Biskupsstofa
Laugavegi 31, 150 Rvk.
Sími 528 4000, fax 528 4098
kirkjan@kirkjan.is

Kirkjuþing
Safnaðarheimili Grensáskirkju
Háaleitisbraut 66, 108 Rvk.
Sími 856 1542
kirkjuthing@kirkjuthing.is

Leiðarstýring

Tillaga til þingsályktunar um fræðslustefnu þjóðkirkjunnar

Mál númer: 
15
Ár: 
2013

Kirkjuþing 2013 samþykkir eftirfarandi fræðslustefnu þjóðkirkjunnar:

Fræðslustefna þjóðkirkjunnar
I. kafli. Fræðsla frá vöggu til grafar.
Markmið fræðslustefnu Þjóðkirkjunnar er að stuðla að góðu og markvissu fræðslustarfi í söfnuðum landsins.
Skipulag fræðslunnar gengur að öllum jafnaði út frá sókninni sem grunneiningu og miðar við að allir geti nálgast fræðslu við sitt hæfi. Eðlilegt er að útfæra þetta markmið innan hvers prófastsdæmis í samræmi við aðstæður, svo sem mannfjölda, vegalengdir og samgöngur. Samstarfssvæði geta í mörgum tilfellum verið heppilegur vettvangur.
Mikilvægt er að auka fjölbreytni í framboði fræðsluefnis svo það sé sem mest í samræmi við þarfir og þroska fólks á öllum aldri. Sömuleiðs gefur fjölbreytilegt efnisval, þeim sem starfa við fræðsluna kost á því að laga hana að eigin styrkleikum.
Á fjögurra ára fresti er ákveðið viðfangsefni fræðslumála dregið sérstaklega fram og áhersla lögð á endurskoðun og endurbætur í öllum þáttum þess starfs. Fjárhagsáætlanir til efnisgerðar taki mið af þeirri stefnu.
Fermingarfræðslan og markviss tengsl við fjölskyldur fermingarbarna verður áhersluþáttur næstu fjögurra ára.
Fræðsla og námskeið fyrir leiðtoga um eðli og afleiðingar kynferðisbrota og þjálfun um æskileg viðbrögð þegar greint er frá kynferðisbroti. Sérstök áherslu verður einnig lögð á þetta atriði næstu fjögur árin.

Greinargerð.
Í yfirskrift fyrsta kafla í gildandi stefnu er aðeins ein setning: „Í hverri sókn landsins skal bjóða upp á fræðslu frá vöggu til grafar.“
Lagt er til að breyta þessu og nota fremur það orðalag sem fram kemur hér að ofan. Þar er meginhugsunin sú að setja ekki fram kröfu sem í mörgum tilfellum er ógerlegt að uppfylla og setja stax í upphafi þann tón að stefnan sé ætluð til stuðnings og leiðsagnar en ekki sem bindandi krafa. Áherla sé lögð á fjölbreytni og möguleika á mismundandi leiðum að því marki að veita aðgang að fræðslu frá vöggu til grafar. Enn fremur er sérstaklega bent á samstarfssvæði sem vænlega einingu í samræmi við aðrar samþykktir sem gerðar hafa verið í þá átt á undanförnum árum. Loks er hér lagt til að gert sé ráð fyrir einum ákveðnum áhersluþætti sem unnið verði sérstaklega að næstu fjögur ár.

Fræðslustarfinu er skipt í tvo meginflokka:
A) Æskulýðsfræðsla
1) Barnastarf
2) Fermingarstarf
3) Starf með unglingum og ungu fólki

B) Fullorðinsfræðsla
1) Foreldrafræðsla
2) Almenn fræðsla
3) Eldri borgara starf

Greinargerð
Gerð er tillaga að breytingu á flokkun. Æskulýðsnefnd þjóðkirkjunnar hefur fyrir sitt leyti samþykkt og ákveðið að ganga út frá þeirri flokkun að skilgreina æskulýðsstarf sem starf með börnum og unglingum. Í samræmi við það er æskulýðsfræðsla sá meginflokkur er hýsir starf með börnum unglingum og ungu fólki. Seinni meginflokkurinn felur í sér það sem í boði er fyrir fullorðið fólk, hvort sem það er foreldrar eða ekki eða komið á efri ár.

