Biskupsstofa
Laugavegi 31, 150 Rvk.
Sími 528 4000, fax 528 4098
kirkjan@kirkjan.is

Kirkjuþing
Safnaðarheimili Grensáskirkju
Háaleitisbraut 66, 108 Rvk.
Sími 856 1542
kirkjuthing@kirkjuthing.is

Leiðarstýring

Tillaga til þingsályktunar um frumvarp til þjóðkirkjulaga (heildarlög)

Mál númer: 
13
Ár: 
2013

Kirkjuþing 2013 beinir þeim tilmælum til Innanríkisráðherra að flutt verði eftirfarandi frumvarp til þjóðkirkjulaga, sbr. 3. mgr. 23. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr 78/1997.

Frumvarp til þjóðkirkjulaga
(Drög kirkjulaganefndar 1. okt. 2013)

I. kafli
Skilgreining
1. gr.
■Hin evangelíska lúterska kirkja er þjóðkirkja á Íslandi.

II. kafli
Réttarstaða þjóðkirkjunnar
2. gr.
■Þjóðkirkjan er sjálfstætt trúfélag.

3. gr.
■Skírn í nafni heilagrar þrenningar veitir aðild að þjóðkirkjunni.
□Um aðild að, inngöngu í og úrsögn úr þjóðkirkjunni fer að öðru leyti samkvæmt 8. og 9. gr. laga um skráð trúfélög og þeim starfsreglum sem kirkjuþing setur.

4. gr.
■Þjóðkirkjan er sjálfstæður lögaðili og ber réttindi og skyldur að lögum. Hún ræður starfi sínu nema lög mæli á annan veg.
□Þjóðkirkjan skal í starfsháttum sínum halda í heiðri grundvallarreglur lýðræðis og jafnréttis.
□Þjóðkirkjunni ber að halda úti kirkjulegri þjónustu á landinu öllu og tryggja að allir landsmenn geti átt kost á henni.
□Um stöðu þjóðkirkjunnar sem trúfélags fer að öðru leyti samkvæmt lögum um skráð trúfélög eftir því sem við getur átt.

5. gr.
■Við málsmeðferð og ákvarðanir kirkjulegra stjórnvalda samkvæmt lögum þessum skal fylgt ákvæðum upplýsingalaga og stjórnsýslulaga eftir því sem við getur átt, þar á meðal um sérstakt hæfi til meðferðar einstakra mála.

6. gr.
■Um tengsl þjóðkirkjunnar og ríkisvaldsins fer samkvæmt lögum og þeim samningum sem eru í gildi hverju sinni milli ríkisins og kirkjunnar.
□Sá ráðherra sem fer með kirkjumál í ríkisstjórn hefur með höndum samskipti við þjóðkirkjuna af hálfu ríkisvaldsins.

7. gr.
Þjóðkirkjan ræður innri málefnum sínum um skipulag, stofnanir og valdmörk þeirra á milli.

III. kafli
Söfnuðir og samvinna í héraði
8. gr.
■Söfnuður er félagsleg grunneining þjóðkirkjuna. Söfnuður á tilteknu landssvæði myndar sókn sem er starfssvæði safnaðar á hverjum stað. Hver sókn hefur sína kirkju sinn prest /nýtur prestsþjónustu.
□Safnaðarmenn eru allir þeir sem hafa hlotið skírn og eru skráðir í þjóðkirkjuna.
□Um skiptingu sóknargjalda fer samkvæmt gildandi lögum og samningum hverju sinni.
□Hlutverk safnaða er að standa fyrir guðsþjónustuhaldi, trúfræðslu og kærleiksþjónustu. Allir safnaðarmenn eiga rétt á kirkjulegri þjónustu í sókninni.
□Kirkjuþing setur starfsreglur um skipulag kirkjunnar og fjármál safnaða í héraði.

9. gr.
■Sóknarnefnd, kjörin af aðalsafnaðarfundi, ber ábyrgð á rekstri og framkvæmdum og styður kirkjulega þjónustu í sókninni ásamt prestum og starfsmönnum hennar.
□Sóknarnefnd er ásamt sóknarpresti í fyrirsvari fyrir söfnuðinn gagnvart stjórnvöldum, stofnunum og einstaklingum. Hún hefur ásamt sóknarpresti umsjón með kirkju safnaðarins og safnaðarheimili.
□Kirkjuþing setur nánari ákvæði í starfsreglur um stöðu, störf og skyldur sóknarnefnda og starfsmanna sókna, héraðsfundi sem eru vettvangur sókna til þess að ræða sameiginleg málefni kirkjunnar í héraði og um samráðsvettvang leikmanna.

IV. kafli
Kirkjuþing
10. gr.
■Kirkjuþing hefur æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar nema lög mæli á annan veg.
□Kirkjuþing setur starfsreglur um stjórnsýslu og starfsemi þjóðkirkjunnar, þar á meðal um agamál og lausn ágreiningsmála á vettvangi kirkjunnar og um yfirstjórn kirkjunnar. Kirkjuþing markar þjóðkirkjunni stefnu í málefnum hennar.

11. gr.
■Kirkjuþingsfulltrúar eru kosnir leynilegri kosningu til fjögurra ára í senn.
□Kirkjuþing ákveður í starfsreglum skipan kjördæma kirkjuþings og fjölda kirkjuþingsmanna.
□Á kirkjuþingi skulu leikmenn vera fleiri en vígðir.
□Kirkjuþing kýs þingforseta úr röðum leikmanna og tvo varaforseta úr röðum þingfulltrúa. Saman mynda þeir forsætisnefnd kirkjuþings.
□Kirkjuþing setur í starfsreglum nánari ákvæði um kjör til kirkjuþings, seturétt annarra en kjörinna fulltrúa á þinginu og þingsköp.
□ Við skipan kirkjuþings ber sérstaklega að hafa í huga ákvæði 2. mgr. 4. gr. laga þessara.

12. gr.
■Forseti kirkjuþings kallar þingið saman, stýrir því og ber ábyrgð á starfsemi þess. Hann undirbýr þinghaldið í samráði við forsætisnefnd. Með sama hætti fylgir hann eftir samþykktum kirkjuþings eftir því sem við á.
□Forseti kirkjuþings skal birta starfsreglur frá kirkjuþingi og aðrar réttarskapandi ákvarðanir þess innan fjögurra vikna frá samþykkt þeirra og skal sú birting vera í samræmi við lög um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað. Hafi ekki verið á annan veg mælt í starfsreglunum öðlast þær gildi á þrítugasta degi frá birtingu þeirra.

13. gr.
■Samþykktir um helgisiði og kenningarleg málefni skulu sæta umfjöllun í ráðgjafarnefnd um kenningarleg málefni áður en þær hljóta endanlega afgreiðslu á kirkjuþingi.
□ Komi fram á kirkjuþingi tillögur um verulegar breytingar skal vísa málinu að nýju til kenningarnefndar og prestastefnu.
□Þegar kenningarnefnd og prestastefna hafa að nýju fjallað um málið kemur það til endanlegrar afgreiðslu á kirkjuþingi og skal þá hljóta 2/3 hluta greiddra atkvæða til að teljast samþykkt enda séu 2/3 hlutar kirkjuþingsmanna á fundi.

14. gr.
■Kirkjuþing hefur á hendi fjárstjórnarvald þjóðkirkjunnar.
□Nánari ákvæði um tilhögun fjárstjórnarvalds kirkjuþings skal þingið setja í starfsreglur.

15. gr.
■Kirkjuþing hefur frumkvæði að frumvörpum til laga um kirkjuleg málefni og beinir tilmælum til ráðherra um að þau verði flutt á Alþingi. Kirkjuþing veitir umsagnir um lagafrumvörp um kirkjuleg málefni er ráðherra hyggst flytja á Alþingi.

V. kafli
Kirkjuráð
16. gr.
■Kirkjuráð fer með framkvæmdarvald í málefnum þjóðkirkjunnar.
□Kirkjuráð ber ábyrgð gagnvart kirkjuþingi.
□ Kirkjuþing setur starfsreglur um samsetningu kirkjuráðs, kjör þess, stöðu og starfshætti og setur annarra á fundi ráðsins.

17. gr.
■Kirkjuráð hefur forræði Skálholtsstaðar samkvæmt lögum um heimild handa ríkisstjórninni til þess að afhenda Þjóðkirkju Íslands Skálholtsstað, en er þó bundið af fjárstjórnarvaldi kirkjuþings sbr. 1. mgr. 15. gr.

18. gr.
■ Ákvörðunum kirkjulegra stjórnvalda má skjóta til kirkjuráðs til endanlegrar niðurstöðu. Undanskildar eru ákvarðanir og samþykktir kirkjuþings, ákvarðanir biskups Íslands um helgisiði og kenningarleg málefni.
□Einstökum ákvörðunum kirkjuráðs á framkvæmdasviði kirkjulegrar stjórnsýslu verður ekki skotið til kirkjuþings en fjalla má um málefnið á kirkjuþingi að frumkvæði einstakra kirkjuþingsmanna.

VI. kafli
Prestar, djáknar og prófastar.
19. gr.
■Þjónandi prestur þjóðkirkjunnar er hver sá sem gegnir prestsþjónustu í kirkjunni samkvæmt vígslubréfi og eftir því sem lög og starfsreglur segja til um. Þjónandi prestar þjóðkirkjunnar geta einnig starfað á vegum stofnana eða félagasamtaka með samþykki biskups Íslands. Allir þjónandi prestar lúta tilsjón biskups Íslands og ákvörðunum kirkjulegra stjórnvalda í kirkjulegum efnum.
□ Biskup Íslands skipar í embætti sóknarprests og í önnur prestsembætti.
□Heimilt er, með samþykki kirkjuþings, að skipa fleiri presta en einn í prestakalli en þeir skipta þá með sér verkum undir forystu sóknarprests.
□Kirkjuþing setur nánari ákvæði í starfsreglur um, val og veitingu prestsembætta, störf og starfsskyldur sóknarpresta, annarra presta í söfnuði, héraðspresta og sérþjónustupresta og verkaskipti þeirra á milli.

