Biskupsstofa
Laugavegi 31, 150 Rvk.
Sími 528 4000, fax 528 4098
kirkjan@kirkjan.is

Kirkjuþing
Safnaðarheimili Grensáskirkju
Háaleitisbraut 66, 108 Rvk.
Sími 856 1542
kirkjuthing@kirkjuthing.is

Leiðarstýring

Tillaga að starfsreglum um niðurlagningu prestssetra

Mál númer: 
10
Ár: 
2013

1. gr.
Við starfsreglurnar bætist ákvæði til bráðabirgða svo hljóðandi:
I. Í prestaköllum þar sem skylda til að leggja til prestssetur er afnumin skal niðurlagning öðlast gildi við lok skipunartíma þess prests sem situr prestakallið. Sé presti í prestakalli þar sem skylda til að leggja til prestssetur er afnumin, veitt lausn frá embætti,skal niðurlagning þó öðlast gildi frá sama tíma.

II. Ef um prestsbústað er að ræða þ.e. íbúðarhús ásamt lóð, skal viðkomandi prestur eiga rétt á að leigja viðkomandi hús áfram í allt að eitt ár, að loknum skipunartíma óski hann þess enda gegni hann sama prestsembætti þann tíma. Leigugjald reiknast samkvæmt gildandi starfsreglum um prestssetur og aðrar fasteignir kirkjunnar.

III. Ef um prestssetursjörð er að ræða, skal jörð skilað á næstu fardögum að vori eftir að niðurlagning hefur öðlast gildi. Íbúðarhús það á prestssetursjörðinni sem viðkomandi prestur hefur haft til afnota skal skal hann þó eiga rétt á að leigja áfram í allt að eitt ár óski hann þess, enda gegni hann sama prestsembætti þann tíma. Leigugjald reiknast samkvæmt gildandi starfsreglum um prestssetur og aðrar fasteignir kirkjunnar.

2. gr.
Starfsreglur þessar sem settar eru með heimild í 59. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997 öðlast gildi þegar í stað. Jafnframt fellur brott frá sama tíma 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í starfsreglum nr. 1115/2011, um breytingu á starfsreglum um skipulag kirkjunnar í héraði nr. 1026/2007.

Athugasemdir við tillögu þessa
Á kirkjuþingi 2011 voru samþykktar starfsreglur þess efnis að tiltekin prestssetur skyldu lögð niður. Prestssetur sem falla eiga niður eru í eftirtöldum prestaköllum og skipunartími þeirra presta sem þjóna viðkomandi prestaköllum rennur út eftir því sem hér er tekið fram:

Suðurprófastsdæmi
Eyrarbakkaprestakall 1.11.2018
Hveragerðisprestakall Skipaður ótímabundið
Þorlákshafnarprestakall 1.11.2018

Kjalarnesprófastsdæmi
Grindavíkurprestakall 1.9.2017
Útskálaprestakall 1.11.2014
Mosfellsprestakall 15.10.2018

Vesturlandsprófastsdæmi
Garðaprestakall 1.12. 2017
Hvanneyrarprestakall 1.7.2015

Vestfjarðaprófastsdæmi
Ísafjarðarprestakall Skipaður ótímabundið

Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi
Sauðárkróksprestakall 1.7.2017

Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi
Dalvíkurprestakall 15.2.2017
Húsavíkurprestakall Skipaður ótímabundið

Austurlandsprófastsdæmi
Eskifjarðarprestakall Skipaður ótímabundið
Norðfjarðarprestakall 1.7.2014.