A1 Barnastarf – börn, 12 ára og yngri
Markmið:
 Í barnastarfi Þjóðkirkjunnar læri barnið að þekkja Guð og upplifa samfélag við hann í samræmi við þroska þess og aldur[3].
Verkefni:
 6 ára börn og yngri: Sunnudagaskóli, þ.e. barnastarf sem hluti almennrar guðsþjónustu safnaðarins eða sér fræðsla. Áhersla skal lögð á upplifun og að kenna bænir og vers.
 6-9 ára börn: “Hópastarf” – þ.e. barnastarf sem hluti almennrar guðsþjónustu safnaðarins eða sér fræðsla. Áhersla skal lögð á fela börnunum hlutverk í starfinu.
 10-12 ára starf (TTT): Hópa- eða klúbbastarf. Áhersla á aukið hlutverk barnanna og á að starfið sé aðdragandi fermingarinnar.
Barnakórar: Efla barnakóra sem mikilvæga leið í barnastarfi Þjóðkirkjunnar. Áhersla á að tengja kórastarf og hefðbundið barnastarf. .
A2 Fermingarstarf
Markmið:
Fermingarstarfinu er ætlað að styrkja trúarvitund barnanna, kenna þeim grundvallaratriði kristinnar trúar, virkja þau í starfi kirkjunnar og vekja með þeim áhuga og jákvæða sýn á starf og tilvist kirkjunnar.
- Mikilvægt að taka mið af misjafnri getu barna til lestrar og þess að leysa skrifleg verkefni. Enginn ætti að þurfa að þola niðurlægingu vegna skorts á getu í samhengi kristinnar fermingarfræðslu.
- Fjölbreytt námsefni og breidd í kennsluháttum.
- Virkja fjölskyldu fermingarbarnsins til þáttöku og samstarfs.
Greinargerð.
Almennt viðhorf fræðslustefnunnar var að mikilvægt væri að taka fermingarfræðsluna sérstaklega fyrir. Brýnt að vanda þar svo vel til verka sem kostur er. Reynsla nágrannaþjóða sýnir að hlutfall þeirra sem vilja fermast á kristnum forsendum getur fallið á stuttum tíma. Enn sem komið er hefur það ekki gerst hér á landi en þó gætir tilhneigingar í þá átt. Mikilvægt er að líta ekki á fermingarfræðsluna á sama hátt og hefðbundið skólastarf. Kirkjan fær aðgang að börnunum í takmarkaðan tíma og mikilvægt að nota þann tíma vel, ekki einungis til að fræða um tiltekna þætti heldur ekki síður að skapa jákvæða sín á það starf sem unnið er í kirkjunni og það hlutverk sem köllun hennar er að rækja. Án þess að gert sé lítið úr hlutverki fræðslunnar þá er kannski enn mikilvægara markmið að sérhvert fermingarbarn taki með sér góða minningu um áhugavert og gefandi starf og jákvæða mynd af þeim sem það starf leiddu. Gjarnan fer það svo að þarna mótast sú mynd sem viðkomandi einstaklingur gerir sér af kirkjunni í heild.
Verkefni:
 Fermingarfræðslu fylgt eftir samkvæmt námsskrá
 Þróa ítarefni og ólíkar aðferðir í fermingarfræðslu
 Auka samstarf við foreldra
 Fylgja fermingarstarfinu eftir með samskiptum og samveru.
A3 Unglingastarf – unglingar og ungt fólk
Markmið:
 Starf Þjóðkirkjunnar meðal unglinga og ungs fólks miðar að því að efla þau og styðja og stuðla þannig að jákvæðri lífssýn og sterkri sjálfsmynd í trú á Guð. Jafnframt að ala upp framtíðarleiðtoga í kirkjulegu starfi.
 Skapa raunhæfan valkost til þátttöku í kirkjulegu starfi eftir fermingu.
Verkefni:
 Stuðla að samfélagi fyrir unglinga í kirkjunni s.s. með æskulýðsfélagi
 Vera vettvangur fyrir tilvistarspurningar
 Miðla kristnum lífsgildum
 Stuðla að trúariðkun og helgihaldi á forsendum unglinga
 Búa ungt fólk undir virka þátttöku í safnaðarstarfi
 Efla unglingakóra sem leið í unglingastarfi Þjóðkirkjunnar.
 Efla ber svo sem kostur er farskóla leiðtogaefna.
 Tilboði kirkjunnar um námskeið í lífsleikni í framhaldsskólum verði viðhaldið og endurbætt.
Greinargerð.
Farskóli leiðtogaefna er eitt dýrmætasta verkfæri sem fundist hefur lengi til að styrkja og efla ungt fólk til að takast á hendur ábyrgðarhlutverk í æskulýðs og unglingastarfi. Mikilvægt er að tryggja þessu starfi nauðsynlegan rekstrargrundvöll. Sömleiðis hefur tilboð kirkjunnar um aðkomu að lífsleikninámskeiði framhaldsskólanna verið mikilvægt tækifæri til að ná sambandi við þennan hóp ungs fólks sem gjarnan er móttækilegur fyrr neikvæðum áróðri í garð kirkju og trúar.

