Biskupsstofa
Laugavegi 31, 150 Rvk.
Sími 528 4000, fax 528 4098
kirkjan@kirkjan.is

Kirkjuþing
Safnaðarheimili Grensáskirkju
Háaleitisbraut 66, 108 Rvk.
Sími 856 1542
kirkjuthing@kirkjuthing.is

Leiðarstýring

Tillaga til þingsályktunar um skipan prestsþjónustunnar

Mál númer: 
4
Ár: 
2013

Sjá málið í heild sinni hér

1. Kirkjuþing 2013 samþykkir að fela kirkjuráði að sjá til þess að samstarfssvæðin verði tekin til starfa um land allt fyrir 1. sept. 2014, skv. tillögum um skipan þjónustu kirkjunnar sem samþykktar voru á kirkjuþingi 2010.
a) Prófastar verði leiðtogar á samstarfssvæðum. Þeir sjái um gerð ársáætlunar um skipan prestsþjónustunnar á hverju samstarfssvæði einkum hvað varðar messuskyldu, í samvinnu við presta á samstarfssvæðinu.
b) Prófastar fylgi eftir framkvæmdinni um samstarfssvæðin í prófastsdæmunum. Þeir gangi eftir því að skýrslur berist reglulega til biskups Íslands er varpi ljósi á starf kirkjunnar og veiti þannig gagnlegar upplýsingar um stöðu þjónustu kirkjunnar hverju sinni.
c) Prestum og sóknum verði gefinn kostur á að tjá sig um skipulag samstarfssvæðanna og koma með tillögur um breytingar, er berist biskupi fyrir 1. febr. 2014.
d) Samhliða því að samstarfssvæði komi til framkvæmda verði öllum prestum sent nýtt erindisbréf þar sem getið verði um skyldur presta á samstarfssvæðum.

2. Kirkjuþing 2013 beinir því til biskups Íslands að biskupafundur endurskoði hlutverk embættis héraðspresta í ljósi breyttrar skipanar prestsþjónustunnar á samstarfssvæðum.
a) Á hverju samstarfssvæði skal tryggð afleysing presta, reglubundnar fríhelgar og orlof og því er ekki sama nauðsyn á héraðsprestum til afleysinga og verið hefur. Á sumum svæðum þarf hins vegar að fjölga prestum til að tryggja prestsþjónustuna og reglubundna afleysingu. Því ber að endurskoða hlutverk héraðspresta.
b) Þar sem ekki er talin þörf fyrir héraðsprest, skal prófastsdæmum þess í stað gert kleift að ráða ritara prófastsdæmisins í hlutastarf, er haldi m.a.utan um framkvæmd samstarfssvæðanna, undir stjórn prófasts.