20. gr.
■Almenn skilyrði til að takast á hendur prestsþjónustu eru þessi:
1. Mag. theol. próf frá Háskóla Íslands eða háskólapróf í guðfræði sem metið verður því jafngilt.
2. Að umsækjandi hafi hlotið starfsþjálfun og annan undirbúning samkvæmt nánari ákvæðum í starfsreglum frá kirkjuþingi.
3. Að umsækjandi sé við upphaf starfa síns skráður í þjóðkirkjuna nema samkirkjulegar samþykktir heimili annað.
4. Að umsækjandi sé lögráða og hafi til að bera nauðsynlegt heilbrigði, andlegt og líkamlegt, til að gegna starfanum.
5. Að umsækjandi hafi ekki gerst sekur um athæfi sem ætla má að rýri álit hans og sé ósamboðið manni í prestsstarfi.

21. gr.
■Þjónandi djákni þjóðkirkjunnar er hver sá sem gegnir fastri djáknaþjónustu í kirkjunni samkvæmt vígslubréfi. Þjónandi djáknar þjóðkirkjunnar geta einnig starfað á vegum stofnunar eða félagasamtaka með samþykki biskups Íslands. Allir þjónandi djáknar lúta tilsjón biskups Íslands og ákvörðunum kirkjulegra stjórnvalda í kirkjulegum efnum.
□Kirkjuþing setur nánari ákvæði í starfsreglur um ráðningu, störf og starfsskyldur djákna.

22. gr.
■Almenn skilyrði til að takast á hendur djáknaþjónustu eru þessi:
1. Djáknanám frá Háskóla Íslands eða menntun sem metin verður jafngild því.
2. Að umsækjandi hafi hlotið starfsþjálfun og annan undirbúning samkvæmt nánari ákvæðum í starfsreglum frá kirkjuþingi.
3. Að umsækjandi sé við upphaf starfa síns skráður í þjóðkirkjuna nema samkirkjulegar samþykktir heimili annað.
4. Að umsækjandi sé lögráða og hafi til að bera nauðsynlegt heilbrigði, andlegt og líkamlegt, til að gegna starfanum.
5. Að umsækjandi hafi ekki gerst sekur um athæfi sem ætla má að rýri álit hans og sé ósamboðið manni í djáknastarfi.

23. gr.
■Prófastar hafa tilsjón með kirkjulegu starfi í prófastsdæmum. Prófastar eru valdir úr hópi þjónandi presta þjóðkirkjunnar.
□ Kirkjuráð getur falið próföstum að hafa forystu um tiltekna þætti kirkjulegrar þjónustu.
□Kirkjuþing setur starfsreglur um val prófasta og störf.

VII. kafli
Biskupsdæmið
24. gr.
■Ísland er eitt biskupsdæmi.

25. gr.
■ Til að velja biskup Íslands fer fram biskupskjör samkvæmt starfsreglum sem kirkjuþing setur.
□ Kjörgengur til biskupsembættis er hver sá guðfræðikandídat sem fullnægir skilyrðum til þess að gegna prestsþjónustu í þjóðkirkjunni.
□ Biskup er kjörinn til sex ára. Heimilt er að biskup sitji tvö tímabil.
□ Kjörstjórn gefur út kjörbréf biskups.
□ Kirkjuþing setur nánari reglur um störf biskups og embætti hans.

26. gr.
■Biskup Íslands fer með yfirstjórn þjóðkirkjunnar ásamt öðrum kirkjulegum stjórnvöldum. Hann hefur ákvörðunarvald um einstök mál sem ekki heyra undir önnur stjórnvöld þjóðkirkjunnar.
□Biskup Íslands hefur aðsetur í Reykjavík og er biskupsstofa embættisskrifstofa hans.

27. gr.
Biskup Íslands hefur tilsjón með kristnihaldi, kenningu kirkjunnar og starfi hennar í landinu.
□Biskup Íslands skipar nefnd sér til ráðuneytis um helgisiði og kenningarleg málefni samkvæmt nánari ákvæðum í starfsreglum frá kirkjuþingi.

28. gr.
■Biskup Íslands vígir presta og djákna, setur þeim vígslubréf, og skipar þá í embætti, sbr. 19.gr.
□Heimilt er biskupi að vígja presta og djákna sem hafa verið kallaðir til þjónustu af evangelísk lúterskum fríkirkjusöfnuðum í landinu enda liggi fyrir samkomulag um það milli biskups og safnaðarstjórnar.
□Biskup Íslands vígir kirkjur og vísiterar söfnuði.

29. gr.
■Vígslubiskupar skulu vera tveir hverju sinni.
30. gr.
■Vígslubiskupar annast þau verk sem biskup Íslands felur þeim.
□Kirkjuþing setur nánari reglur um starfssvið og umdæmi vígslubiskupa.

31. gr.
■Í forföllum biskups Íslands skal sá vígslubiskup sem eldri er að biskupsvígslu gegna embætti hans um stundarsakir.
□Nú fellur biskup Íslands frá eða lætur af embætti og skal þá sá vígslubiskup sem eldri er að biskupsvígslu gegna embætti hans þar til biskupskjör hefur farið fram og nýr biskup Íslands hefur fengið skipun í embætti sitt.
□Verði biskup Íslands vanhæfur til meðferðar einstaks máls sem undir hann ber að lögum skal sá vígslubiskup sem eldri er að biskupsvígslu fara með málið. Eigi biskup Íslands sjálfur sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta og þegar báðir vígslubiskuparnir eru vanhæfir til að leysa úr máli skal forseti kirkjuþings fela einhverjum þeim sem kjörgengur er til biskupsembættis til að sinna því.

VIII. kafli
Eignarréttur, fjármál þjóðkirkjunnar, launagreiðslur og réttarstaða starfsmanna.
32. gr.
■Kirkjujarðir og aðrar kirkjueignir sem þeim fylgja, að frátöldum prestssetrum og því sem þeim fylgir, eru eign íslenska ríkisins samkvæmt samningum um kirkjueignir milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar. Andvirði seldra jarða rennur í ríkissjóð.
□Prestssetur, þ.e. prestssetursjarðir og prestsbústaðir, sem prestssetrasjóður tók við yfirstjórn á frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu 1. janúar 1994 með síðari skjalfestum afhendingum frá ráðuneytinu, svo og prestsbústaðir, hús og aðrar eignir sem prestssetrasjóður hefur keypt, eru eign þjóðkirkjunnar með öllum réttindum, skyldum og kvöðum samkvæmt samningi um prestssetur milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar.
□Kirkjuþing setur nánari ákvæði um prestssetur og aðrar eignir í starfsreglur.

33. gr.
■Þær kirkjur og kirknaeignir í umsjá aðila innan þjóðkirkjunnar sem þinglýstar eignarheimildir ná ekki til skulu taldar eign þjóðkirkjunnar og viðkomandi sóknar nema sýnt sé fram á annað. Kirkjur og kirknaeignir verða ekki veðsettar eða af hendi látnar nema biskup Íslands, viðkomandi sókn og kirkjuþing samþykki.

34.gr.
■Íslenska ríkið greiðir þjóðkirkjunni árlegt framlag á grundvelli samninga um kirkjueignir og prestssetur milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar til viðbótar öðrum tekjustofnum hennar, lögbundnum sem ólögbundnum.

35. gr.
■Þjóðkirkjan fer með málefni Kristnisjóðs samkvæmt lögum um Kristnisjóð o.fl., kirkjumálasjóðs samkvæmt lögum um kirkjumálasjóð og Jöfnunarsjóð sókna samkvæmt II. kafla laga um sóknargjöld o.fl. Kirkjuþing setur nánari ákvæði um framkvæmd þessa í starfsreglur.

36. gr.
■Á grundvelli samkomulags milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar 10. janúar 1997 um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar og samnings sömu aðila 4. september 1998 um rekstrarkostnað vegna prestsembætta og prófasta, rekstrarkostnað biskupsstofu, framlag til kristnisjóðs og sérframlög til þjóðkirkjunnar skal íslenska ríkið standa skil á launum biskups Íslands, vígslubiskupanna í Skálholti og á Hólum, 138 starfandi presta og prófasta þjóðkirkjunnar og 18 starfsmanna biskupsstofu.
□Fjölgi þeim sem skráðir eru í þjóðkirkjuna um 5.000 miðað við þjóðskrá í árslok 1996 skal ríkið greiða laun eins prests til viðbótar því sem greinir í 1. mgr. Sama á við um frekari fjölgun. Fækki þeim sem skráðir eru í þjóðkirkjuna um 5.000 miðað við þjóðskrá í árslok 1996 lækkar tala starfandi presta í 1. mgr. um einn. Sama á við um frekari fækkun.
□Fjölgi prestum um tíu, sbr. það sem greinir í 2. mgr., skal ríkið greiða laun eins starfsmanns á biskupsstofu til viðbótar því sem greinir í 1. mgr. Sama á við um frekari fjölgun. Fækki prestum um tíu, sbr. það sem greinir í 2. mgr., lækkar tala starfsmanna á biskupsstofu um einn. Sama á við um frekari fækkun.
□Um greiðslu launa til framangreindra starfsmanna þjóðkirkjunnar fer eftir lögum um kjararáð eða lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna, eftir því sem við getur átt.
□Launagreiðslur annarra starfsmanna þjóðkirkjunnar eru ríkinu óviðkomandi.