B1. Foreldrafræðsla
Markmið:
Þjóðkirkjan styðji foreldra í uppeldishlutverki sínu hvarvetna þar sem kirkjan og foreldrar mætast.
Verkefni:
 Skírn undirbúin með viðtölum við foreldra og því fylgt eftir í kirkjulegu starfi

 Stuðningur við uppeldi á heimilum, með fræðsluefni af ýmsum toga. Dæmi: dvd diskar, litlir bæklingar, netefni.
 Samverur í kirkjum eða safnaðarheimilum. Svo sem eins og foreldramorgnar, krílasálmar.
 Námskeið þar sem veitt er fræðsla um ýmsar aðstæður er tengjast uppeldi. Og aðstæður fólks með börn á framfæri.
 Í tengslum við barna- og æskulýðsstarf skal bjóða foreldrum fræðslu um uppeldi og trú og mikilvæg lífsgildi, t.d. með átaksverkefninu “verndum bernskuna!”[2]
 Virkja foreldra í barna- og æskulýðsstarfi

B2 Almenn fræðsla
Markmið:
Fræðsla fullorðinna hjálpi fólki að iðka kristna trú á gefandi hátt, vaxa í tilbeiðslu og takast á við verkefni lífsins. Ennfremur að hvetja fólk til að taka að sér verkefni og axla ábyrgð á vettvangi Þjóðkirkjunnar.
Verkefni:
1. Almenn safnaðarfræðsla
a) Trúfræðsla
 Námskeið um höfuðatriði kristindómsins
 Biblíufræðsla
 Fræðsla um aðra kristna söfnuði
 Trúarbragðafræðsla
b) Kirkjufræðsla
 Skipulag kirkjunnar
 Kirkjustarf, söngur, tilbeiðsla
 Kærleiksþjónusta – hjálparstarf
 Fræðsla fyrir kirkjukóra

2. Vöxtur og þroski einstaklinga og fjölskyldna
 Viðtöl við verðandi hjón (hjá presti)
 Námskeið fyrir verðandi hjón og ung hjón
 Námskeið fyrir “þroskuð” hjón, á ýmsum lífsskeiðum
 Hópastarf og sálgæsla fyrir fráskilið fólk
 Sjálfsstyrking kvenna/karla- hópastarf
 Tólf spora vinna
 Sorgarhópar
 Ýmis námskeið