Í ljósi alvarlegrar fjárhagsstöðu kirkjunnar er brýnt að forgangsraða fjárveitingum á sem skynsamlegastan hátt og með almenna hagsmuni kirkjunnar í huga. Kirkjuþing 2011 markaði þá stefnu að óþarfi sé að leggja til embættisbústaði á suðvesturhorni landsins og á helstu þéttbýlisstöðum á landsbyggðinni nema alveg sérstakar ástæður réttlæti slíkt. Samþykkt var að innleiðing breytinganna skyldi ekki taka gildi fyrr en viðkomandi prestar létu af embætti. Flutningsmenn telja að sú regla geti ekki gengið að óbreyttu í ljósi aðstæðna kirkjunnar, þar sem áratugi getur tekið að koma þessu í framkvæmd. Þess þekkjast vart dæmi að aðrar opinberar stofnanir leggi starfsmönnum sínum til embættisbústaði á þeim svæðum sem um er að ræða. Er því rétt að flýta innleiðingu breytinganna svo þær skili kirkjunni árangri fyrr. Er bent á að miklir fjármunir eru bundir í þeim prestsbústöðum sem um ræðir og mætti selja mætti þá flesta. Kirkjuþing á þó ávallt lokaorðið um það hvaða eignir skuli seldar. Leigugjald af prestssetrum er lágt m.a. vegna ákvæða um hámarksleigu í starfsreglum um prestssetur og aðrar fasteignir kirkjunnar nr. 950/2009. Hámarksleiga í dag er um 80 þús. kr. á mánuði. Viðhaldsþörf er töluverð og opinber gjöld af eignunum há. Kirkjan hefur aldrei hagnast af útleigu prestssetra á þeim kjörum sem starfsreglurnar mæla fyrir um heldur er töluvert tap á fasteignaumsýslunni. Með því að gefa viðkomandi prestum rétt á að leigja húsin í eitt ár í viðbót gefst þeim nægur umþóttunartími til að bregðast við breyttum aðstæðum. Athygli er vakin á því að þeir prestar sem skipaðir eru ótímabundið þ.e. fyrir 1. júlí 1996 (æviráðning), geta setið í prestsbústöðum út skipunartímann þ.e. allt til til 70 ára aldurs ef við á. Rétt er að benda á að með því að fella prestsbústaði niður, fellur um leið niður skylda viðkomandi presta til að búa í prestakallinu.

Höfundur: 
Bjarni Kr. Grímsson, Margrét Jónsdóttir, Stefán Magnússon

Umræða

niðurlagning prestssetra

Sá sem þetta ritar er ekki hlutlaus enda sitjandi prestssetur sem stefnt er að að leggja niður. Ég leyfi mér að vekja athygli tillöguflytjenda á eftirfarandi atriðum.
1. Hér er um að ræða mjög mikla breytingu á forsendum sem umsækjendur um viðkomandi embætti gengu að.
2. Þegar svona haralega er gengið fram má segja að verið sé að rugga bátnum og talsverðar líkur á að sitjandi prestar fari að hugsa sinn gang. Etv. telja tillöguflytjendur það ekki skipta máli.
3. Margorft er búið að benda á að með niðurlagningu prestssetra hverfur búsetuskyldan sem er mjög stór kirkjupólitísk ákvörðun. Ég er þeirrar skoðunar að því minna sem prestakallið er því mikilvægara er að presturinn búi í því og sé þannig hluti af samfélaginu sem hann þjónar. Menn finna minna fyrir þessum þætti í stærri prestaköllunum. Á landsbyggðinni er sóknarvitund almennt meiri. Telja menn t.d. í lagi að sóknarprestur á Akranesi búi t.d. í Morfellsbæ? Hér er verið að bjóða þeirri hættu heim að það dragi úr þjónustustigi og nánd sem einkennir oft landsbyggðarprestaköll.
4. Fasteignamarkaður er víða á landsbyggðinni mjög duttlungafullur og ófyrirséður. Ég tel að víða myndu prestar ekki taka þá áhættu að kaupa húsnæði á hinum ýmsu stöðum á landsbyggðinni. Prestsembættið er þess eðlis að ef þú vilt breyta um vinnustað þá þarftu að breyta um líf ef þú ert úti á landi. Þú heldur ekki endilega sama heimili en skiptir um prestakall. Þetta á ekki við á höfðuborgarsvæðinu. Þar getur þú starfað hjá ólíkum sóknum án þess að skipta um heimili. Í ljósi fasteignamarkaðarins eru því talsverðar líkur á að viðkomandi prestur myndi leigja sér húsnæði á almennum markaði. Leiga á almennum markaði er oft mörkuð miklu óöryggi.
5. Það vantar almennilegan rökstuðning og viðbrögð við mótrökunum við þessum fyrirætlunum.
6. Kirkjan hefur, að því er virðist, stoppað í götin með handahófskenndum skammtímalausnum. Ef niðurlagning prestssetra er einn liður í þeirri hugsun þá verður prestssetur aðeins selt einu sinni.
7. Um leið og þetta vofir yfir, burt séð frá sölulíkum, því víða á landsbyggðinni eru góðar eignir árum saman á sölu, þá skapar þetta ástand óöryggi og vanlíðan hjá presti sé þetta gert gegn hans vilja.
8. E.t.v. væri bara hreinlegast að leggja niður viðkomandi embætti. Þá taka menn reyndar þá áhættu að missa fólk úr stéttinni sem kirkjan vill kanski ekki endilega missa úr sinni þjónustu.
9. Frá mínum bæjardyrum séð þá skiptir máli að þær forsendur sem gengið er að og varða það grundvallaröryggisatriði hverrar fjölskyldu sem húsnæði er, standi. Ég vil standa mína pligt og ég vænti þess sama af þeim sem ég starfa fyrir.