37. gr.
■Þeir starfsmenn þjóðkirkjunnar sem íslenska ríkinu er skylt að standa skil á launum vegna, sbr. 36. gr., njóta réttinda og bera skyldur sem opinberir starfsmenn eftir því sem nánar er mælt fyrir um í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, svo og öðrum lögum er kveða á um réttarstöðu opinberra starfsmanna.

IX. kafli
Gildistaka o.fl.
38. gr.
■Kirkjuþingi er heimilt að setja starfsreglur um önnur málefni þjóðkirkjunnar en lög þessi taka til enda sé þess gætt að þær séu ekki í andstöðu við önnur lög um trúarleg og kirkjuleg málefni.

39. gr.
■Lög þessi öðlast gildi xxxxx ?

40. gr.
■Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar með áorðnum breytingum, lög nr. 36/1931 um embættiskostnað sóknarpresta og aukaverk þeirra með áorðnum breytingum og lög nr. 9/1882 um leysing á sóknarbandi með áorðnum breytingum. Jafnframt breytast við gildistöku laganna eftirfarandi lagaákvæði:
1. 23. gr. laga nr. 35/1970 um Kristnisjóð o.fl. með síðari breytingum orðast svo:
Þjóðkirkjan hefur á hendi umsjá og stjórn Kristnisjóðs. Kirkjuþing setur nánari reglur um framkvæmdina í starfsreglur. Reikningsleg endurskoðun skal framkvæmd af Ríkisendurskoðun.
2. 2. gr. laga nr. 138/1993 um kirkjumálasjóð orðast svo:
Ríkissjóði ber að skila kirkjumálasjóði árlega af tekjuskatti gjaldi er nemur 14,3% af gjöldum sem renna til þjóðkirkjusafnaða samkvæmt lögum um sóknargjöld. Gjaldið greiðist mánaðarlega.
3. og 4. gr. laga nr. 138/1993 um kirkjumálasjóð falla brott.
5. gr. laga nr. 138/1993 um kirkjumálasjóð orðast svo:
Þjóðkirkjan hefur á hendi umsjá og stjórn kirkjumálasjóðs. Kirkjuþing setur nánari reglur um framkvæmdina í starfsreglur. Reikningsleg endurskoðun skal framkvæmd af Ríkisendurskoðun. (ATH)
3. 7. gr. laga nr. 91/1987 um sóknargjöld o.fl. orðast svo:
Þjóðkirkjan hefur á hendi umsjá og stjórn Jöfnunarsjóðs sókna. Kirkjuþing setur nánari reglur um framkvæmdina í starfsreglur. Reikningsleg endurskoðun skal framkvæmd af Ríkisendurskoðun.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.
I.
Forsaga þessa frumvarps er sú að á kirkjuþingi 2007 var samþykkt ályktun um að fela kirkjuráði að skipa fimm manna nefnd til að endurskoða lög nr. 78/1997 í ljósi tíu ára reynslu sem komin var af lögunum og aukins sjálfstæðis kirkjunnar um málefni sín, sbr. 3. mgr. 23. gr. laga nr. 78/1997. Nefndin skyldi jafnframt huga að því hver nauðsyn væri að breyta ákvæðum annarra laga í kjölfar breytinga á þjóðkirkjulögum og vegna breyttra aðstæðna.
Í greinargerð með tillögunni kom fram að með lögum nr. 78/1997 hefði sjálfstæði kirkjunnar aukist verulega og sú þróun hefði haldið áfram við breytingar sem síðan hefðu orðið á lögunum. Með þessari rammalöggjöf um þjóðkirkjuna hefði ákvörðunarvald um skipan mála í kirkjunni verið fært til kirkjuþings í ríkara mæli en verið hefði, sérstaklega um hin ytri mál. Sú þróun hefði haldið áfram að kirkjuþing hefði sett starfsreglur um ýmis atriði í stjórnskipan kirkjunnar sem áður hafi verið bundin í lög. Töluverð reynsla hefði þannig verið byggð upp í starfi kirkjuþings og innri stjórnsýsla kirkjunnar hefði verið að breytast og eflast á þessum tíma. Í greinargerðinni var því meðal annars beint til nefndarinnar að huga sérstaklega að ákvæðum sem leitt gætu til enn meira sjálfstæðis þjóðkirkjunnar og hvernig færa mætti fleiri ákvæði úr lögum í starfsreglur frá kirkjuþingi.
Í kjölfar kirkjuþings 2007 ræddi biskup Íslands mál þetta við dóms- og kirkjumálaráðherra sem lýsti því viðhorfi að hann væri tilbúinn að greiða því götu að endurskoða þjóðkirkjulögin og tilnefna fulltrúa í nefndina. Kirkjuráð skipaði þriggja manna nefnd í þessu skyni í apríl 2008. Pétur Kr. Hafstein, forseti kirkjuþings og fyrrverandi hæstaréttardómari, var skipaður formaður nefndarinnar en aðrir nefndarmenn voru séra Kristján Björnsson, þáverandi kirkjuráðsmaður, og Bryndís Helgadóttir, lögfræðingur í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, tilnefnd af ráðherra. Þá störfuðu með nefndinni Ragnhildur Benediktsdóttir, lögfræðingur og skrifstofustjóri á biskupsstofu, sem var ritari nefndarinnar og Hjalti Zóphóníasson, lögfræðingur og skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, sem ráðherra kvaddi til að veita nefndinni sérfræðilega ráðgjöf.
Kirkjulaganefndin lagði frumvarp til nýrra þjóðkirkjulaga fyrir kirkjuþing 25. október 2008 og hlaut það góðar viðtökur á þinginu. Þótt áður hafi verið við það miðað að frumvarpið kæmi til endanlegrar afgreiðslu á kirkjuþingi 2009 að lokinni kynningu í söfnuðum landsins var ákveðið, meðal annars vegna hvatningar frá kirkjumálaráðherra við setningu þingsins, að fresta fundi kirkjuþings um fjórar vikur og ljúka endanlegri afgreiðslu frumvarpsins og síðari umræðu um það á kirkjuþingi 28. nóvember 2008 en senda frumvarpið áður próföstum og héraðsnefndum til kynningar heima í héraði.
Eins og áður er fram komið varð ekki af framlagningu frumvarps til nýrra þjóðkirkjulaga á Alþingi vegna hins sérstæða ástands í landinu frá hruni bankakerfisins haustið 2008. Frumvarpið var svo að nýju lagt fyrir kirkjuþing 2010 í lítið breyttri mynd. Að tillögu löggjafarnefndar var málið að því sinni afgreitt með ályktun kirkjuþings um að kjósa fimm manna nefnd til að fara yfir frumvarpið og skila niðurstöðum sínum til kirkjuráðs eigi síðar en 1. ágúst 2011. Í milliþinganefndina voru kjörin: Pétur Kr. Hafstein, forseti kirkjuþings og fyrrverandi hæstaréttardómari, dr. Hjalti Hugason, prófessor, Hjördís Hákonardóttir, fyrrverandi hæstaréttardómari, séra Ingileif Malmberg, kirkjuþingsfulltrúi og sjúkrahúsprestur, og séra Kristján Valur Ingólfsson, verkefnisstjóri helgisiða- og kirkjutónlistarsviðs á biskupsstofu og prestur á Þingvöllum. Pétur Kr. Hafstein hætti í nefndinni í byrjun árs 2012. Milliþinganefndi lauk störfum á kirkjuþinginu 2012 og skilað drögum að frumvarpi þann 30. apríl 2013. Á kirkjuþingi þann 1. mars 2013 var kostinn þingmannanefnd til að endurskoða drög milliþinganefndar en þeir sem hana skipta eru Ásbjörn Jónsson, hæstaréttarlögmaður sr. Skúli S. Ólafsson,sóknarprestur, Egill H. Gíslason, ráðgjafi hjá Íbúðalánasjóði, Inga Rún Ólafsdóttir, sviðstjóri kjarasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga og sr. Ingileif Malmberg, sjúkrahúsprestur,.

II.
Með lögum nr. 78/1997 urðu straumhvörf í skipulagi kirkjunnar og sjálfstæði hennar gagnvart ríkisvaldinu var aukið verulega um leið og kirkjuþing fékk aukið vægi sem æðsta valdastofnun í málefnum þjóðkirkjunnar innan lögmæltra marka. Í aðdraganda og undirbúningsvinnu þeirrar löggjafar var skýrlega haft að leiðarljósi að ekki væri stefnt að aðskilnaði ríkis og kirkju. Svo er heldur ekki nú enda hefur kirkjan lagt á það ríka áherslu að hún vill vera þjóðkirkja í tengslum við ríkisvaldið án þess að vera ríkiskirkja.
Meginhlutverk þeirrar kirkjulaganefndar sem samdi það lagafrumvarp, sem fyrst var samþykkt á kirkjuþingi 2008, var að leita leiða til að einfalda almenna löggjöf frá Alþingi um málefni þjóðkirkjunnar og færa ábyrgð og ákvarðanatöku í þeim efnum í enn ríkara mæli til kirkjuþings. Að því var stefnt að lög um þjóðkirkjuna yrðu einföld rammalög þar sem mælt væri fyrir um tilvist þjóðkirkjunnar, helstu stofnanir hennar og grundvöll. Á grundvelli 62. gr. stjórnarskrárinnar ber Alþingi að kveða á um meginreglur og lögbundið skipulag er til þess sé fallið að gera kirkjunni kleift að rækja í hvívetna veigamiklar skyldur sínar sem þjóðkirkja á Íslandi.

