Biskupsstofa
Laugavegi 31, 150 Rvk.
Sími 528 4000, fax 528 4098
kirkjan@kirkjan.is

Kirkjuþing
Safnaðarheimili Grensáskirkju
Háaleitisbraut 66, 108 Rvk.
Sími 856 1542
kirkjuthing@kirkjuthing.is

Leiðarstýring

Tillaga að starfsreglum um samkirkjunefnd

Mál númer: 
16
Ár: 
2013

1. gr.
Kirkjuþing fer með samkirkjuleg mál fyrir hönd þjóðkirkjunnar og felur kirkjuráði framkvæmd þeirra skv. lögum nr. 78/1997 24. gr. og 26.gr. Kirkjuþing setur starfinu stefnu og markar áherslur. Kirkjuráð skilar kirkjuþingi sérstakri skýrslu um málaflokkinn og ber ábyrgð fyrir hönd kirkjuþings á þátttöku í innlendu og erlendu samstarfi kirkna-og trúfélagasamtaka.

2. gr.
Kirkjuráð skipar samkirkjunefnd með fimm fulltrúum og jafnmörgum til vara. Fjórir fulltrúar og varamenn þeirra skulu kosnir af kirkjuþingi og kirkjuráð skipar einn fulltrúa sem er formaður, auk varamanns hans. Nefndin skiptir að öðru leyti með sér verkum. Skipunartími er fjögur ár frá 1. júlí árið eftir kjör til kirkjuþings. Forseti kirkjuráðs kallar nefndina saman með skipunarbréfi til fyrsta fundar. Framkvæmdastjóri kirkjuráðs, eða fulltrúi hans, situr fundi nefndarinnar, tekur þátt í undirbúningi þeirra og ritar fundargerðir.

3. gr.
Hlutverk samkirkjunefndar er að hafa yfirsýn og vera ráðgefandi um samskipti og tengsl Þjóðkirkjunnar við aðrar kirkjur og kristin trúfélög bæði á Íslandi og erlendis. Þar með er talin þátttaka Þjóðkirkjunnar í samkirkjulegum stofnunum.

4. gr.
Samkirkjunefnd fundar svo oft sem þurfa þykir. Fundargerðir nefndarinnar skulu lagðar fram í kirkjuráði. Nefndin skilar árlega skýrslu til kirkjuráðs sem leggur nefndinni til aðstöðu og rekstrarfé. Kirkjuráð ákveður hverjir sitja aðalfundi og þing Alkirkjuráðsins og Lútherska heimssambandsins.

5. gr.
Fulltrúar íslensku þjóðkirkjunnar í erlendum og innlendum kirknasamtökum og stofnunum skulu boðaðir á fundi nefndarinnar eins og tilefni gefast til, svo og aðrir sem nefndin telur ástæðu til að bjóða til samráðs.

6. gr.
Samkirkjunefnd gerir tillögur til kirkjuráðs um fulltrúa íslensku þjóðkirkjunnar í samkirkjulegum nefndum, ráðum og stofnunum, sem þjóðkirkjan er aðili eða ákveðið er að starfa með. Skulu fulltrúar íslensku kirkjunnar skila skýrslum um störf sín og þátttöku í ráðstefnum samkvæmt nánari ákvörðunum kirkjuráðs.

7. gr.
Starfsreglur þessar sem settar eru með heimild í 59. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997 öðlast gildi 1. desember 2014. Jafnframt falla brott starfsreglur um Samkirkjunefnd Þjóðkirkjunnar nr. 1006/2005.

Ákvæði til bráðabirgða
Skipa skal samkirkjunefnd samkvæmt ákvæðum starfsreglna þessara svo fljótt sem auðið er eftir gildistöku þeirra, er starfi til 30. júní 2015.