B3 Fræðsluefni fyrir eldri borgara
Það sem almennt kallast eldri borgarar í dag er vaxandi hópur. Gróflega mætti skipta honum í tvennt: þ.e. fólk sem ekki stundar lengur fasta vinnu en er við góða heilsu oft fjárhagslega sjálfstætt og hefur löngun til að fræðast og láta gott af sér leiða.
Seinni hópurinn er fólk sem býr við margvíslega hömlun af völdum hrörnunar og sjúkdóma, er gjarnan tengist hækkuðum lífaldri. Þar er minni þörf og eftirspurn eftir beinni fræðslu en frekar eftir helgihaldi og samverum.
Greinargerð.
Mikið starf hefur nú þegar verið unnið í því að draga saman efni sem að gagni má koma í starfi með eldri borgurum. Þessi kafli er því fremur staðfesting á því sem þegar er orðið að veruleika. Ennfremur til að árétta mikilvægi þessa aldurshóps í starfi kirkjunnar hvort heldur sem er í helgihaldi námskeiðum eða sjálfboðnu starfi.

II. Kafli: Starfsmannaþjálfun
Markmið:
Að allir sem koma til starfa eða þjónustu á vettvangi þjóðkirkjunnar fái viðeigandi fræðslu og þjálfun.
Sérmenntað starfsfólk innan kirkjunnar eigi reglulega kost á sí og endurmenntun til að efla og viðhalda starfshæfni og verjast kulnun í starfi.
Að öllum er sinna sjálfboðnu starfi innan kirkjunnar sé boðið (sé gert) að sækja námskeið er efli þau í hlutverki sínu og veiti fræðslu um grundvöll og starfsemi kirkjunnar.
Greinargerð.
Helsta breyting sem taka verður mið af í þessu tilviki er tvenns konar. Auknar kröfur til allra þeirra er koma að starfi með börnum og unglingum.
Sömuleiðis það stóra mál er varðar námsframboð Háskóla Íslands í fögum er tengjast prestsstarfinu beinlínis.
Verkefni:
 Starfsfólki Þjóðkirkjunnar, launuðu sem ólaunuðu, sé boðið upp á grunnfræðslu um kristna trú og miðlun hennar, svo og mannleg samskipti og um sálgæslu. Námskeið séu löguð að hlutverki ólíkra starfshópa.
 Guðfræði- og djáknanemum sé tryggð þjálfun í safnaðarstarfi.
 Í ljósi breytinga á háskólamenntun í guðfræði er brýnt að byggja upp nám á forsendum kirkjunnar er lúta að siðum hennar og starfsháttum.
 Símenntun starfsfólks í samvinnu við guðfræðideild H.Í., Skálholtsskóla og aðrar menntastofnanir.
 Fræðsla um eðli og afleiðingar kynferðisbrota og þjálfun um æskileg viðbrögð þegar greint er frá kynferðisbroti. Sérstök áherslu verður lögð á þetta atriði næstu fjögur árin. Námskeið fyrir fólk í sóknarnefndum.
 Sérstök námskeið fyrir starfsfólk, s.s. meðhjálpara/kirkjuverði/tónlistarfólk.
 Áætlun um eflingu sjálfboðaliðastarfs innan Þjóðkirkjunnar.