III.
Í greinargerð með frumvarpi því sem lagt var fram á 121. löggjafarþingi og varð að lögum nr. 78/1997 var fjallað ítarlega um tengsl ríkis og kirkju og tildrög þess að veita þjóðkirkjunni meira sjálfstæði í innri málum kirkjunnar. Þar sagði meðal annars:
Í 62. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands frá 1944 segir að hin evangelísk-lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi og skuli ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Ákvæði þetta hefur staðið í stjórnarskránni allt frá 1874, en upphaflega var þó notað orðalagið „hið opinbera“ í staðinn fyrir „ríkisvaldið.“ Í stjórnarskránni, sem er hin æðsta réttarheimild, eru ekki gefin nánari fyrirmæli um þetta efni, t.d. um það hvernig ríkisvaldið skuli styðja þjóðkirkjuna og vernda. Með „ríkisvaldinu“ er vafalaust átt við alla þætti þess, þ.e. löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald og þær stofnanir sem með þessi málefni fara – einkum þá að sjálfsögðu tvo fyrri þættina. Nánari framkvæmd þessa stjórnarskrárákvæðis er því í höndum ríkisvaldsins og ber Alþingi fyrst og fremst ábyrgð á því að með almennum lögum sé tryggt að skilyrðum ákvæðisins sé fullnægt.
Það sem mestu máli skiptir varðandi það efni sem hér er til meðferðar er það að af þessari stjórnarskrárgrein verður sú ályktun dregin, svo að tvímælalaust er, að ríki og þjóðkirkja eru ekki eitt – þ.e. tiltekinn aðili, ríkið, á að styðja og vernda annan aðila, þjóðkirkjuna. Skilyrði þess að vera íslenskur ríkisborgari annars vegar og þjóðkirkjuþegn hins vegar þurfa heldur ekki að fara saman, svo sem kunnugt er. Það breytir ekki þessari niðurstöðu að mjög náin tengsl eru milli ríkisvaldsins og þjóðkirkjunnar. Hún er eftir sem áður sjálfstæð stofnun, sjálfstæður réttaraðili, sem getur borið, og ber, réttindi og skyldur að lögum. Þjóðkirkjan og stofnanir hennar geta því m.a. átt eignir sem njóta m.a. fullrar verndar 67. gr. stjórnarskrárinnar og verða eigi af þeim teknar nema ströngum skilyrðum þeirrar greinar sé fullnægt, enda komi þá ætíð fullt verð fyrir eins og þar er mælt fyrir um.
Þegar talað er um íslensku þjóðkirkjuna sem stofnun er hafi a.m.k. nokkurt sjálfstæði eftir lögum og venju og verði eigi talin sem hver annar angi ríkisvaldsins verður að minnast þess að hugtakið þjóðkirkja verður ekki til hér á landi fyrr en með tilkomu stjórnarskrárinnar frá 1874, en fyrirmynd viðkomandi ákvæðis var hliðstætt ákvæði í grundvallarlögunum dönsku.
Undir það sem hér var rakið úr athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum nr. 78/1997 má að flestu leyti taka. Ekki verður þó talið að það geti verið hlutverk dómstóla að styðja og vernda þjóðkirkjuna enda er sjálfstæði þeirra sem eins hinna þriggja handhafa ríkisvalds hafið yfir allan efa. Þá er hvorki heppilegt né í samræmi við almenna málvitund að tala um þjóðkirkjuþegna eins og gert er í greinargerðinni.
Því var bætt við 62. gr. stjórnarskrárinnar 1915 að breyta mætti kirkjuskipaninni með lögum og 1920 var því enn aukið við að slíka breytingu skuli bera undir þjóðina í almennri atkvæðagreiðslu til staðfestingar eða synjunar, sbr. 2. mgr. 79. gr. Ákvæði 62. gr. á rætur að rekja til 3. gr. dönsku grundvallarlaganna frá 1849. Með því var slegið föstu að evangelíska-lúterska kirkjan væri aðgreinanleg frá ríkisvaldinu og þar með sjálfstæðari gagnvart því en ríkiskirkja fyrri alda hafði verið.
Í 80. gr. dönsku grundvallarlaganna var ákvæði um að setja skyldi lög um stjórn þjóðkirkjunnar („Folkekirkens Forfatning ordnes ved Lov“) en samfelld lög um það efni hafa þó ekki verið sett í Danmörku og þjóðkirkjan þar lýtur enn stjórn ríkisvaldsins sem ríkiskirkja. Hliðstætt ákvæði var hins vegar ekki tekið upp í íslensku stjórnarskránni þótt framkvæmdin hér á landi hafi orðið á þann veg sem fyrirhuguð var í dönsku grundvallarlögunum. Líta má á lög nr. 78/1997 sem slíka stjórnskipan fyrir þjóðkirkjuna. Í 62. gr. stjórnarskrárinnar er ekki skilgreint með hvaða hætti ríkisvaldið skuli styðja og vernda þjóðkirkjuna heldur er það eftirlátið löggjafarvaldinu að ákvarða um það. Líta má svo á að setning laga á borð við lög nr. 78/1997 sé hluti þess stuðnings enda skýra þau stöðu kirkjunnar gagnvart ríkisvaldinu og setja ramma um starfsemi hennar.
Með lögum nr. 78/1997 var haldið áfram á þeirri braut sem þegar var lagt inn á með setningu dönsku og síðar íslensku stjórnarskrárinnar, þ.e. að aðgreina þjóðkirkjuna frá ríkinu. Samkvæmt 1. gr. laganna er þjóðkirkjan skilgreind sem „sjálfstætt trúfélag“ og í 2. gr. segir að þjóðkirkjan njóti sjálfræðis gagnvart ríkisvaldinu innan lögmæltra marka, njóti sjálfstæðrar eignhelgi og komi fram sem sjálfstæður aðili gagnvart almannavaldinu eftir því sem við geti átt. Með þessu verður ekki litið svo á að aðskilnaður hafi orðið milli ríkis og kirkju enda getur löggjafarvaldið breytt téðum ákvæðum og aukið þar með eða dregið úr því sjálfstæði sem þjóðkirkjunni er veitt.
Með frumvarpi þessu er fram haldið sömu þróun og hrundið var af stað fyrir tæpum einum og hálfum áratug. Gengið er út frá þeirri stöðu sem þjóðkirkjunni var þá veitt sem sjálfstæðu trúfélagi í stað þess að líta á hana sem opinbera stofnun eins og eðlilegt var að gera fyrir þann tíma. Í þeim anda er svo fyrir mælt að kirkjuþing setji starfsreglur um ýmis ákvæði sem nú er kveðið á um í lögum nr. 78/1997.