3. Kirkjuþing 2013 samþykkir að við endurskoðun þjóðkirkjulaganna verði bætt inn ákvæðum um samstarfssvæði, sem sé ein af starfseiningum kirkjunnar við hlið sókna, prestakalla og prófastsdæma.
a) Prestar verði skipaðir til starfa til prestakalla eins og verið hefur, en jafnframt hafi þeir skyldur á samstarfssvæðunum.
b) Kirkjuráð láti kanna stöðu embættanna skv. lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og önnur lög, hvað varðar þjónustuskyldur presta á samstarfssvæðum. Þar skal þess gætt að einn af grunnþáttum í skipan samstarfssvæða er að tryggja prestum reglubundnar fríhelgar auk orlofs og vikulegs frídags eins og verið hefur. Með þessu verði létt á starfsskyldum presta þannig að þeir hafi messuskyldu að hámarki 36 sunnudaga á ári, auk hátíðisdaga.
c) Kirkjuráð sjái til þess að starfsreglur um sóknir, presta og prófastsdæmi verði endurskoðaðar með það fyrir augum að tryggja tilveru samstarfssvæða enn betur og þeirra skyldna sem þeim fylgja, einkum hvað varðar messuskyldu.
4. Kirkjuþing 2013 beinir því til biskups Íslands að biskupafundur taki til umfjöllunar tillögur nefndarinnar um skipan prestsþjónustunnar og leggi fram niðurstöður og tillögur á Kirkjuþingi 2014 (eða á framhaldsþingi 2013).
a) Í ljósi skertra fjárveitinga til kirkjunnar að undanförnu og afleiðingar þess þarf að fækka embættum og/eða færa til embætti, svo að jafna megi sem mest þjónustuskyldu presta og að launakostnaður og annar rekstrarkostnaður embættanna verði sem mest samræmdur.
b) Nefndin telur að betur megi skipa embættum eftir íbúafjölda og fjölda sóknarbarna og í ljósi bættra samgangna, en jafnframt verði tekið tillit til sérstakra aðstæðna á hverjum stað eða landssvæði.
c) Þar sem sóknarbörn í prestakalli eru innan við 500 og tryggja má þjónustuna við þau með þjónustu prestanna á samstarfssvæðinu, er í hagræðingarskyni óhjákvæmilegt að fækka prestaköllum og leggja niður prestembætti.
d) Þá megi skoða hvort rétt sé að minnka messuskyldur sóknanna, til að mæta fækkun á stöðugildum presta og minni tekjum sóknanna.
e) Nefndin telur að þegar fámenn prestaköll eru sameinuð megi kanna möguleika þess að stofna embætti presta í hlutastarfi, eins og nýlega hefur átt sér stað þar sem fámenn prestaköll hafa verið sameinuð öðrum.
f) Prestum og sóknum verði gefinn kostur á að tjá sig um tillögur nefndarinnar og skulu þær berast biskupi Íslands fyrir 1. febr. 2014.

Greinargerð er væntanleg.

Höfundur: 
Nefnd kirkjuþings 2012
SkjölStærð
Kirkjuþing 2013 - 4. mál Tillaga til þingsályktunar um skipan prestsþjónustunnar.pdf385.4 KB
4. mál kirkjuþings 2013. Skipan prestsþjónustunnar. Fylgiskjal A.pdf642.61 KB
4. mál 2013 - Fskj. B.pdf21.79 KB
4. mál 2013 - Fskj. C. Sóknargjöld einstakra sókna 2012 - Fjársýsla ríkisins .pdf209.5 KB
4. mál 2013 Fskj. D Íbúar í prófastsdæmum 2000-2012.pdf25.2 KB
4. mál 2013 - Fskjl. E Prestaköll 2013.pdf217.18 KB
4. mál 2013 Fskj. F Stöðugildi presta.pdf690.96 KB
4. mál 2013 Fskj. G Stöðugildi og kostnaður.pdf100.18 KB

Umræða

4. mál

Ágætu viðtakendur.
Hvað varðar prestþjónustu á fyrirhuguðum samstarfssvæðum verður að hafa í huga að á höfuðborgarsvæðinu og sjálfsagt víða annarsstaðar er komin mjög sterk hefð fyrir að messur séu kl. 11 á sunnudögum. Eins og staðan er núna dugar þjónusta eins héraðsprests í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra ekki til að anna beiðnum um afleysingar á sunnudögum í prófastsdæminu, beiðnum sem þó engan vegin fara út fyrir eðlileg mörk. Sé miðað við að hver sóknarprestur fái afleysingu á 4 - 6 vikna fresti er útilokað að einn héraðsprestur anni því, ekki síst þar sem skilningur prófasts er að héraðsprestur sinni einnig messum í söfnuði prófasts. Hvernig prestar í þessu prófastsdæmi eigi að leysa hvern annan af á sunnudögum kl. 11 og einnig fá reglubundnar fríhelgar án héraðsprests er alveg óskiljanlegt að mínu mati. Þetta þarf að reikna til enda og ljóst er að þörf er fyrir frekar tvo en einn héraðsprest í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra, eigi að sinna messuafleysingum sem vert væri.

Virðingarfyllst,
María Ágústsdóttir
héraðsprestur til 13 ára

Störf héraðspresta

Athugasemd við 4. mál kirkjuþings 2013, 2b: ,,Þar sem ekki er talin þörf fyrir héraðsprest, skal prófastsdæmum þess í stað gert kleift að ráða ritara prófastsdæmisins í hlutastarf, er haldi m.a.utan um framkvæmd samstarfssvæðanna, undir stjórn prófasts".

