Biskupsstofa
Laugavegi 31, 150 Rvk.
Sími 528 4000, fax 528 4098
kirkjan@kirkjan.is

Kirkjuþing
Safnaðarheimili Grensáskirkju
Háaleitisbraut 66, 108 Rvk.
Sími 856 1542
kirkjuthing@kirkjuthing.is

Leiðarstýring

Tillaga að starfsreglum um breytingu á starfsreglum um þingsköp kirkjuþings nr. 949/2009 (allt að sex mánaða fundarhlé)

Mál númer: 
21
Ár: 
2013

1. gr.
2. ml. 2. mgr. 1. gr. orðist svo:
Heimilt er að gera allt að sex mánaða hlé á þingfundum milli umræðna eða áður en síðari umræðu um þingmál lýkur.

2. gr.
1. ml. 1. mgr. 13. gr. orðist svo:
Þingmál skulu almennt hafa borist forseta kirkjuþings fjórum vikum fyrir upphaf þings.

3. gr.
1. mgr. 14. gr. orðist svo:
Kirkjuþingsmenn geta boðað til sérstaks þingmálafundar í kjördæmum sínum til kynningar á þingmálum sem þeir hyggjast flytja, áður en málið er sent forseta, sbr. 1. mgr. 13. gr. Aðrir sem hafa tillögurétt og málfrelsi á kirkjuþingi, skulu eiga þess kost að mæta á þá fundi og kynna mál ef þeir óska þess. Kirkjumálasjóður greiðir hóflegan kostnað við fundaraðstöðu.

4. gr.
Starfsreglur þessar, sem settar eru með heimild í 59. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997 öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur brott ákvæði til bráðabirgða frá sama tíma.

Athugasemdir við tillögur þessar
Forsætisnefnd kirkjuþings telur góða reynslu hafa fengist af þeirri tilhögun sem samþykkt var til bráðabirgða á kirkjuþingi 2012 að fresta mætti þingfundum í allt að sex mánuði í stað sex vikna eins og þingsköp mæltu áður fyrir um. Með því gefst þingfulltrúum meira tóm til að fjalla um þingmál á vandaðan hátt og undirbúa úrlausnir þeirra. Að mati forsætisnefndar er þetta ekki síst mikilvægt ef fjárstjórnarvald færist til kirkjuþings eins og ráðgert er í frumvarpi að þjóðkirkjulögum.
Að mati forsætisnefndar er því eðlilegt að festa þessa heimild varanlega í sessi í stað þess að hafa hana til bráðabirgða. Því er lögð til sú breyting að ákvæði 1. gr. breytist á framangreindan hátt.
Þá er forsætisnefnd þeirrar skoðunar einnig að stytta eigi almennan framlagningarfrest mála í fjórar vikur í stað sex vikna eins og nú er og er sú breyting því lögð til.
Að endingu er forsætisnefnd þeirrar skoðunar að afnema eigi hina fortakslausu skyldu kirkjuþingsfulltrúa til að kynna mál á þingmálafundum í kjördæmum til kirkjuþings heldur sé þingfulltrúum það heimilt. Er þetta lagt til í ljósi þeirrar reynslu sem fengist hefur af þessu fyrirkomulagi sem tekið var upp árið 2010 og hefur því gilt á kjörtímabili núverandi kirkjuþings. Mæting á þingmálafundi hefur verið misgóð og er eðlilegra að þingfulltrúar geti metið það sjálfir hvort rétt sé að halda þingmálafund í kjördæmum. Lagt er til að í starfsreglur komi ákvæði um að kirkjumálasjóður greiði hóflegan kostnað við fundaraðstöðu en svo hefur verið í reynd frá því þingmálafundir voru teknir upp. Þykir því rétt að reglan sé formlega tekin upp í starfsreglur. Rétt er að taka fram að ekkert mælir gegn því að kynning þingmála geti farið fram á héraðsfundum ef héraðsnefndir samþykkja að taka slíkt á dagskrá.

Kostnaður við samþykkt tilögu þessarar er að mati flutningsmanna sem hér greinir:

Með frestun þingfunda, sem vafalaust yrði algengast að fæli í sér að reglulegt kirkjuþing kæmi saman tvisvar, þ.e. að hausti og síðan eftir áramót, er ljóst að ferðakostnaður þingfulltrúa tvöfaldast. Jafnframt verður að gera ráð fyrir að fastar þingnefndir geti starfað á meðan frestun þingfunda stendur yfir en það felur einnig í sér aukinn ferðakostnað og nefndakostnað. Þá má gera ráð fyrir einhverjum kostnaði við uppsetningu þingaðstöðu tvisvar í stað einu sinni.
Að öðru leyti er vart sjáanlegt að tillaga þessi feli í sér aukinn kostnað.
Hugsanlegt er að kostnaður vegna þingmálafunda lækki, kjósi þingfulltrúar í einhverjum kjördæmum að nýta ekki heimild til boðunar þingmálafunda.

Um 1. gr.
Ákvæðið mælir fyrir um að fest verði í sessi sú regla að fresta megi fundum kirkjuþings í allt að sex mánuði í stað þeirra sex vikna sem nú er.

Um 2. gr.
Ákvæðið mælir fyrir um að almennur framlagningarfrestur þingmála verði styttur úr sex vikum í fjórar vikur.

Um 3. gr.
Ákvæðið mælir fyrir um að fortakslaus skylda kirkjuþingsfulltrúa til kynningar mála á þingmálafundum falli brott. Kirkjuþingsfulltrúum sé í sjálfsvald sett hvort þeir kjósi að boða þingmálafund til kynningar á málum sínum. Lagt er til að tekið verði upp í starfsreglur ákvæði um að kirkjumálasjóður greiði hóflegan kostnað við fundaraðstöðu.

Um 4. gr.
Lagt er til að starfsreglurnar taki gildi þegar í stað.

Höfundur: 
Forsætisnefnd

Umræða

Rita ummæli

  • Vefslóðir og netföng breytast sjálfkrafa í tengla.
  • Leyfð HTML-mörk: <a> <em> <strong> <cite> <code> <ul> <ol> <li> <dl> <dt> <dd>
  • Línu- og málsgreinaskil eru sett inn sjálfkrafa.

Frekari upplýsingar um textasnið