Niðurlagning prestssetra

1. Prestssetur eru tvenns konar:
a) Prestssetursjörð, þ.e. tiltekin jörð (lögbýli) ásamt mannvirkjum, þar með talið íbúðarhús.
b) Prestsbústaður, íbúðarhús án jarðnæðis.

Samkvæmt lögum frá 1997 um stjórn og starfshætti Þjóðkirkjunnar eru prestssetur (eins og í fyrri lögum) hluti af embætti prests og lögboðinn aðsetursstaður hans enda segir í 42. gr. lagana: „Nú er prestssetur í prestakalli, og er þá presti skylt að hafa þar aðsetur og lögheimili nema biskup heimili annað um stundarsakir, að fenginni umsögn prófasts og viðkomandi sóknarnefnda.“ Prestssetrið er því með öðrum orðum hluti af lögkjörum hans.

Verði prestssetur lagt niður við skipunartíma prests, sem eru 5 ár, og prestur hyggst fá framlengu á skipan sinni, þá er ætlunin með þessari tillögu að rýra embætti hans og kjör. Hvern er hyggjast þeir sem að tillögunni standa bæta prestinum upp þá kjararýrnun?

Þá er einnig ljóst að prestinum er ekki lengur skilt að búa í prestakallinu frekar en hann sjálfu kýs ef þessi tillaga hlýtur samþykki Kirkjuþings. Ekki verður séð af tillögunni að nokkrar hömlur séu á því hversu langt frá prestakallinu presturinn geti valið sér bústað. Yrði það ásættanlegt að hann byggi í 50 km fjarlægð, 100 km fjarlægð eða jafnvel 300 km fjarlægð?

Ekki er gert ráð fyrir því í tillögunni að sóknarnefndir innan prestakallsins eða sóknarbörn sem þjónustu prestsins eiga að njóta hafi neitt um búsetu prestsins að segja. Það er einkennileg og róttæk stefnubreyting frá því sem lög hafa kveðið á um fram að þessu. Hingað til hefur það einmitt þótt veigamikið atriði að prestur hefði búsetu í prestakallinu svo hann væri sóknarbörnum sínum tiltækur hvenær sem þau þyrftu á að halda eða þess óskuðu.