Athugasemdir við tillögur þessar
Kirkjuráð hefur ákveðið að flytja tillögur að nýjum starfsreglum um samkirkjuleg mál þjóðkirkjunnar, er leysi af hólmi starfsreglur um Samkirkjunefnd þjóðkirkjunnar nr. 1006/2005. Í framangreindum tillögum felst að lagt er til að kirkjuþing taki forystu í málaflokknum og móti formlega stefnu þjóðkirkjunnar á sviði samkirkjulegra mála, en kirkjuráð annist framkvæmdina. Í núgildandi reglum hefur biskup Íslands að mestu leyti borið ábyrgð á samkirkjulegum málum og framkvæmd þeirra.
Ekki hefur verið um að ræða sérstaka stefnumótun kirkjuþings um samkirkjuleg mál fram að þessu en kirkjuþing hefur hins vegar mótað og samþykkt stefnu í flestum öðrum veigameiri málaflokkum s.s. um fræðslumál, tónlistarmál, kærleiksþjónustu, kristniboð fjölskyldustefnu o.fl. Er því lagt til að kveðið sé á um slíka stefnumótun í nýjum starfsreglum.
Í samræmi við framangreint eru meginbreytingar þær sem lagðar eru til eftirfarandi:

a) Kirkjuþing, í stað biskups Íslands, fari með samkirkjuleg mál fyrir hönd þjóðkirkjunnar.
b) Kirkjuþing feli kirkjuráði almenna framkvæmd samkirkjulegra mála. Fram að þessu hefur biskup Íslands annast þá framkvæmd með stuðningi samkirkjunefndar.
c) Kirkjuþing setji þjóðkirkjunni stefnu í samkirkjulegum málum og marki áherslur þess.
d) Kirkjuráð skuli skila kirkjuþingi sérstakri skýrslu um málaflokkinn. Samkvæmt núgildandi starfsreglum skal biskup leggja árlega skýrslu fram fyrir kirkjuþing og kirkjuráð.
Jafnframt sé skilgreint að kirkjuráð beri ábyrgð fyrir hönd kirkjuþings á þátttöku í innlendu og erlendu samstarfi kirkna- og trúfélagasamtaka.
e) Kirkjuráð skuli skipa fimm menn í samkirkjunefnd og skuli fjórir þeirra kosnir af kirkjuþingi. Jafnmargir skuli skipaðir til vara. Kirkjuráð skipi einn fulltrúa sem jafnframt er formaður auk varamanns hans.
Samkvæmt núgildandi starfsreglum er nefndin skipuð þannig að kirkjuþing kýs tvo fulltrúa í nefndina, Hjálparstarf kirkjunnar tilnefnir einn og biskup Íslands skipar tvo. Skal annar þeirra er biskup kýs vera formaður nefndarinnar en hinn sitja í Samstarfsnefnd kristinna trúfélaga á Íslandi og jafnframt vera varaformaður. Varamenn eru valdir með sama hætti.
f) Kirkjuráð ákveði hverjir sitji aðalfundi og þing Alkirkjuráðsins og Lútherska heimssambandsins.
Samkirkjunefnd geri tillögur til kirkjuráðs, um fulltrúa íslensku þjóðkirkjunnar í sameiginlegum nefndum, ráðum og stofnunum sem þjóðkirkjan er aðili að eða ákveðið er að starfa með. Í núgildandi reglum gerir samkirkjunefnd þessa tillögu til biskups um fulltrúa.
g) Framkvæmdastjóri kirkjuráðs eða fulltrúi hans skal sitja fundi nefndarinnar, taka þátt í undirbúningi þeirra og rita fundargerð.

Um einstök ákvæði tillögunnar:

1. gr.
Mælt er fyrir um þá meginbreytingu að kirkjuþing fari með samkirkjuleg mál f.h. þjóðkirkjunnar og feli kirkjuráði framkvæmdina. Er í því sambandi vísað til 24. gr. og 26. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997. Í 24. gr. segir að kirkjuráð fari með framkvæmdarvald í málefnum þjóðkirkjunnar. Í 26. gr. segir að kirkjuráð fari með framkvæmd sameiginlegra málefna þjóðkirkjunnar, þar á meðal verkefna sem lög og stjórnvaldsreglur ætla því og erinda sem vísað er til þess m.a. af hálfu kirkjuþings, prestastefnu, samtökum leikmanna, Alþingis og ráðherra. Þá er það nýmæli lagt til að formlega verði kveðið á um að kirkjuþing setji starfinu stefnu og marki því áherslur. Í niðurlagi ákvæðisins er síðan kveðið á um að kirkjuráði skili kirkjuþingi sérstakri skýrslu um málaflokkinn og jafnframt að ráðið beri ábyrgð fyrir hönd kirkjuþings á þátttöku í innlendu og erlendu samstarfi kirkna-og trúfélagasamtaka.