IV.
Svo sem áður er fram komið er að því stefnt með frumvarpi til nýrra þjóðkirkjulaga að einfalda almenna löggjöf um þjóðkirkjuna og færa ábyrgð og ákvarðanatöku í þeim efnum í enn ríkara mæli til kirkjuþings en gert var fyrir tæpum hálfum öðrum áratug með lögum nr. 78/1997. Jafnframt að færa valdið út í hérað þar sem nánari tengsl eru á milli þjónustueininga. Vægi prófasta er með þessu aukið og hlutverk biskups afmarkað. Í ljósi þess að biskupsvaldið er takmarkað er dregið úr hlutverki vígslubiskupa og prestastefna, sem ráðgefandi vettvangur biskups er ekki álitin vera hluti af lögbundnum skyldum kirkjunnar. Eftir sem áður er heimilt að kalla saman prestastefnu en sú heimild á ekki að vera lagaleg skylda. Má skoða það sem lið í auknu sjálfstæði þjóðkirkjunnar.
Frumvarpið er í átta köflum. Í I. kafla er fjallað um skilgreiningu þjóðkirkjunnar, réttarstöðu hennar gagnvart ríkisvaldinu og skyldur gagnvart samfélaginu. Þá þykir rétt að víkja strax í II. kafla að söfnuðum í héraði sem eru félagslegar grunneiningar þjóðkirkjunnar. Hugtakið fjárhagsleg grunneining er ekki lengur notað og er með því opnað fyrir þann möguleika að hluti fjármála safnaðanna sé sameinaður, t.d. undir stjórn prófasts. Í III. kafla eru ákvæði um kirkjuþing sem ætlað er að fara með æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar og marka henni stefnu með starfsreglum og öðrum samþykktum. Sérstaklega er tekið fram að kirkjuþing setji starfsreglur um starfssvið biskups Íslands og um agamál og lausn ágreiningsmála á vettvangi kirkjunnar en með frumvarpinu er lagt til að úrskurðar- og áfrýjunarnefndir verði lagðar niður enda eru almennir dómstólar landsins bærir til að skera úr þeim ágreiningi sem ekki verður leystur innan kirkjunnar. IV. kafli lýtur að kirkjuráði sem fer með framkvæmdarvald í málum kirkjunnar og ber ábyrgð gagnvart kirkjuþingi. Kirkjuráð hefur eftirlit með því að ákvörðunum kirkjuþings sé framfylgt. Í V. kafla eru ákvæði um presta, prófasta og djákna og starfsgengisskilyrði þeirra. Ákvæði um þessa starfsmenn þjóðkirkjunnar eru einfölduð til mikilla muna frá því sem er í núgildandi lögum. Þá er í VI. kafla fjallað um biskupsdæmið, sem er eitt hér á landi, og biskupsþjónustuna, sem biskup Íslands hefur á hendi. VII. kafli er um eignarrétt, fjármál þjóðkirkjunnar, launagreiðslur og réttarstöðu starfsmanna kirkjunnar. Loks eru í VIII. kafla ákvæði um gildistöku og brottfeld lög auk almennrar heimildar til handa kirkjuþingi til að setja starfsreglur um önnur málefni þjóðkirkjunnar en þetta frumvarp tekur til. Lagt er til að heiti laganna verði þjóðkirkjulög.
Þótt ekki sé með þessu frumvarpi stefnt að umbyltingu á stjórnkerfi þjóðkirkjunnar og starfsemi hennar eru meðal ákvæða þess ýmis nýmæli sem leiða til breytinga á starfsháttum og ákvarðanatöku. Þessi eru helstu nýmæli frumvarpsins:
1. Að kveðið verði á um það í lögum að hin evangeliska lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi. Jafnframt verði skýrlega orðað í lögum að þjóðkirkjunni beri að tryggja öllum landsmönnum kirkjulega þjónustu og halda í heiðri grundvallarreglur lýðræðis og jafnréttis, 2. og 3. mgr. 3. gr.
2. Að tekin verði af tvímæli um að stjórnsýslulög og upplýsingalög gildi um alla stjórnsýslu þjóðkirkjunnar eftir því sem við á, 4. gr.
3. Að söfnuður komi í stað sóknar sem félagsleg grunneining þjóðkirkjunnar, 1. mgr. 6. gr. Með því er félagsleg skilgreining tekin fram yfir hina landfræðilegu.
4. Að kirkjuþing setji starfsreglur um starfssvið biskups Íslands..
5. Að úrskurðarnefnd og áfrýjunarnefnd verði lagðar niður og kirkjuþing setji nýjar starfsreglur um meðferð agabrota og lausn ágreiningsmála innan þjóðkirkjunnar, 2. mgr. 10. gr. Biskup Íslands fái þar að auki sértækt úrræði þegar sérstaklega stendur á og nauðsyn ber til að bregðast við vegna ásakana eða brota í starfi, einkum af siðferðilegum toga, þ.e. heimild til að setja starfsmenn þjóðkirkjunnar í launað leyfi í allt að sex mánuði án samþykkis þeirra, 2. mgr. 34. gr.
6. Að ákvæði um ábyrgð forseta kirkjuþings á starfsemi þingsins, undirbúningi þess og eftirfylgd verði skerpt og skuli hann annast birtingu starfsreglna frá kirkjuþingi og aðrar réttarskapandi ákvarðanir þess, 12. gr.
7. Að samstaða verði að nást milli kirkjuþings og biskups Íslands um samþykktir um kenningarleg málefni, 2. mgr. 13. gr.
8. Að kirkjuþingi verði fengið æðsta vald í fjármálum þjóðkirkjunnar og kirkjuþing setji nánari ákvæði um tilhögun þessa fjárstjórnarvalds, 14. gr.
9. Að um auglýsingu eftir fólki til prestsþjónustu og val á prestum verði kveðið á í starfsreglum kirkjuþings, 1. mgr. 24. gr.
10. Að kjörtímabil biskups Íslands verði sex ár og megi þeir ekki sitja lengur en tvö kjörtímabil, samtals í tólf ár. Forseti Íslands skipi ekki biskupa heldur gefi forsætisnefnd kirkjuþings út kjörbréf þeirra að loknu biskupskjöri, 30. gr.
11. Að sett verði skýrari ákvæði en nú er að finna í lögum um staðgöngu vegna vanhæfis biskups Íslands til meðferðar einstaks máls, 38. gr.
12. Að þær kirkjur og kirknaeignir í umsjá aðila innan þjóðkirkjunnar sem þinglýstar eignarheimildir ná ekki til skuli taldar eign þjóðkirkjunnar og viðkomandi sóknar nema sýnt sé fram á annað. Þá verði skýrlega kveðið á um að engar kirkjur eða kirknaeignir verði veðsettar eða látnar af hendi nema viðkomandi sókn, biskup Íslands og kirkjuþing samþykki, 40. gr. Myndi það eiga við um þessar eignir óháð því hvort þinglýstar eignarheimildir eru fyrir hendi eða ekki.
13. Að kirkjuþing fái almenna heimild til að setja starfsreglur um önnur málefni þjóðkirkjunnar en frumvarpið tekur til enda verði þess gætt að þær séu ekki í andstöðu við lög um trúarleg og kirkjuleg málefni, 45. gr.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.
Í 1. gr. er kveðið á um að hin evangelíska lúterska kirkja sé þjóðkirkja á Íslandi eins og mælt hefur verið fyrir í stjórnarskrá frá árinu 1874 Kenningargrundvöllur þjóðkirkjunnar sem evangelísk lúterskrar kirkju er reistur á eftirtöldum játningarritum:
1. Postullegu trúarjátningunni,
2. Níkeujátningunni,
3. Aþanasíusarjátningunni,
4. Hinni óbreyttu Ágsborgarjátningu frá 1530,
5. Fræðum Lúthers hinum minni.

Um 2. gr.
Í 2. gr. er kveðið á um að þjóðkirkjan sé sjálfstætt trúfélag.

Um 3. gr.
Í 1. mgr. er tekið fram að skírn í nafni heilagrar þrenningar veiti aðild að þjóðkirkjunni.
Í 2. mgr. er vísað til 8. gr. og 9. gr. laga nr. 108/1999 um skráð trúfélög sem kveða á um aðild að skráðu trúfélagi, inngöngu í það og úrsögn úr því. Rétt þykir að tengja skráningu í þjóðkirkjuna og úrsögn úr henni við þessi lagaákvæði en að öðru leyti setji kirkjuþing starfsreglur um hina verklegu framkvæmd.

Um 4. gr.
Í 1. mgr. er áréttað að þjóðkirkjan sé sjálfstæður lögaðili og beri réttindi og skyldur að lögum. Síðara ákvæðið er efnislega samhljóða 5. gr. núgildandi laga. Í sjálfræði kirkjunnar felst að hún nýtur sjálfstæðis gagnvart ríkisvaldinu nema lög mæli á annan veg eins og beinlínis er tekið fram í 1. mgr. 2. gr. núgildandi laga.
Í 2. mgr. er lýst því skilyrði sjálfstæðrar þjóðkirkju að lýðræði og jafnrétti sé haft í hávegum.
Í 3. mgr. er mælt fyrir um að þjóðkirkjunni beri að tryggja öllum landsmönnum kirkjulega þjónustu. Ákvæðið er nýmæli en mikilvægt er að árétta að auknu sjálfstæði þjóðkirkjunnar fylgir rík ábyrgð á því að allir landsmenn geti átt aðgang að þjónustu kirkjunnar eftir því sem þeir kjósa og lög og reglur heimila.
4. mgr. er efnislega samhljóða 2. mgr. 4. gr. núgildandi laga.

Um 5. gr.
Kirkjuleg stjórnvöld eru stjórnvöld í skilningi íslenskra laga, a.m.k. þegar þau fara með opinbert vald lögum samkvæmt. Þar sem þjóðkirkjan er ekki ríkiskirkja og nýtur verulegs sjálfstæðis gagnvart ríkisvaldinu, þar á meðal í stjórnsýslu kirkjunnar, þykir rétt að taka af tvímæli um og árétta að við málsmeðferð kirkjulegra stjórnvalda skuli fylgt upplýsingalögum og stjórnsýslulögum eftir því sem við á, þar á meðal reglum um hæfi.

Um 6. gr.
Í 2. mgr. 1. gr. núgildandi laga segir að ríkisvaldinu beri að styðja og vernda þjóðkirkjuna. Með því er vísað til orðalags 62. gr. stjórnarskrárinnar. Um tengsl ríkis og kirkju þykir hentugra að vísa aðeins til laga og er sú framsetning þá óháð því hvort þeirra tengsla sé getið í stjórnarskrá eða ekki en stjórnarskrá geymir stjórnskipunarlög lýðveldisins. Þá þykir rétt að vísa jafnframt til þeirra samninga sem í gildi eru milli þessara aðila. Minnt er á að hið svonefnda kirkjujarðasamkomulag frá 10. janúar 1997 og nánari útfærsla þess í samningi ríkisins og þjóðkirkjunnar 4. september 1998 eru að langstærstum hluta grundvöllur þeirra greiðslna sem árlega renna úr ríkissjóði til þjóðkirkjunnar, sbr. VII. kafla frumvarpsins. Þessu frumvarpi, ef að lögum verður, er á engan hátt ætlað að breyta fjárhagslegum skyldum ríkisvaldsins gagnvart þjóðkirkjunni.
Í 2. mgr. er fjallað um samskipti ráðuneytis kirkjumála og þjóðkirkju og er hún hliðstæð 4. gr. núgildandi laga. Felld eru brott orðin „að því er varðar fjárlagagerð“ þar sem samskipti ráðuneytisins og kirkjunnar eru ekki einskorðuð við undirbúning fjárlaga. Ekki er nú frekar en áður lagt til að tengsl verði rofin milli ríkisvaldsins og þjóðkirkjunnar þótt sjálfstæði þjóðkirkjunnar um innri málefni sín verði enn aukið frá því sem verið hefur. Þá er lagt til að í stað dóms- og kirkjumálaráðuneytisins í núgildandi ákvæði komi orðalagið: „Sá ráðherra sem fer með kirkjumál í ríkisstjórn”. Er þessi breyting lögð til í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa á lögum um Stjórnarráð Íslands en heiti dóms- og kirkjumálaráðuneytisins var fyrst breytt í dómsmála- og mannréttindaráðuneyti árið 2009 en því heiti var svo aftur breytt 1. janúar 2011 í innanríkisráðuneyti. Þykir rétt að haga orðalagi ákvæðisins þannig að það samræmist því hvaða ráðherra fari með kirkjumál hverju sinni.

Um 7. gr. Ákvæði þetta er til áréttingar á því sem fram hefur komið og staðfestir sjálfstæði þjóðkirkjunnar gagnvart sínum innri málum. Með þessu eykst svigrúm kirkjuþings til þess að mæta breyttum aðstæðum og laga skipulag kirkjunnar að þeim kröfum sem gerðar eru hverju sinni. Má einnig vísa í Feneyjarákvæðið um takmörk opinberra afskipta af málefnum trúfélaga.

