári, skyndihjálparnámskeið, grunn í barnavernd, námskeið um vinnslu eineltismála og fleiri námskeið fyrir leiðtoga og er leitast við því að sjá sambærilega fræðslu innan Þjóðkirkjunnar.“

Sett verði á fót umhverfisnefnd

Kirkjuþing unga fólksins vakti í þriðja sinn athygli á stöðu umhverfismál og kallaði eftir því að þeim málum væru betur sinnt innan þjóðkirkjunnar (4. mál). Það lagði jafnframt fram tillögur til úrbóta, meðal annars að:

Komið sé á fót umhverfisnefnd sem sér um þau málefni sem snúa að umhverfisstarfinu s.s. könnun á gengi og eftirfylgni. Umhverfisnefnd verði skipuð sem samanstendur af a.m.k. einum aðila úr hverju prófastdæmi fyrir sig. Nefndin sér um ofangreinda hluti ásamt því að móta nýja umhverfisstefnu og taka þá grænfánann sem fyrirmynd og standi að fræðslu um umhverfismál í öllum prófastdæmum.

Unnið sé að stofnun grænkirkjunets þar sem kirkjur starfa saman í samstarfi við hvor aðra og samstarfssamtök að vinna að því að grænka starfsemi sína.

Mótuð verði stefna um notkun upplýsingatækni

Þá fjallaði þingið um trúnað og rafræn samskipti (5. mál) og kallaði eftir því að þjóðkirkjan

móti stefnu um hvernig upplýsingatækni er notuð í safnaðarstarfinu. Æskulýðsvettvangurinn, samstarfvettvangur KFUM og KFUK, Skátanna, UMFÍ og Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, hefur tekið sér stefnu um rafræn samskipti við þátttakendur og myndbirtingu af myndum úr starfinu. Er því kallað eftir því að Þjóðkirkjan móti stefnu um hvernig hún vill að tekið sé á þessum málum innan kirkjunnar.

Kirkjuþing unga fólksins ályktar að innleiða eigi 17. og 18. grein siðaregla Æskulýðsvettvangsins í siðareglur leiðtoga Þjóðkirkjunnar.

Afnema reglur um samviskufrelsi

Þingið samþykkti einnig ályktun um samviskufrelsi presta (6. mál) þar sem segir meðal annars:

Kirkjuþing unga fólksins leggur til að reglur þær sem nú eru í gildi um samviskufrelsi presta sem heimila prestum að neita fólki um þjónustu á grundvelli kynhneigðar verði afnumdar, enda stríði þær gegn kenningu kirkjunnar um jafnrétti og gegn lögum landsins sem segja að ekki megi mismuna fólki á grundvelli kyns, kynþáttar, trúar, stéttar né kynhneigðar.

Þingsálykanir

Hægt er að sækja ályktanir þingsins á pdf-sniði.