Um 2. gr.
Lagt er til það nýmæli að kirkjuráð skipi samkirkjunefnd með fimm fulltrúum. Fjórir fulltrúar skuli kosnir af kirkjuþingi og kirkjuráð skipi einn fulltrúa sem jafnframt er formaður. Sama tilhögun gildi um skipun varamanna þ.m.t varaformanns. Framkvæmdastjóri kirkjuráðs, eða fulltrúi hans, skal sitja fundi nefndarinnar, taka þátt í undirbúningi þeirra og ritar fundargerðir.

Um 3. gr.
Ákvæðið er samhljóða 2. gr. núgildandi starfsreglna um Samkirkjunefnd þjóðkirkjunnar, en þar segir að hlutverk nefndarinnar sé að hafa yfirsýn og vera ráðgefandi um samskipti og tengsl Þjóðkirkjunnar við aðrar kirkjur og kristin trúfélög bæði á Íslandi og erlendis. Þar með sé talin þátttaka Þjóðkirkjunnar í samkirkjulegum stofnunum.

Um 4. gr.
Ákvæðið er svipað núgildandi 4. gr. þ.e. að Samkirkjunefnd fundi svo oft sem þurfa þykir. Þó er lagt til, í samræmi við þær breytingar á umsjón málaflokksins sem raktar hafa verið að fundargerðir nefndarinnar skuli lagðar fram í kirkjuráði. Jafnframt að nefndin skili árlega skýrslu til kirkjuráðs. Ráðið leggi nefndinni til aðstöðu og rekstrarfé. Þá er á sama grunni lagt til að kirkjuráð ákveði hverjir sitji aðalfundi og þing Alkirkjuráðsins og Lútherska heimssambandsins.

Um 5. gr.
Lagt er til að fulltrúar íslensku þjóðkirkjunnar í erlendum og innlendum kirknasamtökum og stofnunum skuli boðaðir á fundi nefndarinnar eins og tilefni gefast til, svo og aðrir sem nefndin telur ástæðu til að bjóða til samráðs.
Kemur ákvæði þetta í stað núgildandi 6. gr. sem kveður á um fortakslausan rétt fulltrúa íslensku Þjóðkirkjunnar í erlendum kirknasamtökum og stofnunum, sem Þjóðkirkjan á formlega aðild að, til fundarsetu og tillöguréttar á fundum Samkirkjunefndarinnar. Samkvæmt 6. gr. núgildandi starfsreglna hafa þessir aðilar þó ekki atkvæðisrétt á fundum nefndarinnar.

Um 6. gr.
Ákvæðið er svipað 7. gr. núgildandi starfsreglna þ.e. að samkirkjunefnd.
geri tillögur um fulltrúa íslensku þjóðkirkjunnar í samkirkjulegum nefndum, ráðum og stofnunum, sem þjóðkirkjan er aðili eða ákveðið er að starfa með, en nefndin geri þær tillögur til kirkjuráðs í stað biskups Íslands eins og nú er. Þá er lagt til að fulltrúar íslensku kirkjunnar skuli skila skýrslum um störf sín og þátttöku í ráðstefnum samkvæmt nánari ákvörðunum kirkjuráðs í stað þess fortakslausa ákvæðis sem nú er í 7. gr. að skýrslum skuli skilað til Samkirkjunefndar.

Um 7. gr.
Lagt er til að starfsreglurnar öðlist gildi 1. desember 2014 og að brott falli starfsreglur um Samkirkjunefnd Þjóðkirkjunnar nr. 1006/2005 frá sama tíma.

Um ákvæði til bráðabirgða
Svo unnt sé að hrinda starfsreglum þessum í framkvæmd, einkum 2. gr., er eðlilegt að skipuð sé samkirkjunefnd á grunni starfsreglnanna, er starfi til 30. júní 2015. Frá þeim tíma verði samkirkjunefnd kosin til fjögurra ára í samræmi við 2. gr.
Kirkjuþing 2013 verður samkvæmt því að kjósa fjóra aðalmenn og fjóra til vara.