Um 8. gr.
Um sóknir og prestaköll er fjallað í X. kafla núgildandi laga. Hér er þetta efni einfaldað og skipað í eina grein.
Að lúterskum skilningi er hinn staðbundni söfnuður grunneining kirkjunnar. Hann safnast til sameiginlegrar guðsþjónustu og ástundar saman trúfræðslu, kærleiksþjónustu og annað kirkjulegt starf á starfssvæði sínu og í samvinnu við aðra söfnuði, samtök og stofnanir utan þess, t.d. á vettvangi alþjóðlegs hjálparstarfs. Af þessum ástæðum og þar sem þjóðkirkjan er í 1. mgr. 1. gr. núgildandi laga og 1. gr. þessa frumvarps skilgreind sem sjálfstætt trúfélag þykir rétt að ganga út frá söfnuðinum sem félagslegri grunneiningu þjóðkirkjunnar. Í 48. gr. núgildandi laga er hins vegar gengið út frá sókninni sem grunneiningu líkt og venja var áður fyrr.
Á sókn og söfnuði er sá grundvallarmunur að sókn er landfræðileg eining en söfnuður félagsleg. Í frumvarpinu er gerður greinarmunur þarna á milli eftir því sem kostur er. Sóknin gegnir þó áfram lykilhlutverki í kirkjulegu starfi. Söfnuðir starfa þannig innan sókna sem ná til tiltekinna landssvæða. Þá verður áfram rætt um sóknarnefndir og sóknargjöld svo að nokkuð sé nefnt. Þannig helst áfram sú venja að ýmist verður rætt um sóknir eða söfnuði líkt og gert er í núgildandi lögum þar sem t.d. er rætt um sóknarnefndir annars vegar en safnaðarfundi hins vegar.
Í 2. mgr. er fellt niður það skilyrði að safnaðarmenn þurfi að hafa átt lögheimili í sókninni 1. desember næstliðinn. Flytji maður milli sókna öðlast hann því full réttindi safnaðarmanns þegar við flutninginn, svo sem að geta tekið kjöri í sóknarnefnd. Hins vegar er í 3. mgr. um skiptingu sóknargjalda vísað til laga um sóknargjöld o.fl. en þar er skipting sóknargjalda miðuð við safnaðarfesti viðkomandi einstaklings í þjóðkirkjunni 1. desember næst á undan gjaldári.
Í 4. mgr. er nákvæmar en í núgildandi lögum fjallað um skyldur safnaðarins en þær eru helstar að standa fyrir guðsþjónustuhaldi, trúfræðslu og kærleiksþjónustu á starfssvæði sínu. Getur þessi þjónusta og annað kirkjulegt starf farið fram á vegum safnaðarins sjálfs eða í samvinnu við aðra eftir aðstæðum og samstarfssvæðum.
Í 5. mgr. er það lagt í hendur kirkjuþings að setja starfsreglur um skipulag kirkjunnar í héraði. Í ljósi sjálfstæðis þjóðkirkjunnar um málefni sín þykir ekki ástæða til að kveða á um slíkt innra skipulag í lögum. Hér getur að sönnu margt komið til álita, svo sem skipan sókna, prestakalla og prófastsdæma, samábyrgð og samstarf safnaða, leysing á sóknarbandi, flutning milli sókna, óstaðbundna söfnuði og réttindi og skyldur safnaðarmanna. Á það er minnt að í 47. gr. frumvarpsins er lagt til að lög nr. 9/1882 um leysing á sóknarbandi falli úr gildi.

Um 9. gr.
Í núgildandi lögum eru ákvæði um sóknarnefndir í 53. gr. og 54. gr. Þessi ákvæði eru hér einfölduð til mikilla muna og kirkjuþingi ætlað að setja sóknarnefndum nauðsynlegan ramma í starfsreglum, svo sem um fjölda sóknarnefndarmanna og kjör í sóknarnefndir. Þá setur kirkjuþing jafnframt starfsreglur um samráðsvettvang leikmanna og kemur það ákvæði í stað 58. gr. núgildandi laga um leikmannastefnu. Mikilvægt er að svigrúm sé aukið til samvinnu safnaðanna. Reynslan af sjálfstæði sókna er ekki góð hvort heldur litið er til fjárhagslegrar afkomu þeirra eða þess hversu skort hefur á samvinnu þeirra í milli. Eftirlit þarf að auka á þessu sviði og auka þarf þekkingu á þeim sérhæfðu verkefnum sem unnin eru á vettvangi safnaðanna. Hugtakið „prestakall“ er ekki lengur í lögum. Með því skapast sá möguleiki að auka samstarf presta á sama landsvæði.

Um 10. gr.
Með setningu núgildandi þjóðkirkjulaga var lögð á það áhersla að marka kirkjuþingi stöðu sem æðsta stjórnvaldi innan þjóðkirkjunnar og auka valdsvið þess frá því sem verið hafði. Með þessari grein og öðrum ákvæðum frumvarpsins er haldið áfram á þeirri braut og að því stefnt að kirkjuþingið fái í mjög auknum mæli heimildir til að kveða á um stefnu, skipulag og innri málefni þjóðkirkjunnar. Þessu valdi verða þó sett takmörk eins og áður, sbr. 13. gr. og 2. mgr. 20. gr. frumvarpsins. Þar sem úrskurðarnefnd og áfrýjunarnefnd þjóðkirkjunnar þykja ekki hafa gefið nægilega góða raun og verið kostnaðarsamar verða þær lagðar niður. Kirkjuþingi verður þá ætlað að finna agamálum og lausn ágreiningsmála innan kirkjunnar hentugan farveg auk þess sem hin almenna dómstólaleið í landinu stendur að sjálfsögðu opin til að leysa úr ágreiningsmálum innan þjóðkirkjunnar eftir því sem við getur átt og lög og landsréttur leyfa. Vegna stöðu kirkjuþings í stjórnkerfi kirkjunnar þykir hlýða að þingið setji starfsreglur um starfssvið biskups Íslands og vígslubiskupa en slíkar samþykktir um embætti hins fyrrnefnda hafa ekki áður verið settar. Í Lagasafni er hins vegar enn að finna Erindisbréf handa biskupum frá 1. júlí 1746

Um 11. gr.
Um skipan kirkjuþings er mælt í 21. gr. núgildandi laga. Rétt þykir að einfalda þann lagaramma og láta kirkjuþingi eftir að kveða á um kjör til þingsins og þingsköp, seturétt annarra en kjörinna fulltrúa á þinginu og hversu oft þingið skuli koma saman. Þó er rétt að tiltaka að forseti kirkjuþings og tveir varaforsetar myndi forsætisnefnd kirkjuþings sem hefur m.a. það hlutverk að gefa út kjörbréf biskupa, sbr. 4. mgr. 30. gr. frumvarpsins. Á hinn bóginn er horfið frá því að binda í lög að forseti kirkjuþings skuli koma úr röðum leikmanna. Eðlilegt er að kirkjuþing ákveði þetta sjálft. Hinu sama gegnir um formennsku í kirkjuráði og héraðsnefndum, sbr. 9. gr. og 17. gr. frumvarpsins

Um 12. gr.
Lagt er til í 1. mgr. að ákvæði um ábyrgð forseta kirkjuþings á starfsemi þingsins, undirbúningi þess og eftirfylgd verði skerpt en í núgildandi lögum er ekki að finna önnur ákvæði um forseta kirkjuþings en að þingið kjósi sér þingforseta úr röðum leikmanna, sbr. 5. mgr. 21. gr., og að kirkjuráð skuli hafa samráð við forseta kirkjuþings við undirbúning þingsins og hvernig ráðið fylgi eftir samþykktum þess, sbr. 1. mgr. 27. gr. Hér er lagt til að forseti kirkjuþings kalli þingið saman og beri ábyrgð á starfsemi þess auk þess að stjórna þingfundum. Þá skuli hann undirbúa fundi kirkjuþings í samráði við kirkjuráð og fylgja eftir samþykktum þess með sama hætti. Áhersla er þannig lögð á frumkvæðisskyldu forseta gagnvart málefnum kirkjuþings en rétt er og nauðsynlegt að samráð sé um þetta milli hans og kirkjuráðs sem fer með framkvæmdarvald innan þjóðkirkjunnar, sbr. 16. gr. og 18. gr. frumvarpsins.
Í 2. mgr. er lagt til að forseti kirkjuþings birti á eindæmi sitt starfsreglur frá kirkjuþingi og aðrar réttarskapandi ákvarðanir þess. Í núgildandi lögum er ekki mælt fyrir um hver skuli annast birtinguna og hefur það verk verið á hendi biskups Íslands. Í samræmi við að stöðu forseta kirkjuþings er markaður skýrari rammi þykir rétt að hann birti ákvarðanir þingsins fremur en biskup Íslands sem situr á kirkjuþingi með málfrelsi og tillögurétti en án atkvæðisréttar. Ekki þarf að taka fram að eftir hina lögboðnu birtingu starfsreglna kirkjuþings ber öllum starfsmönnum þjóðkirkjunnar og öðrum sem reglunum er ætlað að binda að fara eftir þeim.

Um 13. gr.
Í 1. mgr. greinarinnar er ákvæði efnislega samhljóða 3. mgr. 20. gr. núgildandi laga en kenningarleg málefni lúta að kenningu kirkjunnar og játningum, guðsþjónustuhaldi, predikun, helgisiðum og sakramentum hennar. Bætt er við að á sama hátt skuli fara með umfjöllun um helgisiði.
Í 2. mgr. er lagt til að valdi kirkjuþings til að afgreiða samþykktir um kenningarleg málefni verði settar þær skorður að samstaða þurfi að nást milli þingsins og biskups Íslands sem hefur tilsjón með kristnihaldi og kenningu kirkjunnar samkvæmt núgildandi lögum og 27. gr. frumvarpsins.