III. Kafli: Kirkja og stofnanir samfélagsins.
Markmið:
Kirkjan vill eiga jákvætt samstarf við allar helstu lykilstofnanir samfélagsins. Láta í té og styðja gerð fræðsluefnis er tengist kristinni trú og hentað getur í hverju tilviki og hverjum aðstæðum.
Verkefni:
- Í hverri kirkju þarf að vera til fræðsluefni um kirkjuna, sögu hennar og þá muni og tákn sem þar ber fyrir augu. Efni þetta væri fyrst og fremst hugsað til nota við heimsóknir nemenda í kirkjuna, markmið þess að börnin læri að þekkja sína heimakirkju og þá sögu sem henni tengist.
- Koma að gerð námsefnis er hentar til fræðslu um kristna trú í leikskólum, grunnskólum, framhaldsskólum og háskólum.
- Bjóða fyrirtækjum og stofnunum námskeið um samskipti og virðingu byggða á kristinni siðfræði.
Greinargerð.
Í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa á undanförnum árum í samskiptum skóla og kirkju er hér lagt til að þessi kafli hafi aðra yfirskrift og fremur sé höfðað til víðara samhengis um samstarf við sem flestar stofnanir og félög samfélagsins. Tilboð kirkjunnar áréttað um samstarf og faglegt framlag þar sem þess er óskað.
 Sóknir og stofnanir Þjóðkirkjunnar eigi samstarf við leikskóla/skóla um heimsóknir og fræðslu, sálgæslu, áfallahjálp og kærleiksþjónustu.
 Þjónusta í kringum hátíðir kirkjuársins
 Gerð ítarefnis um kristinfræði og trúarbragðafræði, t.d. um kirkjulegar athafnir
 Fræðsla og fyrirlestrar hjá foreldrafélögum, m.a. um áföll og gildismat
 Sjálfstyrking fyrir nemendur í efstu bekkjum grunnskóla
 Lífsleikni fyrir framhaldsskóla þar sem áhersla er á tilvistarspurningar, Þjálfa leiðtoga og endurskoða námsefni.

IV. Kafli: Skipulag fræðslumála Þjóðkirkjunnar
a. Heimilið og kirkjan
Foreldrar og heimili bera frumábyrgð á uppfræðslu barna sinna, fræðslu hinna skírðu. Sóknin styður og hvetur foreldra og heimili við það uppeldi.
Sóknin er grunneining hins skipulega fræðslustarfs kirkjunnar. Allar sóknir styðji foreldra og heimili við uppeldishlutverk sitt.
b. Sóknin- prestakallið- samstarfssvæðin
Sóknin er grunneining safnaðarstarfs og að jafnaði er gert ráð fyrir því að grunnþjónusta kirkjunnar sé í boði í hverri sókn. Þar sem prestakall er samsett úr fleiri en einni sókn gengur skipulag starfsins út frá þeirri einingu. Enn fremur er eðilegt að samstarfssvæði leggi krafta sína saman og eigi samstarf um þá fræðslu sem hagkvæmt þykir að bjóða fram í stærra samhengi.
c. Hlutverk prófastsdæma
Innan hvers prófastsdæmis er sett saman áætlun um fræðslumál. Skilgreint hvað gert er í hverri sókn eða prestakalli, hvað innan samstarfssvæðis og hvað á vettvangi prófastsdæmisins í heild.
Prófastsdæmi sinni sérstökum verkefnum í unglingastarfi svo sem lífsleikni í framhaldsskólum, eftir því sem aðstæður leyfa.
Á vegum prófastsdæmis sé starfrækt fræðsla meðal fullorðinna í samvinnu við fræðslusvið Biskupsstofu þar sem sókn eða prestakall hafa ekki bolmagn til þess.
Í prófastsdæmum sé boðið upp á starfsmannaþjálfun svo og námskeið fyrir kennara og annað starfsfólk í fræðslu og uppeldismálum, í samvinnu við fræðslusvið Biskupsstofu.
Greinargerð: hér er reynt að skerpa á þeirri sýn að innan hvers prófastsdæmis sé ákveðin heildarsýn sett fram í samræmi við aðstæður og mögulegan mannafla.
d. Fræðslusvæði - fræðslufulltrúar
Prófastsdæmi geta myndað fræðslusvæði til að sinna fræðsluhlutverki sínu.
Innan hvers prófastsdæmis eða fræðslusvæðis sé fræðslufulltrúi sem annist fræðsluna undir umsjón prófasts og í samvinnu við fræðslusvið Biskupsstofu.
e. Kirkjumiðstöðvar
Þar sem starfsræktar eru kirkjumiðstöðvar geta þær með samþykki héraðsfunda og eða sókna tekið að sér einstaka fræðsluverkefni svo sem barnastarf á sumrin, skipuleggja fermingarbarnamót og fræðslu fullorðinna á svæðinu.
Í Skálholti verði hugað að uppbyggingu miðstöðvar fyrir fræðslu og þjálfun starfsfólks, hagnýtt nám djákna- og guðfræðinema, og símenntun presta og djákna, allt eins og við verður komið.
f. Fræðslusvið Biskupsstofu - fræðsluþing
Fræðslusvið Biskupsstofu hefur það hlutverk að fylgja eftir fræðslustefnu Þjóðkirkjunnar í umboði biskups Íslands.
Fræðslusvið Biskupsstofu skiptist í eftirfarandi fimm megin ábyrgðarsvið:
1. Barnafræðslu – foreldrafræðslu
2. Fermingarfræðslu
3. Unglingastarf - fræðslu fyrir unglinga og ungt fólk
4. Fræðslu fullorðinna (Leikmannaskólinn)
5. Starfsmannaþjálfun kirkjunnar
6. Efnisgerð, menntun leiðtoga og starfsfólks Þjóðkirkjunnar verði fyrst og fremst á ábyrgð fræðslusviðs Biskupsstofu.
Á vegum fræðslusviðs er reglulega boðið til funda þar sem lagt er mat á fræðslustarfið á viðkomandi svæði.
Á fjögurra ára fresti skal boða til fræðsluþings kirkjunnar, þar sem lagt skal mat á fræðslustefnu Þjóðkirkjunnar innihald og framkvæmd, hvern þátt þess, svo og á það starf sem unnið er í einstaka starfseiningum kirkjunnar er sinna fræðslustarfi.