Höfundur: 
Kirkjuráð

Umræða

Samkirkjumál

Það væri upplýsandi að sjá greinargerðina fljótlega því til þessa hefur þessum málum verið sinnt af sóma af biskupi og starfsfólki biskupsstofu. Því hlýtur greinargerðin að upplýsa um þörfina á breytingum í þessa veru. Það sem hefur óneitalega vakið athygli mína er að nú eigum við fulltrúa í stjórn Lúherska heimssambandsins sem hlýtur að teljast nokkuð merkilegt, en eftir því sem ég kemst næst þá hefur sá fulltrúi ekki fengið neinn styrk til ferðakostnaðar né annars kostnaðar en það er að ég held einsdæmi að staðið sé að málum með þeim hætti. SJálfsagt er að hafa val á fulltrúum fyrir hönd ÞK í ýmsar nefndir og ráð opnara og gagnsæjara en mér þykir þessi tillaga ekki stíga skref í þá átt. Ég lýsi miklum efasemdum um þessa hugsmynd að biskup stýri ekki þessi starfi fyrir hönd ÞK. Ég hvet til þess að ef ÞK á að skipa fulltrúa þá sé óskað eftir áhugasömum í gangsæju ferli en að sem áður fari biskup með þessi mál. Það að kirkjuráð eigi að ráð því hver taka sæti fyrir hönd ÞK hljómar ekki vel, eru nú næg verkefnin þar á borði.
kk Guðbjörg Jóhannesdóttir

Samkirkjumál og biskup

Nokkrar vangaveltur:
Ég tek undir með þeim skilningi formanns PÍ hér að ofan, að það sé í hæsta máta eðlilegt að biskup Íslands stýri aðkomu þjóðkirkjunnar að samkirkjumálum. Reynsla mín er sú að bæði erlendir og innlendir aðilar, þ.e. kirkjur, trúfélög og samtök, vænti leiðsagnar biskups um samstarf og ýmis verkefni. Upp hafa komið tilvik á undanförnum árum þar sem brýnt hefur verið að bregaðst skjótt við beiðnum annarra trúfélaga um ýmis konar stuðning eða samvinnu og það er alveg óhugsandi að hægt hefði verið að bíða eftir úrskurði kirkjuráðs fyrir hönd kirkjuþings í slíkum tilvikum. Útilokað er að ætla að afnema umboð biskups Íslands til ákvarðanatöku um samkirkjuleg mál og fela það umboð ráði, hversu faglega sem það kann að vera saman sett. Þá var það að minni reynslu til mikilla bóta þegar Samstarfsnefnd kristinna trúfélaga á Íslandi var tengd Samkirkjunefnd biskupsstofu með reglunum frá 2005, þar sem sú tenging hefur aukið mjög á upplýsingaflæði, og ég tel það bagalegt ef að sú tenging er numin brott að nýju án rökstuðnings. Tryggja þarf samfellu og faglega færni, m.a. tungumála- og guðfræðikunnáttu, allra sem að samkirkjulegu starfi koma fyrir hönd þjóðkirkjunnar. Ávallt er nauðsynlegt að gæta að opnum samskiptum og greinargerðir um gagnsemi þátttöku í þingum og ráðstefnum er hluti af því en slíkum greinargerðum hefur verið skilað til Samkirkjunefndar undanfarin ár og komið á framfæri á Ársfundi samkirkjumála ásamt í skýrslu formanns í Árbók (þjóð)kirkjunnar.
Læt duga í bili,
María Ágústsdóttir
formaður Samstarfsnefndar kristinna trúfélaga á Íslandi (í leyfi)

samkirkjumálefni

Mig langar til að taka undir með þeim Guðbjörgu og Maríu og vara við samþykkt þessarar tillögu. Hún er vanhugsuð og illa ígrunduð.
Einar Sigurbjörnsson

Rita ummæli

  • Vefslóðir og netföng breytast sjálfkrafa í tengla.
  • Leyfð HTML-mörk: <a> <em> <strong> <cite> <code> <ul> <ol> <li> <dl> <dt> <dd>
  • Línu- og málsgreinaskil eru sett inn sjálfkrafa.

Frekari upplýsingar um textasnið