Um 14. gr.
Hér er lagt til að kirkjuþing fari með æðsta vald í fjármálum þjóðkirkjunnar og geti þannig ákveðið skiptingu þess fjár sem til ráðstöfunar er á hverjum tíma. Kirkjuþing hefur vissulega mikið um fjármál þjóðkirkjunnar að segja nú þegar, m.a. með ákvörðunum sínum um skipan sókna, prestakalla og prófastsdæma og með ákvörðunum um kaup og sölu fasteigna og um fjárfrek verkefni. Engu að síður eru ákvarðanir um ráðstöfun fjár til einstakra verkefna oft á hendi kirkjuráðs án þess að kirkjuþing hafi nokkuð um það að segja. Rétt þykir að skerpa að þessu leyti skil milli kirkjuþings og kirkjuráðs sem fer með framkvæmdarvald innan þjóðkirkjunnar í umboði þingsins. Þykir eðlilegt að hliðstæður háttur verði hér hafður á og er í samskiptum löggjafarvalds í landinu við framkvæmdarvaldið. Til samræmis verður breytt ákvæðum laga nr. 35/1970 um Kristnisjóð o.fl., laga nr. 138/1993 um kirkjumálasjóð, og II. kafla laga nr. 91/1987 um sóknargjöld o.fl., að því er varðar Jöfnunarsjóð sókna, sbr. athugasemd við 47. gr. frumvarpsins.

Um 15. gr.
Greinin er samhljóða 3. og 4. mgr. 23. gr. núgildandi laga og þarfnast ekki skýringar.

Um 16. gr.
Ákvæði 1. mgr. er samhljóða 24. gr. núgildandi laga. Ekki þykir þó ástæða til að tíunda hér eðli verkefna kirkjuráðs eða hverjir geti sent því erindi eins og nú er gert í 26. gr. laganna.
Lagt er til í 2. mgr. að ótvírætt skuli vera að kirkjuráð beri ábyrgð gagnvart kirkjuþingi en slíkt ákvæði er ekki í núgildandi lögum. Þetta felur til að mynda í sér að kirkjuþing getur vikið einstökum kirkjuráðsmönnum frá eða kirkjuráði í heild. Nánari ákvæði um framkvæmd þessa setur kirkjuþing í starfsreglur, sbr. 2. mgr. 17. gr. og 21. gr. frumvarpsins. Lagt er til að kirkjuþingi verði fengið ákvörðunarvald um skipan kirkjuráðs og kosningu þess, hlutfall vígðra og leikra og umboð kirkjuráðsmanna. Með þessu móti yrði horfið frá því að lögbinda skipan kirkjuráðs og umboð þess, sjá 25. gr. núgildandi laga.

Um 17. gr.
Greinin er efnislega samhljóða fyrri hluta 4. mgr. 27. gr. núgildandi laga og þarfnast ekki skýringar. Lagt er til í 47. gr. frumvarpsins að lög nr. 22/1993 um Skálholtsskóla falli brott en þá gæti kirkjuþing sett starfsreglur um skólahald í Skálholti samkvæmt almennri heimild í 45. gr. frumvarpsins. Umtalsverðar breytingar hafa orðið á rekstri skólans og fjársýslu. Rekstur skóla og staðar hefur verið sameinaður. Ekki er lengur um að ræða sérgreind framlög á fjárlögum til skólans eins og lögin gera ráð fyrir, heldur eru framlögin nú á grundvelli samnings ríkis og kirkju um kirkjueignir og prestssetur, sbr. lög nr. 82/2007 um breyting á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997. Rétt þykir að árétta að forræði kirkjuráðs sætir þeim takmörkunum að kirkjuþing fer með fjárstjórnarvald þjóðkirkjunnar.

Um 18. gr.
Ákvæði 1. mgr. er efnislega samhljóða tveimur fyrri málsliðum 2. mgr. 26. gr. núgildandi laga. Nauðsynlegt er að þessum málskotsrétti séu settar þær skorður sem hér er lagt til. Er það vegna séreðlis þeirra ákvarðana sem þar um ræðir.
Í 2. mgr. er ákvæði efnislega samhljóða 3. mgr. 26. gr. núgildandi laga. Áréttað er að einstökum ákvörðunum kirkjuráðs á framkvæmdasviði kirkjulegrar stjórnsýslu verði ekki skotið til kirkjuþings til endanlegrar ákvörðunar. Einstakir kirkjuþingsmenn geta hins vegar haft frumkvæði að því að málið verði rætt á kirkjuþingi sem gæti þá bæði ályktað um það eða lýst vantrausti á kirkjuráð eða einstaka kirkjuráðsmenn vegna málsmeðferðarinnar, sbr. 2. mgr. 16. gr. frumvarpsins.

Um 19. gr.
Ákvæði 1. mgr. um skilgreiningu prestsþjónustu er efnislega samhljóða 33. gr. núgildandi laga en þó eru hér felld brott orðin „á grundvelli köllunar og vígslu.“ Í kirkjulegum efnum lýtur presturinn einvörðungu tilsjón biskups Íslands og ákvörðunum kirkjulegra stjórnvalda og á það jafnt við um prest sem starfar hjá öðrum, t.d. á sjúkrahúsum og í fangelsum. Mikilvægt er að halda til haga að prestur í slíku starfi er að þessu leyti sjálfstæður gagnvart vinnuveitanda sínum þótt hann verði að öðru leyti að hlíta margvíslegum starfsreglum sem eðli máls samkvæmt hljóta að eiga við á viðkomandi vinnustað.
Í 2. mgr. er kveðið á um að biskup Íslands skipi presta í embætti en þeir og biskupar verða skilgreindir sem embættismenn þjóðkirkjunnar, sbr. athugasemdir við 44. gr. frumvarpsins.
Í 3. mgr. er kirkjuþingi fengið vald til að setja í starfsreglur margvísleg ákvæði um presta, störf þeirra, starfsskyldur og verkaskiptingu, en ekki þykir lengur ástæða til að mæla jafn nákvæmlega fyrir um þessi efni í lögum og nú er gert í lögum nr. 78/1997. Er það í samræmi við meginstefnu þessa frumvarps um einföldun löggjafar um þjóðkirkjuna og tilflutning ákvörðunarvalds og ábyrgðar í ríkari mæli til kirkjuþings en verið hefur.

Um 20. gr.
Efnisatriði þessarar greinar koma fram í 38. gr. núgildandi laga. Ekki er lengur talað um embættispróf í guðfræði heldur mag. theol. próf, sem leyst hefur cand. theol. próf af hólmi við Háskóla Íslands. Eru þessar prófgráður jafngildar í þessu sambandi. Ekki þykir ástæða til að kveða á um lágmarksaldur prestsefna enda er það óraunhæft og biskup hefur getað veitt undanþágu í þeim efnum. Þótt það sé góð vinnuregla að biskup Íslands leiti álits Háskóla Íslands um önnur próf en tilgreind eru í ákvæðinu eru ekki efni til að lögbinda það, sbr. 6. tl. 4. gr. og 6. tl. 12. gr. dómstólalaga um menntunarkröfur til hæstaréttardómara og héraðsdómara. Loks þykir rétt að áskilja að sá sem tekst á hendur prestsþjónustu í þjóðkirkjunni sé skráður í þjóðkirkjuna eigi síðar en við upphaf starfa síns. Þó gætu samkirkjulegar samþykktir sem þjóðkirkjan hefur undirgengist veitt undanþágu frá þessu, svo sem Porvoo-samkomulagið.

Um 21. gr.
Um djákna er nú mælt í 47. gr. núgildandi laga. Djákni er hver sá sem vígður hefur verið til þjónustu í söfnuði, hjá stofnun eða félagasamtökum. Ákvæði þessarar greinar eru samsvarandi 22. gr. frumvarpsins um presta eftir því sem við getur átt og þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 22. gr.
Skilyrði til að takast á hendur djáknaþjónustu eru sambærileg skilyrðum til að taka við prestsembætti skv. 23. gr. frumvarpsins.

Um 23. gr.
Lagt er til að tilsjónarhlutverki prófasta með kirkjulegu starfi í prófastsdæmum verði eflt. Breytingin er til þess fallin að samræma og styrkja formlega tilsjón með kirkjustarfi.
Gert er ráð fyrir því að skiptingu landsins í prófastsdæmi verði haldið. Lagt er til í 1. mgr. að hlutverk prófasta verði að veita forystu í kirkjulegu starfi í prófastsdæmunum og leiða þeir þannig m.a. uppbyggingar- og þróunarstarf.
2. mgr. er efnislega samhljóða 3. mgr. 29. gr. núgildandi laga sem var nýmæli. Störf prófasta um tiltekna þætti kirkjulegrar þjónustu eru ekki bundin við hin landfræðilegu prófastsdæmi. Gert er ráð fyrir að prófastur hafi sér til aðstoðar héraðsnefnd. Starfssvið þess háttar prófasta gæti þannig náð til ákveðinna staðbundinna verkefna eða landsins alls.
Um leið og hlutverk prófasta breytist eins og hér er lagt til er eðlilegt að hverfa frá þeirri tilhögun að biskup Íslands útnefni þá og þeir séu sérstakir fulltrúar og trúnaðarmenn hans. Í samræmi við það er lagt til í 3. mgr. að kirkjuþing setji starfsreglur um val þeirra og störf.

Um 24. gr.
Greinin er samhljóða 1. mgr. 6. gr. núgildandi laga. Hér er ekki lagt til að skipta landinu í fleiri biskupsdæmi.

Um 25. gr.
Í 1. og 2. mgr. eru ákvæði um kjör biskups Íslands og kjörgengi frambjóðenda, sbr. og 2. mgr. 35. gr. frumvarpsins. Eru þessi ákvæði efnislega samhljóða 7. gr. og 8. gr. núgildandi laga, sbr. og 17. gr. þeirra.
Í 3. mgr. er það nýmæli að kjörtímabil biskups Íslands verði til sex ára og megi hann ekki sitja lengur en tvö kjörtímabil, samtals í tólf ár. Biskup Íslands er fremsti trúarleiðtogi íslensku þjóðkirkjunnar og þykir eðlilegt í ljósi breyttra samfélagshátta og séreðlis þessa mótunarstarfs að því sé markaður ákveðinn hámarkstími. Verður að ætla að á tólf árum hafi biskupi Íslands auðnast að leiða þjóðkirkjuna á grundvelli köllunar sinnar til þessa forystuhlutverks og koma fram þeim umbótum og þeirri þjónustu sem hann vildi veita þjóðkirkjunni.