Það er svo langt í frá að héraðsprestum megi skipta út fyrir ritara. Sem dæmi nær embætti héraðsprests í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra meðal annars til eftirfarandi þátta þar sem rík áhersla er á helgiþjónustu:

1) Messuafleysingar í söfnuðum prófastsdæmisins, þ.m.t. söfnuði prófasts. Stundum hafa þetta verið 40-50 messur árlega og flestar kl. 11 á sunnudagsmorgni þar sem nánast allir söfnuðir prófastsdæmisins hafa sitt helgihald þá. Eftirspurn eftir þjónustu héraðsprests á sunnudögum hefur farið vaxandi þar sem öðrum prestum hefur fækkað og fleiri einyrkjar eru í prófastsdæminu en einnig vegna þess að prestar eru orðnir meðvitaðri um nauðsyn þess að eiga reglubundin frí um helgar, helst á 4-6 vikna fresti. Lengst af hefur einn héraðsprestur sinnt þessum afleysingum en nú er svo komið að kalla þarf til fyrrum þjónandi presta og presta í leyfi til viðbótar héraðsprestinum til að anna eftirspurn.

2) Annað helgihald virka daga, einkum til stuðnings og afleysingar prófasti í hans söfnuði. Þetta geta verið 2-3 helgistundir á viku.

3) Hjónavígslur og aðrar athafnir á ensku, dönsku og þýsku en beiðnum um slíka þjónustu hefur fjölgað og héraðspresti iðulega falið að sinna henni.

4) Umsjón með fræðslumálum og símenntum, einkum fyrir presta (t.d. umsjón með vikulegum prédikunarfundum) en einnig sem stoðþjónusta við prófast í hans söfnuði.

5) Önnur störf að beiðni kirkjustjórnarinnar, einkum er lúta að samkirkjulegum málefnum.

Eins og sjá má er guðfræðimenntunar krafist í öllum þessum þáttum og prestsvígslu í að minnsta kosti fyrstu þremur. Þetta er þó ekki tæmandi upptalning á því starfi sem sinnt er af embætti héraðsprests í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra. Til dæmis er umsjón með heimasíðu prófastsdæmisins ótalin en hver sem þjálfun hefur hlotið og hefur góða innsýn í störf safnaðanna og málefni þjóðkirkjunnar er vissulega fær um að annast hana.

Vænti ég að þessar upplýsingar verði teknar til greina af kirkjuþingsfulltrúum og lýsi mig reiðubúna til að skýra nánar ef á vantar.

María Ágústsdóttir
héraðsprestur í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra frá árinu 2000

Leiðrétting og athugasemd við mál 4 til kirkjuþings 2013

Kæru viðtakendur. Ég vil gera leiðréttingu við upplýsningar er fram koma í fylgiskjali, "Kirkjuþing 2013 - 4. mál Tillaga til þingsályktunar um skipan prestsþjónustunnar.pdf".
Þar kemur fram stöðugildi presta á samstarfssvæði Grafarvogs-, Grafarholts- og Árbæjarsafnaðar verði eftir breytingu 6,5 og að það sé aukning um hálft stöðugildi. Þetta er rangt. Staða fjórða prests við Grafarvogssöfnuð hefur ekki verið lögð niður þótt auglýsingu hafi verið frestað um rúmlega eitt ár þegar þetta er ritað. Stöðugildin á þessu samstarfssvæði eru því 7 fyrir breytingu og þýðir þetta því fækkun um hálft stöðugildi.

Á þessu samstarfssvæði búa um 10% landsmanna og því ætti fjöldi stöðugilda að taka mið af þeim fjölda.
Með kveðju,

Guðrún Karls Helgudóttir,
prestur í Grafarvogssöfnuði

Rita ummæli

  • Vefslóðir og netföng breytast sjálfkrafa í tengla.
  • Leyfð HTML-mörk: <a> <em> <strong> <cite> <code> <ul> <ol> <li> <dl> <dt> <dd>
  • Línu- og málsgreinaskil eru sett inn sjálfkrafa.

Frekari upplýsingar um textasnið