Biskupsstofa
Laugavegi 31, 150 Rvk.
Sími 528 4000, fax 528 4098
kirkjan@kirkjan.is

Kirkjuþing
Safnaðarheimili Grensáskirkju
Háaleitisbraut 66, 108 Rvk.
Sími 856 1542
kirkjuthing@kirkjuthing.is

Leiðarstýring

Tillaga til þingsályktunar um kyrrðarstarf

Mál númer: 
17
Ár: 
2013

Kirkjuþing 2013 samþykkir að skipa 3ja manna nefnd sem skuli gera tillögur til biskups um eflingu kyrrðarstarfs

Greinargerð.
Kyrrðarstarf hefur verið stundað og byggt upp á Íslandi frá því á síðari hluta síðustu aldar. Því hefur vaxið nokkuð fiskur um hrygg en er þó lítt kynnt innan Þjóðkirkjunnar og ekki almennt stundað í söfnuðum landsins. Það hefur verið um langt árabil mjög tengt Skálholti og ýmsir hópar boðið þar upp á mismunandi kyrrðardvalir. Mikilvægt er að nýta báða biskupsstólana á Hólum og í Skálholti til þess að efla kyrrðarstarf sem víðast í söfnuðum þar sem á báðum stöðum er mjög góð aðstaða til þess. Er það verðugt verkefni í tilefni af 50 ára afmæli Skálholtsdómkirkju og 250 ára afmæli Hóladómkirkju.

Þeir þættir sem rétt er að nefndin líti til gætu verið eftirfarandi

1. Skoðað verði hvernig auka megi kynningu á kyrrðariðkun. Skoðað verði hvernig best verði staðið að útgáfu á efni sem miði að því að kynna hvað kyrrðariðkun er. Einnig verði gefið út efni sem hentar til notkunar við kyrrðariðkun. Kynningarstarf ætti einkum að miða að tvennu. Í fyrsta lagi að auka þekkingu á kyrrðariðkun hvort sem er í mynd kyrrðardvala eða þátttöku í kyrrðarstarfi í söfnuðum eða jafnvel kyrrðariðkun einstaklinga í daglegu lífi og hver sé tilgangur slíkrar iðkunar. Nefndin gæti skoðað möguleika á að gefa út lítinn bækling sem legið gæti frammi sem víðast í kirkjunni og sem hægt væri að nota til að kynna söfnuðum og ýmsum hópum þessar leiðir í andlegri leit. Í öðru lagi að skoða hvernig auka megi framboð á íslensku efni til að nota í kyrrðarstarfi þannig að auðveldara sé að koma á lengri og styttri kyrrðardvölum sem víðast. Netsíðan kristinihugun.is er mikilsvert framlag til kynningar á kyrrðariðkun. E.t.v. mætti hugsa sér að styrkja þessa síðu á einhvern hátt í samstarfi við þau sem hafa umsjón með henni. Skoðað verði hvort möguleikar séu á að auka sýnileika þessa starfs inni á síðunni kirkjan.is.

2. Skoðaðir verði möguleikar á því að reynsla og þekking á kyrrðariðkun verði hluti af starfsþjálfun prests- og djáknaefna. Mikilvægt er að þau sem starfa að trúmálum í kirkjunni hafi reynslu og þekkingu af kyrrðariðkun. Hægt er að hugsa sér að það sé hluti af endurmenntun starfsfólks og sjálfboðaliða innan kirkjunnar að sækja kyrrðardvalir og námskeið tengd kyrrðariðkun. Einnig er mikilvægt að framtíðarstarfsfólk kirkjunnar hafi reynslu af kyrrðariðkun, sem þetta fólk getur síðan miðlað í starfi sínu. Hér má líta til biskupsstólanna, sem nýta mætti til slíkrar starfsþjálfunar.

3. Skoðað verði að skipa hóp tengiliða sem hafi tengsl við hvert prófastdæmi og við þá hópa sem vinna að kyrrðarstarfi í dag. Tilgangurinn með því að skipa tengiliði í prófastsdæmunum er að tengja saman fólk sem þekkir til kyrrðariðkunar. Mikilvægt er að tengsl og þekking nái til allra landshluta og að þau sem hafa þekkingu og köllun á þessu sviði tengist nánari böndum með það að markmiði að styrkja hvert annað og skapa betri þekkingu og yfirsýn yfir stöðu kyrrðarstarfs á Íslandi.

4. Kannaðir verði möguleikar á að starfsmaður með sérþekkingu á kyrrðarstarfi verði fenginn a.m.k. í hlutastarf, til að gera átak í kynningu á þessu sviði. Innan kirkjunnar er til talsverð þekking á kyrrðariðkun en enginn hefur það starf að sinna henni.

5. Haldin verði ráðstefna til að leiða saman ólíka hópa sem þekkingu hafa á kyrrðariðkun í landinu og safna hugmyndum og mynda tengsl.

Kostnaður
Gert er ráð fyrir að nefndarfólk verði sem mest á sama landsvæðinu til að losna við ferðakostnað og ekki er gert ráð fyrir að um launað nefndarstarf sé að ræða. Gert er ráð fyrir kostnaði við ráðstefnu kr. 300.000 frá Þjóðkirkjunni, að öðru leyti verði leitað eftir styrktarfé til að standa undir kostnaði.

Kyrrðardagar eða kyrrðardvöl (retreat) er dvöl á friðsælum stað þar sem kyrrð og friður eru notuð markvisst til þess að dvelja í nærveru Guðs við bæn og íhugun. Í kyrrðardvöl er sem mest þögn nema í helgihaldi sem jafnan er talinn ómissandi þáttur sem myndar umgjörð dagsins. Kyrrðardvalir eru almennt skipulagðar fyrir hóp fólks en víst væri hægt að hugsa sér að einstaklingur skipulegði sína eigin kyrrðardvöl. Þekkt er einnig að persónuleg, andleg fylgd (spiritual direction) sé veitt í kyrrðardvölum eða við aðra kyrrðariðkun.

Höfundur: 
Katrín Ásgrímsdóttir og Solveig Lára Guðmundsdóttir

Umræða

Rita ummæli

  • Vefslóðir og netföng breytast sjálfkrafa í tengla.
  • Leyfð HTML-mörk: <a> <em> <strong> <cite> <code> <ul> <ol> <li> <dl> <dt> <dd>
  • Línu- og málsgreinaskil eru sett inn sjálfkrafa.

Frekari upplýsingar um textasnið