Um 26. gr.
Fyrri hluti 1. mgr. er efnislega samhljóða 2. mgr. 6. gr. núgildandi laga. Efnisatriði um ákvörðunarvald biskups Íslands koma fram í 10. gr. laganna en hér er lagt til að í starfsreglum frá kirkjuþingi verði kveðið nánar á um starfssvið biskups Íslands og vígslubiskupa eins og um aðra tilhögun yfirstjórnar þjóðkirkjunnar, sbr. 2. mgr. 10. gr. frumvarpsins.
Í 2. mgr. þykir rétt að taka fram að biskup Íslands hafi aðsetur í Reykjavík með biskupsstofu sem embættisskrifstofu.

Um 27. gr.
Um tilsjónarvald biskups og kenningarnefnd er nú mælt í 1. málsl. 1. mgr. 10. gr. og 14. gr. núgildandi laga. Rétt þykir að hafa í einni grein ákvæði er lúta að helgisiðum, kristnihaldi og kenningu þjóðkirkjunnar.

Um 28. gr.
Greinin er efnislega samhljóða 2. og 3. mgr. 10. gr. núgildandi laga en því er þó bætt við að biskup vísiteri söfnuði eins og tíðkast hefur um aldir. Þá er lagt til að samkomulag liggi fyrir við evangelísk-lúterska fríkirkjusöfnuði áður en biskup Íslands vígir til prestsþjónustu eða djáknaþjónustu einstaklinga sem þeir hafa kallað.

Um 29. gr.
Hér er lagt til að vígslubiskupar verði tveir.

Um 30. gr.
Í 1. mgr. er lagt til að vígslubiskupar annist þau verk sem biskup Íslands felur þeim hverju sinni. Hér er lagt til niðurlagningu vígslubiskupsembætta sem sjálfstæðra embætta.

Um 31. gr.
Ákvæði 1. og 2. mgr. er efnislega samhljóða 15. gr. núgildandi laga um annað en vanhæfi biskups Íslands.
Í 3. mgr. er fjallað um þá aðstöðu er biskup Íslands verður vanhæfur til meðferðar einstaks máls sem undir hann ber að lögum. Þá er svo fyrir mælt að sá biskup sem eldri er að biskupsvígslu skuli fara með málið. Þegar biskup Íslands á sjálfur sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta verða vígslubiskupar sem næstu undirmenn hans einnig vanhæfir skv. 5. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. lög nr. 49/2002. Í slíkum tilvikum og þegar báðir vígslubiskuparnir verða af öðrum ástæðum vanhæfir til að leysa úr máli þarf einhvern aðila til að greiða úr þeirri stöðu sem þá kemur upp. Ekki fer vel á því að slíkt komi til kasta kirkjuráðs sem er fjölskipað stjórnvald. Hér er lagt til að forseti kirkjuþings kveðji einhvern þann til að sinna málinu sem er kjörgengur til biskupsembættis, sbr. 2. mgr. 30. gr. frumvarpsins.

Um 32. gr.
Greinin er samhljóða 62. gr. núgildandi laga, sbr. lög nr. 82/2007, og var sett til samræmis við samkomulag íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar um kirkjujarðir og launagreiðslur til presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar 10. janúar 1997, sbr. nánari útfærslu í samningi sömu aðila 4. september 1998, og síðar samkomulag sömu aðila um prestssetur og afhendingu þeirra til þjóðkirkjunnar 20. október 2006.

Um 33. gr.
Greinin er nýmæli. Um þær kirkjur og kirknaeignir í umsjá aðila innan þjóðkirkjunnar sem þinglýstar eignarheimildir ná ekki til þykir rétt að kveða svo á í lögum að þær skuli taldar eign þjóðkirkjunnar og viðkomandi sóknar nema sýnt sé fram á annað en nánari afmörkun þessara eigna hlítir reglum eignarréttarins. Nýleg úttekt á því hvernig staðið hefur verið að þinglýsingum á eignarrétti að kirkjubyggingum og öðrum kirknaeignum sýnir að samræma þurfi með hvaða hætti þinglýsingum þessara eigna er háttað. Til þess þarf atbeina þeirra sem hlut eiga að máli. Rétt þykir jafnframt að slá þann varnagla í lögum að kirkjur og kirknaeignir verði ekki veðsettar eða af hendi látnar nema biskup Íslands, viðkomandi sókn og kirkjuþing samþykki en í mörgum tilvikum er engum þinglýstum eignarheimildum til að dreifa.
Eins og grein þessi er fram sett er ljóst að hún tekur ekki til svonefndra bændakirkna í eigu einstaklinga þótt þeir séu skráðir innan þjóðkirkjunnar. Þá tekur ákvæðið ekki heldur til kirkna í eigu ríkisins.

Um 34. gr.
Greinin er samhljóða 1. mgr. 3. gr. núgildandi laga, sbr. lög nr. 82/2007, en rétt þykir að skipa þessu ákvæði í VII. kafla um eignarrétt, fjármál þjóðkirkjunnar o.fl.

Um 35. gr.
Greinin er nýmæli. Til samræmis við 14. gr. frumvarpsins um fjárstjórnarvald kirkjuþings þarf að breyta ákvæðum laga nr. 35/1970 um Kristnisjóð o.fl., laga nr. 138/1993 um kirkjumálasjóð og ákvæðum um Jöfnunarsjóð sókna í II. kafla laga nr. 91/1987 um sóknargjöld o.fl. Í þessum lögum er mælt fyrir um að þessir sjóðir séu í umsjá kirkjuráðs og skuli fjárhagsáætlun Kristnisjóðs samþykkt af viðkomandi ráðuneyti en fjárhagsáætlanir kirkjumálasjóðs og Jöfnunarsjóðs sókna skuli kynntar ráðuneytinu og kirkjuþingi. Rétt þykir að mæla svo um í lögum að þjóðkirkjan fari með stjórn sjóðanna og kirkjuþing kveði á um nánari tilhögun þess í starfsreglum.

Um 36. gr.
Greinin er að mestu efnislega samhljóða 60. gr. núgildandi laga sem var sett til samræmis við samkomulag ríkisins og þjóðkirkjunnar 10. janúar 1997 um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar, sbr. og samning sömu aðila 4. september 1998 um rekstrarkostnað vegna prestsembætta og prófasta, rekstrarkostnað biskupsstofu, framlag til kristnisjóðs og sérframlög til þjóðkirkjunnar. Rétt þykir hins vegar að tilgreina þessa samninga í lögum enda eru þeir grundvallarþáttur í samskiptum ríkis og kirkju, sbr. og 5. gr. frumvarpsins og athugasemdir við hana.

Um 37 gr.
Hér er ákvæði um réttarstöðu þeirra starfsmanna sem ríkinu er skylt að standa skil á launum og njóta þeir réttinda og bera skyldur sem opinberir starfsmenn.

Um 38. gr.
Í 2. mgr. 59. gr. núgildandi laga er kirkjuþingi heimilað að setja reglur um tiltekna þætti kirkjustarfsins sem ekki er fjallað um í þeim almennu reglum um starfsmenn þjóðkirkjunnar og stjórnun og starfshætti kirkjunnar er þingið setur á grundvelli laganna. Í athugasemdum með þessari grein var sagt að þessum reglum væri ætlað að hafa bindandi gildi innan þjóðkirkjunnar. Ætlast væri til þess að reglur af þessu tagi yrðu settar um kirkjuleg málefni og gætu þær e.t.v. smám saman tekið að nokkru leyti við hlutverki eiginlegrar löggjafar um starfsemi þjóðkirkjunnar. Þetta ákvæði þykir ekki nægilega skýrt og því er lagt til að kirkjuþing fái almenna heimild til að setja starfsreglur um önnur málefni þjóðkirkjunnar en frumvarpið tekur til enda verði þess gætt að þær séu ekki í andstöðu við lög um trúarleg og kirkjuleg málefni. Sem dæmi má nefna starfsreglur um staðfestingu stofnskráa og endurskoðun reikninga á vegum þjóðkirkjunnar. Slík víðtæk heimild er auk þess í samræmi við þann megintilgang frumvarpsins að einfalda almenna löggjöf frá Alþingi um málefni þjóðkirkjunnar og færa ábyrgð og ákvarðanatöku í þeim efnum í enn ríkara mæli til kirkjuþings en nú er.

Um 39. gr.
Lagt er til að gildistaka frumvarpsins sem laga frá Alþingi verði 1. janúar 2015. Þykir rétt að veita kirkjuþingi svigrúm til að undirbúa gildistöku þess með setningu nýrra starfsreglna eftir því sem þurfa þykir, þannig að nýta megi árið 2014 í því skyni.

Um 40. gr.
Yfirlit yfir þau lög sem falla úr gildi eða þarf að breyta í samræmi við fumvarpið

Höfundur: 
Nefnd kirkjuþings 2012
SkjölStærð
Kirkjuþing 2013 - 13. mál Tillaga til þingsályktunar um frumvarp til þjóðkirkjulaga.pdf217.57 KB

Umræða

Rita ummæli

  • Vefslóðir og netföng breytast sjálfkrafa í tengla.
  • Leyfð HTML-mörk: <a> <em> <strong> <cite> <code> <ul> <ol> <li> <dl> <dt> <dd>
  • Línu- og málsgreinaskil eru sett inn sjálfkrafa.

Frekari upplýsingar um textasnið