Eins og getið er um í athugasemd hér að ofan, þá er fasteignamarkaður víða á landsbyggðinni bæði duttlungafullur og ófyrirséður. Það er alkunna, að það er mikil ákvörðun fyrir hverja fjölskyldu, að festa kaup á húsnæði, enda er jafnan um langtímafjárfestingu að ræða. Það gerir enginn prestsfjölskylda nema að vel ígrunduðu máli. Við þá ákvörðun þarf að taka tillit til launa og endursöluverðs húsnæðisins, að ekki sé minnst á starfsöryggi prestsins og maka hans og það, hvort yfirleitt sé hægt að losa sig við húsnæðið aftur ef til starfsloka kemur. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga, að veitingartími presta á embætti er nú stuttur, aðeins 5 ár. Þar við bætist, að Kirkjuþing 2007 og 2011 hefur með breytingum á starfsreglum um veitingu prestsembætta grafið svo undan starfsöryggi presta að lítið þarf til að velta þeim úr starfi fyrirvaralítið. Sóknarbörn geta með stuttum fyrirvara farið fram á að embætti presta verði auglýst laust til umsóknar — án þess að nokkur rökstuðningur komi til!

Það er óskiljanlegt, að kirkjuþingsmenn skuli hyggjast fara fram á, að prestar á landsbyggðinni sjái sér sjálfir fyrir húsnæði í ljósi þess, hvernig þrengt hefur verið að kjörum þeirra og starfsöryggi. Það getur heldur ekki með nokkru móti samræmst Starfsmannastefnu Þjóðkirkjunnar sem samþykkt var á Kirkjuþingi 2003. Þar segir m.a.:
▪ Að Þjóðkirkjan hafi á að skipa hæfu, áhugasömu og ábyrgu starfsfólki.
▪ Að Þjóðkirkjan veiti starfsfólki sínu sem best skilyrði til að helga sig hinum fjölþættu verkefnum á vettvangi kirkjunnar og möguleika til þess að vaxa og dafna í starfi.
▪ Í Þjóðkirkjunni skulu viðhafðir góðir og gildir stjórnunarhættir. Þar ríki jákvætt viðhorf til starfsmanna og gagnkvæmt traust milli stjórnenda og starfsfólks.
▪ Starfsfólki skal gert kleift að samræma starfsskyldur og skyldur við fjölskylduna.
▪ Þjóðkirkjan vill búa starfsfólki sínu góð starfskjör svo að hún geti ráðið til sín og haldið hæfu starfsfólki.
▪ Þjóðkirkjan vill tryggja starfsfólki sínu gott starfsumhverfi sem fullnægir almennum kröfum um öryggi og hollustu.
▪ Starfsfólki skal látin í té aðstaða sem gerir því kleift að sinna starfi sínu sem best og skal næsti yfirmaður í samráði við starfsfólk meta þörf fyrir starfsaðstöðu, s.s. húsrými, og tækjakost og annan aðbúnað.
Gera verður ráð fyrir, að starfsfólk Þjóðkirkjunnar séu allir þeir sem starfa og þyggja laun fyrir að þjóna Þjóðkirkjunni og að prestar hennar séu þar ekki undanþegnir.

Nauðsynlegt er að hafa í huga að kjör og starfsumhverfi presta Þjóðkirkjunnar er ekki einkamál prestanna, heldur einnig sóknarbarnanna sem þeir þjóna. Prestur sem býr við óöruggt starfsumhverfi getur ekki verið söfnuðum sínum sá bakhjarl sem honum er ætlað að vera. Sé staða hans og fjölskyldu hans veikt er hlutverk hans og þjónusta hans er veikt.

Rita ummæli

  • Vefslóðir og netföng breytast sjálfkrafa í tengla.
  • Leyfð HTML-mörk: <a> <em> <strong> <cite> <code> <ul> <ol> <li> <dl> <dt> <dd>
  • Línu- og málsgreinaskil eru sett inn sjálfkrafa.

Frekari upplýsingar um textasnið