Biskupsstofa
Laugavegi 31, 150 Rvk.
Sími 528 4000, fax 528 4098
kirkjan@kirkjan.is

Kirkjuþing
Safnaðarheimili Grensáskirkju
Háaleitisbraut 66, 108 Rvk.
Sími 856 1542
kirkjuthing@kirkjuthing.is

Leiðarstýring

Tillaga til þingsályktunar um prestsþjónustu fyrir Íslendinga í Danmörku og Svíþjóð

Mál númer: 
25
Ár: 
2013

Kirkjuþing 2013 samþykkir að kjósa þriggja manna nefnd sem skoðar með hvaða hætti hægt er að efla prestsþjónustu meðal Íslendinga í Danmörku og Svíþjóð. Nefndin leggi hugmyndir sínar fram á kirkjuþingi að vori.

Greinargerð.
Löng hefð er fyrir því að íslenskir prestar hafi þjónað Íslendingum sem búsettir eru í Danmörku. Framan af sáu íslenskir prestar sem þjónuðu í dönsku kirkjunni um þessa þjónustu við landa sína og má þar nefna sr. Þórð Tómasson og sr. Hauk Gíslason sem þjónuðu á fyrri hluta síðustu aldar. Einnig má nefna störf sr. Friðriks Friðrikssonar í Danmörku ekki síst á stríðsárunum (1939-1945).

Þann 1. júli árið 1964 var sr. Jónas Gíslason ráðinn prestur Íslendinga í Kaupmannahöfn, og gegndi því starfi til 1970. Ávallt síðan hefur prestur starfað á vegum íslensku þjóðkirkjunnar í Danmörku, allt til ársloka 2009, er starfið var lagt niður í kjölfar hrunsins.

Starf prests í Danmörku hefur jafnan verið fjölbreytt. Auk helgihalds og athafna hefur hann sinnt ýmislegri félagslegri þjónustu, aðstoðað landann á margan hátt, farið í heimsóknir í fangelsin og stutt sjúklinga sem eru til lækninga, ekki síst á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn. Þess vegna var presturinn í góðum tengslum við íslenska sendiráðið og jafnan kallaður sendiráðsprestur og hafði hann skirfstofuaðstöðu þar. Einnig tók Tryggingastofnun ríkisins þátt í launakostnaði prestsins og um árabil bjó presturinn í Jónshúsi, sem gefið var Íslendingum árið 1966.

Þegar leið á árið 2009 fækkaði komum sjúklinga frá Íslandi til Ríkisspítalans í Kaupmannahöfn enda voru Sjúkratryggingar Íslands búnar að ákveða að þágildandi samningur um þessa þjónustu yrði ekki framlengdur, en hann rann út um áramótin 2009/2010 og þess í stað var leitað til Svíþjóðar.

Nú er prestur í hálfu starfi í Svíþjóð og er hann kostaður af Sjúkratryggingum Íslands og felst starf hans því fyrst og fremst í því að sinna sjúklingum sem sendir eru til Gautaborgar til lækninga.

Nú styrkir þjóðkirkjan íslensku söfnuðina í þessum tveimur löndum um kr. 700.000 hvorn til safnaðarstarfs. Þar er unnið gott starf á margan hátt, t.d. barna- og fermingarstarf og af og til fer prestur frá Íslandi og Svíþjóð til Kaupmannahafnar í messuferð.

Söfnuðurnir erlendis hafa áhyggjur af minni þjónustu á sama tíma og Íslendingum fjölgar í þessum löndum, en u.þ.b. 16 þúsund Íslendingar eru búsettir í Danmörku og Svíþjóð, þar af um 10.000 í Danmörku.

Samráðsfundur íslensku safnaðanna í Danmörku, Svíþjóð og Noregi, sem haldinn var í Jónshúsi haustið 2011 ályktaði um þessi mál, þar sem segir m.a. að óbreyttu muni íslenskt kirkjustarf nánast leggjast af bæði í Svíþjóð og Danmörku. Einnig er skorað á kirkjuþingsfulltrúa að leita allra leiða til að endurskoða þann niðurskurð sem orðið hefur í íslensku kirkjunni erlendis.

Í þingsályktun kirkjuþings 2009 er kirkjuráð hvatt til að leita leiða við að styðja safnaðarstarf erlendis og kanna nýjar leiðir til þess að fjármagna það.
Í skýrslu kirkjuráðs á kirkjuþingi 2010 er farið yfir málið og nefndar nokkrar hugmyndir kannaðar höfðu verið og vert væri að skoða betur. Allsherjarnefnd fagnaði því og hvatti til aukinnar þjónustu, svo og í Noregi.

Ljóst er að kirkjan gegnir veigamiklu hlutverki meðal Íslendinga erlendis. Undir merkjum hennar safnast fólk saman, börn og fullorðnir og styrkja þannig tengslin sín á milli og við land og þjóð og rækta trú sína. Mörg dæmi eru um það að fólk sem fór að taka þátt í kirkjustarfi eða jafnvel vinna fyrir kirkjuna erlendis, heldur því áfram þegar heim er komið.

Með þessari tillögu er þess vænst að fundin verði leið til að efla prestsþjónustu meðal Íslandinga í Danmörku og Svíþjóð. Tekin verði saman þau gögn sem unnin hafa verið í undirbúningi þessa máls, nýrra aflað og fær leið fundin.

Ljóst er að þó að margir séu velviljaðir í þessu máli, m.a. Utanríkisráðuneytið, sendiherrann í Kaupmannahöfn, stjórn Jónshúss og fleiri, þá verður ekki hjá því komist að fjárframlag þarf að koma frá þjóðkirkjunni til þessa málaflokks.

Það væri verðug afmælisgjöf að finna þessu máli farveg á afmælisári,- þegar 50 ár eru liðin frá því að fyrsti íslenski presturinn var formlega ráðinn til starfa í Kaupmannahöfn.

Höfundur: 
Gísli Gunnarsson

Umræða

Rita ummæli

  • Vefslóðir og netföng breytast sjálfkrafa í tengla.
  • Leyfð HTML-mörk: <a> <em> <strong> <cite> <code> <ul> <ol> <li> <dl> <dt> <dd>
  • Línu- og málsgreinaskil eru sett inn sjálfkrafa.

Frekari upplýsingar um textasnið