V. Kafli: Gildistaka
Endurskoðuð fræðslustefna þjóðkirkjunnar taki gildi 1. janúar 2014.

Greinargerð.
Samkvæmt ákvörðun Biskups Íslands var boðað til fræðsluþings dagana 23. og 24. maí 2013. Samkvæmt gildandi fræðslustefnu sem tók gildi 1. júlí 2005 átti að endurskoða stefnuna á fjögurra ára fresti. Það hefur ekki verið gert fyrr en nú. Ekki er kveðið á um það í fræðslustefnunni hvernig eigi að manna eða skipa fulltrúa á fræðsluþing. Nauðsynlegt er að kveða á um slíkt í endurskoðaðri stefnu. Það varð því verkefni fræðsludeildar biskupsstofu að setja fram tillögu að vinnulagi. Óskað var eftir tilnefningum af hálfu prófastsdæmanna, einn fulltrúa af hálfu landsbyggðarpófastsdæmanna sex og tvo fulltrúa af hálfu þriggja fjölmennustu prófastsdæmanna á höfuðborgarsvæðinu og þar í kring. Samtals 12 fulltrúa. Lagt var til að skipta þinginu á tvo daga annars vegar að boða til opinnar umræðu þar sem öllu þjóðkirkjufólki var frjálst að koma og tjá sig ásamt hinum tilnefndu fulltrúum og starfsfólki fræðsludeildar biskupsstofu en síðan seinni daginn komu einungis hinir tilnefndu fulltrúar saman og leituðust við að vinna úr gögnum og hugmyndum og skerpa sýn á það sem þyrfti að breyta.
Drög að endurskoðun var síðan send fulltrúum til yfirferðar og viðbragða. Í ljósi skýrslu úrbótanefndar kirkjuþings frá 2012, leggur biskup það til að áhersla verði lögð á fræðslu fyrir leiðtoga um eðli og afleiðingar kynferðisbrota og þjálfun um æskileg viðbrögð þegar greint er frá kynferðisbroti. Áhersla verði lögð á þetta atriði næstu fjögur árin.
Biskup og starfsfólk Þjónustusviðs unnu endanleg drög að endurskoðaðri fræðslustefnu sem nú liggur fyrir kirkjuþingi.

Höfundur: 
Biskup Íslands

Umræða

Rita ummæli

  • Vefslóðir og netföng breytast sjálfkrafa í tengla.
  • Leyfð HTML-mörk: <a> <em> <strong> <cite> <code> <ul> <ol> <li> <dl> <dt> <dd>
  • Línu- og málsgreinaskil eru sett inn sjálfkrafa.

Frekari upplýsingar um textasnið